Síðbúin skírnargjöf og sjóðheit ferð

Hönnunarbúðin góðaFerðalagið okkar stráksa hófst í gærmorgun kl. 10.15 þegar við tókum okkur far með strætisvagni númer 57, mikil gleði af því ég splæsti! Hilda sótti okkur og fyrsti viðkomustaður var Te og kaffi í Hamraborg, kaffinesti mjög áríðandi fyrir komandi keyrslu á Suðurlandi þar sem spáin hafði verið upp á hroðalegar 17 gráður á Celsíus. Kældur bíll sá til þess að kaffidrykkja og spjall fór fram á þægilegum nótum og svo var ágæt tónlistin hjá Útvarpi Suðurlands. Það var engin rauð viðvörun í gangi þrátt fyrir að hitinn væri hár, við þurftum bara að bjarga okkur sjálf með því að skjótast hratt úr bíl í búð. Fyrsta stopp var á Selfossi, í Skalla, ís (úr vél ekki til samt) en allt var fyrirgefið af því að kveikt var á sjónvarpinu og leikur í gangi, meira að segja ofurlágt klósett, sem hæfði c.a. fjögurra ára barni sem hefði þó aldrei fengið að fara eitt, svo tilgangurinn með hæðinni var bara að vonast eftir bakveikri kerlingu sem myndi mögulega fá þursabit við að standa upp af því eða setjast niður, það myndi nú orsaka fjör og læti í sjoppunni, kannski kæmi sjúkrabíll ef hún argaði nógu mikið. Afsakið beiskjuna. Við erum hávaxin þjóð og allt svona ætti að miðast við það, lítil börn eru ekki send ein á salernið svo þeim er hjálpað upp á klósetti, há sem lág. Skalla var sem sagt fyrirgefið vegna sjónvarpsins. Þarna var hitinn orðinn 21 gráða. Óvænt.

 

Dýrindis frá SelfossiÞað getur verið fokdýrt að leita skjóls í verslunum nema maður búi yfir sjálfstjórn, eins og við systur. Við hrifumst reyndar mjög af handverksverslun við hliðina á Skalla (í sama húsi og apótek) þarna við aðalgötuna og keyptum skemmtilegar og litríkar fígúrur búnar til úr pappa. Ég keypti líka hálsmen þar sem fleygar setningar úr Andrésblöðum eru klipptar út og skellt á bak við gler Sjá myndina efst af listakonunni við hlið stráksa. Það sem ég ber nú stolt hefur setninguna: „Komstu nokkuð með spilastokk?“ Mikil gróska á Selfossi og í næstu ferð stoppum við eflaust lengur í þeim skemmtilega bæ.

 

Það var ekki fyrr en við komum í Árnes á handverksmarkað þar sem systir mín hélt að væri jafnvel búið að aflýsa (óskýr skilaboð á Facebook) en þrjóskaðist samt til að tékka á því, sem ég fann það sem ég hafði leitað að, án þess að ég áttaði mig á því. Í Árnesi var sérdeilis skemmtilegur handverksmarkaður í gangi - og þar keypti ég mér litla krummastyttu, eiginlega í skírnargjöf handa sjálfri mér fyrst ég lét bæta Hrefnu við sem millinafni fyrir skömmu. Hilda minnti mig á skírnarveisluna sem ég talaði um að halda innan tíðar en ég finn ekki skírnarkjól í minni stærð. Nenni ekki að hekla hann, enda á ég bara plötulopa, ekki á hitann bætandi. Í Árnesi sýndi hitamælir bílsins að hitinn úti var 22 gráður! Enn óvæntara.

 

Neðri myndin sýnir móttökurnar sem nýju gripirnir (mest fuglar) fengu hjá köttunum seinnipartinn í dag (kom snemma heim til að ná Englandsleiknum). Keli sýndi furðufuglinum mikla blíðu, eins og öllu og öllum, krummastyttan fékk ekki síður athygli en hálmenið var varla virt viðlits, enda ekki fugl.

 

SkyrgerðinEkki varð ég vör við að nýja klippingin vekti lukku, eins og oft gerist, sbr. strætóbílstjórann minn, sennilega lamandi hitanum á Suðurlandi að kenna, náði hæstu hæðum rétt hjá Flúðum þar sem við stoppuðum í kaffi og sítrónuköku hjá heittelskuðum ættingjum.

 

Kvöldverðinn snæddum við systur og stráksi í Skyrgerðinni, veitingastað sem systir mín hafði hælt í hástert, enda mun sigldari en ég í ferðalögum innanlands og marga fjöruna sopið, enda á hún bíl. Engin vonbrigði þar, virkilega góður matur en ... mjög stór vinnustaður í aftari salnum var svo hávær að mörgum þótti nóg um og létu færa sig yfir í okkar sal. Svo voru þetta bara þrjár eða fjórar konur, í brjáluðu stuði. Við vorum eins og algjörir leiðindapúkar miðað við þær ... og hinir gestirnir líka.

 

Ég hætti vissulega við að vera nakin í gær, enda bara vesen, og klæddi mig meira að segja í náttföt áður en ég lagðist til svefns í gærkvöldi í Hilduhúsi. Stráksi bjargaði mér um klakavatn til að kæla líkamann innanfrá svo hægt væri að ná að sofna, það var svoooo heitt. Sæng? neibbs, örþunnt teppi var nánast of mikið. Klukkan sex í morgun vaknaði ég í hávaðaroki og tíu stiga hita (með vindkælingu = 3 gráður?) með aðeins örþunnt teppi yfir mér ... Úr því var hægt að bæta í hvelli en nokkrum tímum seinna keypti ég lauk til öryggis því einhverjar kerlingabækur segja að það að hafa hálfan lauk í skál í svefnherberginu, sé allra meina bót við kvefi, svona ef mér slær niður - sem ég held samt að gerist ekki, því ég náði Danaleiknum í strætó (Áfram Danmörk) á heimleiðinni og fylgist spennt með elsku Englendingum. Já, ég er alltaf veik fyrir þeim. Harry Kane var uppáhaldið hans sonar míns, svo ég held alveg tvöfalt með honum. Það er samt afskaplega vinsælt að tala illa um enska liðið ... hrmpf!

 

Kjánar á fbFannst á Facebook:

 

„Ég verð sterkari með hverju árinu. Að bera 10 þúsund króna matarpoka heim úr búðinni í dag er svo miklu auðveldara en í fyrra.“

- - - - - - - - - - - - - - 

Hvernig veistu þegar einhver er algjör bjáni? 

 

Ýmsir höfðu skoðun á því og svöruðu:

 

„Þegar hann opnar á sér munninn.“

„Orðaforðinn ... og rauð derhúfa* (*heldur með Trump).“

„Sá sem kýs Biden er bjáni!“

„Fólk sem segir þér endalaust hversu mikilvægt og klárt það er, er það ekki.“

„Þegar hann virðir ekki skoðanir annarra nema þær passi við hans eigin.“

„Sá sem sleikir á sér fingurinn og stingur honum upp í perustæði.“

„Þegar hann getur ekki einföldustu hluti eins og að nota stefnuljós.“

„Húmorsleysi hans.“

„Þegar hann sýnir ókurteisi.“

„Hroki er tákn um heimsku.“

„Trú á samsæriskenningar.“

- - - - - - - - - - - - - - - - - - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 1516046

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 574
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband