Stressandi veðurspár - gagnsókn virkjuð

vedur.is og yr.no í dagVeðrið á mánudaginn næstkomandi hefur valdið mér ómældum áhyggjum um hríð. Undanfarna daga hef ég horft með vantrú og hryllingi á spána á yr.no og séð bæði sól og 11-12 gráðu hita sem táknar óbærilegheit í himnaríki, að minnsta kosti fyrir tertur og afmælisbarn. En ... óskir mínar, vonir og þrár, eru ótrúlega oft teknar til greina, hef ég upplifað í gegnum tíðina, og bæði í dag og gær er eins og yr-ið, norska veðursíðan, vilji að ég hljóti draumaveðrið mitt, eða smávegis norðlægan vind og smárigningu og þar með verður lífvænlegt fyrir gesti og gangandi.

 

 

Í fyrra var 12. ágúst næstheitasti dagur ársins, sól og steikjandi hiti, mögulega í kringum 16 eða 17 gráður. Hitinn gerir marga kærulausa og Helga Olivers lagði frá sér disk með brauðtertu á svalahandriðið ... sem Jónatan IX, sérlegur mávur himnaríkis, leit á sem boð og fékk sér, auðvitað. Tertur, hvort sem eru brauðkyns eða marens, smakkast ekkert ógurlega vel með "svita" síns andlits ... Íslenska veðurstofan er orðin nokkuð sammála þeirri norsku, nema engin bleyta enn sem komið er. Ef þetta tekur U-beygju að hita og mollu hef ég þó ýmis ráð í pokahorninu, eins og að setja litla hrífu með gaddana upp út í glugga (það hefur virkað) ... og jafnvel regndans. Veit einhver hvaða lög eru best til að dansa við? Luftgitar er alltaf í uppáhaldi sem danslag en þarf ekki textinn að passa við galdur?

 

 

Vifta um hálsinnEn, ég hef líka lært ýmislegt, varð sennilega fullnuma í fyrra, til að vera ekki í svitabaði: Til dæmis að fara í sturtu um morguninn (ekki t.d. kl. 14) og ekkert endilega hafa vatnið í sturtunni mjög heitt, já, og drekka kalt vatn annað slagið, ekki bara kaffi, hlaupa alls ekki of hratt til dyra þegar bjallan hringir (uppvakningagönguhraði fínn) OG ... það besta: nota jólagjöfina (jól, 2023) frá Hildu systur, viftu sem maður setur utan um hálsinn á sér og hún blæs köldu lofti. Ég hef prófað viftuna mína, hún virkar en ég gæti þurft að hlaða hana fyrir mánudaginn, bara til öryggis, ef sólin dirfist að láta sjá sig á milli kl. 15 og 20.

 

 

Ég hefði aldrei vogað mér að viðurkenna ósk mína um smárok og regn ef um helgi hefði verið að ræða, það hefðu verið talin landráð og ég réttdræp. Í fyrra börðust bæði Gleðigangan og Fiskidagurinn mikli við mig um gesti.

Staðalbúnaður vegna afmælisMér tókst að láta leggja Fiskidaginn niður, sjúkk, og í dag, 10. ágúst, daginn sem ég hefði átt að fæðast, skv. lækni mömmu, og á afmælisdegi Guðríðar ömmu og Ians Anderson úr Jethro Tull, hef ég verið að fylgjast með gleðigöngunni í gegnum livefromiceland.is, Reykjavíkurtjörn. Einn af kostunum við að flytja í bæinn er að geta farið í eigin persónu í bæinn á svona dögum og verið með.

Neðsta myndin er einmitt frá Gleðigöngunni í ár, rammstolin af snappi Ingu vinkonu.

 

Himnaríki er orðið afmælisfínt - það verða innkaup á morgun (önnur sýrlenska fjölskyldan mín heimtar að skutla mér í búð og hjálpa mér að bera allt upp, svo kemur litháíska vinkonan færandi hendi með nýbakaða bestu marensrúllutertu heims, sem verður hópi kræsinga. Er ekki fjölmenningin dásamleg?) Hilda frá Íslandi hjálpar mér síðan með rest og kemur færandi hendi með ýmislegt gott, svo verið ekki að þvælast mikið að óþarfa á Kjalarnesinu upp úr hádegi á mánudaginn, elskurnar.

 

Gleði 2024... afsakið hvað ég tala mikið um afmælið ... en þetta er eina partíið sem ég held á ári, fyrir utan mjög, mjög lítið hangikjötspartí á jóladag. Þess á milli ríkja leiðindin ein svo ekki nema von að þetta sé ofarlega í huga ... fyrir utan auðvitað komandi eldgos. Fékk skilaboð áðan: „Gerir þú þér grein fyrir því að það er fræðilegur möguleiki á því að þú fáir bæði Kötlu- og Sundhnúkagígagos í afmælisgjöf?“

 

Talandi um afmælisgjafir: Frændi minn átti von á barni á afmælisdaginn minn, en litli krúttmolinn valdi að koma 7. ágúst sl.. Flott hjá honum og höfðingleg ákvörðun, það er nógu erfitt fyrir mig að eiga afmæli sama dag og Ásdís Rán og Sveinn Andri ... já, og Krossinn. Hvar er samkeppniseftirlitið í svona tilfellum? 

 

Með allan þennan lærdóm og tæki til hitalækkunar á heimili í farteskinu gæti ég meira að segja íhugað að vera förðuð sem ég hef ekki getað veitt mér vegna hita. Alltaf notalegt að heyra aðdáunaröskur vina og vandamanna. Ég er orðin svo vön kulda heima hjá mér (viljandi, lána hlýjar peysur og teppi í sumum tilfellum) að það sem langflestum finnst notalegur stofuhiti finnst mér ansi hreint ólífvænlegt. Vinafólk mitt frá heitari löndum veit að það þarf helst að hafa úti- og svaladyr opnar ef ég á að haldast innandyra í heimsókn hjá því.

 

Ég hef sagt frá þessu áður, en ég var stödd í Búdapest í október 2000 í árshátíðarferð fyrirtækisins og mátti varla hreyfa mig án þess að svitna og verða eldrauð í framan, það var nefnilega hitabylgja í gangi. Eftir tvo, þrjá daga slysaðist ég til að fá mér jarðarberjasjeik frá McDonald's - og það var eins og við manninn mælt, eitthvað gerðist innra með mér í kjölfarið og hitastig líkamans komst í jafnvægi, vandist 20 stiga hitanum. Ég gat hreyft mig að vild, gengið langar leiðir án þess að verða of heitt. Kalt vatn eða gos hefur sömu virkni svo það þarf auðvitað ekki mín vegna að opna McDonald's aftur hér á landi. Ég kýs að fara varlega með óskir mínar, velja rétt.  

 

Hvað er í gangi á Facebook?

Hvað er það skelfilegasta sem þú getur hugsað þér í heimi hér?

Hér eru helstu svörin, ansi margir nefndu Trump og Harris sem það skelfilegasta:

 

- Þriðja heimstyrjöldin.

- Fljúgandi kóngulær.

- Þögn í herberginu þar sem börnin mín eru að leika sér ...

- Hafið.

- Loftslagsbreytingar; veðurhörmungar, flóð, eldar.

- Seinna kjörtímabil Trumps.

- Að Kamala Harris verði forseti.

- Samkvæmt gervigreindinni erum við mannfólkið vandamálið.

- Trúarbrögð.

- Að fæðast brúnn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 50
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 877
  • Frá upphafi: 1515972

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband