Sunnudagur sem hvarf, tepruleysi og draumfarir

Chili og TylenolVeikindum var hrundið harkalega með góðum og miklum svefni, C-vítamíni, ColdZyme (fæst í apótekum) og óþolinmæði gegn slappheitum ... og það virkaði svona líka vel. Held líka að sterki maturinn frá sýrlensku vinum mínum í næsta húsi hafi gert mikið gagn. Chili er allra meina bót. Flensutöflurnar (í þann veginn útrunnar Tylenol cold+flu) tóku óþægindin að mestu svo ég missti bara einn sunnudag úr tilverunni, en kvarta ekki.

 

 

Fór að hlusta á ástarsögu milli meðvitunarleysiskafla í gær, til að minnka álag á ónæmiskerfið sem glæpa- og spennusögur valda örugglega. Að elska Jason Thorn, heitir sagan. Sárasaklaus í upphafi en svo skellur á svona líka erótík sem er vissulega holl fyrir piparjúnkur - en það er ömurlegt samt að detta í flensumeðvitundarleysi í miðjum lýsingum (og þurfa að spóla til baka). Ég hætti reyndar að vera tepra eftir að hafa þurft að útskýra allt um blóm og býflugur fyrir þrettán ára strák sem var byrjaður í kynfræðslu í skólanum og þurfti betri útskýringar. Þá þýðir ekkert að vera tepra.

 

 

Keli á trefliHeilmiklar draumfarir fylgdu lasleikanum. Ég var kölluð á vakt hjá Aðalstöðinni til að sjá um útvarpsþátt en var ekki nógu vel undirbúin, þetta bara svo brátt að, og það komu stundum þagnir á meðan ég var að leita að músík (músíkin var nú samt komin í tölvur á meðan ég var í útvarpi) en draumar fylgjast ekki nógu vel með svo ég leitaði að geisladiskum ... en ég fékk útborgað í stórum pakka af úrvalskaffi ... og vitneskju um að ég yrði ekki kölluð út á fleiri vaktir út af öllum mistökunum. Svo í fyrrinótt heimsótti ég vinkonu mína til Berlínar (hún vann um hríð í Hamborg), í alveg ótrúlega lélegt húsnæði sem var þó mun betra að innan en utan, aðallega furðuleg aðkoman miðað við fínt fyrirtækið í raunveruleikanum.

Meira bullið. Veit ekki hvort flensulyfin orsaka drauma en þegar ég tók inn hættuaðreykja-lyfin árið 2020 hófust ofsafengnar draumfarir ... og því miður bara eitthvað svona bull.

 

Mynd: Keli á trefli. Myndin á veggnum er úr himnaríki, eftir Bjarna Þór listamann, sýnir einmitt Kela til vinstri og Krumma til hægri - skopmynd af ykkar einlægri, í afmælisgjöf eitt árið. Hún var gerð áður en Mosi kom til sögunnar. 

 

Elsku dásamlega Bogga vinkona á afmæli í dag, en við kynntumst þegar við vorum fimm ára, bjuggum báðar í Nýju blokkinni á Akranesi. Himnaríki tilheyrir Gömlu blokkinni sem var fyrsta blokkin byggð hér, Nýja blokkin var sú næsta sem kom og nánast við hliðina á þeirri gömlu. Engan skugga hefur borið á vináttuna og þótt líði mánuðir á milli símtala og hittinga, skiptir það engu máli. Alltaf eins og við höfum hist í gær.

 

Eldhúsið í himnóEldum rétt mætti stundvíslega einhvern tíma eftir hádegi í dag. Ég var enn í svörtu náttfötunum sem gætu misskilist sem kósíföt og skellti peysu yfir - og ungi sendillinn sjokkeraðist ekki neitt. Eftir að ég sagði einu sinni við einn: „Vá, eins gott að ég var búin í sturtu!“ ég búin að gleyma að ER var væntanlegt, og hann setti upp skelfingarsvip, hef ég ekki minnst á náttföt, baðfarir eða neitt slíkt, það fyrirfinnast greinilega svokallaðar horní hás-væfs (er að reyna að dulbúa ef börn lesa þetta blogg) og blaðrið í mér stundum hefur án efa hrætt suma. Ég fæ ekki lengur votta eða biblíusölumenn, hef ekki séð stefnuvotta áratugum saman og handrukkarar leggja ekki í mig, vissulega engin þörf ... en samt! Jú, ég fékk einu sinni stefnuvott þegar var farið í mál við mig vegna viðtals sem ég bar ábyrgð á þótt ég hefði ekki skrifað það - og óvinalögfræðingurinn hótaði (með stefnuvotti) að taka af mér himnaríki, án þess að nokkur málflutningur væri hafinn, og fékk fyrir það ákúrur frá dómara ... sem hataði mig samt því hann dæmdi mig nánast til dauða sem hæstiréttur gerði ögn manneskjulegra. Lengi vel var ég kölluð glæpakvendi af einum ættingja mínum. Sannanir fyrir því að allt hefði verið rétt í viðtalinu komu fram EFTIR réttarhöld og dóm sem fékk lögmann minn næstum til að gráta. Enn finnst mér furðulegt að hafa dómstólinn í Borgarnesi (2.000 íbúar) en ekki á Akranesi (8.000 íbúar). Sennilega af því að Skagamenn gera nánast aldrei neitt af sér - Borgarnes er auðvitað meira miðsvæðis sem þýðir þó samt að fleira fólk sem þarf að fara langt - eða færra fólk sem þarf að fara lengra ef yrði flutt á Skagann ... Allt breyttist reyndar þegar Friðrik Ómar flutti til Borgarness. Ég fylgi Friðriki á Instagram og hann er næstum því með flottara útsýni en ég, og þá er mikið sagt.

 

Mynd: Fína eldhúsið mitt í himnaríki, þar sem himneskar máltíðir verða til með aðstoð Eldum rétt. Vaninn er svo sterkur að ég sker allt grænmeti niður á pínulitla plássinu við hliðina á ísskápnum, þar sem örbylgjuofninn er núna, vinstra megin við vaskinn. 

 

Líf og fjör við Langasand í dagJá, ég var víst að tala um Eldum rétt þegar ég fór út í annað. Hér verður eldaður lúxusplokkfiskur í kvöld og svo á miðvikudag Tortilla-turn (mexíkóskt lasagne) ... hef prófað báða rétti og get svo sannarlega mælt með þeim.

 

Evrópukeppnin í fótbolta hefst á föstudaginn og nú eru sumir fúlir yfir því að RÚV ætli að færa aðalfréttatímann til kl. 21. Þegar ég bjó í London (au pair-stúlka) var aðalfréttatíminn á BBC alltaf kl. 21 sem var ansi fínn tími. Matartíminn og uppvaskið að baki og börnin komin í rúmið. Held að hann sé enn á þessum tíma. Ég er hissa á Kollu minni Bergþórs sem segja má að hafi komið mér upp á að fara að horfa á fótbolta fyrir ótalmörgum árum. Plataði mig m.a. með sér á Glaumbar þar sem úrslitakeppnin var á milli Brasilíu og Ítalíu ... Kolla sagði að við ættum að halda með Brössum svo ég gerði það auðvitað. Þetta fór út í vítaspyrnukeppni ... og Baggio klúðraði sinni spyrnu fyrir Ítalíu og þar með unnum "við". Gleymi aldrei ítalska parinu sem kom sér fyrir þarna við eitt borð með ítalskan fána og annað til að skapa stemningu og hafði óvart rambað inn á bar þar sem ALLIR hinir héldu með Brasilíu. Þau voru voða ljúf og allir góðir við þau. Nú er Kolla, samkvæmt nýjasta pistlinum, orðin nánast andstæðingur fótbolta ... nema það sé vegna breytinga á fréttatíma RÚV? Hún talar um íþróttaofríki en hlýtur bara að meina Ólympíuleikana, það skil ég betur. 

Þessi nýi tími á fréttum verður til þess að fréttafólk þarf að mæta tveimur tímum seinna til vinnu og vinna tveimur tímum lengur sem er auðvitað hundleiðinlegt. En þessu lýkur 11. ágúst, daginn fyrir afmælið mitt.

 

Líf mitt snerist einu sinni um fréttir kl. 18.30 og svo aftur kl. 19, svo kl. 22 ... og á klukkutímafresti allan daginn í útvarpinu ... en ég nenni ekki lengur að festa mig yfir slíku, mögulega aukinn eða minnkandi þroski sem veldur því, alla vega breyttar áherslur - en að sjálfsögðu fylgist ég með fréttum, er bara ekki lengur fréttafíkill. Allt í einu fékk ég bara nóg og á sama tíma minnkaði sjónvarpsgláp niður í næstum ekkert. Mun bæta það upp með látum þegar ástkær fótboltinn byrjar á föstudaginn og stendur í mánuð!      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 1516046

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 574
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband