Leitin að rétta húsinu víkkuð út

Eitthvað svonaKlukkutíma eftir að ég hafði ýtt á vista og birta á síðasta bloggi þar sem óvissan í fasteignamálum var tíunduð, hringdi fasteignasalinn. Hún er komin úr fríi og búin að setja allt á fullt. Möguleg sala á einni íbúð í keðjunni og annar áhugasamur kaupandi að himnaríki á kantinum. Ég sem var búin að sameina Akranes og Reykjavík í huganum við tilkomu Sundabrautar, og að það tæki því ekki að flytja ...

 

Ég hafði einsett mér að finna þriggja herbergja íbúð, helst í Kópavogi (nálægt Hildu og kó) og var sem bíllaus lúser spennt fyrir að komast nálægt t.d. Hamraborginni (Katalinu!) þar sem stutt er í alla þjónustu (tattústofu, bókasafn, dýralækni, kaffihús, matvörubúð og fleira áríðandi) en ekki svo mikið framboð af réttum íbúðum. Tíminn hafði þó af mér skemmtilega íbúð þar sem nú er seld öðrum eftir að tilboð mitt rann út, en önnur girnileg var þó til staðar, hafði verið mánuðum saman á sölu og frekar hátt verðlögð. Ég skoðaði hana aftur nýlega (í vor í fyrra skiptið), eftir að verðið var lækkað, en af því að ég var með smið með mér og rósrauðu gleraugun skilin eftir heima, sá ég mér til skelfingar að það þyrfti að taka hana algjörlega í gegn ... Verðið allt of hátt miðað við það þrátt fyrir lækkun.

 

Svo ég fór að kíkja betur í kringum mig, en ekki fyrr en í gærkvöldi. Það kom eiginlega allt til greina nema vel gróið úthverfi - ég skrollaði öskrandi fram hjá öllum slíkum íbúðum, ég setti líka 2 herbergja íbúðir sem möguleika, hafði verið föst í ósk um stærri, og fullt af fínustu íbúðum komu upp, meira að segja frekar nýjar (takk, þétting byggðar). 

 

Í eitthvað svonaÉg fann eina í leitinni, ekki svo langt frá Hlemmi, hún er lítil en falleg, nýleg og með svalir sem snúa að götunni (og lífinu, ekki öðrum gluggum). Ég sá líka eina á Laugaveginum, hún var áður í útleigu til ferðamanna, en hún er kannski einum of miðsvæðis, svona upp á heimsóknir til mín, hvar gæti fólkið mitt lagt bifreiðum sínum? Það þarf að hugsa fyrir öllu. Ég sakna miðborgarinnar, það er mögulega í blóðinu, frumunum, að vera borgarstúlka, mamma ólst upp á Laugavegi 91. Unglingsárunum varði ég á Bollagötu, stutt niður í bæ, líka frekar stutt að burðast með 25 bækur frá bókasafninu við Þingholtsstræti. Svo bjó ég rétt fyrir ofan Hlemm, sirka 1982-1983, fín staðsetning og gott að hafa stutt í strætó, þurfti að skutlast með stráksa í pössun. Miðað við allar bæturnar sem sumt fólk hélt að ég fengi (þessar einstæðu mæður) hefði ég auðvitað getað tekið leigubíl á leikskólann og svo til baka í vinnuna, jafnvel þyrlu, og fengið mér styrjuhrogn í seinni morgunverð ... bara til að nota þessi gullhnífapör, áður en ég hélt til vinnu.

 

Myndirnar tengjast óbeint innihaldi þessa bloggs. Úr þessu í þetta væri jafnvel hægt að láta þær heita ... sjáum til.

 

Þetta kemur allt í ljós fyrr eða síðar. Mögulega fór ég í þetta brálaða fasteignastuð við að horfa á heimildamynd um forsetann okkar, bráðum fyrrverandi (snökt), á þungarokkshátíð í Þýskalandi ... svakalega skemmtileg mynd og ... ég sem hef ekki farið á útihátíð síðan ég veit ekki hvenær, er sjúk í að fara á Wacken, næsta ár eða þarnæsta. Ég Facebook-vingaðist við mann sem skipuleggur ferðirnar þangað og þar með er verkið hálfnað. Þangað til ... elsku Skálmöld núna 1. nóv. í Hörpu.          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 50
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 877
  • Frá upphafi: 1515972

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband