Framhjáhald, hlaupabóla og fjöldaslagsmál ...

RonaldoAuðvitað hefði ég átt að sitja úti á austursvölum um kvöldmatarleytið í gær og fylgjast með ÍA-KR (við unnum! 2-1) en taugarnar hreinlega leyfðu það ekki. Því varð skrifborðsstóllinn í vesturhluta himnaríkis fyrir valinu með Portúgal - Tékkland í sjónvarpinu en ég á í ástar- og haturssambandi við Ronaldo alveg síðan 2016 (langrækni kannski vegna viðbragða hans við úrslitunum, 1-1, Iceland of all places!) Fyrir leikinn eldaði ég stórgóðan Perú-kjúklingarétt frá Eldum rétt. Hitaði upp afganginn í hádeginu í dag sem var alveg súpergóður líka þá. Mikið var leikurinn Króatía-Albanía spennandi, sá bara seinni hálfleik, ekki hægt annað en að samgleðjast Albönum með jöfnunarmarkið. 

 

FjallakonaNokkrir góðir gestir heimsóttu mig á sautjánda júní og komu með mér á hið árlega kirkjunefndarkaffi sem er orðið ómissandi innan bæði ættarinnar (nánast) og hluta vinahópsins. Held að kirkjunefndin hafi toppað sig enn einu sinni í ár í gómsætum flottheitum. Hvað er íslenskara en pönnukökur, brauðtertur, kleinur og alvöruhnallþórur?

 

Ég fylltist í það minnsta stolti og föðurlandsást, vonandi verður Akratorg aldrei víggirt til að losna við almúgann. Hér eru alltaf allir í einni kássu sem hefur virkað stórvel. Mamma fékk enga öryggisgæslu þegar hún var fjallkona á Akranesi fyrir nokkrum árum. Og þó, kannski fékk Stefanía frænka greitt fyrir að fylgja henni yfir götuna og út á Akratorgið, jafnvel með rafbyssu eða piparúða í veskinu. Skemmtileg mynd af frænkunum sem sýnir Skólabrautina í baksýn og eldgamla Landsbankahúsið sem var á undan gamla Landsbankahúsinu sem stundum er rifist yfir. 

- - - - - - - - 

Innan ættbálksins (vinir og vandamenn) hef ég stundum verið kölluð raðgiftari, enda gift mig svo oft en núna seinni árin hef ég verið ótrúlega róleg í tíðinni. Seint verður hrukkum kennt um því aðdáendurnir eru sjálfir misjafnlega krumpaðir í framan. Svo laust því niður í gærkvöldi þegar ég hékk í gemsanum og las gáfulegar greinar af álíka gáfulegum netsíðum. Já, ég er að breytast í giftingarheigul.

Óttast fyrst og fremst brúðguma (úlf undir sauðargæru), misheppnaðar brúðkaupstertur (með hnetum, döðlum, möndlum), vandræðalegar ræður, daðrandi og duflandi svaramenn eða brúðarmeyjar, óheppilegar uppákomur (sjá brúðkaupssögur hér fyrir neðan) og jafnvel (ólíklegt samt) erfiða tengdaforeldra.

Ég var ekki svona sem kornung kona um fertugt, þá giftist ég án nokkurrar miskunnar nánast öllu sem hreyfðist og var auðvitað huggulegt, heiðarlegt og skemmtilegt (húmor skiptir máli) og elskaði mig auðvitað út af lífinu.

 

GiftingEn ... þessar brúðkaupssögur sem ég hef verið að lesa upp á síðkastið draga eflaust kjarkinn úr öllum, líka hörðustu rómantíkerum. Ég vara þess vegna við textanum hér fyrir neðan þótt vissulega hefði verið gaman að vera fluga á vegg í t.d. framhjáhalds-hlaupabólu-slagsmálabrúðkaupinu:

 

„Frænka brúðarinnar velti um glasi og drykkurinn slettist yfir skó brúðarinnar sem snöggreiddist og gaf frænku sinni vænt olnbogaskot fyrir framan hina gestina. Það varð allt vitlaust og slagsmál brutust út. Brúðguminn lét sig hverfa.“

 

„Brúðurin, frænka mín, dansaði „of mikið“ í veislunni, að mati nýbakaðs eiginmanns hennar, svo hann sló hana. Föðurbræður mínir skutluðu honum upp á spítala (sem hann þurfti sárlega á að halda um það leyti sem þeir komu þangað). Hjónabandið gert ógilt stuttu síðar.“

 

„Brúðguminn og barstúlka í veislunni fengu sér sjortara og á trúnó við aðalbrúðarmeyna kom brúðurin út úr skápnum sem samkynhneigð. Meira og minna allir gestirnir smituðust af hlaupabólu en hringberinn var greinilega veikur og með hita. Maturinn var einstaklega vondur og þegar gestir voru farnir að drífa sig heim brutust út æsileg fjöldaslagsmál á bílastæðinu.“

 

Brúðkaupsklessingur„Brúðguminn „klessti kökusneið“ (sjá mynd) í andlitið á brúðinni þrátt fyrir að hún hafi sagt honum að hún vildi það alls ekki. Hún sendi honum það reiðilegasta augnaráð sem ég hef séð, strunsaði út og reif giftingarvottorðið.

Öllu var aflýst og hjónabandið gert ógilt. Það var sitt af hverju í fari brúðgumans sem hafði hringt viðvörunarbjöllum en þetta var það sem fyllti mælinn hjá brúðinni. Ég er ánægður fyrir hennar hönd, mér leist aldrei á þennan mann.“ 

 

„Aðalbrúðarmærin settist við borðið hjá okkur. Þambaði skot og sagði svo: „Ég gef þessu þrjú ár.“ Hjónabandið entist í tvö ár og átta mánuði.“

 

„Frænka vinar míns var að gifta sig. Brúðguminn drafaði þegar hann fór með heitin í athöfninni, hringurinn sem hann reyndi að setja á fingur brúðarinnar passaði ekki. Síðan hélt hann ræðu í veislunni, orðinn mjög drukkinn, þar sem kom fram að ef hann hefði ekki klúðrað lífi sínu með því að halda fram hjá fyrrverandi, væri hann hjá henni núna, ekki þeirri nýju. Í ræðunni kom einnig fram að hringurinn væri sá sem hann hafði keypt fyrir þá gömlu. Hann fór að gráta og yfirgaf svæðið. Brúðurinn lét ógilda hjónabandið. Brúðguminn reyndi víst að taka upp þráðinn með sinni fyrrverandi en hún vildi hann ekki, var komin með nýjan. Þá reyndi hann að fá frænku vinar míns aftur en hún gat ekki hugsað sér það. Hún er gift frábærum manni í dag og þau eiga þrjú börn. Brúðguminn í sögunni er enn á lausu, svona ef einhver vill hann ...“

 

„Örfáum dögum eftir mjög flott brúðkaup sem okkur hjónum var boðið í, komst brúðurinn að því að eiginmaður hennar hafði haldið fram hjá henni með aðalbrúðarmeynni, bestu vinkonu hennar. Þau voru í brúðkaupsferðinni þegar hún sá SMS frá vinkonunni sem tjáði hinum nýgifta ástmanni sínum að þau ættu von á barni.“

 

„Ég fór í tvö brúðkaup sem voru með Disney-þema en bæði pörin höfðu trúlofað sig í Disney-garði. Þau eyddu miklum peningum í Disney-skreytingar og fóru auðvitað í Disney-skemmtigarð í brúðkaupsferðinni. Í báðum tilfellum voru það konurnar sem vildu draumabrúðkaupið sitt í prinsessukjól en svo þegar grár hversdagurinn tók við varð lífið ekki jafnskemmtilegt og ævintýraríkt og væntingar voru um. Hjónaböndin entust ekki lengi, eða innan við tvö ár. Svo á ég vini sem létu gefa sig saman í ráðhúsinu og hafa verið lukkuleg í að verða tíu ár.“

 

„Ég vann á barnum í brúðkaupsveislu og brúðguminn drakk sleitulaust. Ég var farinn að láta hann fá áfengislausa drykki en hann tók ekki einu sinni eftir því. Svo sá ég hann úti á dansgólfinu með einni af brúðarmeyjunum og í hörkusleik við hana. Nýi tengdapabbinn var ekki sáttur og fleygði honum út. Hjónabandið gert ógilt.“

 

„Brúðguminn kom að konu sinni ásamt svaramanninum í brúðkaupsveislunni og komst að því að sambandið hafði staðið yfir mánuðum saman. Þessu var haldið leyndu svo veislan gæti farið fram. Þau ákváðu að reyna að halda saman en það tókst bara í þrjá mánuði.“

 

„Brúðurin vildi sannkallað samfélagsmiðla-brúðkaup sem fór svolítið yfir mörkin. Sá sem tók myndbandið lét allt líta út fyrir að vera bíómynd. Svo kom í ljós að aðalbrúðarmærin og brúðguminn höfðu verið í sambandi síðustu sex mánuðina sem kom í ljós þegar brúðarmærin kjökraði í veislunni: „Þetta hefði átt að vera ég.“ En kakan var þó algjört lostæti.“

 

„Vinkona mín er brúðkaupsljósmyndari í Ástralíu og sagði mér eitt sinn frá bráuðkaupi þar sem brúðguminn forðaðist brúðina allan tímann, hrökklaðist undan henni og erfitt að ná góðri mynd af þeim saman, eða þar sem honum virtist líða vel. Hún vissi ekki hvað gekk á en frétti að hjónabandið hefði ekki staðið lengi.“

 

„Þau voru bæði 35 ára, höfðu gert það mjög gott, hann sem lögmaður, hún sem læknir. Þau höfðu aldrei varið nótt á heimili hvort annars. Eftir brúðkaupið gátu þau ekki komið sér saman um hvort ætti að flytja til hins og þremur mánuðum seinna sóttu þau um skilnað. Enginn hefur hugmynd um hvernig stóð á því að þau giftu sig en mögulega hefur þeim fundist það tímabært miðað við aldur þeirra.“ 

 

„Einn besti vinur minn gifti sig um árið. Enginn okkar strákanna hafði hitt brúðina en við hlökkuðum þeim mun meira til að hitta vin okkar sem við höfðum ekki séð árum saman. Þetta var flottasta brúðkaupsveisla sem ég hver farið í. Kjólföt, ólýsanlega góður matur í sal sem minnti á matsalinn í Harry Potter-myndunum, óperusöngur og svo flutti strengjasveit uppáhaldsrapplögin hans. Þetta var stórkostlegt en samt ekki í anda vinar míns. Við fórum að spjalla við vini brúðarinnar sem sátu við borðið og komumst að því að þeir þekktu hana voða lítið. 

Móðir brúðarinnar hélt ræðu og sagði afskaplega meinlausan brandara um að dóttirin hefði verið óþekk í æsku. Það varð til þess að brúðurin strunsaði út, læsti sig inni, drakk og sagði svo ljóta hluti um hann og gestina sem höfðu margir flogið langar leiðir til að mæta. Það var greinilega eitthvað mikið að, gestirnir skynjuðu straumana og yfirgáfu samkvæmið löngu áður en því átti að ljúka. Við vorum bara átta eftir af 150 gestum ... því að láta allan góða matinn fara til spillis? Vini okkar tókst að róa konu sína, afsakaði sig síðan við okkur og þau fóru. Sex vikum seinna hringdi hann í mig og allt var búið á milli hans og konunnar.“

 

„Systkini mín eiga það sameiginlegt að hafa gifst en hjónabandið ekki enst. 

Systir mín: Maðurinn hennar mætti í krakk-vímu til vígslunnar. Hún varð ástfangin af öðrum. 

Bróðir minn: Náttúrulegt brúðkaup á fjallstoppi og það tók gestina hálfan daginn að príla fjallið og pabbi er ekki með hnéskel. Þetta var svokallað opið hjónaband þar sem eiginkonan stakk af með hinum gæjanum og tók köttinn með.“ 

Þetta með köttinn er verst, þvílík grimmd!

----

Í tilefni dagsins endurbirti ég frábæra tillögu sem ég sá fyrir 11 árum um að breyta orðinu HANNYRÐIR í HÚNYRÐIR


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 1516046

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 574
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband