Svikin af bók, tertupælingar og góð grannaskipti

FlamingoFlamingo er svakalega góður veitingastaður hér á Akranesi, og við stráksi fórum þangað í gær! Verði er stillt í hóf svo það er hægt að kíkja þangað oftar en á ýmsa aðra staði. Ég fæ mér yfirleitt rétt nr. 10, af númeruðum réttum fyrir ofan afgreiðsluborðið, kjúkling með hrísgrjónum, bita af sætri kartöflu og salati (mæli hástöfum með). Stráksi fær sér það sama, eftir að ég kom honum upp á bragðið. Svo í kvöld var það bara mexíkósk ýsa, að hætti hússins (Eldum rétt), rest hituð upp á morgun. Vinkona mín kíkti í heimsókn fyrr í dag og dáðist að mér fyrir að nenna að elda handa mér einni en það er æði að vera með hollar fjórar máltíðir í viku (tveir réttir fyrir tvo á viku, elda og hita upp til skiptis), annars færi ég bara út í endalaust snarl. Án þess að vera í megrun er ég óðum að verða eins og fyrir hætt-að-reykja gjörninginn góða 2020, finn það best á sífellt minna magni sem ég þarf af sturtusápu ... 

 

afmaeli_2008_005Mér datt nákvæmlega ekkert í hug sem áletrun á afmælistertuna sem var pöntuð í dag. Viss fjandi kom með góðar hugmyndir að vanda en ég sá að ég myndi svekkja og móðga miklu fleiri en sjálfa mig ef ég færi eftir þeim. Kannski breytist maður í heigul með árunum. Mig langaði eitt augnablik í smáblekkingu: Allt er fertugum fært (Er Gurrí ekki eldri? myndu gestir hugsa en ekki þora að segja) en það er svo klisjulegt. Sjaldan fellur eggið langt frá eikinni, væri snjallt (fékk þá tillögu eitt árið frá vinkonu) ef ég væri eggjabóndi eða í trjárækt ... kattahvíslarinn minn er vissulega skógfræðingur en langsótt samt. 

Tertan verður alla vega með jarðarberjafrómas, sem er huggun í sjálfu sér. Það var ansi fátt í gangi sem bauð upp á Ég-fékk-hana-ódýrt ... eins og Til hamingju með nýja starfið, Runólfur (fyrir löngu) svo kom Láttu þér batna, elsku Þrúða - Dofri Hvannberg, til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið, 10. ágúst ... Myndin sýnir að bakarar geta gert mistök ... 12. ágúst er alþjóðlegur dagur UNGA fólksins!

 

Vinkona mín, amman snjalla með sniðugustu gjafir í heimi handa barnabörnunum, bauð einum stráknum í kajaksiglingu í flottri ævintýraferð nýlega, hann var alsæll á eftir. Ömmur mínar voru æði, en þeim hefði varla þótt viðeigandi að príla upp um fjöll og firnindi með mér. Önnur þeirra hafði gaman af því að spila Manna og lesa bækur eftir Elínborgu Lárusdóttur, man ég. Hefði viljað kynnast þeim báðum svo miklu betur.      

 

Atlas Pa Salt„Þú lifir ótrúlega spennandi lífi í gegnum Storytel,“ fékk ég að heyra um daginn ... þá var mjög nýlegt (22 tíma) næturævintýri mitt ekki meðtalið. En á miðnætti 6. að hoppa yfir í 7. ágúst opnaðist fyrir bókina Atlas, saga Pa Salt, þá síðustu í flokknum um systurnar sjö. Ég hafði hlakkað til, eins og fleiri aðdáendur bókanna. Ég byrjaði auðvitað að hlusta þarna strax á miðnætti og líka eitthvað í gærdag yfir þvottastandi og einnig leti, og svo sl. nótt þegar ég lét í sakleysi mínu bókina malla til að svæfa mig, með stillt á að lestur hætti eftir hálftíma. Allt í einu, eftir kannski korter og í miðri setningu, gerðist eitthvað, lesturinn þagnaði og eldri bók úr flokknum birtist á skjánum (ég reis upp úr kómanu og kíkti) eins og hún væri ólesin ... Atlas-bókin hvarf en með fádæma snilli fann ég út að útkomu hennar hafði verið frestað til 28. ágúst, en gleymst að sleppa því að opna fyrir hlustun þann 7. ágúst. Hver sýnir svona grimmd af sér? Hvernig á ég að gera afmælisfínt í himnaríki ef ég hef ekki bók sem setur mig á sjálfstýringu? Hver er ábyrgð Storytel í svona málum? Skaðabætur? Háar? Kemur teymi sem gerir allt extra-fínt hjá sviknum lesendum? Þetta var ekki martröð, ég kíkti í morgun. Vissulega er þetta 27 klukkutíma löng bók og rúmlega það, og tekur sinn tíma að lesa hana inn ... en alveg sama. Fresta ég afmælinu? Nei, ég býð heldur ekki fólki og leyfi því að smakka eina brauðtertusneið og rek það svo út, eins og tíðkast greinilega að gera á sumum bæjum ... Átakanleg myndin sýnir að enn eru 20 klst. eftir af bókinni sem verður ekki aðgengileg fyrr en í lok ágúst!!!

 

Facebook-minningar dagsins:

Fyrir 14 árum, og enn á sama máli:

„Er sérlega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa skipt út nágrönnum árið 2006 og fengið máva í stað geitunga.“

 

Fyrir 15 árum. Ábyggilega Lærlingurinn:

„Donald Trump var með í verðlaun fyrir sigurlið þáttarins heimsókn á Playboy-setrið þar sem margar af fallegustu konum heims ganga um hálfberar, sagði hann. Konurnar í sigurliðinu urðu örugglega rosaglaðar, enda stórkostlegur heiður að hitta Hugh Hefner og kærusturnar hans; Bridget, Holly og Kendru. Jamm.“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 49
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 876
  • Frá upphafi: 1515971

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 732
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir
  • Mikið labb

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband