Árangursrík sprautukaup, ósvífinn mávur og þau trúgjörnu

SjúklingurinnVinabeiðnum og bónorðum hefur rignt yfir mig í dag og þegar ég mundi eftir vinningnum skildi ég málið. Svo er ekkert lát á heppninni, ég fór í apótekið í dag, fékk far hjá elsku úkraínsku grannkonu minni sem gaf mér í leiðinni virkilega skemmtilega afmælisgjöf ... þótt hún hafi ekki komið upp í tertur á mánudaginn! Í apótekinu keypti ég sprautu (ekki með nál), svona litla ... og held ég hafi loks, í fyrsta sinn í allt of marga daga, komið verkjalyfi í Kela. Setti fjóra dropa af því í glært glas, lét það hallast og dró dropana svo upp í sprautuna. Var með systur mína í símanum, á hátalara, hélt utan um köttinn og hviss, bang, áður en hann vissi af hafði hann innbyrt allavega smáskammt af lyfinu sem heldur honum hressum. Hann hnerrar líka miklu minna núna. Mig grunar að allir mínir vinir og kunningjar á Vesturlandi hafi sent Kela batastrauma eftir blogg gærdagsins til að þeir þyrftu ekki að skutla okkur til dýralæknis í Reykjavík. Það virkaði, elskurnar. Gömul samstarfskona, búsett í útlöndum, hafði samband við alla sína ættingja og vini í grennd í gær, eftir lestur bloggsins, og bað þá um að skutla mér í bæinn! Hún hitti illa á, fólk enn í sumarleyfi og fjarri góðu gamni, eða faldi sig kannski bara á bak við gardínur og sendi þaðan batastrauma. Jú, Keli borðaði smávegis í dag ... en vill ekki enn blautmatinn, eitthvað erfiðara að borða hann með hor í nös, virðist vera, en þurrmatinn. Ég er alla vega búin að endurheimta hitapokann minn. Keli liggur núna steinsofandi í bælinu sínu. 

 

Þarna í verslanamiðstöðinni í útjaðri Akraness hitti ég nokkra sem ég þekki. Alltaf gaman. Meðal annars gamla nemendur frá Úkraínu og sagði við þær að maður þyrfti sannarlega ekki að fara á barinn til að finnast samkvæmislífið vera í blóma, það nægði að fara í búðir. Þær virtust sammála þessari greiningu minni. Ég horfði með söknuði á Dýrabæ, dýrabúðina sem er nýflutt í húsið, var áður í göngufæri við himnaríki. Samt rúmbetra, held ég, og það eiga hvort eð er allir á Akranesi bíl nema ég. 

 

Jónatan dagsinsAf því að fasteignakeðjumálin eru farin að mjakast enn lengra áfram er ég að hugsa um að kíkja í bæinn í næstu viku og skoða nokkrar íbúðir. Ég óttast þó mest af öllu að gera tilboð í alltílæ-íbúð og svo komi á sölu einhver sem mig langar svo miklu meira að búa í ... kannast lesendur við þetta?

 

Jónatan IX beið mín þegar ég kom heim. Hann sat kurteislega á handriði stóru svalanna þegar ég kíkti inn í stofu. Ég fór í störukeppni við hann og reyndi að senda hugskeyti þess efnis að afmælið væri búið og þeir hefðu fengið allar leifarnar, nema marengstertuna sem væri nú í frysti hjá Ingu. Hver vissi hvenær hún yrði snædd eða hvort yrði afgangur af henni? Mér finnst fyndið að þeir skuli hafa fundið mig í húsinu, sennilega eru þetta ættingjar Jónatans I. og í erfðamengi þeirra finnist minning um ævintýri hans við himnaríki forðum daga. Mig grunar líka að marengstertan við gluggann í gær, hafi komið upp um mig, þeir hafi séð hana langar leiðir. Það gefur þeim ákveðið forskot að geta flogið. 

 

Facebook ...

 

Það furðulegasta/ótrúlegasta sem mjög margir trúa?

Hér eru nokkur af svörunum:

 

- Er á leiðinni, kem eftir fimm mínútur. (Ég trúi þessu alltaf)

- Að forríkir pólitíkusar geri eitthvað fyrir okkur.

- Rafmagnsbílar.

- Að byssur geri okkur öruggari.

- Að jörðin sé flöt.

- Stjörnuspá.

- Trúarbrögð.

- Álfar.

- Að einhver ein trú sé réttust.

- Ameríski draumurinn. 

- Starbucks.

- Ja, sko, ég trúi enn á jólasveininn og tannálfinn. 

- Trump, alls konar um hann.

- Að klósettsetur séu hreinni ef það eru vinir manns sem setjast á þær, jafnvel sumir vinnufélagar.

- Að lífið sé ömurlegt út af einhverjum öðrum.

- Að Jesú birtist í ristaðri brauðsneið.

- Öll hjátrú, eins og að föstudagurinn 13. sé ógæfudagur   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 43
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1515965

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 726
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband