Óvissuferð frestað, óvænt gjöf og misheppnuð brúðkaup

Við Keli að heklaÓvissuferð Hekls Angels var frestað en hana átti að fara í dag, styttri útgáfa af henni reyndar, og upplýst í gærkvöldi að fara ætti til Borgarness og fá sér eitthvað að borða á Landnámssetrinu. Það hefði nú verið gaman - en aðalsprautan í hópnum ætlaði nú að fara eitthvað lengra með okkur upphaflega, eitthvað sem þýddi vakn fyrir allar aldir, (jafnvel kl. 9)! Held að veðrið í næstu viku eigi að vera betra til bíltúrs en það sem veldur vatnsleka úr himnum í dag. Kemur sér svo sem ekki illa, er með verkefni sem þarf að klára sem fyrst. Svo ákváðum við systur í gær að leggja fyrr af stað norður, eða fara annað kvöld og gista eina nótt á elsku Hvammstanga, þannig losnum við við snjókomu og læti á Holtavöruheiði á föstudag! Mér vitanlega er JÚLÍ eini sumarmánuðurinn sem hefur verið laus við snjó! Úkraínski kattahvíslarinn minn bætti hiklaust við aukadegi til pössunar, elsku yndið. Hún er virkilega leið yfir fráfalli Kela, hann var í miklu uppáhaldi hjá henni og hún hjá honum. 

 

Það er vissulega svolítið tómlegt hjá okkur núna, Keli var svo mikill karakter. Svo finnst mér eigi ólíklegt að Mosi hlaupi í spik því nú er enginn til að æsa hann upp í kapphlaup og "gannislagi" (gamni-), ef ég reyndi það yrði hann bara skelfingu lostinn og færi í felur. Þeir keppa svolítið, Krummi og Mosi, um athygli mína og hafa gert um nokkurt skeið. Hér er passað vandlega að ekki sé gert upp á milli. Svo voru þeir alla tíð á sjúkrafæði (urinary) því Keli þurfti það en nú er hægt að vera örlátari á nammið og prófa fleiri tegundir af mat. Og ég læt þá bara, ef þeir halda sér nógu lengi vakandi, elta rauðan leiserpunkt um allt himnaríki svo þeir haldi spengilegum vextinum.

 

Nýjasta afmælisgjöfinÍ dag fékk ég skilaboð frá uppáhalds-Instagramfólkinu mínu ("verður þú heima í dag?"), hjónum sem ferðast um Evrópu á húsbíl með tvö börn sín. Ég dáðist nýlega að afmælisplakati sem þau framleiða, sýndu það á feisbúkk - en þar koma fram ansi hreint miklar upplýsingar um hvern dag ... svo 12. ágúst, afmælisdagurinn minn, er t.d. dagurinn þegar stöðumælar voru teknir í notkun í Reykjavík (fyrirgefið), Thomas Edison gerði sína fyrstu hljóðupptöku, Hawaii var gert að 50. ríki Bandaríkjanna, og fleira stórmerkilegt. Tek það fram að ég var að sjálfsögðu ekki fædd þá! Daginn sem ég fæddist kostaði mjólkurlítrinn 4,03 kr. og strætófargjaldið var 1,75 kr. Þetta hljómar nákvæmlega eins og ég sé 155 ára eða svo en svo er ALLS EKKI. Mér hefur alltaf þótt fyndið hvaða lag var vinsælast úti í USA á fæðingardaginn minn ... eða Poor Little Fool, sem á stundum vel við.

 

Plakat fyrir daginn minn er sem sagt komið í hús, sjá mynd, afmælisgjöf frá þessu frábæra fólki (gudnymatt á Instagram) sem ég vona að komist eitthvert árið í afmælið mitt, eða bara í kaffisopa á öðrum tíma árs. Hún blés ekki úr nös konan sem kom með plakatið, og þegar ég baðst afsökunar á því að búa á efstu hæð, sagðist hún vera vön, sjálf efst í sínu húsi. "Þetta heldur okkur bara grönnum og heilbrigðum," sagði ég og hún samsinnti því. Ég er tággrönn inn við beinið og nánast búin að losa mig við hætt-að-reykja-kílóin sem bættust við þarna 2020. Þótt ég flytji í lyftuhús í borginni hef ég lofað mér því að nota stigana sem mest. Annars verður Inga vinkona brjáluð (sjúkraþjálfari) og ég vil líka losna við að áhyggjufullir ættingjar láti mig eltast við rauðan leiserpunkt.

 

Góðir grannar í næstu blokkNýlega heimsótti ég sýrlenska vinafólkið mitt í næsta húsi. Í fyrsta sinn. Ef einhver segir mér að koma endilega í heimsókn, ég sé alltaf velkomin, samþykki ég það en geri samt ekkert í því, svo þegar ég fékk "beina skipun" - eða boð í heimsókn á ákveðnum tíma - fór ég auðvitað. Íbúðin þeirra er beint fyrir neðan þá sem ég bjó í ung að árum, um nokkra hríð, og auðvitað alveg eins. Það var gaman að koma þarna inn svona löngu seinna. Ég hef sjaldan kynnst annarri eins gestrisni og hjá vinafólki mínu frá Mið-Austurlöndum. Þetta kvöld var mér boðið allt það besta og svo þegar ég gerði mig líklega til að kveðja eftir ábyggilega tvo tíma af dekri, var mér boðið meira og ítrekað hversu velkomin ég væri alltaf. Hvílíkt yndisfólk sem hefur auðgað líf mitt mikið (og fyllt magann í mér oftar en ég get talið), það sem mér þykir vænt um þau.

 

Myndin: Í bakgrunni sést sjórinn minn og himnaríki en þarna fyrir miðju sést kokkurinn minn sem ekki bara eldar góðan mat, heldur er hann snjall hárskeri líka (menntaður í því). Fremst sést krúttmolinn sem kallar mig alltaf ömmu Gurrí. Sá litli (að verða eins árs) á eftir að gera það líka, er ég viss um.

 

 

Svo dýrir flóttamennÞví miður er eins og sumir einblíni á fólk frá þessum heimshluta sem ástæðuna fyrir háum kostnaði við málaflokkinn. Við ættum ekki að gleyma miklu og sjálfsögðu hjálpinni við flóttafólkið frá Úkraínu sem var boðið velkomið hingað, og fólkinu frá Venesúela sem var óvænt hætt við að leyfa að vera hér, því miður, svo "keyptar" voru heilu flugvélarnar undir það til baka, og það leyst út með háum peningagjöfum sem voru síðan hirtar af því við komuna heim. Gríðarlegur kostnaður bara þar. En orðalagið hjá "því opinbera" er kannski liður í að ræna atkvæðum frá Miðflokknum, svo stutt er í næstu kosningar. Það er alveg hægt að taka til í þessum málum án mannvonsku eða með yfirlýsingum sem fjölga rasistum - sem eru alveg nógu margir fyrir. Við eyðum líka STÓRFÉ í ýmsa hluti sem væri betur varið í annað.

 

Sko ... Helgi vararíkis hefur fullan rétt á að tala illa um glæpamanninn sem ofsótti hann og fjölskyldu hans, ömurlegt að lenda í slíku, en að setja samlanda glæpamannsins (22 milljónir) í sama flokk og ýta þannig undir fordóma, er ekki sæmandi manni í svona háu og valdamiklu embætti, það er líka bannað með lögum að mismuna fólki*. Við höldum öll með Helga gegn glæpamanninum en hann hefur áður sagt eitthvað sem hann hefur fengið ákúrur fyrir, um homma og konur, ég þarf að gúgla það við tækifæri, en hvað næst, Má þá segja: Húsgagnasmiðir eru allir fávitar af því að kommóðuskúffan mín er orðin stíf? Og Skagamenn (rúmlega 8.000) næstir? Einhver sem les bloggið mitt, myndi þá heyrast eitthvað um þetta heimska "góðafólk" á Skaganum? Sumir misskilja málið, viljandi eða óviljandi, og láta eins og einhverjir haldi með glæpamanninum!

 

*Í 65. grein stjórnarskrárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar ... o.s.frv.

 

Acton_Town_tube_station_MMB_14Í afmælinu mínu fyrir mörgum árum sagði mamma um konu sem sat í hinum enda stofunnar og var með hvíta slæðu yfir hárinu: „Af hverju aðlagast þetta fólk ekki?“ Ég minnti hana góðlátlega á að hún hafi sjálf oft verið með slæðu - þá var ég lítil stelpa. Þá var eins og mamma áttaði sig, hún sagði að henni hafi aldrei líkað við slæðuna en þetta var einhver tíska í gamla daga. Mömmu var samt alltaf svolítið illa við sumt fólk frá útlöndum, aðallega dökkt fólk, óttaðist það á einhvern hátt, hún hlustaði líka mikið á vissa útvarpsstöð. Ég sagði henni aldrei að elsku stráksi minn væri frá Palestínu (fæddur í Írak) því henni þótti svo vænt um hann og hefði fengið áfall, hann faðmaði hana alltaf þegar þau hittust og var svo góður við hana. Kona sem giftist inn í ættina okkar er dökk á hörund en mamma virtist aldrei taka eftir því, fannst konan bara æðisleg, sem hún er.

 

Rasismi er líklega oftar en ekki ótti við það óþekkta (falsfréttir hafa líka bæst við og hella olíu á eldinn). Heimurinn hefur breyst mikið, við verðum bara að sætta okkur við það, ég man þegar sást varla útlendingur á ferli hér og þeldökku hermönnunum á vellinum var hreinlega bannað að koma til Reykjavíkur svo þeir sjokkeruðu ekki landsmenn! Þegar ég fór til London 1976, til ársvistar sem au pair-stelpa í Acton Town, fannst mér mannlífið æðislegt í borginni, svo fjölbreytt flóra fólks frá öllum heimshornum og af öllum trúarbrögðum, í sátt og samlyndi, virtist vera. Ég fór í skóla úti og lærði ensku - og bekkjarsystkini mín endurspegluðu margbreytileikann vel. Enn er lífið í Reykjavík ekki nálægt því að líkjast stemningunni í London þegar ég bjó þar, kannski svo kalt hérna, og enn í dag sjást hér undrunarfullar fréttir af útlendingum sem slá í gegn af því að þeir eru svo duglegir að aðlagast ... sé ekki fyrir mér slíka krúttfrétt um Íslending sem aðlagast svo vel í Englandi (eða ekki, gleymdi þorrablótunum).

 

Jæja, útrás dagsins var í boði himnaríkis. Kannski svekkelsi eftir að hafa séð tvo hrædda karla á mínum aldri skrifa einhvern viðbjóð á fb-síðu sem hatast við fjölmenningu, sjá bara gallana, suma ímyndaða, aldrei kostina.   

 

Brunabíllinn sem týndistMikið er gaman að endurlesa bækur Sjöwalls og Wahlöö, þar sem söguhetjurnar eru margar á aldur við mömmu eða eldri. Og hvað þessar bækur eldast vel, engir gemsar, engar tölvur, allt handskrifað og meiriháttar mál að ná í löggur utan vinnutíma, ef þær voru ekki heima með heimasímann nálægt sér. Er núna að hlusta á Brunabílinn sem týndist, nýbyrjuð á henni, góður lestur ... ég þarf samt að kíkja á Manninn á svölunum (ég á þessar bækur auðvitað uppi í hillu) til að athuga hvort börnin hafi virkilega verið að hoppa í Paradís ... en lesarinn segir það alltaf (nema einu sinni hoppa í París) Paradís hef ég aldrei heyrt. Sænska útgáfan af París? Ég trúi öllu eftir að hafa hlustað á bók sem ég prófarkalas og heyrði samt orðið UNGAbarn þegar ég hlustaði á hana löngu seinna, orð sem ég hefði aldrei hleypt í gegn (skárra í talmáli) en lesarinn sagði það ítrekað þrátt fyrir að það stæði UNGbarn í bókinni. Mér finnst það fallegra ritmál og held mig við það þrátt fyrir að UNGAbarn sé viðurkennt núna sem rétt. Hrollur! 

 

Ljúkum þessu bloggi á hressandi brúðkaupssögum frá Ameríkunni, þeirri nyrðri, kannski vantar einhvern hugmyndir ...:

 

SláttuvélEftir að hafa sagt já óku brúðhjónin um svæðið á sláttutraktor á meðan lagið She thinks my tractor is sexy var leikið aftur og aftur í hálftíma. Næstu fjörutíu mínútum eftir það vörðu þau í myndatöku þar sem þau stilltu sér upp í hinum ýmsu stellingum á sláttutraktornum. Á meðan sátu gestirnir úti og kvöldust, biðu veislunnar í steikjandi sól og hita og hvergi var skugga að finna. Ég var komin sjö mánuði á leið og þetta var ekki skemmtileg bið. Þau eru ekki einu sinni bændur eða með tengsl við sveitina, það var mamma hans sem lánaði þeim sláttutraktorinn og þeim fannst greinilega voða sniðugt að hafa svona sveitaþema.“

 

Áður en athöfnin hófst var brúðguminn orðinn dauðadrukkinn. Eftir að hafa drafað heitin beygði hann sig niður og gubbaði á skóna sína. Brúðurin lét sér fátt um finnast, enda ansi drukkin sjálf. Allt lyktaði af ódýrum vodka og eftirsjá. Þetta var algjör hryllingur frá upphafi til enda.“

 

Fyrrverandi kærasta frænda míns mætti óboðin í brúðkaupið hans. Hún var rauðklædd og glæsileg, og vildi endilega skála við hann. Í leiðinni lét hún þess getið að hún væri komin sex vikur á leið og hann væri pabbinn. Brúðurin reiddist og sakaði hinn nýbakaða eiginmann um framhjáhald, enda ár liðið frá skilnaði hans við fyrrverandi, og sex mánuðir síðan þau tvö kynntust. Reikningsdæmið gengi hreinlega ekki upp. Allavega skildu þau fljótlega og í næsta mánuði ætlar frændi minn að giftast sinni óléttu fyrrverandi.“

 

Góður vinur minn giftist konu sinni eftir stutt kynni. Hann var 26 ára og hún bara 18 ára. Faðir brúðarinnar var mjög mótfallinn giftingurinni og það sást greinilega á svip hans þegar hann leiddi dóttur sína upp að altarinu. Í veislunni stóð hann upp til að halda ræðu. Hann sagði: „Þegar við hittum brúðgumann fyrst líkaði okkur ekki við hann.“ hann sagði ekki meira, heldur settist niður. Brúðurin barðist við að fara ekki að gráta og vinur minn reyndi að halda brosinu þótt honum liði illa.“

 

P.s. Elsku borgarstjóri ... "næsta stoppistöð í mest 400 metra fjarlægð" - er það ekki aðeins of langt fyrir íbúa á Íslandi yfir vetrartímann (og sumarið 2024). Hálka, stórhríð, rok, kuldi, brekkur ... of freistandi að fá sér bara bíl. Ekki fyrir mig, ég kaupi bara íbúð skammt frá stoppistöð, þá þoli ég öll veður.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 116
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 1515
  • Frá upphafi: 1491221

Annað

  • Innlit í dag: 99
  • Innlit sl. viku: 1318
  • Gestir í dag: 96
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Nýir grannar
  • Sakní sakn bráðum
  • Ohhh, hundur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband