Fjögurra skóga ferð, óþekkt eða góður smekkur ...

Salatið góðaHeimaræktaða salatið var í matinn í kvöld og bragðaðist ótrúlega vel. Takk, elsku Hulda. Bætti við tómötum, agúrkum, harðsoðnum eggjum (12 mín. - þarf alltaf að gúgla) og ofnsteiktum amerískum kartöflum með olíu og hvítlaukssalti. Vinkona mín borðaði þessa dásemd með mér og samt verður nægur afgangur í hádeginu á morgun (í dag). Steingleymdi að kaupa avókadó, það hefði verið skrambi gott líka.

 

Vinkona mín hefur ferðast víða, bæði innanlands og utan og í kvöld sagði hún mér frá sniðugri fjögurra skóga gönguferð sem hún fer bráðum í og var hugsi yfir því að hún væri ekki þriggja skóga. Vinkona hennar ætti fínasta jeppa sem þær færu á sem væri frábært, og aðalvesenið væri að finna almennilegt nesti fyrir þessa daga sem ferðin tæi. Ég fór að telja í huganum ... Vaglaskógur, Kjarnaskógur, Hallormsstaðaskógur ... voru til fleiri skógar á landinu? Þetta yrði heilmikil keyrsla, fá suðvesturlandi og norður í skógana þar og svo austur, ef þetta  væru réttu skógarnir. Af hverju væri gott að hafa fínan jeppa til að komast á milli? Hvers konar ferðalög væru eiginlega til? Ég hata svo sem gönguferðir - og skógar kæmu allra síst til greina sem tilneydd gönguleið hjá mér ... og rétt áður en ég spurði nánar út í skógana sem átti að ganga í gegnum og keyra á milli þeirra á jeppum, áttaði ég mig á að hún meinti erfiðleikastig göngunnar, hún sagði skóa-. Skór, ekki skógar. Fjögurra skóa ferð er víst erfiðari en þriggja skóa ferð (þetta segir auðvitað ekkert um fjölda skóa sem fólk mun slíta í ferðinni) en það var sem sagt lýsingin á ferðinni, tímalengd, hækkun, ófærð og slíkt sem var ekki upp á neina fjóra skó, vildi gönguglaða vinkonan meina. Ég er dauð úr þreytu bara eftir spjallið um þessa gönguferð.

Hún á alveg milljón barnabörn og sýnir mikla snilli þegar hún gefur þeim afmælisgjafir ... þau fá ömmudag frá henni og í gær fór hún ásamt einu krúttinu sínu í dagsferð í bæinn, Húsdýragarðinn og tívolí, barnið réði því hvað borðað var og fannst dagurinn ansi hreint góður. Amman var að minnsta kosti alveg í skýjunum. Held að þetta sé sniðugasta afmælisgjöf sem ég hef heyrt um frá ömmu til barnabarns. Verja tíma með barninu og gera eitthvað sem því finnst skemmtilegt. Aldur barnsins skiptir auðvitað máli og þessi ferð passaði akkúrat fyrir þetta barn. Leikhúsferð eða bíóferð hentaði öðrum. Kannski tekur hún elsta barnabarnið með á Skálmaldartónleikana núna í nóvember (þrennir), svona ef það barn hefur góðan smekk fyrir tónlist ... það myndi ég sko gera. 

 

Arabíska dýrðinÁ morgun kemur vinkona mín úr næstu blokk, sú sem færði mér síðbúinn ofsagóðan hádegisverð í dag, sjá mynd, í heimsókn og lærir að búa til rabarbaragraut hér í himnaríki. Hún fékk glampa í augun þegar ég sagði henni að þetta væri gamaldags íslenskur matur og er virkilega spennt að smakka - og læra að búa hann til. Vona að hún falli fyrir honum. 

 

 

Mér finnst pínku asnalegt að þurfa nánast að éta ofan í mig að ég hafi andstyggð á gamaldags íslenskum mat ... en þá er ég auðvitað að tala um þverskorna ýsu, hræring, siginn fisk, súran þorramat og slíkt. Fátt er nefnilega betra en sumt í gamaldags flokknum, eins og pönnukökur, slátur (játs), hangikjöt, flatkökur og svo auðvitað rabarbaragrautur. Ég ræddi þetta ofaníát mitt nýlega við konu sem kom í heimsókn. Hún fór að segja mér frá móður sinni sem er komin yfir áttrætt og búsett á dvalarheimili, að starfsfólk þar hefði áhyggjur af því að hún borðaði ekki allan mat, t.d. sumar tegundir af fiski, en dóttirin veit fullvel hvers vegna, mamma hennar var einmitt pínd til að borða alls konar fiskhrylling í æsku sem hún hefur neitað að gera eftir að hún komst til vits og ára (lífið of stutt fyrir vondan mat). Hún eldaði fisk fyrir börn sín en var alltaf "búin að borða" þegar þau settust við matarborðið. Ég man reyndar ekki eftir því að mín eigin móðir hafi verið alveg brjáluð í gamaldags mat en hann var samt á boðstólum heima (og í sveitinni). Í gamla daga var "matvendni" (góður smekkur) skilgreind sem óþekkt.

 

Eftir allar þessar djörfu bækur sem hafa ofsótt mig undanfarið og ég hef kvartað yfir hér á blogginu, ákvað ég að færa mig frá þessum svokölluðu ástarsögum yfir í hinn enda rófsins, í eitthvað blóðugt og æsispennandi ... Byrjaði virkilega vongóð á bókinni Hefnd vélsagarmorðingjans en haldið ekki að aðalgaurinn þar, morðinginn sjálfur, hafi strax í öðrum kafla kynnst kynþokkafullum axarmorðingja ... Þegar fór að stefna í einhverja erótík á milli blóðbaðanna, í sirka fimmta kafla, varð mér allri lokið og fann mér aðra, gamla og góða bók um þróun fiskeldis í Téténíu síðustu hundrað árin, bara formálinn er tíu binda ritröð. Nú mega sko heyrnartólin detta úr sambandi hvar og hvenær sem er og það verður ekkert mál að sofna á kvöldin.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 679
  • Frá upphafi: 1516029

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 557
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband