Storytel-breytingar, ástarsvör og batnandi sýn

Bólgin hásinTransistorútvarp, tékk - vatnsbirgðir, tékk - niðursuðumatur, tékk ... hér er reyndar enn mjög gott gluggaveður, enda aðeins ASA 6 m/sek núna en á eftir að aukast í dag og næstu daga, eins og alþjóð veit vonandi. Eldum rétt mætti stundvíslega upp úr kl. tvö og engan fokskaða var að sjá á léttfættum bílstjóranum. Þegar ég tók máltíðirnar tvær (fyrir tvo, dugar í fimm daga) upp úr kassanum horfði ég á bláa pokann sem fylgdi og var hálffrosinn eftir ferðina úr bænum, hann hefur það hlutverk að kæla matvælin. Svo fór ég að hugsa um hásinina sem hefur haft mig hálfhalta og hreyfingarlausa rosalega lengi.

 

Skyldi ég geta notað þennan poka á hásin hægri fótar? hugsaði ég. Eiginlega þurfti ég ekki að kíkja í spegil til að vita að greindin skein úr augum mínum en ég hoppaði nú samt fram á bað á annarri til að fullvissa mig um það.

Á meðan ég var að skrifa bloggið hafði frænka mín (í föðurætt) samband, með áhyggjur af hásin ykkar einlægrar, eins og þið öll auðvitað. Nú veit ég að þetta stafar ekki endilega af gömlum íþróttameiðslum sem tóku sig upp eða óvæntum hlaupum út á strætóstoppistöð ... hásinar geta verið ólíkindatól og frænkan þurfti í uppskurð á báðum um árið, sjúkraþjálfun á eftir og er orðin góð. Ég tékka á þessu. Frænkur eru frænkum bestar. 

 

Myndin samsetta er vissulega átakanleg, enda tókst mér ekki að  hafa rétta röð á myndunum, reyndi það samt. Fyrri myndin sýnir MJÖG bólgna hásin ... en myndin ætti að vera sú seinni, og sýnir fótinn eftir að ég tróð ískalda pokanum ofan í sokkinn. Jú, það sést í bert hold (afsakið) og ég er svolítið eins og undanrenna á litinn, brúnkukrem keypt í hittiðfyrra en enn óopnað, er það alveg í lagi?

 

Eldgosið 3. júní 2024Hvar er klíkan þegar mest er þörfin? Það er rúmur mánuður í að ég geti fengið allsherjaryfirhalningu á hárgreiðslustofunni minni. Ég þarf alltaf að bíða þangað til karlar hætta að stara á mig með vonarblik í augum og verða flóttalegir til augnanna, þá panta ég tíma og þarf oft að bíða og bíða. Og buffin að komast úr tísku og fínir silkiklútar um hálsinn komnir í staðinn SEM HENTAR MÉR MJÖG ILLA núna. Mín hár-kona veit hvers konar umhverfisskaða ég er farin að valda og bauð upp á drög að fegurðarauka ... eða klippingu án litar og einnig andlitsframköllun (augabrúnir og augnhár lituð). Eftir rúma viku ... sem er miklu betra en allsherjar sem ég gæti annars fengið 12. júlí. Svo leggjum við á ráðin með restina í næstu viku. 

 

Í dag sést eldgosið handan Faxaflóa mun betur en áður (sjá mynd) - hingað til hefur útsýnið á gosstöðvarnar ekki verið sérlega gott. Ekki einu sinni á kvöldin. Sjórinn er líka mjög flottur - þegar blæs að norðan stækka öldurnar stundum og verða voða fínar og tærar sem er ekki síður æðislegt en brimið. Það verður erfitt að slíta sig frá himnaríki og sjónum mínum þegar ég flyt í bæinn. Kannski ég biðji tæknisnjallan frænda minn um að búa til samhangandi sjódagskrá úr öllum myndböndunum mínum frá Langasandi sem ég gæti látið ganga í lúppu í sjónvarpinu þegar söknuðurinn sækir að. 

 

Ég nota Storytel mjög mikið. Nýlega urðu ákaflega fúlar breytingar þar. Eða búið að gera flóknara (ómögulegt?) að finna VÆNTANLEGAR BÆKUR og NÝÚTKOMNAR BÆKUR sem ég notaði allra, allra mest. Ég fór minnst vikulega í fyrrnefnda flokkinn og skellti stjörnu á þær bækur sem vöktu áhuga minn og svo var ég látin vita þegar þær mættu á vettvang, volgar og safaríkar úr upptökuklefanum. Of mikilvægir flokkar til að gera þá að undirflokkum sem flókið er að finna. Núna sé ég bara Haltu áfram að hlusta, Mælt með fyrir þig, Af því að þú last, Bara á Storytel, Topp 50 bækurnar á Íslandi í dag!, Nýjar fyrir þig, Glæpasögur, Bækur sem leitað er að, Bókagull mælir með, Vegna þess að þú settir í bókahilluna, Vinsælar glæpasögur, Uppgötvaðu eitthvað nýtt, Hlustaðu eða lestu, Af því að þú last. 

Svo þegar farið er inn í Seríur, einhvers staðar þarna í miðjunni, koma Nýjar og Væntanlegar. Og í Væntanlegar-flokknum eru bara erlendar bækur, lesnar á ensku. Ef þessir mikilvægu flokkar fyrirfinnst einhvers staðar, vill þá einhver láta mig vita hvernig ég finn þá. Þetta eru skelfilegar breytingar ... fyrir manneskju sem notar langmest Væntanlegar-flokkinn - til að geta hlakkað til einhvers í þessari voluðu veröld ...

    

Fannst á Facebook:

Dóttir nr. 26Misskilningur í gangi hjá sumum fjölmiðlum ... Eins gott að ég get leiðrétt þetta. Þau voru alls ekki að eignast 26. stúlkuna, heldur þá þriðju. Minnir á langalangafa minn (Jónas frá Hróarsdal, Skagafirði) sem átti einmitt 26 börn, bæði stráka og stelpur, innan hjónabands, börnin hans urðu alls 32, nokkur fæddust milli hjónabanda hans. Jósteinn langafi, pabbi hennar Mínervu ömmu var einn af þeim. 

 

Streitulaust uppeldiÞjóðin stendur frammi fyrir stóru vandamáli núna. Hvað köllum við manninn hennar Höllu, tilvonandi forseta? Hann er fyrsti karlkynsmakinn á Bessastöðum. Nú er hefð fyrir því að kalla konur herra, sbr. ráðherra, svo kannski gætum við haldið okkur við forsetafrú? Bragi Þór, stórfeisbúkkvinur minn, veltir þessu fyrir sér og segir í lok hugleiðinga sinna: „Ef ekki getur orðið sátt um "forsetafrú" er ég kominn með frábæra lausn sem er sú sama og noruð var um breytinguna á titlinum "hjúkrunarkona". Hér með verður maki forseta (og þetta gengur fyrir bæði kyn) kallaður "forsetafræðingur"!

 

Myndin tengist umfjöllunarefninu óbeint, en hún fannst nú samt á Facebook ...

 

Hvaða svar við „Ég elska þig“ veldur mestum vonbrigðum?

 

„Takk.“

„Ást er ekki nóg.“

„Mér finnst þú sérstök/sérstakur.“

„Við ættum að hitta annað fólk.“

„Ég elska mig líka.“

„Ég veit.“

- Þögn

- Hlátur

„Hver er þetta?“

„Mér þykir vænt um þig.“

„Bíddu, ert þú ekki í nálgunarbanni?“

„Vó, þú ert þriðja manneskjan sem segir þetta við mig í dag.“

„Viltu gjöra svo vel að sýna mér ökuskírteinið þitt!“

„Þú ert ekki svo slæm/ur!“

„Má bjóða þér að panta núna?“

„Hver ertu og hver opnaði fyrir þér?“

„Þú líka?“

„Sömuleiðis.“

„Og?“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 697
  • Frá upphafi: 1516047

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband