Að ýta Harry Potter til hliðar ... stutt í EM og séður stráksi

Harry Potter í StorytelBloggvinir mínir hafa ráð undir rifi hverju og það er fátt sem þeir ekki vita, eins og hefur margoft komið í ljós. Ég fékk skilaboð, alla leið frá Spáni, frá dásemdunum sem aka um á húsbíl og sýna okkur frá daglegu lífi sínu. Þau eiga alla mína samúð vegna hitans sem er að fara með þau. Þá er Ísland nú betra. Stóra Storytel-málið minnkaði hratt í kjölfarið á skilaboðunum og nú er svo komið að ég veit hvernig ég finn nýjar bækur og væntanlegar bækur. Eða allra, allra neðst þegar maður skrollar, og það þarf að ýta til hliðar.

 

Neðst hjá mér stóð Harry Potter (sjá lýsandi mynd) sem eru bækur sem ég hef margoft lesið og kannski frekar langt í enn einn endurlesturinn, EN þegar ég ýtti þeim ferningi til vinstri fann ég það sem ég þráði. Mér finnst ég svo heimsk, auðvitað hefði ég getað sagt sjálfri mér að ýta Harry Potter til hliðar, til að töfrarnir gerðust. Ég hef aldrei þorað á Tinder-stefnumótaappið, svo ég hef enga æfingu í að ýta til hliðar, sem mér skilst að þurfi að gera þar. Það nægir mér alfarið að fá „Sælinú“ annað slagið á Facebook frá villtum, ævintýragjörnum, áhættusæknum, ókunnugum aðdáendum, þykjustuofurstum eða hjartaskurðlæknum á virðulegum aldri. Ég þarf engu að ýta til hliðar þegar ég eyði þeim án nokkurrar miskunnar. 

 

Ég var líka að verða vitlaus á Eldum rétt fyrst (áður en mér var sagt til), það átti ekki að ýta á Matseðlar, heldur Veldu rétt, og síðan „Þú getur Veldu rétti“ ... og svo mátti alls ekki taka mark á því þegar kom að engin heimsendingarþjónusta væri í mínu póstnúmeri. Auðvitað! Mjög fínn matur en nokkuð mikil hrifning á hnetum hjá kokkunum. Einu sinni datt mér í hug að panta hátíðarpakka og bjóða góðu fólki til mín á Skagann einhvern páskadaginn, en svo var einhver jarðhnetueftirréttur. Jarðhnetur eru annar mesti og hættulegasti ofnæmisvaldur heims, ef marka má gúggl og nú verð ég að vita hver er mesti ofnæmisvaldurinn ... ég giska á gróður ... bíðið aðeins.

Hlé ...

Sko ... sem ofnæmisvaldur er það mjólkin sem er algengust!!! Kúamjólk! En gróðurofnæmi er ansi víðtækt líka. Engin leið fyrir mig að finna almennilegan lista yfir allt ofnæmi í hætturöð, enda mætti ég vera betri í ensku til að geta leitað almennilega. Munið, ég er manneskjan sem hélt hálfa ævina að það væru mjög margir dýralæknar í hernum ... Ég les reyndar mjög, mjög hratt.

Veteran: uppgjafahermaður, stytting: vet

Veterinarian: dýralæknir, stytting: vet

 

Hannes varðiEvrópukeppni karla í fótbolta, EM 2024, stendur frá 14. júní til 14. júlí. Ég hafði einsett mér að gera nákvæmlega EKKERT á þessum tíma nema horfa á fótbolta, eða þannig. Stóð ég við það, eða ætlum við systur kannski að skreppa dagsferð norður á land (innan NV-kjördæmis) þann 15. júní? Mundi ég eftir EM þegar ég sagðist auðvitað vilja koma? Nei. Verða  mikilvægir leikir þarna á laugardeginum? Ja ...

Kl. 13: Ungverjaland - Sviss

Kl. 16: Spánn - Króatía

Kl. 19: Ítalía og Albanía

 

Verð bara að muna að þegar líður á keppnina að svara hvorki síma né netspjalli, en ef næst í mig: gera mér upp veikindi sem halda mér heima. Gubbupest, Covid, matareitrun, bráðsmitandi kvef, þursabit. Eitthvað samt sem kemur mér strax á fætur eftir leik og fram að þeim næsta. Hugmyndir vel þegnar.

 

Mynd: Frá HM 2018 þegar Hannes varði víti frá Messi!!! Þá var ég pottþétt stödd í Stykkishólmi og bara heppni að það hafi verið sjónvarp þar. 

 

Mínir mennÉg er líka smeyk við að ég ákveði kannski í bríaríi að skreppa til útlanda í helgarferð í vetur. Vera búin að borga ferðina og hótelið og komin út á flugvöll, kannski 31. október, jafnvel sest inn í flugvélina þegar ég man eftir því að ég á miða á Skálmöld, tónleika í Hörpu 1. nóvember. Ég veit að það er gáfumerki að vera utan við sig og gleymin ... en samt. Að vera vel á verði, hafa ákveðið eitthvað löngu fyrirfram, setja það í rafrænu dagbókina ætti að vera nóg.

Ég er viss um að fótboltaleikirnir þarna laugardaginn 14. júní verða verulega óspennandi, þeim jafnvel frestað vegna leiðinlegheita ... Ekki gaman að að horfa á þá eftir á - frekar þátt á eftir með því besta úr leikjunum, ég lifi það alveg af. Og hver vill ekki skreppa norður í góðum félagsskap í góðan félagsskap?

 

Mynd: Mínir allra bestu menn

 

Stráksi er kominn heim úr sumarbúðunum í Reykjadal, kom við í himnaríki núna rétt áðan á heimleið, bara rétt til að knúsa Gurrí sína og kettina. „Ohh, hvað ég vildi að ég hefði mátt vera viku lengur,“ sagði hann. „Það var svooooo gaman!“ Hann lofaði að hringja í kvöld og segja mér allt um dvölina. Ég er enn skráður greiðandi fyrir síma og net hjá honum, skv. þakklæti þjónustugjafa fyrir greiðsluna, þrátt fyrir að við höfum farið og látið breyta því í apríl. Honum finnst þetta eiginlega mjög hentugt og algjör óþarfi að vesenast eitthvað í þessu.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 697
  • Frá upphafi: 1516047

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband