Að bíða eða ekki bíða ...

Grindavik í gamla dagaDagurinn í dag hefði hér áður fyrr farið í að fylgjast með nýjasta eldgosinu en ég held að ég sé að verða eins og dóttir vinkonu minnar sem sagði ung að aldri og að gefnu tilefni: „Ég nenni ekki eldgos!“ Fyrstu eldgosin handan hafs voru mjög spennandi, hægt að ganga að þeim (fyrir masókista, 8 klst. hvora leið, minnir mig). En þessi síðustu gos eru ekki jafnskemmtileg, ég get ekki ímyndað mér hvernig er að vera í sporum Grindvíkinga og sjá helv. hraunið reyna að hremma bæinn þeirra. Ég vann eitt sumar í Grindavík, þá bara 14 að verða 15 ára. Bjó á verbúð og kynntist skemmtilegu fólki, bæði innfæddum grindjánum og auðvitað aðkomufólkinu sem bjó í verbúðinni. Vinsælasta lagið þetta sumar var Dyer Maker með Led Zeppelin, svo gott að það er á aðallagalistanum mínum öllum þessum árum seinna. Við vorum tvær þarna í vinnu sem áttum afmæli 12. ágúst og þá bakaði matráðskonan vöfflur. Fyrirtækið hét Hraðfrystihús Grindavíkur en það virðist ekki vera til lengur, ég reyndi að gúgla. Sennilega of langt síðan ég var þarna því ég reyndi eitt sinn með google-maps að bera kennsl á húsið (sem var mjög auðvelt með Ísfélagið í Vestmannaeyjum í fyrrasumar sem hýsir nú íbúðir, held ég), en án árangurs. Besta kaffihúsið í Eyjum er þar við hliðina, við bryggjuna, og býður upp á mjög gott kaffi.

 

Myndin hér efst er frá Grindavík og húsið gæti mögulega verið Hraðfrystihús Grindavíkur ... Myndin var tekin stuttu áður en ég fór að vinna þar.

 

 

Guðlaug og AggapallurSem minnir mig á að það er kominn nýr "staður" á Akranesi. Hann heitir Malíbó og er á Aggapalli við Langasand (fyrir aftan fótboltastúkuna, sjá mynd en vantar Aggapall þarna til hægri fjær) og í tveggja mínútna göngufæri við himnaríki. Þar verður eitthvað hollt og gott á boðstólum; búst, skálar, beyglur ... kaffi auðvitað og svaladrykkir/gosdrykkir.

Ung kona (Rakel Mirra Njálsdóttir) rekur Malíbó og vonandi verða Skagamenn og gestir duglegir að mæta. Ég ætla að minnsta kosti að gera það. Þetta lítur mjög vel út. (Það er alltaf hægt að ná mér ef avókadó er í boði, kannski eru slíkar beyglur í boði). Skessuhorn segir að það sé opið frá þri.-fös. kl. 10-17 en lau og sun 11-17. Lokað á mánudögum.   

 

BakaraofnÁhyggjur mínar síðustu daga hafa mestmegnis snúist um bakaraofn himnaríkis. Hvort ég hafi mögulega eyðilagt hann með því að nota of sterkt hreinsiefni, ætandi mögulega, ég fékk efnið gefins í ómerktri glerklukku og átti að bera á með tusku og hafa gúmmíhanska á höndunum, láta liggja yfir nótt og þrífa svo af ... Nú eru hvít ský víða í ofninum sem fara ekki sama hvað ég þríf oft. Ef ég ætla að selja himnaríki, sem ég geri einn daginn, verð ég að kaupa nýjan ofn, nema ég gefi afslátt upp á c.a. verð ofns og leyfi nýjum eigendum að velja. Margir fínir á innan við 100 þús. hjá Elko, sýnist mér. Þá á svipuðu verði hér á Skaganum.

 

Ef ég hefði áhyggjurnar yðar, frú Guðríður Hrefna, myndi kannski einhver hugsa, en ég get verið voða viðkvæmt blóm stundum, það verður að viðurkennast. Eitt dæmi: Ég fékk vinnutengt símtal frá mjög indælli konu sem gaman var að spjalla við. Í lok símtalsins, þegar við vorum að kveðjast var hún orðið ofboðslega kuldaleg. Svo kuldaleg að ég notaði daginn og kvöldið til að fara aftur og aftur yfir símtalið í huganum, hvað sagði ég, getur verið að ég hafi móðgað hana eða sært og þá algjörlega óvart? Mér hefur reyndar skilist að ég hafi stundum móðgað (án ásetnings) nokkra með bloggskrifum mínum, þegar ég breyti kannski samtölum þannig að þau henti betur sjúkum húmor mínum, hef smávegis sannleikskorn til að gera það trúlegra, eins og samsæriskenningasmiðir, því ég plata, skrökva og ýki hér frekar oft. Ég á til dæmis ekki rosalega marga fyrrverandi eiginmenn, ég man ekki hversu marga en þeir eru ekki óteljandi, eins og ég hef oft gefið í skyn. Kannski bara einn, ég bara man það ekki.

 

Svo hringdi konan aftur nokkrum dögum seinna og var þá orðin svakalega elskuleg og ég lét á engu bera. Þegar við kvöddumst varð hún aftur svona rosalega kuldaleg og ég áttaði mig á því að hún var farin í næsta verkefni/símtal í huganum, hún var bara fjarlæg, ekki fjandsamleg. Ég barði mig nokkrum sinum í andlitið með blautu handklæði í refsingarskyni fyrir þetta rugl í mér.

 

30. maí 24, kl. 20.17„Ertu hætt við að flytja í bæinn?“ hef ég verið spurð um. Nei, alls ekki en himnaríki var á sölu í tvo mánuði án árangurs og þá fannst mér rétt að hugsa mitt ráð. Ég á ráðagóða að og er auðvitað ansi snjöll sjálf, enda úr Þingeyjarsýslu.

Einn möguleikinn er að bíða átekta, jafnvel fram á næsta ár, og gera þá ný vinnuplön miðað við það. Annar möguleiki er að fá einhvern algjöran hákarl í borginni til að bæði selja himnaríki OG finna draumaíbúð handa mér. Mig langar í þriggja herbergja íbúð, á stað þar sem er mikið líf (og stutt í strætó), miðborgin kemur því miður ekki til greina því ég hefði bara efni á einhverju algjöru greni fyrir 54,9 milljónirnar sem eru settar á himnaríki.

 

Allt spikk og spanVirðuleg frú á mínum aldri nennir ekki að skuldsetja sig og borga í framtíðinni allan ellilífeyrinn sinn í lán í staðinn fyrir brennivín og karlmenn! Ég var búin að finna mjög fína íbúð, á góðu verði, á draumastað með smá útsýni og allt, en missti hana af því að mín seldist ekki. Í raun liggur mér ekkert á núna, ég elska himnaríkið mitt og góða fólkið mitt hér á Akranesi, en ég sakna líka vina og vandamanna í bænum.

 

 

Allir Skagamenn vita að leiðin frá Reykjavík og upp á Akranes er svo miklu, miklu lengri en leiðin frá Akranesi í bæinn ... og það er bölvað vesen stundum, finnst mér, (sérstaklega á hátíðum) að vera strætóandi og upp á aðra komin með skutl þegar strætó gengur  ekki.

Bíddu, bíddu, ertu ekki með þyrlupall á hlaðinu hjá þér? hugsa eflaust allir ... en þyrlur hafa bara hækkað of mikið í verði til að það sé forsvaranlegt að nota þann ferðamáta, líka skortur á þyrluskýlum á Skaganum, oft svo mikill vindur á Íslandi og það versta; Ásdís Rán, hirðþyrluflugmaðurinn minn, gæti endað á Bessastöðum og nennir þá tæplega að skutla mér á milli. 

 

Er að hlusta á ansi skemmtilega bók eftir Stephen King og Richard Chizmar ... hún heitir Gwendy og er nýkomin inn á Storytel, lesin af Sigríði Lárettu Jónsdóttur sem er súperfínn lesari. King er á svipuðum slóðum og alltaf, ekki svo mikill hryllingur samt, alls ekki eins og er t.d. í Pet Semetery (fyrsta SK-bókin sem ég las og treysti mér ekki til að horfa á myndina). Þessi er hófstilltari og fyrir þau sem vilja langar bækur: hún er 16 klst. og 30 mín. Ég er með stillt á hraðann 1,2 sem styttir talsvert. Er búin með tæpa níu tíma og á fjóra tíma og 50 mín. eftir. Enda er allt afar fínt í himnaríki núna (nema bakaraofninn) og svo hefur heklaða teppið handa stolna barnabarninu í næsta húsi líka lengst nokkuð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 150
  • Sl. sólarhring: 215
  • Sl. viku: 813
  • Frá upphafi: 1516163

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 677
  • Gestir í dag: 133
  • IP-tölur í dag: 131

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband