Ríkisbubbi í bili, of stór skápur og skrítnir söfnuðir

Svarti skápurinnKaupsamningur var undirritaður í dag svo ég á formlega tvær íbúðir í augnablikinu, himnaríki og Kleppsvegsdýrðina. Slíkt hefur aldrei gerst áður, ég hef alltaf verið sátt við að eiga bara eina. Þetta ríkidæmi stendur væntanlega fram yfir helgi svo ég ætla að njóta þess. „Já, addna, íbúðin mín í bænum ... bla, bla, en aftur á móti íbúðin mín á Akranesi, bla, bla,“ ég mun hljóma eins og sannur milli. Líka hægt að segja íbúðirnar mínar - þarf ekki að minnast á að það séu bara tvær, það væri gaman að eiga eins og eina blokk, eins og Silli eða Valdi (eða afkomandi) sem átti víst heila blokk í Hátúni, segir sagan, en stundaði alls enga okurleigu, það fylgdi líka með. Kjaftasaga kvöldsins var í boði einhvers sem sagði mér þetta fyrir áratugum. Ef þetta er bara bull, biðst ég afsökunar.

 

Pantaði flutningabíl í morgun. Hann kemur 5. október -stundvíslega klukkan níu um morguninn, ég reyndi að seinka til tíu, en sennilega vaknar venjulegt fólk fyrr en ég. Svo heppin er ég að hafa nokkra burðarmenn hér og einnig nokkra sunnan rörs. Pökkunarstarf hefst á mánudaginn. Fæ afhent 1. okt. og ætla að láta mála, kaupa eitt stykki ísskáp (mælið þið með einhverjum?) og flytja inn. Þarf að spyrja frænku hjá Smith og Norland, hún veit allt. Ég verð líka að muna að mæla hæð og breidd á lyftunni, þessari litlu fjögurra manna sem stoppar bara á annarri hverri hæð, ekki minni ... því ég óttast svolítið að svarti antíkspeglaskápurinn komist ekki inn í hana og þurfi að halda á upp á sjöttu! Jafnvel rúmið mitt líka. Annar fasteignasalinn í dag býr í grenndinni, líka í svona gamalli hárri blokk, efst þar og þar er oggulítil lyfta, eins og í minni, greinilega hátískan í lyftum á sjöunda áratug síðustu aldar. Meira að segja of gott fyrir fólk að láta þær stoppa á hverri hæð. Þetta er ekkert annað en stórfínt, nema kannski þegar maður flytur inn eða út.   

 

Stráksi í matKjúklingarétturinn lokkaði og laðaði svo stráksi kom í mat nú í kvöld. Hann hefur fundið á sér að ég nennti ekki að elda í gær sem hefði þýtt afganga í dag. Ég hafði einmitt áhyggjur af því að ef ég eldaði nú í kvöld fyrir mig eina og ætti rúmlega helminginn eftir ... og væri að fara í bæinn á morgun og borða þar ... já, þau eru svona stórvægileg vandamálin í himnaríki. Stráksi hafði samband og vandamálið leystist. Hann hafði séð bæði Eldum rétt-spjöldin (uppskrift og mynd) þegar hann kom í mat síðasta mánudag. Séður strákur. Frekar flókinn réttur í kvöld, ofnbakað brokkolí og gulrætur, hrísgrjón, nokkuð flókin sósa, kjúklingur steiktur eins og nautasteik - en ég fór létt með þetta. Samt bara með einn tímamæli, en notaði reyndar gemsann (var að hlusta á storytel við eldamennskuna) til að mæla þessar 2,5 mínútur sem þurfti að steikja kjúklinginn á hvorri hlið, svo smjördreypa seinni tvær og hálfu.    

 

Við KevinFacebook

Mynd: Hvað hef ég afrekað sem fær fb til að halda að ég deili áhugamálum með Kevin Costner?

 

Hvað hljómar eins og sértrúarsöfnuður og er það í raun?

Ansi margir nefndu skipulögð trúarbrögð, t.d. mormóna, kaþólikka og fleiri en hér eru fjölbreytileg svör. Ég er sammála sumu en öðru alls ekki, er hreinlega móðguð yfir sumu en er nógu þroskuð andlega til að láta þetta allt flakka. Hrmpf ...   

 

- Vísindakirkjan

- Keppnisíþróttir

- Byssueign

- Ilmkjarnaolíur

- Ameríski fótboltinn

- Stjórnmálaflokkar

- Crossfit

- Fox-fréttastöðin

- MAGA (Make America Great Again/Trump)

- Kardashians

- Bandaríski herinn

- Fótboltamömmur

- Kattafólk

- Hundaeigendur

- iPhone-eigendur

- Veganistar

- Friends-aðdáendur

- Íþróttir

- Disney

- Aðdáendur Grateful Dead

- Waldorf-skólar

- Trúleysi

- Star Wars-aðdáendur

- Ananas á pítsu-fólk

- Sjálfshjálpariðnaðurinn 

- Jógaiðkendur  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 849
  • Frá upphafi: 1515944

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 711
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband