Spennandi óvissuferð og besta ryksugutónlistin

KiðlingurÆðisgengin vinkvennaferð verður farin núna í lok október, til að stytta veturinn, eins og vinkona mín orðaði það í símanum í gærkvöldi - og ég hoppaði á þetta. Við förum á hlýrri slóðir - í vel planaða vikuferð, með nýrri og víst mjög frumlegri og sniðugri ferðaskrifstofu, sagði hún. Þetta er eiginlega óvissuferð sem æsandi tilhugsun, og mér líst ágætlega á dagskrána eftir samtalið við vinkonuna. Rúta fer með okkur frá BSÍ og svo verður bundið fyrir augun á okkur áður en við stígum inn á Leifsstöð til að auka á spennuna, flugið tekur 8-28 tíma, er það eina sem var gefið upp, við fáum ekki að vita meira um áfangastaðinn. Stundum verður bara að fara út fyrir þægindarammann til að staðna ekki og hvaða kona vill vera kölluð gömul og huglaus?

Ég er að reyna að hlaða niður appi ferðaskrifstofunnar, eins og vinkonan ráðlagði mér, til að sjá betur dagskrá vikunnar okkar, 30. okt. til 5. nóv. en í símtalinu í gærköldi sagði hún mér af þessu sem mér líst mjög vel á:

 

Nasa-Geitaskoðun fyrsta heila daginn - sennilega hægt að kaupa sér geitaullarpeysur og klappa kiðlingum. Hljómar unaðslega.

-Nasahlaup, veit ekki hvað það er, en vinkonan hélt að það gæti verið skyndi-hraðheimsókn í geimferðasafn sem er geggjað! Mögulega er óvissuferðin til Bandaríkjanna. En ég tími ekki að giska.

-Búðaferð, ég lifi það af og það er alveg gaman í sumum búðum þar sem hægt er að sitja í loftkælingu og hanga í símanum. Væri samt auðvitað alveg hægt að kaupa nokkrar jólagjafir.

.... 

 

Ég er eiginlega búin að þríbóka föstudaginn en ekki allt á sama tíma, eins og mér hættir stundum til. Heimsókn til mín kl. 10, ég fer sjálf í heimsókn út í bæ að henni lokinni og svo önnur heimsókn í himnaríki kannski um tvöleytið. Svo ætlar stráksi mögulega að kíkja líka nema hann komi á morgun. Ég er í grisjunarskapi í dag, veit samt varla hvar skal byrja og íhuga hvort ég eigi að hlusta á háværa og hressa ryksugutónlist eða spennandi Ann Cleeves-sögu (Eldhiti) sem ég á rúma fimm klukkutíma eftir af. Ég spæni í mig bækur þessa dagana.

 

Ryksugað á fulluNýlega sá ég á Facebook (erlendri síðu) spurninguna: Hvaða ryksugutónlist er best? Ágætis svör bárust. Það íslenska væri vitanlega hið stórgóða og hressa lag: Ryksugan á fullu. Svo eru líka lög á borð við Livin´La Vida Loca (Ricky Martin), Uprising (Muse), Luftgitar (Sykurmolarnir), Stun Gun (Quarashi), Cleaning out my Closet (Eminem), Smells like Teen Spirit (Nirvana), No One Knows (Queens of the Stone Ages) og fleiri og fleiri ... en hér er útlenski listinn, frekar stuttur, en svo margir sögðu það sama:

 

- Allt með Zeppelin og Metallica

- Another one bites the dust

- I want to break free

- 80s

- Salsa, latin, cumbia

- Chuck Berry

- 90s

- Abba-lög

- Dust in the wind

 

Ef maður er í vafa er kannski best að gera bæði, eins og strákurinn orðaði það um árið. Ég ætti að búa til hressan lagalista úr mínum eigin lista sem heitir Ýmis lög og inniheldur alls konar lög, róleg, hress, klassík, rapp, rokk, popp ... og vera svo með gemsann í vasanum, svolítið hátt stilltan og hlusta á sögu líka. Það gæti tvöfaldað afköstin. Ef ég þykist ætla að flytja einn góðan veðurdag myndi það auðvelda til muna að flytja færri hluti. Elsku Inga ætlar að taka fína kringlótta skákborðið og nokkra kassa fyrir mig á morgun upp á hauga, svo tekur elsku Hilda mín alltaf það sem ég þarf að losna við, hún er dugleg að fara í Sorpu. 

 

VIÐBÓT. Vó! Ég komst inn á app ferðaskrifstofunnar núna rétt áðan, og þetta verður svolítið öðruvísi ferðalag en vinkona mín hélt. 

Geitaskoðunin er víst geitungaskoðun ...??? Nasahlaupið virðist vera hlaup undan nashyrningum (svipað og nautahlaupið í Paloma). Ég finn ekki með gúgli hversu hratt nashyrningar geta hlaupið en þeir hlaupa varla hraðar en ég (fer þó eftir ástandi hægri hásinar). Búðaferðin virðist vera löng gönguferð í gegnum þéttan regnskóg að tjaldbúðum, eða rjóðri þar sem við þurfum að tjalda sjálfar úr efni sem við spinnum og heklum tjald úr, og veiða okkur til matar - með vopnum sem við búum til úr einhverju í náttúrunni! Mér finnst ég ekki geta hætt við ferðina þótt hún sé ekki alveg sú ferð sem ég borgaði stórfé fyrir í gærkvöldi og samkvæmt appinu er ekki hægt að fá endurgreitt. Að veiða sér vopnlaus til matar í frumskógi í 50 stiga hita er auðvitað meira ögrandi en t.d. Costco-ferð.

VIÐBÓT 2: Hver vill kaupa einn miða á besta stað í Hörpu, á Skálmaldartónleika 1. nóv?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 35
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 698
  • Frá upphafi: 1516048

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 576
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband