Velheppnað allt nema veðrið - og svalur svalamávur ...

Tertu tertuAfmælisveislan gekk ákaflega vel og sérlega skemmtilegt og gott fólk mætti. Þau sem ekki komust eru auðvitað líka fín. Ég var búin að gefa í skyn að gjafir væru ekki velkomnar en ekki nokkur manneskja hlýddi því nema Erla Hlyns, hún færði kisunum kattanammi ... og Keli, síhnerrandi stórsjúklingur, kom hlaupandi, og fékk nokkur stykki. Enn lítur hann ekki við blautmatnum en ég heyrði hann bryðja þurrmat í gærkvöldi eftir að ég var komin upp í og hann drekkur vatn af miklum móð sem róaði dýralækninn sem ég talaði við í gær.

 

Dagurinn byrjaði hreint ekki vel ... haldið ekki að sólin hafi skinið eins og brjálæðingur beint á gluggana og reyndi af alefli að hita upp himnaríki ... en sem betur fer var sæmilega röskleg norðanátt svo ég gat lokað Mosa inni (ekki treystandi), opnað svaladyr og norðanglugga og það kældi svo mikið að systir mín sem kom snemma, kvartaði yfir kulda. Viftur léku þó stórt hlutverk; ein sem blés yfir terturnar, önnur á gestina inni í stofu, þriðja var í fatahenginu og blés í átt að stofunni - og veitti ekkert af þeim öllum.

 

 

Klukkan var orðin fimm mínútur YFIR þrjú þegar fyrsti gesturinn mætti í "frystikistuna" og svo komu þeir hver af öðrum. Það er sniðugra að láta afmælið hefjast klukkutíma fyrr, eins og ég gerði núna - gestir komu í hollum, kl. 3-5, 4-6, 5-7 o.s.frv. Og tvö herbergi dugðu vel til að allir fengju sæti. Það skilyrði var sett að fara þyrfti fjórar ferðir að veisluborðinu. Held að flestir hafi hlýtt - því ísskápurinn var ekki troðfullur af afgöngum núna daginn eftir. Nóg til samt handa þeim sem mættu í annan í afmæli. Ég var ekki nógu dugleg að taka myndir ... samt skárri en í fyrra. Takk, öll, fyrir komuna og líka fyrir fallegar kveðjur á Facebook. 

 

KisustrákurEinhverjum í afmælinu tókst að setja uppþvottavélina í gang með rassinum ... nú skil ég vinsældir uppþvottavéla sem hafa rofana ekki að framanverðu ... sýnist nú samt að diskarnir þrír og glasið hafi fengið venjulega þvottaprógrammið, án sápu þó, svo þetta var verulega snjall afturendi. Þetta gerðist líka í afmælinu í fyrra en þá ætlaði ég að fara að ganga frá öllu þegar gestirnir voru farnir og setja í uppþvottavélina ... sem sýndi þá ósvífnislega að hún ætti rúman klukkutíma eftir ... galtóm.

 

Svo gætti ég þess að vera með fótboltaleik á hlaðinu. Auðvitað Bestu deildina. Ég hafði samið við gestina að hlaupa út á svalir ÞEGAR ÍA skoraði mark og öskra úr sér lifur og lungu ... svona villt gleðiöskur. Ég er með appið FotMob í símanum en heyrði samt ekki neitt í því þegar eina mark leiksins (ÍA, jess) kom, enda hávært skvaldur og mikill glaumur.  

Á meðan aðrar konur heyra BLING í símanum sínum, opna og sjá: „Hæ, sæta, eigum við að skreppa út að borða í kvöld?“ fæ ég BLING sem segir: „ÍA Akranes-Fram Reykjavík kl. 18.15.“ Þessi forgangslisti minn skýrir sennilega af hverju ég hef gift mig svona sjaldan síðustu árin. 

 

Einar strætóvinur var einn þeirra fyrstu, kom auðvitað á Skagann með strætó, hálftíma fyrir opnun hússins, svo hann dreif sig í Guðlaugu og sjósund til að vera sem ferskastur. Í fyrra mætti hann klukkan þrjú en veislan hófst fjögur, og kom að mér berhandleggjaðri! að setja samanbrotin föt ofan í skúffu, það var nú alveg klukkutími í gestina og ég hafði hreinlega gleymt þessum þvotti. Eitthvað sem enginn hefði vitað af, nema sá sem kom of snemma ... Ég fer enn hjá mér við tilhugsunina. Berleggjuð/berfætt hefði verið skárra.

 

Mynd: Ungur maður mætti í afmælið ásamt móður sinni og ömmu. Ég er löngu hætt að hafa það bannað börnum. Elstu bönnuðu börn fyrri afmæla eru komin á fimmtugsaldur, svo ég hef þetta nokkuð valfrjálst núorðið, veit þó að þeim yngstu dauðleiðist oft, enda engin sérstök skemmtiatriði hjá mér, nema fótboltaleikurinn á hlaðinu. Kettirnir höfðu reyndar talsvert skemmtanagildi, fannst drengnum, og þarna er hann að knúsa Kela, hinn lasna gigtar- og kvefsjúkling sem elskar börn og hunda. Mosi stendur vörð. Skömmu síðar fékk drengurinn sér sopa úr vatnsbrunni kattanna og fékkst ekki til að hætta því fyrr en ég bauð honum vodka. Þegar ég var búin að hella "vodka" í glas fyrir hann var hann horfinn á vit nýrra ævintýra í himnaríki.

 

Svita- og rauðkinnaforðunin gekk bara ágætlega. Ég óttaðist þó að allt hæglætið væri unnið fyrir gýg þegar ég hafði skoppað niður stigana til að sækja og bera upp kræsingar sem systir mín kom með úr bænum. Fyrr um morguninn hafði ég nefnilega þurft að gera um það bil hundrað handtök sem ég hefði auðvitað átt að gera daginn áður. Samt er ég ekki með frestunaráráttu, misreiknaði mig bara varðandi handtök. Viftur komu sannarlega að góðum notum og ég lét tertuviftuna blása á mig meðan ég vesenaðist í eldhúsinu. Svo náttúrlega missti sólin flugið þegar leið á daginn og allt skánaði. Fjóla í bókabúðinni tímdi varla að fara: Má ég koma aftur í kvöld ef fer að gjósa? spurði hún. Auðvitað, auðvitað, en gosið lætur enn bíða eftir sér. Jón Frímann heldur að það komi sennilega ekki fyrr en eftir 20. ágúst, ég man ekki hvers vegna, en hann hefur viðað að sér mikilli þekkingu og hefur verið sannspár. Eins og það hlýtur að vera erfitt að spá fyrir um þetta þar sem 800 ár eru frá síðasta gostímabili þarna. 

 

Þótt enginn segði neitt sá ég greinileg vonbrigði í augnaráði gestanna þegar þeir sáu hvernig ég var klædd. Því miður hafði ég ekki tíma til að hekla mér skírnarkjól. Ég reyndi þó að vera bleik og glaðleg, á mér sannast hið fornkveðna, hef ég heyrt; pretty in pink. 

 

Mávur í heimsóknAfmælisgjafir voru sjúklega flottar að vanda, handsápur, kisu-og hundsbollar (espressó), kerti, heyrnarlúppur (æði fyrir Skálmaldartónleikana, of hávært brenglar heyrnina, snökt), vellyktandi baðvörur og ýmislegt geggjað æðislegt, gullfallegt hálsmen frá Jens er leyndardómsfulla gjöfin í ár, ekkert kort með ... Hjálp!

 

Eitthvað er meira er komið í gang í himnaríkismálum sem gefur enn frekar til kynna flutninga fyrr en síðar til borgarinnar, fékk tölvupóst í morgun varðandi það. Svo nú verð ég að setja fullan kraft í leitina að íbúð í bænum. Óskir og draumar: Rúmlega sjötíu fermetra, helst þriggja herbergja, alls ekki á okurverði, alls ekki í grónu úthverfi, helst að sem flest sé í göngufæri, leyfi fyrir innikisum, þolinmæði granna gagnvart einu afmælispartíi á ári og þol granna fyrir þungarokki og sinfóníum.

 

MyndJónatan IX mætti á handrið litlu svalanna í dag, núna annan í afmæli - klanið hans er búið að læra að á þessum árstíma, eða í kringum 12. ágúst, gefur himnaríki himneskar kræsingar ... Brauðtertuleifarnar eftir gestina á annan í afmæli, og poka sem ég hafði safnað saman leifum af diskum gærdagsins, skoppaði ég með út og er nú vinsælasta manneskjan hér við hafið. Jónatan sá eflaust marenstertuna (sem grillir í) inn um gluggann, tertuna sem Inga tók með sér áðan til að skella í frystikistuna hjá sér, þar til ég hef pláss í litla frystinum mínum. Það er fínt að eiga svona fína köku í frysti. Ef ég flyt og gleymi henni, verður Inga bara að borða hana. Ef ég flyt innan tíðar og engin Gurrí í himnaríki, verð ég bara að senda Ingu matarleifar handa fuglum, held að við séum þær einu sem fáum mávana á sumrin, og krummana yfir vetrartímann til að hjálpa okkur með lífrænan úrgang. Aðrir fuglar njóta vissulega góðs af.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 15
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 1414
  • Frá upphafi: 1491120

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1233
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Ohhh, hundur
  • Ellý Q
  • Anna og vatnslitasýningin hennar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband