Óvænt klúbbinnganga og komin á pilluna

gærdagurinnJúlímánuður hófst með látum og síðdegi gærdagsins var varið á spítalanum góða hér á Akranesi. Ég hef löngum glaðst yfir góðri heilsu minni og að þurfa ekki að taka nein lyf en það var í júní. Júlí var á öðru máli. 

Í fyrradag fann ég smáþrýsting í höfðinu, sérstaklega við gagnaugun og bak við augun, vaknaði líka með höfuðverk og ég fæ aldrei höfuðverk! Gæti þetta verið hár blóðþrýstingur? hugsaði ég, en samt tæplega ... varla hjá svona heilsuhraustri manneskju. Átti ég ekki voða fínan blóðþrýstingsmæli inni í skáp, mæli sem ég var neydd til að kaupa dýrum dómum þegar grunur vaknaði (hjá mér) um háþrýsting um árið en var svo alls ekki fyrir hendi? Jú, jú, þarna var hann og batteríin enn virk eftir notkunarleysi síðustu ára. Ég mældi eftir kúnstarinnar reglum, 173/98 sem var hærra en eðlilegar tölur sem ég hafði séð á gúgli mínu um háan blóðþrýsting. Þrátt fyrir að reyna að gúgla: Hvernig nær maður háþrýstingi niður hratt og vel, heima hjá sér? fann ég ekkert nema eitthvað langtíma. Borða hollt (tékk), drekka ekki/lítið áfengi (tékk), hreyfing (ekki tékk, með þessa hásin) og svo framvegis. Ég yrði að læra að gúgla almennilega. Var búin að gleyma að Davíð frændi hafði í síðustu heimsókn komið á beinu sambandi milli mín og gervigreindar sem gæti svarað ÖLLU!

 

Inga vinkona veit reyndar allt, eða næstum því, og ég spurði hana aðeins út í þetta. Hún sagði að réttast væri að láta tékka á þessu ... Í gærmorgun undir hádegi vaknaði ég ótrúlega hress og mældi mig, að ráði Ingu (og Hildu) bara til öryggis, þá komin upp í rúmlega 200 í efri. Inga, sem verður héðan í frá aldrei kölluð annað en heilög Inga, dýrlingur af Akranesi, hringdi áhyggjufull nokkur símtöl, skutlaðist svo með mig upp á spítala og þar var aldeilis vel tekið á móti mér. Hjartalínurit, blóðprufa og alls konar. Það tókst á þremur tímum að fá niður fyrir 170 í efri, svo ég eldaði dýrðarinnar kjúklingarétt ofan í okkur Ingu og fór svo snemma upp í, útkeyrð eftir þetta allt saman.

 

Erótískar bækurÉg hafði átt von á þreytulegum heimilislækni sem myndi mæla  og skrifa síðan lyfseðil ef þyrfti, svo ég gerði ekki ráð fyrir bið, tók ekki með mér bók. Var nýbúin að velja hnausþykka ástarsögu á Storytel (ekki með heyrnartól á mér) og hafði hugsað mér að hlusta á hana, mjög lágt, í biðinni sem var í einrúmi. Þá rak ég augun í lýsingu á bókinni: Erótísk! Væri það ekki helst til of æsandi í miðri bþ-lækkunarmeðferð? Þó ekki væri nema tilhugsunin um að einhver kæmi að mér að hlusta á svona dónaskap? Svo ég hékk bara í símanum. 

Er búin að hlusta á fjóra tíma af þessari bók (mest í gær yfir eldamennsku, svo uppi í rúmi og líka aðeins í morgun) og enn allt mjög siðsamlegt. Bókin er tólf tímar og korter og miðað við fyrri reynslu eru fyrstu átta tímarnir að mestu kynlífslausir en svo þarf að hlusta á restina inni í fataskáp með vasaljós og tíu hljóðeinangrandi teppi yfir sér. Hvernig ætli plötulopi virki? 

 

Um fimmleytið í gær mátti ég sem sagt fara heim og var útskrifuð með þeim orðum að þetta væri ótrúlega smart allt saman hjá mér, tölurnar mínar gengju allar upp í fimm og það fengi stærðfræðihjörtu hjúkrunarfólksins til að kippast við af gleði, flottustu bþ-tölur sem höfðu sést síðan Ísland-England á EM 2016, bættu þau við ... eða þannig ... Það gladdi mig mikið að sjá nemanda minn úr Íslensku I vera komna í vinnu á spítalanum ("þetta fólk kemur bara til að leggjast upp á velferðarkerfið okkar" ... eða kannski ekki?) Fagnaðarfundir og líka mikið stolt þegar hún spurði á fínni íslensku: "Hvenær verður Íslenska II?" Ég sagðist halda að það gæti orðið í haust, ég vonaði það alla vega. Önnur sem ég þekki, frá öðru landi, var með henni og báðar sögðu þær að ef þær gætu eitthvað gert fyrir mig, bara nefna það. Elsku yndin.

 

Orsök og afleiðing ...

Ég keypti vissulega lakkríspoka (stóran) fyrir opna húsið fyrir rúmri viku og kvartaði yfir því á þessum vettvangi að enginn hefði þegið mola, ég yrði að fórna mér og borða sjálf - sem tókst á nokkrum dögum. Þau á spítalanum vildu nú ekki meina að lakkrísinn hefði orsakað þetta, frekar að hækkunin hefði laumað sér lævíslega inn í líf mitt á lengri tíma en best að forðast lakkrís í framtíðinni. Ég jók reyndar saltnotkun um leið og ég fór að kaupa mat frá Eldum rétt, stráði yfir ofnbakaðar kartöflur, smávegis í sósur og jafnvel salöt. Nú hætti ég því alfarið, þar segir auðvitað: Eftir smekk, og smakkið til með salti. Þarf nefnilega ekki mikið salt. Vinkona mín í H-klúbbnum benti mér á fínt salt sem fæst í Krónunni, Lífsalt, sem hún mælir með. Ég er reyndar ekki mikið fyrir salt, svo þetta verður ekki erfitt. Ætla líka að létta mig, minna álag á hásin er einn plúsinn við það líka, en mér var reyndar tjáð í gær að hið grennsta fólk glímdi við háþrýsting. Einbeitingin hjá genginu góða á spítalanum fór svo sem í að lækka bþ, ekki leita orsaka. Jú, og svo er þetta í ættinni hjá mér. 

 

Glaðir læknarSjúkrahúsið hér á Skaga fær algjöra toppeinkunn eftir gærdaginn. Þegar ég mæti svo í eftirfylgni um miðjan júlímánuð verð ég vopnuð tölum og sýni lækninum. Tölur eru undirstaða alls, eins og ég hef alltaf sagt. Talan í dag sýnir gríðarlega mikla lækkun frá því í gær, svo lyfið virkar greinilega ansi vel. En nú get ég ekki lengur montað mig af fullkominni heilsu og ... verð að muna að taka pilluna við hbþ á hverjum morgni og mæla þrýstinginn reglulega! Dæs.

 

Nú er ég löglega komin í klúbb háþrýstingsfólks, H-klúbbinn, og í næstu partíum væri hægt að metast um hver hefði mælst hærra. Er hægt að fara upp í 300? Spyr af forvitni ...

 

Húsnæðismálin:

Ég á mér einn draumastað í bænum og missti af íbúð þar því himmnaríki seldist ekki nógu hratt. Önnur íbúð þar nálægt er til sölu og ég er byrjuð að undirbúa tilboð. Það fer auðvitað allt eftir því hvernig kaupendum mínum gengur að selja - svona eru þessar keðjur. Leyfi ykkur að fylgjast með.

Afsakið þessa fyrirsögn, þessa smellbeitu. En hún er samt rétt ...     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1516037

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 565
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband