Jæja, komið á hreint ... klæðileg gríma og glæpakviss

Sjáið fegurðina, kynþokkann ...Vissulega var búið að vara mig við ... eða að þegar skriðan færi af stað gerðist allt mjög hratt ... og játs, svo sannarlega. Var svo heppin að góður vinur skutlaði mér í bæinn í dag (og til baka) svo ég gæti framkvæmt seinni skoðun á nýja heimilinu. Ég tók með mér alls konar fagfólk; smið, rafvirkja, félagsráðgjafa og fasteignasala. Ég og fasteignasalinn vorum alveg örugglega afar dularfull og spennandi, eiginlega ómögulegt að ráða í svipbrigði okkar þar sem við bárum GRÍMU ... ég fann grímuleifar ofan í skúffu eftir covid-19, tímann þegar ég upplifði svo rosalega miklu meiri viðreynslu en núna. Augnagoturnar voru rómantískastar í Einarsbúð ... En á staðnum, íbúðinni sem ég er að kaupa, var nýfætt barn svo við tvö (kvefuð) vorum með grímu og öll, líka þau ókvefuðu, vel sprittuð, einn fagmaðurinn var reyndar ein systir mín og hún átti spritt í bílnum. Nýbakaða móðirin sem sýndi íbúðina og mun flytja með manni sínum og barni til útlanda um mánaðamótin var afar sátt við grímurnar, þær virka nefnilega ... en vá, hvað mig langar ekki aftur í þennan tíma - þótt grímur fækki hrukkum og séu talsvert ódýrari en andlitslyfting.

 

Mynd, efst: Ég tók ekki mynd á vettvangi grímunotkunar en skellti þessari upp eftir heimkomu til að sýna að ég hef engu gleymt. Tælandi augaráðið er þarna enn.

 

Gróið í suður, hrátt í norðurÍbúðin verður keypt - eftir þessar seinni skoðun - ekki lengur bara 99% líkur, og gengið frá öllu saman á föstudaginn, svo það eru minnst þrjár bæjarferðirnar þessa vikuna. Mikið búið að giska á hvaða staður varð fyrir valinu í 104 ... aðeins einn giskaði rétt ... og jú, Kleppsvegur var það, heillin. Fínasti staður að komast á og stutt fyrir mig að taka t.d. strætó á tónleika í Hörpu, við erum nánast við sömu götuna (Sæbraut). Ég fæ alla vega einn áhugaverðan nágranna sem var búinn að fá sér aðeins of mikið neðan í því og reyndi að hlaða símann sinn í anddyrinu, fyrir neðan póstkassana ... elsku karlinn. Ég glími við eintók lúxusvandamál ... hvort ég eigi að fjárfesta í sambyggðri þvottavél og þurrkara á baðið (pláss þar) eða nota afar snyrtilega aðstöðu í kjallaranum þar sem eru iðnaðarvélar. (Með storytel sem félagsskap er ekkert mál að dúlla sér niðri í þvottahúsi - þar er meira að segja gamaldags strauvél! Hæ, straujuðu rúmföt, eller hvad.)

 

Þrír strætisvagnar stoppa þarna, leið 3, leið 12 og leið 14 (frá Lækjartorgi), ef marka má Klappið ... jafnvel bætast við leið 11 og 18 líka (frá Hlemmi). Í eldgamla daga var það leið 4, Kleppur hraðferð, ef ég man það rétt. Bjó um tíma á Rauðalæk og hoppaði þá út á Kleppsveginum - en er sennilega of ung til að muna hraðferðina, svo var eitt sinn leikrit með þessu nafni líka. 

 

Hér á síðunni er smáinnsýn - eða tvær myndir. Önnur snýr í norður (blá), hin suður (græn). Þessi í suður vitnar um ofboðslega heppni mína að vera á endimörkum þessa gróna hverfis, en ekki inni í því miðju og myndin sem snýr í norður sýnir meiri hráslaga, eins og ég kann best við. Bak við þetta græna liggur Reykjavíkurborg en hún sést ekki fyrir trjám! Ég er kölluð landráðaherfa, drundhjassa og þaðan af verri ónefnum fyrir að vilja hafa trén úti í skógi þar sem þau geta verið frjáls og í sínu rétta umhverfi.     

 

Spennandi glæpakvissÁ morgun fer ég í klippingu og litun á augabrúnir - og á laugardaginn kemur í ljós hvort þetta dugir til að mér verði ekki boðinn afsláttur í strætó. En á laugardaginn tökum við stráksi strætó í bæinn. Ég er að hugsa um að vera með grímuna fyrir andlitinu til öryggis, klæðast jafnvel hettupeysu og láta þungarokk eða rapp heyrast úr heyrnartólunum. Þetta er líka gríðarlegt tap fyrir strætó, ef sumir unglingarnir sem keyra þar sjá ekki muninn á t.d. 66 ára og 67 ára fólki.

 

Á fimmtudaginn verður svokallað glæpakviss í bókasöfnum um allt land (sjá mynd). Auðvitað í dásamlega Bókasafni Akraness líka. Þetta er spurningakeppni um íslenskar glæpasögur og haldin í tilefni af 25 ára tilvist Hins íslenska glæpafélags. Þrjátíu spurningar verða bornar upp, alveg eins og í pöbbkvissum ... en þessir viðburðir hefjast á sama tíma um allt land og taka um það bil 90 mínútur. Ekkert má nefnilega spyrjast út. Ef þetta verður ekki glæpsamlega skemmtilegt, veit ég ekki hvað. Fimmtudaginn 5. sept. kl. hálffimm. Vona að sem allra flestir komi. 

 

Á Facebook

„Íslendingar eru fáir en Færeyingar enn færri - birtist m.a. í því að poppstjarnan og Íslandsvinurinn James Olsen er bæði búinn að skjóta upp kollinum sem tæknimaður á ráðstefnunni og sem rútubílstjóri.“ (Stefán Pálsson)

 

„Er púðrið úr flugvélunum undanfarin ár farið að virka? Auðvitað fyrst á vatnið, svo á jarðveginn. Það er rosalegt að svona skuli leyfast í boði elítunnar.“ (Komment við frétt um 50 veik skólabörn og sjö fullorða í Emstruskála Ferðafélags Íslands) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert alltaf jafnskemmtileg, Gurrý! Ég verð að fara að lesa bloggið þitt reglulega! 😀

Ásdís Birna Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2024 kl. 00:50

2 identicon

Léttvæg staðreynd en James Olsen poppstjarna og Íslandsvinur var bílstjóri okkar í Færeyjum í vor... just sain'

Guðrún (IP-tala skráð) 4.9.2024 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 59
  • Sl. sólarhring: 182
  • Sl. viku: 336
  • Frá upphafi: 1526216

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 301
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Hjúkrunarneminn
  • Sófamorðingi 2
  • Sófamorðinginn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband