Skuggapenni skandalíserar og óglaðir sumarsinnar

Hvað er ég að lesaStundum þarf ekki að fara út fyrir hússins dyr til að næla sér í reynslu, bæði jákvæða og neikvæða, jafnvel átakanlega. Það nægir jafnvel að hlusta á þríleik á Storytel eftir þekktan sænskan kvenkynsrithöfund (CL) sem mjög sennilega lánaði nafn sitt í því skyni að hækka sölutölur ... ég held að frekar óreyndur skuggapenni hafi skrifað megnið.

Sko ... Sérlega gáfuð kona kynnist sérlega myndarlegum og metnaðarfullum manni og þau fara að vera saman. Nánast frá upphafi er konan heimavinnandi skraut sem bætir því miður á sig nokkrum aukakílóum sem fallegi maðurinn hennar líður fyrir, hann verður svo vondur að hann bannar henni að hugga litla barnið sem vaknar í miðju fínu kvöldverðarboði ... já, og svo fleygir hann mæðgunum út þegar okkar kona kemur að honum með annarri en það var nú samt bara tímaspursmál hvenær það myndi gerast. Einn ríkasti maður Svíþjóðar á allar eigurnar aleinn (kaupmáli til að róa hluthafana í fyrirtækinu) en klára og bláfátæka konan fyllist hefndarhug og hættir ekki fyrr en hún hefur unnið sig upp úr engu (byrjar á launuðum gönguferðum með hunda), keypt fyrirtæki fyrrum manns síns, rekið hann og komið honum síðan í fangelsi fyrir morð á dóttur þeirra sem er nú samt sprelllifandi í felum. Þetta á að vera valdeflandi femínískt lesefni (þriggja binda ritröð)!!! Hjákonan flytur inn, eignast son með fyrri eiginmanni aðal og virðist byrja að visna smám saman í þóknunarhlutverkinu, alveg eins og okkar kona gerði. Pabbi aðal fór í fangelsi á unglingsárum hennar, fyrir að drepa mömmu hennar sem er nú samt sprelllifandi úti á Ítalíu og passar sprelllifandi barnabarn sitt.

 

Svo hroðalega vill til að þeir sleppa úr fangelsinu ... saman, fyrrum eiginmaðurinn og ofbeldisfulli faðir hennar sem báðir ætla að drepa hana. Sá síðarnefndi varð svo ofboðslega klár allt í einu, áður drykkfelldur og latur bjáni, að hann náði að finna fyrrum eiginkonu sína og óséð barnabarnið í litlum bæ á Ítalíu þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni vitað í hvaða landi þær voru, honum tekst meira að segja að fjar-aftengja öryggiskerfið, það besta fáanlega, yfirbuga fjóra snjalla lífverði og myrða þá („ég vil aðeins þitt allra besta fólk til að vernda þær,“ sagði okkar kona við sænska öryggisfyrirtækið). Honum (fanga á flótta) tekst að auki að flytja ömmgurnar nauðugar frá Ítalíu til Svíþjóðar á æskuheimili aðal (hún hafði keypt það) sem stóð autt, heppilegt fyrir hefndarþorsta vonda pabbans! Aðalsöguhetjan varð að strjúka sjálf úr öryggisfangelsi til að geta bjargað dótturinni og múttu, en hún var dæmd fyrir morðið á fyrrum eiginmanni sínum þótt hálsnistið hennar hefði ekki fundist á vettvangi við fyrstu leit lögreglu, heldur síðar og komið fyrir þar, og var því dæmd á líkum (ef löggan hefði bara vitað hversu mörgum "líkum") ... Hún myrti hann reyndar en skildi ekkert eftir á vettvangi ... hún drap líka grimman bróður sinn og tvo vini hans á unglingsárunum, fyrsta alvörukærastann sinn sem las dagbókina hennar, gamlan (en vondan) mann á dvalarheimili ... ég er örugglega að gleyma einhverjum ...

 

Ókei, það sem hélt mér við efnið var að sagan var spennandi á köflum og ekkert annað sem beið mín, fyrr en í morgun. Ég gúglaði bækurnar og sá að höfundur (CL) hafði verið sökuð um að lána nafn sitt ... en harðneitað fyrir það, nýr stíll og allt það. Ég hef lesið yfir bækur þar sem persónur skipta um nöfn í miðri bók en að litli bróðir breytist í litlu systur er auðvitað ekkert annað en kraftaverk ... (er 95% viss um þetta, erfitt að spóla fram og til baka til að staðfesta). Svo benti ég systur minni á að lesa þessar bækur, þá var ég nýbyrjuð á númer tvö en ekki búin með allt eins og núna, sagðist reyndar vera pirruð á sumu en ... sorrí, systa, ég reyni að bæta þér þetta upp með stórum peningagjöfum, bifreiðum eða utanlandsferðum ...

 

Ég sé líka fyrir mér excel-skjal höfundar þar sem djörfum kynlífssenum er dreift mjög svo reglulega, ég beið "spennt" eftir að vita hvernig það yrði leyst þegar okkar kona var komin í fangelsi, en það var auðvitað annar fangi, bráðhugguleg kona sem gat meira að segja reddað titrara (gmg). Okkar kona tók skömmu áður fasteignasalann sinn á löpp eftir að hún hafði fróað sér í fína húsinu sem hún var að spá í að kaupa og keypti, og svo hina ýmsa þjóna á veitingahúsum, kom fram við þá eins og karlrembur koma stundum fram ... hún var sem sagt bara ruddaleg við ungu mennina og hvað er femínískt við að haga sér eins og karlarnir sem hún reynir að hefna sín á? Hmmm. Kynlíf er æði en vá, hvað það er hægt að gera það óspennandi í sumum bókum. Hún tók ungt par á löpp líka en ég var farin að hraðspóla yfir senurnar sem áttu að vera svo ögrandi um svo frjálsa konu sem vissi hvað hún vildi og tók það ... afsakið á meðan ég hraðspóla.

 

Haustlegt hvaðÁhugavert líka að vita að einhverjum (höfundi) þyki femínískt að hefna sín og drepa ... og að svona klár kona, sem hún átti að vera, skyldi svo kolfalla fyrir öðrum manni í miðbókinni og ætlaði að fara að búa með honum eftir aðeins mánuð, keypti fokdýrt úr handa honum (ég sé enn eftir því), hafði aðeins hans orð fyrir því að hann ætti klikkaða konu sem vildi ekki skilja við hann og héldi dætrunum frá honum ... sem var allt lygi. Allar þessar konur; ástkonan sem eignaðist son sem breyttist í dóttur, þessi klikkaða þarna og mun fleiri konur, tóku höndum saman og hjálpuðust að við að klekkja á þessum ömurlegu karlmönnum. Dæs. Hef hvergi séð hrós/umfjöllun um þessar bækur, eiginlega ekkert nema fréttagrein á íslensku, þar haft eftir Guardian að um meintan skuggapenna væri að ræða en þessar bækur seldust víst eins og heitar lummur í Svíþjóð. Ég bara svona vanþakklát. 

 

Strákar/karlar! Ég er femínisti en ekki vera hræddir, mér dettur ekki í hug að myrða ykkur! Þið sem segið VINAN eða DÖMUR MÍNAR, farið samt varlega.

 

Í morgun mætti ný bók í bókahilluna, frönsk, og ég er aðeins byrjuð að hlusta. Vatn á blómin, heitir hún og trú mín á lífið hefur strax vaxið til muna.

- - - - - - - - -

Það er enn júlí en sjáanleg veður-örvænting hefur gripið um sig á Facebook og víðar. Matgæðingar elda kjötsúpu og annað vetrarlegt og ég verð að viðurkenna að þótt ég kjósi svona svala miklu frekar en kæfandi hita (13°C plús) er þetta farið að bitna frekar leiðinlega á okkur kúl fólkinu, ég sé til dæmis fram á verri mætingu í afmælið mitt um miðjan ágúst, því allir verða annars staðar að elta sólina. Sjórinn minn er meira að segja frekar grár í dag (en flottur, alltaf flottur) ... eiginlega þrútið loft og þungur sjór. Þetta sparar vifturnar mínar og þar með rafmagn, alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar.

 

Sjó- og kisumynd: Haustlegt hvað? Sjáið bara hvað grasið er grænt, og fólkið sumarlegt sem situr við borð og drekkur kaffi fyrir aftan rauða bílinn vinstra megin ... en rykfallna viftan gæti útskýrt örvæntingu sumra. 

 

P.S. Það er svo sem ekkert að frétta í fasteignamálum, sumarfrí í fullum gangi hjá öllum og ég veit ekki neitt. Þannig að mögulega breytist nafnið á afmælisveislunni minni í afmælis- og skírnarveislu (nýja millinafninu þarf að fagna) en átti að vera afmælis-, skírnar- og kveðjuveisla. Þegar Sundabrautin kemur verður Akranes sennilega innlimað í höfuðborgina (ódýrara í strætó, húrra) og þá tekur því varla að flytja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 20
  • Sl. sólarhring: 512
  • Sl. viku: 1835
  • Frá upphafi: 1493239

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1489
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband