Faðmlag í ísbúð og brúsavél óskast

Enginn skjálftiEftir að stráksi flutti að heiman, í apríl, varð mataræðið nokkuð sérstakt - oft bara skyr og stöku tilbúinn réttur til að hita - og tilgangsleysið ríkti í þeim málum. Tveggja ára fínasta hollusta í boði Eldum rétt hafði gert mig kröfuharðari á hollt og gott svo eftir smátíma hélt ég áfram, nema panta bara tveggja daga skammt sem dugir í fjóra til fimm daga. Í kvöld eldaði ég mér auðveldan og fljótlegan pastarétt með hvítlauksbrauði ... afsakið formálann, mér hættir til að hafa allar mínar sögur allt of langar og stundum neimdroppa ég óþarflega, svo ég kem illa út en ... þar sem ég sat og naut þess að borða aðeins of lítið soðið pastað (al dente grande) fann ég snöggan hristing, sennilega jarðskjálfta, þann fyrsta sem ég hef fundið fyrir síðan 10. nóvember í fyrra, þegar ljósmynd datt úr hillu hjá mér og ramminn brotnaði (Ljósmyndin var af Kór Langholtskirkju að túra í Flórens 1985).

Þetta stenst nú ekki, hugsaði ég greindarlega, við bíðum eftir eldgosi, ekki jarðskjálfum. Hristi þetta af mér sem rugl og ímyndun. Tíu sekúndum síðar heyrðist bling í gemsanum mínum. Ég stóð upp og sótti hann. 

„Jarðskjálfti?“ spurði vinkona mín úr Kópavogi.

„Já, ég fann eitthvað,“ svaraði ég.

Við ræddum þetta á Messenger, ég sagði henni að ég fyndi sjaldnast skjálfta frá Reykjanesskaga nema þeir væru fjórir eða meira. Þessi hefði verið örstuttur en samt finnanlegur. Ekki ein einasta hræða á Facebook virtist hafa fundið skjálftann, yfirleitt hikar fólk ekki við að tjá sig um skjálfta þar. 

Hálftíma seinna mundi ég eftir þessu og kíkti á vedur.is. Ef ég fæ ekki tölulega upplifun af atburðum, líður mér illa. Þar var nákvæmlega ekkert að finna um skjálfta yfir þrjá, nær fjórum sem kona í Kópavogi og kona á Akranesi fundu fyrir á sama tíma ... Ég spurði einka-jarðskjálfta- og eldgosahópinn minn klára sem veit þúsund sinnum meira en ég um jarðfræði og það allt. Ekkert þeirra hafði orðið vart við neitt um hálfáttaleytið í kvöld. Mjög, mjög dularfullt. Mér líður eins og geimveru, alla vega á annarri tíðni, mögulega með heilanotkun á hærra stigi en sótsvartur almúginn (sjá ýmsar skerí bíómyndir) ... ásamt vinkonu minni (líkur sækir líkan heim) ... Þetta segir mér að svona næmar konur ættu betur heima á Veðurstofu Íslands en á öllum öðrum vinnustöðum, næmur rass alltaf betri en einhverjir skjálftamælar. Svo er vinkonan ansi klár að prjóna og gæti eflaust fengið uppskriftir að öllum flottu peysunum sem eldgosafræðingarnir okkar sýna reglulega í sjónvarpinu, og skúbbað í Handóðum prjónurum (vinsæll fb-hópur). Ég hef alltaf verið veik fyrir veðurfræðingum og myndi vera óð í að tala við þá um til dæmis gott kaffi, spennandi bækur, nýjustu uppátæki kattanna minna, götuheiti sem ergja útlendinga (Rósarimi, Kalkofnsvegur) því fátt finnst veðurfræðingum leiðinlegra, grunar mig, en að tala sífellt um veðrið - sem er uppáhald Íslendinga.  

 

sjalfsafgreidslaÉg mun hugleiða vandlega hvort ég nenni að kaupa mat í Prís, nýjustu lágvöruversluninni sem opnar í Smáratorgi í ágúst ... Þar verður bara tekið við kortum sem greiðslumáta og fólk á að afgreiða sig sjálft ... sem er léleg þjónusta, að mínu mati. Oft er þetta auglýst sem tækniframfarir, en framfarir fyrir hvern þá? Sennilega bara fínt fyrir þá sem eru á hraðferð og þurfa ekki nótu á kennitölu. Walmart úti í USA hætti með sjálfsafgreiðslu vegna gríðarlega mikils þjófnaðar, ágóðinn af starfsfólkssparnaði hvarf algjörlega og rúmlega það. Skil ögn betur þetta með reiðufé, hver vill leyfa mafíuglæpónum að þvætta beinharða peninga í búðinni sinni? Hmmm. Þegar Bónus hóf reksturinn (já, ég er orðin þetta gömul) var ekki tekið við kortum, bara reiðufé. Svo gafst Bónus upp á því og viðskiptin blómstuðu enn meira. Dominos vill að fólk panti í gegnum app og gerir önnur fjarkaup (heimsent) ómöguleg, svo þau geta bara hoppað upp í óliðlegheitin í sér. Ég hef alla vega ekki keypt pítsu af þeim síðan í kóvíd þegar fyrirtækið neitaði að leyfa mér þrælsprittaðri og með grímu að borga með korti í posa hjá sendlinum (eins og Galito gerði hiklaust) og vísaði til persónuverndar þegar ég mátti ekki gefa upp kortanúmerið mitt í síma. Ég er kannski gamall þrjóskupúki, svo ég hætti bara að versla við Dominos.

 

GluggakettirÉg ætla að skreppa í stutta bústaðarferð um komandi helgi, og elsku dásamlega Svitlana mín, kattahvíslari frá Úkraínu, ætlar að flytja inn í himnaríki, eða því sem næst, kettirnir fá svo mikla ást og góða umönnun frá henni og syninum sem þeir dá líka, að þeir verða nánast spældir þegar ég kem aftur heim. Það væri alveg eftir öllu að það byrjaði eldgos akkúrat á meðan og ég ekki á vaktinni ... ekki í fyrsta sinn. Svitlana lofaði mér því að taka myndir ef svo færi. Svo er ég með ýmsar vefmyndavélar aðgengilegar í gemsanum.

 

Keli (14) varð frekar skyndilega gigtarsjúklingur í fyrra, hætti að geta stokkið upp á bekki og gluggakistur, reyndi án árangurs um tíma og er þakklátur fyrir lága stóla og kolla við mikilvæga staði eins og skrifborðið mitt sem hann notar til að komast út í glugga en áhyggjur mínar snerust mest um  það hvað hann grenntist hratt. Ég fékk góð ráð hjá dýralækninum í Kópavogi, verkjalyf næst þegar ég keypti urinary-matinn ofan í hann (sem hinir verða að fá líka). Svo datt mér í hug að gefa Kela oftar blautmat (Royal Canin, eins og þurrmaturinn) en svo prófaði ég Hill-eitthvað-matinn þar sem er enn meiri sósa og þá fór Keli heldur betur að braggast. Hann verður eflaust aldrei feitur, hann hefur aldrei verið það, en er ekki lengur svona rosalega horaður. Kettir sem finna til hætta að borða ... sagði dýralæknirinn, Keli borðaði meira eftir að hann fékk verkjalyfin og núna enn meira sem gleður mig mjög. Hinir njóta góðs af. Krummi (13) horfir mjög sár á mig ef hann fær ekki smávegis blautmat og Mosi (10) hreinlega veinar en hann hefur alltaf verið dramatískur. Þeir tveir eru ágætlega vænir á skrokkinn. Það sem heldur Mosa frá algjörri offitu er að þeir Keli (gigtarsjúklingur) leika sér oft og hlaupa þá eins og brjálæðingar um himnaríki ... Elsku grannarnir á hæðinni fyrir neðan, sverja að þeir heyri aldrei neitt hljóð úr himnaríki, ekki einu sinni Skálmöld á hæsta, en ég ryksuga stundum pallinn þeirra í þakklætisskyni fyrir að vera svona góðir og þolinmóðir nágrannar.

 

Það er mikil eftirsjá að Guðna Th. forseta og Elizu Reid. Þau eru alveg einstök og Guðni sérlega góður forseti. Ég hef fulla trú á því að nýi forsetinn okkar, hún Halla, eigi eftir að standa sig í starfi. Ég kaus reyndar eina frambjóðandann sem faðmaði mig og það í ísbúð á Akranesi, svo ég er til í hvað sem er á meðan ég fæ eitt faðmlag en það verður að vera í ísbúð. Fannst þau mörg mjög frambærileg en vildi ekki ógilda kjörseðilinn með að kjósa fleiri en einn. Við stráksi kolféllum fyrir Jóni Gnarr, auðvitað, húmorinn er það sem mestu máli skiptir í lífinu, fyrir utan tölur, auðvitað. Bílasalinn var klaufskur en ég nenni ekki að hneykslast á því, líklega orðin svo meyr af því að hlusta á bókina Vatn á blómin eftir Valérie Perrin í frábærri þýðingu Kristínar Jónsdóttur Parísardömu. Þetta er bók sem er svo margt; hrífandi, svo sorgleg að það er hægt að hágráta yfir henni (ég gerði það), óvænt og margslungin, og sögur margra sagðar.

BrúsavélÉg næ að klára hana í kvöld og svo tekur bara tómið og tilgangsleysið við, eða þar til 2. ágúst rennur upp og bókin Vistaskipti dettur í bókahilluna. Mikið vona ég að þetta sé ekki enn ein grafíska kynlífsbókin en miðað við fyrri bók höfundar, Meðleigjandann, er þetta bara eitthvað krúttlegt. Svo þann sjöunda ágúst kemur síðasta bókin um systurnar sjö og fjallar um pabba þeirra, heitir Atlas: Saga Pa Salt. Ég á vinkonu sem hefur margoft reynt að detta ofan í þessar bækur en getur það ekki ... ég féll strax fyrir þeim, og ef ég dæmi bækur eftir dáleiðsluhæfileikum þeirra til að fara viljandi að brjóta saman þvott þá fá þessar bækur hæstu einkunn hjá mér, alveg fimm þvottakörfur. Ef ég hraða ekki lestrinum upp í 1,2 sem ég geri oft, mun sú nýja duga mér í 27 klukkutíma og 26 mínútur. Veisla, krakkar mínir. Talandi um veislu ... vona að vini og vandamenn verði ekki í ógeðshita í útlöndum eða óþægilegri útilegu þann 12. ágúst, þá verður haldin vegleg skírnarveisla með afmælisívafi og mögulega kveðjutengingu ef íbúðamál ganga upp ... reyni að stofna einhvers konar afmælisboðssíðu en bara helmingurinn tekur eftir slíkri boðssíðu, er reynsla mín, vonandi sá helmingur sem les þetta blogg ... og annað: á einhver stóra kaffikönnu, svona brúsavél, til að lána mér, þyrfti þá tvo til þrjá brúsa líka ... sjá mynd.

 

Væntanlegar á Storytel eru bækur Colins Dexters um Morse og einnig bækur Kens Follett, Lykillinn að Rebekku og Nálarauga ... minnir að þær hafi komið út í öfugri röð á sínum tíma. Nálarauga var æði, fannst mér, man ekki eftir Rebekku. Virkilega gaman að rifja upp gamlar bækur, sumar hafa elst ágætlega, vonandi þessar líka. Svo skilst mér á Bókagulli á Facebook að ég hafi misst af miklu með að hafa ekki hlustað á bækur eftir Torill Thorup, eða bókaflokkinn hennar; Skuggar fortíðar, Rætur, Vængstýfð ... og svo Í þjónustu hins illa sem kemur ekki fyrr en 9. okt., sá langi biðtími angrar suma spennta lesendur. Kannski prófa ég ... en ekki fyrr en í október.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 50
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 877
  • Frá upphafi: 1515972

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband