Að finna milljón, flottar strípur og fallandi ungdómsvíg

StrípurNýlega barst mér launagreiðsla sem er ósköp eðlilegt í lífi vinnualka, ég sá það í gemsanum, er tiltölulega nýbúin að hlaða niður bankaappinu án þess endilega að ætla að gera bankaviðskipti mín framvegis í gegnum síma! og ákvað að tvítékka á málinu. Svo ég vippaði mér þangað inn. Sá að greiðslan hafði farið á reikninginn og svo fór ég að skoða mig um ... Hei, bíddu, hvað var þetta? Lífeyris-eitthvað, svona séreignardæmi sem ég hafði ekki hugmynd um? Nei, þetta hlaut að vera fádæma grimmdarleg auglýsing um að ef ég ætti þessa upphæð fengi ég x-mikið í vexti ... Hvað er verið að vekja vonir hjá fólki, blekkja það - og það í þess eigin heimabanka? Mig sem vantaði sárlega pening til að geta með góðu móti keypt sjúskuðu íbúðina á draumastaðnum og gert hana heimilishæfa, þetta var allt of gott til að vera satt. Ég sagði vinkonu frá þessu í símtali og hennar viðbrögð voru: „Ekki ýta á neinn hlekk!“ Ég urraði innra með mér en útskýrði að ég hefði ekki fengið neitt sent, engin gylliboð, og langaði að minna hana á að ég hefði náð 85 í greindarvísitölu, tekið greindarpróf á ensku um árið og ekki skilið allt, misskilið sumt, svo ég næði sennilega 150 á íslensku. En hún trúði mér í fyrsta. Það er svolítið eins og að vinna í lottói að lenda í svona. Hjálpar mikið og minnkar áhyggjur.

 

Myndin sýnir bæði gemsann góða OG stórkostlegar strípur sem koma við sögu hér ögn neðar. 

 

 

Daginn eftir kíkti ég í heimabankann (með von í hjarta en fullvissu um að þetta gæti ekki staðist) og ... þetta var rétt, engar skrilljónir en samt, ég gæti keypt þessa íbúð (sem ég gat svo sem með herkjum þó) OG látið gera við það helsta sem kostar sennilega hátt í milljón. Ég var eiginlega búin að gefa íbúðina frá mér því það er ekkert gaman að flytja úr himnaríki í ja ... hreinsunareld. Sá fyrir mér litla kjallaraíbúð þar sem skordýr ættu greiðan aðgang og ég í sífelldu taugaáfalli ... það er talsverður munur á verði íbúða eftir hverfum, hvað þá milli landshluta. En í dag verður gert tilboð, akkúrat mánuði fyrir afmælið mitt, og svo er bara að krossa fingur að keðjan gangi upp sem fyrst. Þá er það Kópamaros, kannski með haustinu ef allt gengur vel.

 

Afsakið veðriðÞað varð allt vitlaust á Akranesi í gær ... sem betur fer er hárgreiðslustofan mín í útjaðri bæjarins, í verslanamiðstöð (þær eyðileggja miðbæi, segja sum) því elskan hún Anna Júlía gerði mig svo fína og sæta ... nú er ég með strípur, ég legg ekki meira á ykkur, hef ekki verið svona ljóshærð í áratugi. Guðrún vinkona kíkti óvænt á Skagann, og beið á meðan strípuathöfnin kláraðist, síðan fórum við að dingla okkur sem er svo gaman á Skaganum. Hún elskar Einarsbúð, eins og ég, þar gat ég keypt inn fyrir helgina ... og svo keypti hún sér fínan kjól í Bjargi, þeirri æðislega flottu og fínu fatabúð, skáhallt á móti hinni verslanamiðstöðinni (sem átti að verða nýi miðbærinn).

Ég þurfti eiginlega að endurhugsa minn gang eftir strípurnar, flytja eða ekki flytja. Ef ég lauma að þér 50 krónum, ertu þá til í að flytja í bæinn með stofuna, langaði mig að segja við hárgreiðsluséníið mitt en svo komst ég að því að hún fær kúnnana sína alls staðar að af landinu, ein kemur alla leið frá Patreksfirði ... hvað er þá einn Kópavogur á milli vina? Sjórinn minn hefur líka verið mjög flottur í sunnanáttinni og rokinu, verður sárt saknað. Þetta er vissulega draumasumarið mitt, ég þori að segja þetta af því að ég er alltaf með læst hjá mér, viftan hefur bara einu sinni farið í gang í allt sumar, EN ... ég hef samt innilega samúð með sóldýrkandi fólki sem er orðið eins og undanrenna á litinn, svo ég sker mig ekki lengur úr.

 

Næstum því hoppandi égMér líður rosalega vel af þessum háþrýstingslyfjum sem ég hef tekið í tólf daga, hugurinn miklu skarpari (sem kemur sér aldeilis vel við yfirlestur), líkaminn líka en ég bíð samt, ekki svo spennt, eftir því að ungdómsvígin falli hvert af öðru. Um leið og ein kýrin byrjar ... þið vitið.

 

Í byrjun júlí féll fyrsta vígið, ég fór á lyf í fyrsta sinn á ævinni (fyrir utan auðvitað verkjalyf, pensillín og slíkt). Í kjölfarið hljóta endajaxlarnir að fara að láta sjá sig ... og mögulega líka ellifjarsýnin sem hefur enn ekki látið á sér kræla. Já, ég er vinkonan sem var látin lesa textann aftan á vídeóspólunum í gamla daga, en ... reyndar sé ég illa frá mér þótt ég sé með gleraugu, og vinka bara öllum sem ég held að séu að veifa mér þótt ég sjái ekki hver þetta er eða hvort viðkomandi er bara að klóra sér í hausnum. Það getur örugglega valdið misskilningi í sumum tilfellum en ég sé eða veit það hvort eð er aldrei. Lítið breyst í áratugi, í hugum sumra er ég kannski skrítna konan sem er alltaf að veifa (reyna við manninn minn, reyna að húkka sér far ... o.s.frv.)

 

Facebook-spurningin 

Hvað gerum við sem við myndum aldrei viðurkenna fyrir öðrum?

 

Frekar mörg svör bárust, og það "vinsælasta" var:

 

- Pissa í sturtu!!!

 

Svo kom:

- Bora í nefið.

- Borða níu dósir af ravioli í einu.

- Prumpa á almannafæri. 

- Dæma annað fólk.

- Gleyma að nota tannþráð.

- Þefa úr eigin armkrikum.

- Drekka mjólk beint úr fernunni.

- Kíkja á nágrannana milli rifa á gardínunum.

 

Að sjálfsögðu er þetta erlend „rannsókn“ enda myndi ekki nokkur hræða búsett hér á landi gera neitt á borð við þetta ...   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 679
  • Frá upphafi: 1516029

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 557
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband