Grín eða glæpur - hótandi gervigreind

Grunnur og djúpurBjargræði dagsins var í boði Ingu sem hafði samband og vildi viðra vinkonu sína. Fara í bæinn táknaði ekki ferð í bæinn (Rvík), heldur miðborg Akraness þar sem nýbúið var að mála hluta Kirkjubrautar í regnbogalitunum.

 

 

Mig grunar að aðalfjörið hafi verið í Borgarnesi (Hinsegin dagar á Vesturlandi voru haldnir þar í ár) en samt var gaman að upplifa sólarfjörið á Akratorgi þar sem ég fékk mér kaffi og Inga fékk sér ís, áður upplifa fallegu hlutina í antíkskúrnum hennar Kristbjargar þar sem ég fékk að skila risastóru djúpu diskunum og fá öðruvísi djúpa diska í staðinn. Þeir nýju er úr allt öðru stelli en af góðri stærð og bara allt í lagi að grunnu og djúpu séu ekki í stíl. Veit ekki af hverju risastórir djúpir hafa alltaf pirrað mig. Kannski af því að ég er ekki mikil súpukona og held frekar hnallþórupartí en virðuleg matarboð sem krefjast þess að maður eigi stell. Mig langar alveg í mávastellið samt og á tvö þannig bollapör.

 

 

Gemsinn minn er glaður eftir daginn og þegar ég ýtti á HJARTAÐ sá ég setninguna: You´re walking more than you usually do by this point. Eða 1.162 skref í dag. Sem er brjálæðislega lítið - EN hásinin er að skána, held ég, eða þegar ég geri sem minnst er allt í lagi, hún lætur vita af sér með verkjum þegar ég þramma of mikið ... þetta er ansi langdregið að verða, kannski þarf að leita ráða hjá lækni, komnir svolítið margir mánuðir af helti og aumingjaskap og heimalækningum (kaldir bakstrar, fæti hlíft, voltaren-krem, íbúfen ... en ekkert reglulega nema köldu bakstrarnir).

 

Spjallaði við Bjössa Lú fyrir utan Frystihúsið í sólinni í dag og komst að því að hann er bróðir æskuvinkonu minnar sem lést fyrir nokkrum árum, ekki hafði ég hugmynd um það. Ég sagði honum að ég hefði mætt (kannski 14 ára) í heimsókn á Skagann til hennar, með Pink Floyd-plötuna Umma Gumma undir hendinni, klædd eins og hippi enda Karnabær aðalbúðin á þeim tíma, og leyft henni að hlusta á dýrðina. Það var eitthvað svo auðvelt að skreppa í dagsferðir á Skagann þegar Akraborgin var og hét ... samt fer strætó nokkrar ferðir á dag - en það er bara allt öðruvísi. Fjóla systir Bjössa sat á næsta útiborði og ég fékk að sjá ansi hreint sæta mynd af Hildu systur sem var tekin í eldgamla daga - og fékk loforð um að fá hana senda, það er skammarlega lítið til af myndum af okkur systkinunum síðan við vorum lítil. Hilda verður glöð að sjá þessa.

 

Himnaríki er selt ... með fyrirvara auðvitað, vonum það besta.

 

Var að klára bókina Auga Evu eftir Karin Fossum. Hún byrjaði svolítið rólega, ég þurfti stundum að spóla til baka því hugurinn hafði reikað (kannski mín sök, ekki bókarinnar), en svo allt í einu var allt komið af stað og mjög spennandi atburðarás fór í gang. Jú, jú, þessi bók er til uppi í hillu hjá mér, en ég algjörlega búin að steingleyma henni, næsta bók (sem ég á eflaust líka) kemur í júlí og sú þriðja eitthvað seinna ... í september, held ég. Ný bók eftir Ann Cleeves, Fuglinn í fjörunni, var í tækinu á undan. Ég er frekar hissa á nokkrum nískulegum stjörnugjöfum á hana á Storytel, því þetta er hin fínasta bók sem á betra skilið, nýjar aðalpersónur sem var virkilega gaman að kynnast. Þegar gefin er ein stjarna sem nöldur fyrir t.d. lágan hljóðstyrk (tveir gáfu eina stjörnu fyrir það, ég varð ekki vör við það) lækkar það meðaleinkunnina á ósanngjarnan máta, en ég mæli með henni og hlakka til að fá fleiri um þessar nýju persónur.  

 

GlæpurinnFacebook tók mig á teppið í gær og hótaði mér öllu illu (dregið úr virkni síðu minnar, hún gerð hægvirk, ég get ekki kommentað eða eitthvað) ef ég eyddi ekki myndbandi sem ég birti fyrir skömmu, mjög greinilega falsað grínmyndband - en blessuð gervigreindin (independent fact-checkers) sem leitar uppi falsfréttir og fleira rusl, þekkir ekki muninn á gríni og glæp. Bréf Metu hljóðaði svo: Your post has the sama missing context as a post checked by independent fact-checkers. 

Svo voru annars staðar hótanirnar um hörð viðurlög en mér láðist að taka skjáskot af þeim, en ég tók skjáskot af myndbandinu (kyrrmynd vissulega), held (vona) að fb hafi ekki lögsögu á Moggablogginu. Myndbandið sýndi loftstein/smástirni lenda á tunglinu og mikla sprengingu í kjölfarið ... Eins gott samt að ég skrifaði ekki orðið heillin sem sendi einn ættingja minn rakleiðis í svartholið utan við fb - því fyrstu fjórir stafirnir í því orði eru auðvitað argasti nasistaáróður, hef áður sagt frá því hér.

 

 

Ég grínaðist sem sagt með að það hefði náðst myndband, með aðstoð tímavélar, af því þegar risaeðlurnar dóu út á tunglinu ... en get auðvitað ekki ætlast til þess að óháði staðreynda-sannprófarinn kunni íslensku. Er nú samt ánægð með að tekið sé á falsfréttum sem hafa tröllriðið öllu, sem bitnar voða oft á sárasaklausu fólki eins og aðgerðir bankanna gegn peningaþvætti gera (Ert þú, eða náinn ættingi þinn, ráðamaður í þjóðfélaginu, ef þú svarar ekki færðu ekki þjónustu í heimabankanum-hótanir). Fb-vinir mínir eru upp til hópa sæmilega klárir og trúa ekki bullinu í grínmyndböndum á borð við þetta svo ég held að ég hafi ekki hrætt neinn eða sannfært nokkra manneskju um eitt eða neitt skelfilegt.

 

Fb fólÞví miður gleymdi ég líka að taka skjáskot af því þegar fb otaði að mér Vilhjálmi prinsi í Bretlandi, eða Facebooksíðu "hans", undir þeim formerkjum að ég gæti mögulega þekkt hann. Ég hef fengið fjölbreytilegar og óvæntar tillögur (sjá samansetta mynd). Ég á 336 sameiginlega vini með dómsmálaráðherra sem vekur mér eiginlega meiri furðu en einn sameiginlegur vinur með sjálfum Mark Harmon leikara.

 

 

Man ekki vinafjöldann með JBH eða SDG. Vissulega hefur fb otað að mér fólki sem ég hef hugsað: Aha, þessi var með mér í skóla, langt síðan ... úps, einn af fyrrum eiginmönnum mínum eða ahh, elskhuginn góði af Borginni, tengdamamma frænku fyrrum mágs míns og alls konar, og notfæri mér stundum gott boð fb. En yfirleitt er þetta fólk sem ég þekki nákvæmlega ekki neitt og á jafnvel ekkert sameiginlegt með ... nema kannski í einu tilfelli; kalið hjarta og ískalda grimmd sem ég stunda í hálfleikjum á EM ef barnasáttmálinn dúkkar upp í huga minn.

 

Ég sveik Ítalíu illilega í dag þegar ég fór út með Ingu og náði bara síðustu mínútunum - en ég var vissulega spenntari fyrir kvöldleiknum kl. 19 þótt ég héldi með báðum liðunum þar. Á morgun verða líka leikir sem ég hlakka til að sjá. England-Slóvakía kl. 16 og Spánn-Georgía kl. 19. Nammi namm.

 

Fb grúppur Gamla fólkiðÞað er ekki bara fólk sem fb vill að ég kynnist, vingist við, heldur að ég gangi í alls kyns grúppur ... flestar núorðið tengdar gömlu og hrumu fólki, sýnist mér, alveg fertugu jafnvel (sjá mynd). Hver ætli skrifi svona texta, eins og um svona háaldrað fólk eins og 40, 50, 60 og 70, að það geti líka átt VINI OG JAFNVEL ELSKHUGA!!! VÁÁÁÁÁ!

 

Ein af uppáhaldssíðunum mínum (ótengd aldri) spurði fólkið sitt nýlega:

Hvað þolir þú ekki sem öðrum þykir vera í góðu lagi?

 

- Reggítónlist.

- Snemma að sofa, snemma á fætur.

- Létt spjall.

- Sumarleyfi með allri fjölskyldunni.

- Að þurfa að heilsa fólki með handabandi.

- Börn.

- Jólatónlist.

- Þegar fólk segir: "Guð hjálpi þér" þegar einhver hnerrar.

- Íþróttir.

- Fólk sem gengur í náttfötum utandyra.

- Þau sem halla flugvélarsætinu alla leið niður.

- Trúarbrögð.

- Að veiða dýr og kalla það sport.

- Stafsetningarvillur!

- Húmor sem gerir lítið úr öðrum.

- Hávært smjatt/hlátur/tal.

- Að vera kölluð elskan af ókunnugum.  

- Þjórfé.

- Fólk með tyggjó. 

- Grasflatir og sú gríðarlega þörf sem þær hafa fyrir vatn og umönnun.

- Fyllirísmenning.

- Þegar einhver segir: „Ég bið fyrir þér.“

- Kynjaveislur (stelpa eða strákur?) 

- Fólk sem tekur litlu börnin sín með hvert sem er.

- Að það þurfi alltaf að vera vín þegar fólk hittist.

- Áhrifavaldar, sérstaklega í ræktinni.

- Vinna í átta tíma á dag fimm daga vikunnar. 

- Berfætt fólk (annars staðar en á ströndinni).

- Þau sem nota rakspíra eða ilmvatn.

- Fólk sem hrækir á almannafæri.

- Poppkornsétandi fólk í bíó þegar ég reyni að njóta myndarinnar.

- Þegar fólk spyr: Áttu börn? Það hugsar fæst út í hve viðkvæmt það getur verið, hvort það er ófrjósemi, fósturmissir eða barnsmissir sem liggur að baki - best að spyrja ekki.  

 

JólaskrautÉg er sammála mörgu hérna og svo sannarlega því síðasta. Þekki fólk sem glímir við ófrjósemi og óþolandi spurningar og óumbeðin ráð í tengslum við það, og sjálf hef ég svarað þessari spurningu neitandi (við ókunnugt fólk sem ég mun jafnvel ekki hitta framar), ef ég treysti mér ekki til að tala um son minn, þótt séu komin sex og hálft ár síðan hann dó.

 

 

Ekki heldur sammála þessu um létt spjall, mér finnst það oft vera skemmtilegt ... fátt verra en þegar algjörlega ókunnugt fólk vill fara út í djúpar trúnaðarsamræður um einkamál sín. Létt spjall þarf ekki að vera um eitthvað ómerkilegt, yfirborðskennt eða leiðinlegt, er fínt á meðan fólk er að kynnast. Svo er hægt að fara í meiri dýpt ef stemning er fyrir því.

 

Já, svo er það jólatónlistin sem mér finnst dásamleg, hvaða skröggur svaraði þessu? Ummmm ... Ég hlakka svo til, Jólin koma, Jólasveinninn minn, Jólaóratórían, Kósíheit par Exelans, Hátíð í bæ, Heima um jólin, Dansaðu vindur, Jólahjól, Hvít jól, Do they know ...

 

Ég fletti upp nöfnum ofantalinna jólalaga og þótt sum séu orðin þreytt eftir MIKLA spilun eru þau ómissandi hluti af aðventunni, mest kannski í bakgrunninum. Og lélegar jólamyndir, nammmm. Jólin finnst mér skemmtilegri árstími en sumarið, en ég þarf reyndar heldur betur að gera breytingar varðandi sumar-húðlit minn eftir atburði dagsins. Ég sat berhandleggjuð á Akratorgi í dag í svona tíu mínútur og ... undanrennubláminn á handleggjunum setti annarlegan blæ á allt umhverfið og þögn sló á mannskapinn, mátti lesa svolítið áfall úr svip fólks. Ég ætla að vinna í þessu, líka upp á D-vítamínið að gera. Mögulega sest ég út á svalir næstu sólardaga ... en það er reyndar spáð talsverðri rigningu núna í helgarlok, alla vega hér suðvestanlands, sýnist að bara Austfirðir og norðaustanvert landið missi af vætunni.

 

- - - - - - - - - - - 

Fyrir nokkrum vikum bað kennarinn nemendurna um að skrifa ritgerð með heitinu: Ef ég væri milljónamæringur. Krakkarnir settust við skriftir nema stúlka sem hallaði sér aftur í stólnum með hendurnar krosslagðar. 

„Hvað er í gangi?“ spurði kennarinn. „Af hverju ert þú ekki að skrifa?“

„Ég er að bíða eftir ritaranum mínum,“ svaraði stúlkan. 

Hún fékk tíu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 25
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 688
  • Frá upphafi: 1516038

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 566
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband