Bitur reynsla brjóstgóðra og óvænt sálnaflakk á Suðurlandi

FerðalagiðFerðalagið okkar vinkvenna í dag var ótrúlega skemmtilegt þrátt fyrir mögulega hættulega kónguló, kurteislegar móðganir og eitt stykki erindisleysu. Við gerðum allt til að forðast Hveragerði, mætti halda það, ... engin meining að baki þó. Fórum Þrengslin og komum þannig Selfossi gjörsamlega á óvart þegar við mættum skyndilega inn í miðjan bæinn. Við byrjuðum á því að kíkja á markað ... úti í garði í rigningunni ... Tryggvagarði. Keypti þennan fína handáburð frá Eistlandi en veðrið var sannarlega ekki sniðugt fyrir útimarkað. Steikjandi sól og geitungar svo sem ekki heldur. Kýs frekar rigningu og svala en er pottþétt ein um það.

 

Aðalspenningurinn var nú samt að sýna vinkonu minni flottu handverksbúðina á milli apóteks og KFC, þarna á aðalgötunni, þar sem ég keypti Ferfuglinn minn fyrir nokkrum vikum, og hálsmenið með fleygri setningu úr Andrésblaði. Ætlunin var að kaupa nokkrar jólagjafir jafnvel ... En nei, það var lokað, fulltrúar búðarinnar víst í tjaldi í Tryggvagarði, sem við vorum nýkomnar úr. Sá enga fugla (úr eggjabökkum) neins staðar þar - við ákváðum að drekkja sorgum okkar í fiski dagsins á Kaffi krús. Þar ríkti sannarlega ekki túristaverðið ... eiginlega var of vel útilátið fyrir manneskju sem er með minna magamál eftir að stráksi flutti út. Ég misskildi bendingu (hefnd?) og hljóp niður til að pissa þar en óttasleginn kokkur lokaði öllum pottum á ljóshraða ... mér var nær að hafa sagt, góðlátlega samt í afgreiðslunni, að það ætti ekki að vera fimm sentimetra mjólkurfroða ofan á latte, bara aldrei ... Að öðru leyti var allt fullkomið á kaffi krús. Snyrtingin reyndist vera uppi á lofti.

 

Við heimsóttum líka uppáhaldsbúð vinkonunnar sem er fatabúð, heimilisbúð og íþróttafatabúð í splunkunýja miðbænum ... með langsamlega hreinlegustu snyrtingu sem ég hef séð á ferðum mínum um landið og útlönd líka. Sumir míga í saltan sjó, ég pissa þar sem ég get (ekki úti samt), enda með frekar lélega samkvæmisblöðru. Við kíktum líka í aðra búð þar sem mikið úrval var af fallegum peysum. Ég bað um að fá að máta tvær eða þrjár og fékk nokkrar á herðatré í réttri stærð, að mati afgreiðslukonunnar ... og var reyndar alls ekki mín stærð, heldur ansi víðar og óklæðilegar á mér. Brjóstgóðar konur lenda víst nokkuð oft í þessu, að vera álitnar miklu meiri feitabollur en þær eru ... sumar eru ekki einu sinni bollur. Ég fékk rétta stærð og var svo hrifin af sjálfri mér í réttu stærðinni að ég festi kaup á einni peysunni ... þær eru ansi hreint að verða sjúskaðar sumar mínar, svo gamlar að elstu menn muna ekki annað eins, mál til komið að gefa þær í einangrun húsa úti í heimi ... eða sneiða þær niður í ábreiður og gefa fátækum* ... (*stolið frá Auði Haralds). Konan indæla sagði þegar hún mætti með réttu stærðina: -Uss, maður á aldrei að klæða yfir sig. Veit ekki almennilega hvað það þýðir en er samt alveg sammála henni. Nú er ég orðin ögn minna móðguð út í konuna hjá Krabbameinsfélaginu (Rvík) um árið, þegar ég fór í brjóstaskimun og hún benti mér á "gult tjald" til að vefja utan um mig: „Taktu gulan slopp,“ sagði hún frekar góðlega. Sá guli komst alla vega tvisvar utan um mig og samkvæmt litakóða félagsins var gulur ansi mikið stærri en sá sem passaði mér. Svo voru skriflegar leiðbeiningar inni í sloppaklefanum, á íslensku, ensku og pólsku, svo ég skil ekki enn þessi óþörfu og móðgandi afskipti. Ég mundi líka eftir konunni í Lífstykkjabúðinni (aðrir eigendur þá) sem reyndi að selja mér brjóstahaldara, svona tvíburahúfu á alla vega fertuga stórgerða og svíradigra menn.

Ég úr klefanum: „Er eðlilegt að koma krepptum hnefa með í skálina, jafnvel tveimur hnefum?“ (Get verið kvikindisleg þegar mér misbýður). Konan, enn móðgaðri: „Konur bara kunna ekki að velja sér haldara í réttri stærð ...“ Ég endaði reyndar með einn í minni réttu stærð og steig ekki fæti inn fyrir dyr á búðinni fyrr en dásamleg Skagakona hafði eignast hana, sú hreinlega kann ekki að móðga kúnnana. En nóg af beiskjublöndnum minningum sem rifjuðust upp í dag ...

 

Rokk fyrir okkur Mosa... næsti viðkomustaður var Sólheimar í Grímsnesi. Alltaf gaman að koma þangað og ekki skemmir gott kaffi fyrir. Það var fullt út úr dyrum en vinkona mín mundi eftir að hafa séð að það væru alltaf tónleikar þarna á laugardögum. Eftir ítarlegt gúgl sáum við að Björn Thoroddsen gítarleikari var tónlistargaur dagsins.

„Ég held að hann hafi gert samning við Satan,“ sagði ég samsærislega við vinkonu mína.

„Bíddu nú við,“ sagði hún hissa.

„Ja, það eða hann geymir málverk af sér uppi á háalofti sem eldist á meðan hann er alltaf sami strákurinn.“

„Aha, Dorian Gray,“ sagði vinkonan alveg sammála.

 

Við kíktum á listaverkasýninguna í hægri hluta hússins á meðan við sendum vöffluétandi gestunum hugskeyti um að drífa sig nú ... sem tókst fyrir rest. Vöfflurnar voru búnar svo við sættum okkur við perutertusneið (með ljósum botni, sem er þúsund sinnum betri en brúnn botn). Ég sat þarna glöð, umkringd hressu fólki, ýmist með hunda eða börn. Ég get varla gert upp á milli krúttlegheitanna. Guðrún vinkona horfði stundum yfir öxlina á mér, ekki á stressandi máta, sem varð til þess að ég hélt kúlinu þegar hún fór að tala um mjög stóra kónguló fyrir aftan mig ...

Nú loksins trúi ég á sálna- og líkamsflakk, allt í einu, eins og ég hefði teleportað mig, var ég komin að útidyrunum. Vinkonan starði, þögn skall á, hundur ýlfraði, tunglið kom fram úr skýjunum. 

„Ég bíð úti,“ sagði ég stillilega.

„Já, en kóngulóin er langt frá-“

„Hvaða andskotans kónguló? Það er bara allt of heitt hérna inni,“ sagði ég ákveðinni röddu og gekk út í sumarið 2024 sem lét ekki að sér hæða nú í júlí frekar en í júní. Úlpan mín inni í bíl en hjartslátturinn sá til þess að mér var ekki kalt.

 

 

Móðir mín hefði í mínum sporum ekki komið framar í þetta póstnúmer (805), varla í þennan landshluta, svo mikil var kóngulóarhræðsla hennar - sem ég ólst upp við en læt auðvitað ekki trufla líf mitt. Ég stóð sallaróleg fyrir utan húsið - í ekkert svo mikilli rigningu.

 

Þarna um fimmleytið vorum við búnar að njóta alls sem Suðurland hafði upp á að bjóða og okkur langaði að sjá, og mál til komið að halda heim. Vinkona mín lifir þvílíkt á brúninni ... datt ekki í hug að fara fram hjá Hveragerði, frekar en í hádeginu, og beygði út á ansi ótroðnar slóðir*, eitthvað Grafnings, m.a. fram hjá Þingvallavatni, virkjun (Búrfells?), og einhvern veginn komumst við inn í Mosfellsdal, beygðum til hægri og svo beinustu leið á Skagann. Ég var komin heim einum og hálfum klukkutíma ÁÐUR en strætóinn minn fór frá Mjódd. Guðrún hefur mögulega mætt honum á leið sinni heim í Kópavoginn.

* Tek fram að ég hef lítið ferðast í gegnum tíðina, mamma alltaf bíllaus, svo tók ég við með bílleysið. Ólst ekki upp við sunnudagsbíltúra, eins og svo margir vinir mínir. Kom til Þingvalla í fyrsta sinn á þrítugsafmælinu fyrir nokkrum árum.

 

- - - - - - - - - 

Efri myndin er þrjár myndir, samansettar, ein sýnir stórskemmtilegar forsetamyndir af listaverkasýningunni á Sólheimum, önnur hvað það getur verið erfitt í strætó þegar kemur óvænt djarft atriði í spennubókinni sem er verið að hlusta á ... sú þriðja sýnir fína og góða matinn (steinbíturinn var sérstaklega góður) á Kaffi krús.

- - - - - - - - -

Neðri myndin er af okkur Mosa ... ég í tölvunni, hann að horfa á sjónvarpið, við bæði að njóta þess í tætlur að hlusta á Gildruna ... takk, Bræðslan, takk, RÚV.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 292
  • Sl. sólarhring: 459
  • Sl. viku: 1425
  • Frá upphafi: 1492175

Annað

  • Innlit í dag: 199
  • Innlit sl. viku: 1153
  • Gestir í dag: 192
  • IP-tölur í dag: 190

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Tunglið og taxi
  • Hnetusmjör
  • Aukapláss fyrir fætur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband