Þrjár íbúðir, undarleg tilviljun og ungleg starfstétt

12. apríl 2024Íbúðaleit fór fram í dag og heilar þrjár spennandi voru skoðaðar - svo ég geti hunskast úr himnaríki áður en nýir himneskir eigendur flytja inn. Sú fyrsta kom ánægjulega á óvart, er ansi lítil en vel staðsett í Reykjavík, á sjöttu hæð, og réttu herbergin voru minnst, eða baðið og svefnherbergið. 

En ... kannski er innikattahald ekki leyft í húsinu, svona strangt til tekið. Gömlu jálkarnir mínir (10 og 13)sem voru ansi glaðir að endurheimta mig áðan úr helju (Reykjavík). Yndislegir fasteignasalar, hjón, sýndu íbúðina, konan vann með mér á DV í eldgamla daga og hefur ekkert breyst!

 

 

Það er greinilega afar gott fyrir útlitið að selja fasteignir því ég sagði við næsta fasteignasala í hressu spjalli okkar: „... þarna 1986, þú varst kannski ekki fæddur þá?“

„Jú, reyndar, elsta barnið mitt fæddist 1984,“ svaraði hann frekar glaður. Þetta sannar kenningu mína.

Íbúðin sem hann sýndi, líka á sjöttu hæð og með ágætu útsýni (gosútsýni yfir Hengilinn, ef fer að gjósa þar) var rúmlega 20 fermetrum stærri - ágætar verslanir í grennd, eins og matvöru-, fata-, húsgagna- og dýra-, einnig líkamsræktarstöð. Svolítið sérstök lyftan í húsinu, hrikalega lítil, veit ekki hvort svarti speglaskápurinn minn kæmist inn í hana en hann er svo þungur að ég myndi missa alla vini mína og ættingja á einu bretti ef ég bæði þá að halda á honum upp sex hæðir! Lyftan stoppaði á sjöundu hæð (bara á annarri hverri hæð) og það þarf að ganga hálfa hæð niður. En maður flytur svo sem bara einu sinni í hvert hús. Það er bara í bíómyndum sem bölvun hvílir yfir sumum hæðum (eins og þrettándu) og því ganga ekki lyftur þangað.

 

ÞvottahússbókasafniðÞriðja íbúðin sem við skoðuðum var skammt frá þessari í miðið, ódýr en flott einstaklingsíbúð og troðfullt á opnu húsi. Við kíktum niður í sameignina sem var mjög snyrtileg og í þurrkherberginu voru bókahillur, fullar af spennandi reyfurum. Það munaði engu að ég hlypi upp í íbúðina og gerði tilboð í hana en ... ég held nú samt að ég eigi þessar bækur flestar, og hafi mögulega lesið þær allar - kæmi mér ekki á óvart.

Nú hef ég haft hálft kvöldið til að hugsa minn gang. Ef ég fer í mjög litla íbúð gæti það haft áhrif á sitt af hverju ... ég ætti erfitt með að hýsa vini og vandamenn (stráksa í heimsókn), gæti ekki tekið fósturbarn tímabundið ... en í stærri íbúð eru möguleikarnir fleiri, það hefur svo sem verið nóg að gera hjá mér við yfirlestur og ýmis verkefni. Mikið pælt og spekúlerað í dag og kvöld.

- - - - - - - 

 

ViðbjóðurÉg skil hreinlega ekkert í fasteignasölum með eignir í Kópavogi að hafa ekki haft samband við svona girnilegan kaupanda (engin keðja), þar var draumastaðurinn, en eftir að bæði Hanna og Nanna sögðu að best væri að takmarka sig ekki um of í leitinni, komu þessar þrjár upp - staðsettar í Reykjavík, í 104 og 105 og allar alveg prýðilegar. Tvær á útjaðri gróins hverfis, ein inni í slíku miðju (og ekki verst) ... Sú fjórða sem ég ætlaði að fá að skoða í Kópavogi, var frekar vel staðsett en vissulega dýrust þeirra, var hreinlega ekki til sýnis í dag. Eigandinn fluttur til kærustunnar og hafði lánað íbúðina næstu daga ... og þar með missti hann af mögulegri sölu. En ... hverfið þar er svakalega gróið, æðislegt útsýni, EF gróðurinn væri ekki fyrir, ég sé alla vega ekki betur, íbúðin er á jarðhæð en samt í brekku svo það sæist út á sjó ef ekki væru þessi mikli gróður - sem veldur mér sterkri innilokunarkennd þegar hann er of mikill. Ég hafði gífurlega mikla samúð með frænku minni sem bjó árum saman í ónefndu þorpi, allt troðið af gróðri í garðinum hennar og þegar hún skrapp út í mjólkurbúð notaði ein af þúsund milljón kóngulóm hjá húsi hennar, tækifærið og spann svo rosalegan vef fyrir útidyrnar hennar, að hún þurfti nánast að flytja í annað hús þar til kóngulónni þóknaðist að leggjast í dvala um haustið. Nánast. Frænkan hafði samúð með mér yfir því að hafa svona berangurslegt útsýni, alveg beint til Reykjavíkur og yfir Reykjanesskagann og næstum til Ameríku, ef jörðin væri ekki hnöttótt (eða er hún það?) og ekki einu sinni eitt tré á milli.

 

- - - - - - - - - - - 

Viltu afsláttTalsvert margir útlendingar keyra strætó, veit ég, meðal annars leiðina mína, Akranes-Reykjavík-Akranes. Einn er frekar geðillur en hinir hver öðrum dásamlegri ... Þetta var inngangur að hryllingssögu sem nú kemur, eiginlega tveimur sögum:

Það kostar 1.200 í strætó á milli Akraness og Reykjavíkur. Ódýrara fyrir börn, unglinga, öryrkja og aldraða skv. síðu Strætó bs. Þetta síðasta miðast líklega við 67 ára, ég veit það ekki, hef ekki kynnt mér það, enda bara 66 ára, enn vinnandi á fullu og ekkert á leiðinni að hætta því. Bílstjórinn sem ók mér í bæinn í gær setti 600 kr. upphæð á posann. Ég sagði blíðlega: "Ég er að fara í Mjódd, það kostar meira!"

„Já, einmitt,“ sagði hann, álíka blíðlega.

Ég hef bara tæpar 50 vikur til að geta með sanni sagt: „I am too young ...“ - nýtti mér það að sjálfsögðu í gær og harðneitaði að þiggja afsláttinn, bar við heiðarleika. Hélt að þetta væri einstakt tilfelli, sjóntruflanir bílstjórans eða að cartmann-jakkinn minn (sem gerir mig 3,5 m á breidd) væri orðinn svo snjáður, ég gleymi alltaf að kaupa góðan og klæðilegan sumarjakka, að hann vildi gefa mér afslátt ...

 

MadonnaNei, aldeilis ekki, svo vildi til að bílstjórinn sem ók mér heim á Skaga í dag er líka útlenskur og hann ætlaði einnig að rukka mig um 600 kall. Það fauk alls ekki í mig, ég er jafnlynd og læt allt yfir mig ganga, líka móðganir því lífið er of stutt fyrir vesen, en ég verð að játa að ég varð undrandi. (Ætla rétt að vona að Madonna, jafnaldra mín, næstum upp á dag, eigi aldrei eftir að upplifa að taka íslenskan landsbyggðarstrætó).

 

 

Höfðu kannski orðið óvæntar útlitsskemmdir á mér án þess að ég tæki eftir því? Vinkonur mínar á svipuðum aldri lenda aldrei í nokkru líku þessu, kannski sleppa þær af því að þær taka aldrei strætó. Ég leit gagnrýnin í spegil við heimkomu. Alltaf jafnsæt EN ... hárið vissulega úr sér vaxið og það sást hvorki í augabrúnir né augnhár, allur litur horfinn þaðan ... og þessi cartmann-jakki gerir nákvæmlega ekkert fyrir mig, og ekki einu sinni túrkísblái trefillinn gat komið í veg fyrir að ég lenti í þessu. Svo er alltaf sá möguleiki að gerast fasteignasali á meðan ég næ mér aftur á strik útlitslega. Ég sendi alla vega átakanlegt neyðarkall til Önnu Júlíu hjá Classic hárstofu og fékk neyðarklipp og -lit á miðvikudaginn. Ég gefst endanlega upp ef ég fæ afslátt eftir það. Þá þigg ég þennan 600 kall með þökkum.

 

 

Mér finnst eitt mjög undarlegt við stærstu íbúðina sem ég skoðaði í dag. Þessa í miðið. Í yfirlýsingu húsfélags frá fasteignasalanum komu fram þrjár dagsetningar ...  ein í maí, önnur júní og þriðja í ágústmánuði ... þetta reyndust vera afmælisdagar okkar þriggja í þessari skoðunarferð, mæðgnanna sem eiga afmæli í maí og júní, og svo minn. Himnaríki fór til dæmis á sölu á afmælisdaginn minn 2005, fyrir rúmum 18 árum ... sem mér fannst sniðugt, ég er svo hrifin af svona tilviljunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 39
  • Sl. sólarhring: 142
  • Sl. viku: 1188
  • Frá upphafi: 1491647

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1016
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Nýir grannar
  • Sakní sakn bráðum
  • Ohhh, hundur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband