Hitapokamissir, smellubeitumorð og móðgandi afmæliskveðja

Keli á hitapokaHappdrætti Háskóla Íslands sendi mér SMS í gær og óskaði mér hjartanlega til hamingju með vinninginn. Það munar um allt, mér finnst æðislegt að hafa unnið 15.000 kall - fyrsti vinningurinn minn í alla vega áratug. Fyrir þessa fjárhæð fæ ég alveg 68 lítra af mjólk (218 kr. lítrinn) og kúlur fyrir afganginn.

 

 

Samt ríkja áhyggjur í himnaríki, áhyggjur af Kela. Það er kominn upp vítahringur hjá honum. Hann finnur fyrir gigtarverkjum af því ég hef ekki getað gefið honum lyf (hann hefur enga matarlyst, ég hef laumað í hann verkjalyfi í matnum hans) og hefur að auki verið með kvef, hnerrað mikið en ... minna í dag. Kemur sér tvisvar á dag upp á eldhúsbekkinn og bíður þar við vaskinn þar til ég skrúfa frá vatninu. Þar situr hann í korter og fær sér sjúss annað slagið (sjá allt um kranavodka í síðasta bloggi). En í dag samþykkti hann að láta mata sig á þurrmat, át fjóra litla bita sem er gríðarleg framför. Ég fann enga leið í gær til að koma ofan í hann verkjalyfjum svo ég klíndi tveimur eða þremur dropum á loppurnar á honum, í þeirri von að þessi þrifni köttur nái smá verkjó í sig í þrifunum. Sem hann sennilega gerði. Núna liggur hann marflatur á bláa hitapokanum mínum á gólfinu fyrir framan rúmið mitt, ekki með stillt á 3 sem er helst til of heitt, heldur á 2 sem er notalegt. Ég klíndi ögn meira af verkjalyfjadropum á fætur hans (skíthrædd við að gefa of mikið, svo ég gef kannski of lítið). Annars held ég að ég verði að skreppa með hann suður til dýralæknis fyrr en síðar. Ég lofa að giftast þeim sem skutlar mér - eða það sem er kannski sterkara hjá konu sem er komin á minn aldur ... ég lofa að giftast viðkomandi ekki! Held að slíkt loforð sé árangursríkara. Svo eru flestar vinkonur mínar svo innilega gagnkynhneigðar eitthvað, jafnvel giftar körlum, svo ekkert svona loforð/hótun virkar á þær. Held að Keli (14) geti átt góðan tíma eftir, á verkjalyfjum, ég þarf bara aðstoð við að snúa þessum ruglingi við, þessum vítahring hjá honum.

Ný íbúð í bænum ... einn stærsti kosturinn við hana væri nálægð við dýralækni. Ég stefni á það. Sá eina í Garðabæ meira að segja, og þar er bæði gott kaffihús (Te og kaffi) og dýralæknir í grennd - aðeins of mikill gróður þó. Fram undan er skurkur í þessum málum því þótt ég þurfi að hafa fyrirvara á mínu tilboði eru fleiri en ég í keðjunni búnir að selja sko ... jebbs, þetta mjakast.

En ... ég þarf að kaupa annan hitapoka, mér finnst notalegt, eða bakinu á mér, að leggjast á hitapoka í svona hálftíma og mýkja bakið fyrir svefninn ... Sjúklingurinn Keli gengur samt fyrir. Hiti linar gigt. Ef hann verður ekki farinn að éta almennilega (með verkjalyfsdropum í) á morgun, verður hann að hitta dýralækni - með öllum ráðum. Að það skuli ekki vera dýralæknir hér í svona stórum bæ. Það eru vaktir í hesthúsahverfinu og úrvalsdýralæknar þar, en hér þyrfti að vera stofa, inni í bæ. Mörg gæludýr og flestir þurfa að fara í bæinn sem er hvorki gott fyrir bílhrædd dýrin né umhverfið. 

 

Svona kveðjur ...Fuglar himnaríkis fengu vænan kökuskammt í dag, annan daginn í röð, eða restina af leifunum, og þeir görguðu hástöfum af gleði yfir öllu kolvetninu sem ætti að gefa þeim orku fyrir flugið til Tene í haust (Spánar, Portúgals og Vestur-Afríku), það eru þó tvær tegundir máva sem treysta sér til að búa hér á landi allt árið um kring. Þarf að gúgla hvaða tegundir það eru.

 

Hitti frábæru Kristínu Grænlandsfara í strætó í dag og það kjaftaði á okkur hver tuska. Hún, eins og Bára í Hekls Angels, á ekki orð yfir hvað bílstjórinn á innanbæjarstrætó er mikið æði. Hjálplegur og dásamlegur á allan hátt. Hann hleypir þeim alltaf inn í vagninn að framanverðu, mér bara þegar ég er nýkomin úr klipp og lit ... hmmmmmm.

 

Nýlega var stofnaður hópur á Facebook, Smellubeitumorðin, og þar er fólki sagt hvað er á bak við sumar dularfullu fyrirsagnirnar sem kallast smellubeitur því þær fá fólk stundum til að gabbast til að lesa eitthvað sem stendur svo ekki undir nafni. 

Dæmi um fyrirsögn: „Pissaði á sig í mátunarklefa“ (og mynd af fallegri ungri konu)

SmellubeitumorðÞegar hún var þriggja ára.

 

MYND NR. 2: Svona afmæliskveðju mátti ég nú þola frá vissum frænda (fjanda) sem gerir mig ALLTAF miklu eldri en ég er. Þegar við kynntumst var ég 38 ára - og hann hélt lengi vel að ég væri 44 ára og trúði mér ekki fyrr en ég hélt upp á fertugsafmælið mitt átta árum seinna. Hann hefur oft mátt þakka fyrir að búa í útlöndum.

 

Bleikar og bjútífúlHef séð verri smellubeitur - á einum miðlinum á feisbúkk kemur eitthvað ægilega spennandi sem fyrirsögn og þegar maður smellir bíður bara myndband á ensku ... sem er ansi léleg blaðamennska og ég nenni aldrei að horfa á og þess vegna er ég löngu hætt að skoða nokkuð á þeim miðli, sama hversu spennandi fyrirsögnin er. Hef reyndar staðið sjálfa mig að því í gegnum árin að nenna bara að lesa texta, og þegar vitnað er í útvarpsviðtöl á Bylgjunni er bara birtur hlekkur á viðtalið og ég hef ALDREI nennt að hlusta, en ef viðtalið væri skrifað upp líka væri það allt annað og fljótlegra* fyrir mig og fleiri, RÚV gerir það alltaf.

 

*Jóhanna, vinkona mín hér á Vesturlandi, kíkti í heimsókn í gær. Mér fannst athyglisvert þegar hún talaði um að það dýrmætasta sem hún ætti væri tíminn og hún vildi ekki verja honum í hvað sem væri, hún væri pirruð á því að þurfa t.d. að eyða tíma í að berjast gegn vindmyllum í Borgarfirði. Nú upplifi ég t.d. sjónvarp nákvæmlega þannig að nenni mjög lítið að eyða tíma í horfa á það. Og hvað geri ég á meðan aðrir horfa á sjónvarpið? Jú, ég les, kíki á Instagram og snappið, tek til, blogga ... eitthvað sem öðrum finnst eflaust tímaeyðsla og kjósa sjónvarpið frekar. 

 

Blaðamönnum er kennt að búa til fyrirsagnir sem vekja forvitni (og selja blöð og fá smelli) en segja samt ekki innihald fréttarinnar það nákvæmlega að lesandi láti fyrirsögnina nægja. Umferð um netsíðuna/sala blaðsins ræður svo úrslitum um hvort auglýsendur vilji verja fé sínu þar - svo þetta er snúið. Oft er æðisleg frásögn á bak við krassandi fyrirsögn. Afvegaleiðandi og pirrandi smellbeitur eru eitt en smellnar og skemmtilegar allt annað.

 

MYND NR. 3: Ég fékk líka bleika og fallega kveðju í tilefni afmælisdagsins frá elsku Hjördísi (mömmur.is) og Petu, mæðgunum mögnuðu. Mig minnir að myndin af okkur hafi verið tekin þegar kökuskreytingakeppni var haldin úti í íþróttahöll á Írskum dögum eitt árið og við vorum dómnefndin. Bleikur er uppáhaldsliturinn hjá mömmunum en ég man samt ekki hvort ég kom svona klædd alveg óvart eða viljandi ... ég var svo sem alltaf í þessum rúllukragabol, alveg misserum saman, og fékk að heyra: „Gurrí, þú nærð þér aldrei í mann svona klædd,“ frá konu sem veiddi eintómar ástarsorgir á eigin hálfbera bringu. Hún vissi auðvitað ekki hversu oft ég hef verið gift, það eru bara síðustu árin sem hafa ekki verið svo gjöful þegar kemur að körlum. Það verður pottþétt breyting á þessu öllu við flutningana í bæinn og þá geta systur mínar, frænkur, frændur og vinir farið að kalla mig aftur raðgiftarann ógurlega! Ég hlakka svo til.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 50
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 877
  • Frá upphafi: 1515972

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea
  • Wu Tang-sokkarnir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband