Pönnukökur mikilvægari en fjölskyldan ...eða hvað ...

TransumræðanSamfélagsmiðlar voru ótrúlegir í gær, margir hneykslaðir á því að trans kona hafi fengið að boxa við konu. Þetta var leiðrétt, enda er þetta ekki trans kona (reyndar tekur hormónameðferð trans kvenna frá þeim allt líkamlegt forskot, að mig minnir, á átta mánuðum). Konan, sem ýmsir sögðu hreinlega vera karl, hefur tapað í níu bardögum gegn konum í sínum þyngdarflokki. Þau allra æstustu neita að trúa sannleikanum, segja að þetta sé fölsun og lygi. Auðvitað fúlt ef eitthvað sem maður vill trúa reynist ekki vera satt. Mér datt satt að segja ekki í hug að fordómarnir út í trans fólk væru svona útbreiddir og kannski gott að það kom upp á yfirborðið svo hægt verði að gera eitthvað í því. 

Ég er ógeðslega svekkt út í J.K. Rowling, hún má hafa sínar skoðanir en af því að hún er hún, hefur hún miklu, miklu sterkari rödd en flest annað fólk ... og sama má segja um Helga vararíkis, það halda ábyggilega allir (ég geri það svo sannarlega) með honum í baráttunni við siðlausa glæpamanninn, en Helgi, í þessu starfi, ætti ekki að heimfæra brot eins manns yfir á hóp fólks sem hefur nákvæmlega ekkert með málið að gera, hann hvetur bara til fordóma með því. Í hans embætti og öðrum álíka verður að fara varlega og alltaf sýna hlutleysi.

 

HimnaríkisfrúinHnefaleikakonan alsírska er kannski ekki sérlega kvenleg í útliti á þessum myndum sem hafa fylgt "fréttunum", miðað við staðalímyndina, heldur er hún hávaxin og kraftaleg. Sumir segja að með aldrinum fari kynin að líkjast hvert öðru, konur verði karlalegri, karlar konulegri. Fólk segir við mig að ég sé alveg eins og pabbi, á meðan Hilda systir er oft sögð líkjast mömmu sífellt meira?

 

Aðalfréttin alls staðar í gær var innsetning Höllu Tómasdóttur í embætti forseta Íslands, bein útsending og allt, flott viðtal við hana um kvöldið, en af því að "fréttin" um það var ekki fyrsta frétt RÚV klukkan níu í gærkvöldi, fauk í einhverja og sumir segja að RÚV hafi viljað Katrínu í embætti forseta og sé í fýlu út af því að Halla hreppti hnossið ... Dæs!

 

Mér finnst reyndar sumir fjölmiðlar gera út á að setja fram efni til þess eingöngu að æsa upp fólk. Einu sinni sá ég fb-vinkonu deila enskri æsifrétt um Subway, að múslimar væru svo frekir í vissu hverfi í ákveðinni borg á Englandi, minnir að það hafi ekki verið London, að sumir staðirnir væru hættir að bjóða upp á svínakjöt, þyrðu það hreinlega ekki. Ég gúglaði og fann að þetta var satt upp að vissu marki ... Í hverfi þar sem margir múslimar búa ákvað markaðsfólk hjá Subway að gera þetta og það sló í gegn. Allir unnu - nema auðvitað rasistarnir.

 

Mikilvægara en fjölskyldanÞað eru sennilega svona falsfréttir sem Facebook reynir af öllu afli að forðast og blokka, sem bitnar á fleirum, t.d. þannig að ég get stundum ekki deilt blogginu mínu, saklausa sæta Moggablogginu mínu, ekki sett beint hlekk á það á fb-síðuna mína, heldur þarf ég stundum að skrifa eitthvað og setja svo hlekkinn í fyrsta komment, eins og fréttamiðlar gera reyndar gjarnan vegna þessa vandamáls.

 

 

Jú, ég plata stundum og ýki á blogginu mínu, það tengist aðallega meintum ástamálum mínum, og Facebook kannski að bregðast við því?!? Mikið vildi ég að það væri tekið jafnalvarlega á alvörufalsfréttum sem dynja stöðugt á okkur, það er jú reynt að klaga og kæra þær, en fb neitar samt að fjarlægja. Eða gervimennið sem sér engan mun á gríni og alvöru og aðvaraði mig alvarlega um daginn vegna myndbands sem ég birti á fb af því hvernig loftsteinn rakst á tunglið (svo greinilega tilbúningur) ... og ég deildi með orðum um að þannig hefðu risaeðlurnar á tunglinu dáið út ... Mér var hótað öllu illu og ég eyddi færslunni.

 

Það er svo miklu skemmtilegra að blogga um eitthvað allt annað en mál málanna ... en ég gat ekki stillt mig núna, þetta hefur verið svo yfirgengilegt og erfitt að fylgjast með þessu.

 

Mynd 3: Þetta er kannski ekki beint falsfrétt en þetta eru afskaplega villandi skilaboð ... ég var farin að sjá fyrir mér að ef ég gæti ekki flutt í bæinn þar sem vel rúmlega helftin af ættingjum, vinum og öðrum vandamönnum býr, ætlaði ég að snúa mér að pönnukökum. Með tímanum hefði ég eðlilega ekki komist út úr himnaríki svo það hefði verið sjálfhætt við flutninga.   

 

KattahvíslariKattahvíslarinn minn knái mætir í dag svo við stráksi látum vaða í bæinn á eftir með strætó, á föstudegi um verslunarmannahelgi, og ef það er ekki hetjudáð, veit ég ekki hvað. Það gæti seinkað okkur eitthvað en ekki mikið, ef ég miða við síðustu átján ár - hef sennilega setið í strætó fímmtán föstudaga um versló, svo ég hef reynsluna. Veðurspáin er ekki sérlega "góð" fyrir helgina (rok og rigning víða) en veður er eins og aldur, bara tala (vindstig, hitastig, hviðustig, háþrýstingur, millibör og hvað sem þetta heitir allt).

 

Ég kann ekki að blogga í gegnum gemsann þannig að ég safna bara saman ævintýrum af Suðurlandi og flyt sérvaldar sögur þaðan á bloggi í helgarlok. Ég er vissulega ekki mikið fyrir sumarbústaðarferðir, eins og allir sem þekkja mig vita, finnst bara vesen að færa mig á milli staða og gera mig jafnvel að fæðuuppsprettu lúsmýs ... EN það getur ekki orðið annað en gaman með því skemmtilega úrvals- og uppáhaldsfólki sem ég fer með. Lítil þörfin fyrir hvíld í sveitasælu skýrist kannski af því að mér finnst ég svo nálægt náttúrunni hvern dag hér við tölvuna í himnaríki, þar sem ég hef sjóinn minn fallega, á kvöldin ljósin í borginni ... og stöku eldgos á Reykjanesskaga.

 

Óska ykkur öllum gleðilegrar, skemmtilegrar og slysalausrar verslunarmannahelgar. Og verið dugleg að hleypa strætó nr. 57 inn á þjóðveginn á Kjalarnesi í dag, elskurnar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 50
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 877
  • Frá upphafi: 1515972

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband