Írskir að byrja, gamall hrekkur og bækur sem eldast illa

Dauðir innan 3 áraVítamínhrúgurnar inni í eldhúsi eru nú minnisvarði um þá áráttu mína að stunda sjálfslækningar, heimalækningar, DIY í læknisfræði og sjúkdómsgreina mig sjálf ef einhver kvilli hrjáði. Undanfarið orkuleysi og þreyta og hálfgerð depurð í nokkrar vikur, hlaut bara að vera vítamínskortur. Hvað annað? Ég gúglaði og jú, þessi einkenni stóðust heldur betur. Tók þó bara rétta skammta af þeim en fussaði yfir því að þau virkuðu ekki. Svo tek ég "pilluna" mína í þrjá daga við háum blóðþrýstingi og myndi eflaust hoppa og skoppa um allt ef ekki væri fyrir verkjaða hásin (í nokkra mánuði, skamm). En ... læknistími eftir tvær vikur og þá verður tekið á því. Þetta var lærdómsríkt, nú veit ég að læknar eru til af ástæðu og í mínu tilfelli hefði ég átt að kveikja mun fyrr á perunni. En hva, hér ríkir eintóm gleði og bara ef einhver þarf að láta leggja fyrir sig parket, þrífa sameignina eða baka fyrir ferminguna, hóið bara í mig. Eða kannski ekki ... kannski fór ég illa út úr covid-bólusetningunum fyrir þremur árum án þess að átta mig á því ... og er ekki einu sinni ofanjarðar, allt bara blekking gerð með speglum ... Sjá mynd ofar. 

 

Tinna RoyalÁ morgun ætla ég á listsýningu í Einarsbúð, hún Tinna Royal, algjört uppáhald, er með sýningu á verkum sínum í uppáhaldsbúðinni minni! Ég tek strætó þótt það sé skammarlega stutt að ganga (10 mín.) en hlífi hásin þar til annað kemur í ljós. Flestar jólakúlurnar mínar eru gerðar af henni, ópalpakki, dós af grænum baunum, þið munið ... (sjá mynd) er mjög spennt að sjá sýninguna. Get þá keypt í matinn fyrir helgina í leiðinni, fengið heimsent og náð heim með strætó (síðasti um kl. 18) því það verða tónleikar á hlaðinu hjá mér kl. 19.30, klósettin komin og veðurspáin fín. Ég þarf bara að opna gluggana eða setjast út á svalir. Þetta eru fjölskyldutónleikar með Stuðlabandinu, thank you very many* ...(*Þakkarorð finnsku hljómsveitarinnar Leningrad Cowboys) 

Á Wikipediu má lesa: Stuðlabandið er íslensk ballhljómsveit frá Selfossi. Hljómsveitin var stofnuð árið 2004 og æfði fyrst um sinn á bænum Stuðlum í Ölfusi og dregur nafn sitt þaðan. Mér líst ofsavel á þetta.

 

 

GötugrillÁ föstudeginum ... Jaðarsbrautin er aldrei með götugrill. Ég naga bara fiskbein og japla á gömlu kartöfluhýði ... En tek gleði mína á laugardeginum því þá verður Brekkusöngur, líka á hlaðinu hér og líka kl. 19.30, svokallað fyrirpartí fyrir Lopapeysuna, ball ársins ... aldrei fór ég á Lopapeysuna, þessi 18 ár mín hér, ég á ekki einu sinni lopapeysu sem er hneyksli! 

 

Facebook

Það var virkilega gaman að rifja upp minningar þessa dags, 3. júlí fyrir XX mörgum árum ... en í dag eru til dæmis nákvæmlega tíu ár síðan viss "fjandi" komst í tölvuna mína í vinnunni og skrifaði á fb-síðu mína: 

„Fann tíu krónur í morgun undir sófanum þegar ég lá á gólfinu og gerði grindarbotnsæfingar. Það var þá sem ég vissi að þetta yrði góður dagur.“

 

Fb-vinir mínir réðu sér ekki fyrir kæti, jafnvel eftir að ég kommentaði sjálf fyrir neðan með sannleikann um þennan hrekk. Einn sem neitaði að trúa leiðréttingu minni eða sá hana ekki, skrifaði þurrlega:

„Þú hefur þá getað haldið þvagi vegna fagnaðarláta.“

 

Sami fjandi skrifaði í dag á Facebook-síðu sína:

„Hefur einhver séð Kristján Hreinsson og Gylfa Ægis báða á sama tíma? ... hélt ekki.“

 

Fyrir 14 árum endurlas ég greinilega fjölmargar Theresu Charles-bækur, var að undirbúa mig fyrir að skrifa grein í Vikuna um þessa skáldkonu ... sem reyndist svo vera ... hjón, minnir mig, sem skrifuðu undir þessu nafni. Eins og ég hélt mikið upp á þessar bækur í denn brá mér nú svolítið við endurlesturinn á sumum þeirra. Það spunnust auðvitað umræður um bækurnar og ég hef einhverjum svarað með: „Ég er í losti yfir kvenfyrirlitningunni: „Honum þótti nú ósköp vænt um barnabörnin þótt þau væru bara stelpur.““

- - - - - - - 

Það sem ætti ekki að hafa hátt um eða hrópa í hjónavígslu:

 

- Ég hef prófað þau bæði.

- Þetta er konan MÍN.

- Þú veist að ég er rétti faðir barnsins. 

- Allt er þá þrennt er.

- Ég gef þessu sex mánuði.

- Hún er systir þín!

- Veit konan þín af þessu?

- - - - - - -

Í lokin 

Ég fann og þýddi brandara fyrir Vikuna í einhver ár. Notaði ansi oft nafnið Guðmundur (til að stríða samstarfsmanni) ... staðfærði brandara og lét þá stundum gerast í V-Húnavatnssýslu því ég vissi (systir mín bjó þar) að við ættum marga áskrifendur þar. Sumir brandarar gerðust sem sagt í Kaupfélagi V-Hún eða í sveitinni í kringum Hvammstanga, bændabrandarar. Já, og sem algjör kvenremba, auðvitað, breytti ég ljóskubröndurum þannig að þeir fjölluðu um ljóshærða karlmenn, ekki spurning, og þeir versnuðu ekkert við það.

 

Það hefur verið gaman að sjá brandarana "mína" fara á flug í gegnum tíðina, ég veit þegar þeir eru mínar þýðingar, t.d. út af Guðmundi ... og svo líka t.d. götunöfnum sem ég þurfti að finna íslenskt heiti á. Sumir brandararnir voru frekar svartir en ég fann einhvers staðar á netinu ansi hreint góða uppsprettu fyrir mig að ganga í, minnir að ég hafi getað gerst áskrifandi og fengið Brandara dagsins senda ókeypis í pósthólfið mitt, ef ég man rétt, þrjú til fimm þannig bréf á viku, eða þar til það þótti of gamaldags og við gátum farið að gúgla ALLT, en þá voru brandararnir hættir hjá Vikunni sem mér fannst algjör synd en þeir voru svo sem bara börn síns tíma. Held að Séð og heyrt hafi endurnýtt þáseinna sem er hið besta mál því þar sem ég rakst á þá núna, kom fram að þeir hefðu verið í Séð og heyrt.

Ég rakst á þrjá frá mér um daginn:

 

Gunna gamla dó og Jón maðurinn hennar hringdi í lögregluna. 

„Hvar býrðu í bænum?“ spurði lögreglumaðurinn. 

„Við syðri endann á Kalkofnsvegi,“ sagði Jón.

„Kakkoffs ... úps, gætirðu stafað þetta fyrir mig?“

Eftir langa þögn sagði Jón: „Hvernig líst þér á að ég dragi Gunnu bara niður á Sæbraut og þið sækið hana þangað?“ 

 

Tveir ljóshærðir menn leigðu saman litla íbúð. Eldur braust út í íbúðinni eina nóttina og þeir hlupu út á svalir. 

„HJÁLP, HÁLP!“ kallaði annar þeirra

„Kannski hjálpaði það ef við kölluðum saman,“ sagði hinn.

„Góð hugmynd,“ sagði sá fyrsti og þeir kölluðu í kór: 

„SAMAN, SAMAN ...“

 

Guðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu.

„Ég er að fara til La Jolla í næstu viku,“ sagði Guðmundur.

„Þú átt að segja La Hoj-a!“ greip Tom fram í. 

„Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvelja á El Cajón-hótelinu.“

„Þú meinar El Ca Hóne-hótelinu,“ leiðrétti Tom aftur.

„Úps, ég skil.“

„Hvenær ferðu svo aftur til Íslands? spurði Tom.

Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega: 

„Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí.“

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 25
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 688
  • Frá upphafi: 1516038

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 566
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband