Gleði og sorgir

Ameríkufólkið okkar og viðFrændfólkshittingur var í dag, ótrúlega skemmtilegur. Vissulega mættu ekki allir í ættinni (hefðum þurft Hörpu) en eins margir og rúmuðust í húsinu hennar systur minnar. Einn kom alla leið frá Hawaii ... Mitchell frændi, barnabarn Möggu, móðursystur minnar, sem átti heima nánast allt sitt líf í Kaliforníu, með Steina sínum.

Hluti móðurættarinnar mætti sem sagt, og við ræddum m.a. um hversu við söknuðum mávahlátursins, ættargaggsins sem heyrðist svo oft í boðum hjá kynslóðinni á undan okkur, mömmu og systkinum hennar. Við sem eftir sitjum/lifum hlæjum eiginlega allt of rólega. Allir búandi westan-megin hafs og hafa þar kosningarétt halda af alefli með Kamölu Harris. Vona að það dugi.

 

Þetta var svokallað Pálínuboð, þar sem allir komu með eitthvað. Ég fékk þá klikkuðu hugmynd, þar sem systir mín var hvort eð er að fara í Costco, að biðja hana að kaupa fyrir mína hönd kornflekskökurnar, munið ... og nú sit ég uppi með helminginn (35 kökur) og strax búin með tíu ... Þarna voru gómsætar flatkökur með hangikjöti, brauð með reyktum silungi, hnallþórur, grænmeti og hummus, pönnukökur, makkintoss, hjónabandssæla og margt fleira, sem sagt alvörupartí. Nokkrir lágu veikir heima með slæmt kvef (ekki covid), ég var bara heppin að vera á lokasentimetrunum í mínu kvefi svo ég komst. Tvær í fjölskyldunni eru kasóléttar og treystu sér ekki, önnur við það að eiga, hin er sett 12. ágúst, haldið ykkur. Ég sagði við væntanlegan föður að ég skyldi, af einskærri góðmennsku, aflétta þeirri ströngu og ófrávíkjanlegu hefð að barnið þyrfti að heita Guðríður eða Guðröður ef það fæddist á afmælisdaginn minn og hann viknaði af þakklæti.

 

Ég verð nú eiginlega að kvarta/væla örlítið. Hef lengi skammast, svona hálfpartinn, yfir skorti á pípurum, læknum, lögfræðingum og slíku nothæfu fólki í ættinni, frændum sem frænkum ... það er vissulega snilldarpípari ... sem býr á Siglufirði ... jú, jú, læknir, en hann býr á Hawaii í 16 klukkutíma flugfjarlægð frá Íslandi (hvað ef ég fæ flís í fingur eða illt í maga?). Ég ræddi þetta þó ekkert við hann. Samt er ég mjög þakklát fyrir alla sálfræðingina sem halda okkur öllum réttum megin við strikið ... ein þeirra smíðaði meira að segja flotta kattasandskassann í himnaríki (hver þarf smið?) ... og þroskaþjálfann sem er svo flinkur að setja saman Ikea-skápa (hver þarf smið?) ... jú, það væri flott að fá smið í fjölskylduna. Mikið vill alltaf meira. 

 

----    ----    ----    ----    ----    ----    ----   

Feðginin

 

Tveir menn sem ég þekkti hafa kvatt þetta jarðlíf á síðustu dögum, báðir á besta aldri. 

Annar var í miklu uppáhaldi sem strætóbílstjórinn minn, hitti oft á hann í ferðinni kl. 23 frá Mjódd þegar ég var að slóra eitthvað í Reykjavík. Eitt sinn sagði ég honum að mig langaði til að gera himnaríki upp og þá benti hann mér á að fá Trésmiðju Akraness, Didda og co, í verkiðþ Það reyndist vera eitt besta ráð sem mér hefur verið gefið; fagmennska, vandvirkni og heiðarleiki fram í fingurgóma. Ég frétti að hann hefði veikst, fengið krabbamein, og hef ekkert séð hann lengi, en átti alltaf von á að rekast á frábæra ljúfa Óla sem elskaði gott rokk eins og allt almennilegt fólk, á ferðinni á Skaganum en það varð því miður aldrei. Við vorum Facebook-vinir en hann var ekki sérlega virkur þar svo ekki var hægt að fylgjast með honum en ég vonaði innilega að hann yrði einn þeirra sem sigraðist á meininu og færi að keyra aftur strætó á milli Akraness og Reykjavíkur. 

 

Hinn var góður vinur sem ég umgekkst mikið um hríð (bara vinir), hann leikstýrði verki sem Skagaleikflokkurinn setti upp og í kringum þann tíma kynntumst við. Ég fór oft í leikhús með honum í bænum og í nokkur ferðalög. Hann starfaði aðallega sem leiðsögumaður og bauð mér með, fannst algjör óhæfa að ég hefði t.d. aldrei farið í norðurljósaferð og í raun skammarlega lítið ferðast um landið. Hann bauð mér m.a. í gullna hringinn og austur að Jökulsárlóni í ferð með erlendum ferðamönnum. Svo fórum við um Snæfellsnesið á hans bíl ásamt yngri dóttur hans, Ástu-Maríu, sem var búsett í Svíþjóð og lést þar fyrir örfáum árum, var öllum mikill harmdauði. Jakob (Jónsson) var í viðtali hjá mbl.is fyrir rúmri viku þar sem hann ræddi líf sitt, gleði og sorgir, og að allt væri á mikilli uppleið hjá honum. Hann var afskaplega góður sögumaður og ferðamenn sem voru svo heppnir að fá hann sem leiðsögumann, nutu þess greinilega, eins og ég, að fá að heyra sögurnar hans um landnámsmenn, söguleg eldgos og bara ýmsa merka atburði sem honum tókst að gera ljóslifandi í hugum okkar. Jakob varð bráðkvaddur á heimili sínu nýlega.

Myndin er af honum og dóttur hans, Ástu-Maríu, sem ég tók 28. mars 2015, í bráðskemmtilegu ferðalaginu um Snæfellsnes.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 680
  • Frá upphafi: 1516030

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 558
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband