Draumur um pínu og besta megrunin

NeyðartannlæknatímiVælubíllinn kemur sér stundum vel og ég hringdi í hann (113) í morgun því ofan á kvef sem vill ekki fara (vegna skorts á hvíld og slökun) bættist við hrikaleg tannpína ... sem gat samt ekki passað því ég á að vera með allar tennur heilar. Sennilega hafði ég gníst tönnum í svefni, svona líka harkalega að hún brotnaði í tvennt! (Þá nótt dreymdi mig að ég væri nýkomin í vinnu hjá Morgunblaðinu og sjálfur ritstjórinn kom og heilsaði mér, samt með undarlega máttlausu handabandi. Í nótt var ég flutt á Kleppsveginn og þar var ekki bara ein lyfta sem stoppaði bara á annarri hverri hæð, eins og í raunveruleikanum, heldur voru margar mismunandi lyftur þarna og ótrúlega margar hæðir á húsinu! Hvað ætli hirðdraumaráðendur himnaríkis segðu við þessu?)

 

Gat það virkilega verið að ég hafi brotið rótfylltan jaxl með gnísti - sem er ekki vani minn. Gærdagurinn leið, hlutirnar lagast voða oft, en þetta versnaði bara, ekkert borðað í gærkvöldi, ekkert í morgun eða hádeginu en kl. 14.20 í dag fékk ég neyðartíma. Tönnin reyndist ekki brotin, bara sýking, takk fyrir, og apótek, pensílín og læti. Jaxlinn verður skilinn eftir á Akranesi, fjarlægður eftir tíu daga. Og jú, gamla Arionbankahúsið hýsir nú sýslumann, skattstofu og ýmislegt fleira flott, fyrir utan tannlækninn. Núna líður mér eins og ég sé albata og það eina sem vælir og vorkennir sér á þessu heimili er Mosi, þegar hann vantar athygli. Aðaláhyggjur dagsins snerust þó um Eldum rétt-bílinn. Hann kemur voða oft á milli 14 og 15 og ég fjarri góðu gamni. Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu kom svo Eldum rétt. Í apótekinu eru allir beðnir um skilríki sem er svo innilega sjálfsagt. Eldri maður missti sig yfir því, sagði að starfsfólkið gæti bara lært að þekkja viðskiptavinina í sjón. Við erum ekki nema átta þúsund og kannski rúmlega helmingur þeirra þarf stundum að fara í apótek, pís of keik.

 

Ég pantaði nauðsynjar úr Einarsbúð og ákvað að láta tvo venjulega lauka fylgja með. Hafði heyrt það húsráð að gott væri að skera lauk í tvennt, geyma hann á skál, helst á náttborði þess kvefaða ... og laukurinn myndi soga í sig allar kvefbakteríur og veiku manneskjunni batna fyrr ... Gef skýrslu um árangurinn. 

 

 

Mér var skutlað til tannsa, svo sótt og keyrð í apótek af vini mínum sem kemur frá fjölmennu landi (22 milljónir) sama landinu og ofbeldismaðurinn sem hótaði vararíkissaksóknara en Helgi yfirfærði þá glæpi yfir á alla í því landi, og rasistarnir ofsaglaðir yfir því að loksins þyrði einhver að segja sannleikann ...  Nú hefur Helgi fengið grænt ljós á að halda áfram í embætti (ég er endanlega hætt að kaupa Kjörís) og sumir í kommentakerfinu halda í alvöru að nú eigi bara að fara að henda þessu fólki úr landi - því orðræða Helga gerir auðvitað ekkert nema auka fordóma. Mér finnst mjög mikilvægt að vera hlutlaus í svona starfi, annars missir maður traustið og ég ber ekki traust til fólks sem tjáir sig svona og sér ekkert athugavert við það. (Ég fordæmi hótanir ofbeldismannsins sem ógnaði vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans).  

 

Feng shuiEf marka má Feng Shui gætu fyrirhugaðar breytingar á heimili og þar með tilfæringar á húsgögnum verið sökudólgurinn í þessum veikindum mínum og sýkingu.

 

Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu með lyfin og asídófílus, hringdi dyrabjallan, Eldum rétt með matarpakkann minn. Það var auðvitað engin tilviljun, ef ég er upptekin milli tvö og þrjú, seinkar ER-bíllinn bara komu sinni ... Annars er ekki ólíklegt að hviðurnar á Kjalarnesi hafi seinkað bílnum sem var samt ekki seinn, þarna eftir þrjú, mega afhenda alveg til sex.

 

Það er kannski ekki skrítið að mér batni ekki kvefið. Þrjár ferðir í bæinn á einni viku, tvær fasteignatengdar en menningin átti hug okkar allan á laugardeginum þegar tvær vinkonur voru heimsóttar, eða myndir þeirra, á Skólavörðustíg.

 

 

Anna og vatnslitasýningin hennarÖnnur sýningin var í Gallerí Grásteini (Anna) og gjörsamlega ótrúlegt hvað hægt er að búa til mikla fegurð með vatnslitum. Hefði gjarnan viljað taka fleiri myndir, en það var einhvern veginn alltaf fólk fyrir á meðan við vorum þarna. Sýning Önnu var opnuð fyrir rúmri viku en þá komst ég ekki. Geggjaðar myndir.

 

Hin (Ellý Q) var hinum megin við götuna, í Listhúsi Ófeigs (fyrir ofan skartgripabúðina). Bæði galleríin mjög skemmtileg og sýningarnar alveg frábærar - ég hvet fólk endilega til að fara. Anna er með viðveru á laugardögum á meðan sýningin hangir uppi, en ég gleymdi að spyrja frú Elínborgu. Gaman að hitta dætur Ellýjar, svo hrikalega langt síðan eitthvað ... allar á kafi í langskólanámi eða búnar, bara ferlega flottar og klárar stelpur.

 

Ég er kannski svona hrifin og ánægð yfir þeim því sumt fólk heldur því fram að börn einstæðra foreldra eigi margfalt minni von en börn giftra, um að geta menntað sig. Mögulega átti þessi kenning betur við hér áður fyrr. Ég, dóttir einstæðrar móður, var sjálf orðin fertug þegar ég komst loksins í framhaldsnám,  í hagnýta fjölmiðlun í HÍ. Systkini mín hafa öll gengið menntaveginn, en við þurftum vissulega tilhlaup, tvær okkar, áður en við gátum látið vaða. 

 

Ellý QÞað var einstaklega gaman að koma í miðborgina, ég þekkti aðra hverja manneskju og spjallaði við ótal marga þannig að meðreiðarsveinar mínir til miðborgar þurftu á allri sinni þolinmæði að halda ... ég kíkti á Ingu Elínu en hún er með flotta galleríið sitt með leirverkum þarna á besta stað. Flottir veltibollarnir.

 

 

Við reyndum að fara á Mokkakaffi en það var alveg troðið, ansi hreint langt síðan síðast hjá okkur en við enduðum í Te og kaffi í Hamraborg í ansi góðum bolla og meðlæti. Það hefði orðið hverfiskaffihúsið mitt ef Kópavogur hefði ekki hafnað mér svona grimmdarlega ... hefði þurft að vera búin að selja himnaríki þegar girnilegar íbúðir þar voru á sölu.

 

MYND: Ellý sýnir olíumálverk og leitar í heim ævintýranna, kunnugleg andlit barna og barnabarna er að finna í sumum þeirra. 

 

Ohhh, hundurÞað verða ansi mikil "læti" um helgina, frá og með föstudeginum 13. sept. hætti ég að vera fasteignamógúll því þá verður gengið frá og skrifað undir vegna himnaríkis, þá á ég bara eina íbúð, skrambans. Svo verður enn eitt spennandi brúðkaupið á laugardeginum hjá yndisfrænku og að síðustu barnaafmæli á sunnudeginum. Samkvæmislíf vetrarins hófst svo sem með látum á afmælinu mínu í ágúst, en það hefur ekki verið svona mikið fjör um margra ára skeið. Svo er ég farin að hita upp fyrir Skálmaldartónleikana, búin að leðra mig upp og á kolsvartan hárlit inni á baði, verð með leðurblökuvængi sem eyrnalokka og alls konar fleira sem mér á eftir að detta í hug, ég ætla að vera við öllu búin.

 

Ég er búin að uppgötva besta megrunarkúr í heimi. 

1. Koma sér upp sýkingu í tönn.

2. Of sárt að borða.

3. Lystarleysi vegna verkja, t.d. í tönn eða höfði.

4. Gott er að vera líka slöpp, að drepast úr kvefi.

5. Ein skyrdolla og góð saga í Storytel, þarf ekki meira.

 

Ekkert að þakka. 

 

Jæja, ég byrjaði loksins á bókinni Atlas - sögu Pa Salt, síðustu bókinni í flokknum um systurnar sjö. Hún er ekki nema hvað ... 27,5 klukkutíma löng. Svona slappheit hægja á einbeitingu svo ég tími ekki að hraða henni, mun fúslega afplána alla þessa klukkutíma. Ég byrjaði sem sagt upp á nýtt, því hún stoppaði án skýringa í miðjum klíðum fyrir mánuði og útgáfu hennar virðist hafa verið frestað. Eins gott því ég var búin að gleyma ýmsu. Mig langaði fyrst að klára Sjöwall og Wahlöö-bækurnar sem var mjög gaman að hlusta á. Velferðarkerfið í Svíþjóð var sannarlega ekki komið til sögunnar þegar þær voru skrifaðar, mikil fátækt og eymd, miðað við það sem maður heyrir núna. Vinkona mín býr þar og er alsæl. Virkilega passað upp á að þegnar landsins hafi það gott, ekki bara kíkt á hagtölur og horft á meðaltalið sem dæmi um sérdeilis góða stöðu alls almennings, eins og í sumum nágrannalöndum ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 20
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 847
  • Frá upphafi: 1515942

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 709
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband