Kvefi frestað, eilíft skrepp og vel valin lokaorð

GlæpafárGlæpadagurinn mikli rann upp bjartur og fagur, kvefskrattinn á undanhaldi svo plan B var ekki nauðsynlegt á bókasafninu, eða að fá einhvern annan til að kynna glæpakvissið. Mig langaði ógurlega að bæta slíkum heiðri á ferilskrá mína en var svo ótrúlega stressuð ... myndi ég geta þetta skammlaust, eða myndi ég hósta út í eitt, vera viðurstyggilega rám, líða þokkafullt niður á gólf eða þurfa að snýta mér endalaust? Það er nefnilega ekki gaman að þurfa að hlusta á rótkvefað fólk og ekki hægt að bjóða þátttakendum glæpakviss upp á slíkt. En ... sú sem á útrunnin amerísk flensulyf úr Walmart þarf ekki að óttast slíkt, ég tók einn skammt klukkutíma fyrir viðburð og leið bara þokkalega vel. Inga skutlaði til bókasafns, Ásta skutlaði mér heim. Í gær bauðst mér tvisvar far, með fimm mínútna millibili, eftir klippinguna en ég beið þá einmitt eftir að vera sótt af Skagakonu. Svona er að búa hérna. Skyldu íbúar Reykjavíkur vera svona dásamlegir? Kostirnir við minni staði eru margir.

 

MYND: Hér sést hluti af góðmenninu í glæpasal dagsins, okkur var sagt að allt hefði pottþétt fyllst af glæpabókalesandi Akurnesingum ef kvissið hefði verið haldið t.d. kl. 20 - en þar sem sömu spurningar voru bornar upp á bókasöfnum um allt land þótti réttast að hafa sæmilegt samræmi á þessu. Okkar kviss hófst kl. 16.30 eins og hjá flestum hinum, en þá voru auðvitað allt of margir í vinnunni. Samt er sumt fólk sem vill frekar verja kvöldunum heima - svo maður veit ekki. Þetta var alla vega alveg rosalega skemmtilegt. Þvílíkur léttir að vera spyrill því ég hefði annars mætt á kvissið sem þátttakandi og gert mig að algjöru fífli fyrir að vita minna en ég ætti að vita ... þetta var ekkert rosalega létt.   

 

Elsku Keli og SvitlanaÉg kom við í dýrabúðinni góðu í gær sem nú er flutt úr göngufæri í strætófæri en þarna er allt rúmgott og bjart - og ég keypti kattamat handa Krumma og Mosa. Þeir hafa þurft að "sætta sig við" rándýrt sjúkrafæði sem hélt Kela frískum öll árin en nú er óhætt að slaka aðeins á því, hvorugur er lasinn. Keypti litla poka af mat, tvær tegundir og mér sýnist þeir hafa lyst á báðum tegundum sem ég blandaði þó saman við sjúkrafæðið. Ég þarf að velja vel, hollt og gott við gamlingjana mína. Ágætis rapplag hljómaði úr græjum dýrabúðarinnar, ekkert samt sem toppaði Skálmöld hjá hárstofunni, það er ekkert sem getur það!

 

MYND: Úkraínski kattahvíslarinn minn hélt svo mikið upp á Kela og hann upp á hana. Sjáið hvað þau eru sæt og flott. Myndin var tekin örfáum vikum áður en Keli kvaddi.  

 

Á morgun verður annað skrepp vikunnar til höfuðborgarinnar og þá verður skrifað undir. Þegar dásemdarfólkið hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun aðstoðaði mig við að flytja lánið mitt á nýju íbúðina, þurfti ég að sanna að ég gæti greitt mismuninn, það munaði vissulega á himnaríki og Klepps, mér í óhag þótt ég væri að fara í minni íbúð. Tók bara ljósmynd af seðlabúntunum undir dýnunni og sendi þeim. Það sparast mikið við að hætta að reykja! Ég þurfti líka að svara spurningum frá báðum fasteignasölunum, svona áreiðanleikakönnun. Nei, enginn píanókennari í ættinni, hvað þá sálfræðingur ... 

 

HamraborgVissulega reyndi ég ákaft að kaupa íbúð í Kópavogi en Kópavogur bara vildi mig ekki. Katalína ... bókasafnið, kaffihúsið, tattústofan ... bless, bless, þið missið af svo miklu! ;) Nýja blokkin mín er ljómandi vel staðsett og ég er ótrúlega sæl með valið. Komst að því að það er heilt bakarí hinum megin við götuna, svo ég get stokkið og keypt gott með kaffinu handa gestum. Kannski er bananarúllutertan farin að fást aftur! Hún var svo vinsæl að bakaríið hætti að vera með hana til sölu! Held ég.

 

Það kom smávegis viðbót við verkefnið mikla sem ég kláraði um síðustu helgi, síðan eitt pínkuponsu yfirles og að síðustu annað MIKLU stærra, útprentað og klárast vonandi á sunnudaginn. Það er ekki hægt að pakka niður á meðan verkefnin bíða, svo ég byrja bara í næstu viku. Vonandi þiggur Búkolla bókahillur frá mér, vel með farnar, og fleira dót, eins og fínustu skólatöskur sem stráksi vildi ekki taka með sér þegar hann flutti, og ég hefði auðvitað átt að fara með áður en skólarnir hófust en hér er stundum erfitt að losa sig við hluti úr húsi, nema níðast á bílandi vinum og vandamönnum. Ég er komin með einn sem segist til þjónustu reiðubúinn þegar pakkerí hefst. 

 

Þriðja bæjarferð vikunnar verður farin á laugardag, við stráksi ætlum, og það eina sem við höfum ákveðið er að heimsækja tvær ótrúlega spennandi málverkasýningar vinkvenna sem sýna báðar á Skólavörðustíg, önnur er opnun (Ellý Q) og hin er viðvera (Anna Bj) hinum megin við götuna. Mjög hentugt. Mikið hlakka ég til.

 

Spurningar og svör

Blogginu berast stundum spurningar af viti. Hef ekki tíma til að svara nema þremur í dag. Það má líka alveg spyrja mig um eitthvað annað en strákamálin.

 

- Getur verið að bílstjórarnir séu að gefa þér kynþokkaafslátt þegar þeir rukka þig um of lítið í strætó? Já, það gæti alveg verið, mér hafði ekki dottið það í hug, en þetta er brilljant spurning, svo rökrétt. Langt er síðan ég bað um slíkan afslátt síðast. Mér brá svo í Bóksölu stúdenta árið 1999 þegar maðurinn gaf mér bara 5% afslátt, það var áfall þótt Háskólinn hafi látið reka hann.

 

- Ertu að flytja frá Akranesi af því að karlarnir hérna eru ekki nógu sætir fyrir þig? Nei, alls ekki. Karlar hér á Skaganum bera af og eru á heimsmælikvarða, líka þótt Ítalía sé tekin inn í dæmið. Eftir að hásinin fór að vera með leiðindi átti ég sífellt erfiðara með að mæta í "hlaðborðið" við ávaxtastandinn í Einarsbúð á föstudögum kl. 18 og það má segja að hallarbylting hafi verið gerð í fjarveru minni. Löng og átakamikil saga sem mun birtast í jólahefti Sérstæðra sakamála.

 

- Hver er uppáhaldskaflinn þinn í Stabat Mater eftir Pergolesi? Sá áttundi. 

 

LokaorðFacebook bara gefur og gefur:

Ef þú gætir valið lokaorð þín í lífinu, hver væru þau?

 

- Mér er svo kalt, brrrrr ... eins og í bíómyndunum. 

- Hlustaðu vel, ég faldi fjársjóð á leynistað sem er-

- Mig langar að benda á einhvern og segja: Hvað hefurðu gert?

- Hei, ekki ýta á þennan takka

- Haltu á bjórnum mínum

- Leyndardómur lífsins e-

- Ég sagði þér að ég væri veikur.

- Gefðu líffærin úr mér. 

- Njóttu hússins. Gott að þurfa ekki að sjá þig aftur.

- Fjársjóðurinn er grafinn undi-

- Slappaðu af, ég hef gert þetta milljón sinnum. 

- Sjáðu um hestana mína. 

- Ég skal keyra. 

- Ég elska þig. 

- Sagði þér það. 

- Loksins frjáls. 

- Ég gerði mitt besta. 

- Fokk. 

- Úps. 

- Takk. 

- Vá. Guð er kona!

- Hvað ætli þessir takkar geri?

- Bless.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 849
  • Frá upphafi: 1515944

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 711
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband