Stutt bæjarferð, vandræðalegt símtal og kökuvarúð

Árið 2019Fínasta bæjarferð farin í gær og svo flýtti ég mér rosalega heim aftur til að ná Englandsleiknum í dag ... sem verður svo ekki fyrr en á morgun. Dæs. Hefði viljað sjá England og Holland í úrslitum. Ég skoðaði íbúð sem ég hafði haft augastað á og var hálfleið á eftir, svo mikið þarf að gera fyrir hana; baðið þarf að gera mikið fyrir og sitt af hverju annað sem þarf virkilega að snurfusa sem er kannski eðlilegt, en auðvitað erfitt að fara úr fullkomna himnaríkinu sínu í gamla og lúna íbúð sem hefur verið í útleigu lengi, samt 20 árum yngri en himnaríki.

 

Himnaríki var svo sem ekki sérlega fínt og flott þegar ég flutti inn í það árið 2006, enda keypti ég útsýnið, en íbúð og súpergóðir nágrannar fylgdu. Parketið í stofunni var ljótt, það fraus í leiðslum eldhúsmegin ef fór niður fyrir mínus fjórar gráður, nema ég léti vatnið renna í eldhúsvaskinum sem forvörn, bara í smábunu á meðan frostið varði (fraus tvisvar, slapp við afleiðingar, lagað 2020). Þessi íbúð sem ég skoðaði í dag getur orðið svakalega flott ef ég vinn í happdrætti, eða verð jafndugleg að vinna næstu árin og ég hef verið undanfarin ár - þrjú störf hið minnsta. Kannski ekki alveg öll á nákvæmlega sama tíma.

 

ÚtsýniðÉg sat á kaffihúsi í gær þegar ónefndur ættingi hringdi frá vissu útlandi. 

„Ertu búin að selja?“ spurði hann.

„Já, ég er komin í keðju,“ svaraði ég lágmælt, vil ekki vera týpan sem öskrar í síma á almannafæri. 

„Nú? Ertu byrjuð í BDSM aftur?“ spurði hann hárri röddu svo systir mín (sem sat við hlið mér) heyrði hryllinginn. Miðað við herptan-handavinnupoka-munnsvipinn verður mér ekki boðið í jólamat hjá henni í ár, kannski aldrei aftur. Ég var reyndar enn herptari af hneykslun. Svo finnst mér merkilegt að komast að því að frændinn viti hvað BDSM er. BDSM gæti auðvitað alveg verið spennandi klúbbur: Beiskar dömur sem mjálma. Kannski Bersöglir dónar sem múna ... og svo framvegis. Þessi frændi bjó reyndar til nýyrðið hlekkjalómur sem er þó engan veginn lýsandi fyrir stöðu mína núna í íbúðamálum. En keðja segir samt allt. 

 

Kornflekskökur mömmur.isHéðan í frá harðbanna ég öllum sem ég þekki að draga mig í Costco ... Þar fæst nefnilega stórhættulegt fínmeti, eða súkkulaðikornfleksbitar sem ég keypti reyndar í Einarsbúð nýlega, eða fyrir Írska daga, handa gestunum sem kæmu eflaust til mín. Hmmm Sjötíu litlar kökur - ekkert hnetudrasl, bara mjólkursúkkulaði ... ég mjög upptekin í að lesa yfir skemmtilega bók, svo gott að fá sér kaffi og bara nokkrar, eiginlega örfáar kornflekssúkkulaðikökur til að maula með. Á innan við viku kláraðist kassinn og ég veit ekki hvernig. Mig minnir að einhver hafi komið í heimsókn en held að það sé bara óskhyggja því þessar sjötíu litlu kökur (bitar) eru einhvern veginn horfnar, plastkassinn meira að segja kominn út í plast- og pappatunnu. Það getur ekki hafa verið ég ein ... búálfar eru vitlausir í kornflexkökur, minnir mig að ég hafi heyrt. En til öryggis, ekki ræna mér í Costco. Veit að kaupmenn í Einarsbúð afgreiða mig ekki aftur með þetta, ég er búin að senda beiðni um það. Varúð, elskurnar. MYNDIN er rammstolin af netinu. Síðan mömmur.is gerði þessar kökur sem eru án efa jafnofboðslega hættulega góðar og þessar úr Costco.  

 

Internetið spyr:

Hver er fljótlegasta leiðin til að missa alla vini þína? Hér eru helstu svörin ... og ekki einn einasti Íslendingur sem svarar, svo hér er auðvitað bara stórmerkileg innsýn í hugarheim útlendinga!

 

- Verða edrú.

- Verða heimilislaus og fá að gista hjá þeim í nokkra daga.

- Segja þeim að þú hatir The Princess Bride.

- Segja þeim að þeir virki svo miklu hraustari eftir að þeir bættu svona miklu á sig.

- Pólitík og trúarbrögð. 

- Reyna að selja þeim líftryggingu.

- Byrja að tala um guð. 

- Fara með þeim í langt ferðalag.

- Tala hreint út, það virkar vel hjá mér.

- Ljúga endalaust að þeim. 

- Kaupa hús í öðru landi, flytja og skipta um símanr. og nafn.

- Gerast repúblikandi. 

- Setja þeim mörk. 

- Hætta að bjóða á línuna.

- Fá sífellt lánað hjá þeim, gleyma að skila því.

- Barnlausir vinir sem reyna að kenna þér að ala upp barnið þitt ...

- Segja trúuðu vinunum að þú sért trúlaus.

- Segja: Ég er ekki rasisti en ...

- Sofa hjá maka þeirra.

- Gleyma því hvað þeir heita. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1516037

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 565
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband