Spennandi greining, svikult app og þáttaraðir sem enda illa

Litlir kassarDagurinn fór að mestu í yfirlestur en til að hvíla andann var aðeins flokkað inn á milli ... Inga mætti í kaffi og eiginlega kom, sá og sigraði, losaði kósíhornið með því að pakka bókunum þar ofan í marga litla kassa svo hægt yrði að sækja bókahillurnar í kvöld.

Hún greindi mig líka með ADHD. Ég hafði sagt: „Skrítið, það er allt í rúst hérna, ég veð úr einu í annað, flokka úr þessum skúffum, nema einni eða tveimur, fer svo í annað herbergi, flokka þar heilan helling. Bara alveg eins og þegar allt er að drukkna í drasli í himnaríki (sjaldan eftir 2020-grisjunina), ég veð herbergi úr herbergi, fer með glas inn í eldhús, set í uppþvottavélina í leiðinni, tek svo tuskur og fer inn í bað og skelli í þvottavél, sé eitthvað sem á að vera inni í stofu, færi það ... svo bara allt í einu er íbúðin orðin sjúklega fín! Ég hef verið svona alla tíð!“ Augnaráð Ingu var greindarlega geðlæknislegt þegar hún lét dóminn falla. Sjálf er ég vön að sjúkdómsgreina mig og fæ stöku sinnum aðstoð Facebook-vina ef þarf, og ákvað strax að ég vildi engu breyta, það væri miklu skemmtilegra að taka til á þennan hátt í stað þess að taka hvert herbergi fyrir sig og klára það. Hrollur!

 

MYND: Hluti kassanna sem Inga pakkaði niður í. Bókahillan vinstra megin er farin eftir um 15 ára búsetu við himnaríki.

 

Sá myndband áðan með lagi frá áttunda áratugnum, How do you do, og fannst mjög gaman að rifja lagið upp, hafði aldrei séð myndbandið, það ríktu lengi höft á Íslandi, gleðihöft. En ... ég þjáðist virkilega mikið yfir því að fólkið í myndbandinu hreyfði sig ekki eða klappaði í takt ... skánaði þó eftir því sem leið á. Þarf að spyrja Ingu hvað svona þjáning táknar. Treysti alfarið á hana í þessum málum, enda hefur hún mikið unnið á spítala. 

 

Kommóðuskrímslið sem sagt farið með hillunum, aukarúmið flutti niður á aðra hæð í kvöld þar sem níu ára gutti mun sofa í því í nótt og næstu árin ... og í raun er litla herbergið þá nánast tilbúið til að verða kassaherbergið. Þá breytist kannski greining frú Ingibjargar, eða þegar ég fer að klára að fylla kassana, einn í einu, og fara með þá þangað inn merkta og tilbúna til flutnings. Það er farið að vanta bókakassa (stofan alveg eftir), ég treysti svolítið á Vínbúðina, þótt ég sé ekki kúnni þar, stóru kassarnir þar eru mjög svo mátulegir undir bækur, eða nógu litlir.

 

LeikurinnEftir að Elfa vinkona "spillti mér" úti í Bandaríkjunum og dró mig inn á spilavíti ákvað ég í leiðindum mínum þar sem ég beið á flugvelli í Seattle fyrir ansi mörgum árum, á heimleið eftir stórkostlega dvöl ytra, að hlaða niður leikjaappi, svona spilavítisappi þar sem hægt væri að leika ýmsa leiki með himinháum gervi-vinningum. Ég hefði getað keypt mér spilapeninga en var ekki nógu spennt til þess. Varð bara sífellt snjallari með árunum og lifði í raun lífi hinna efnuðu í símanum mínum þar til leikjaappskvikindið heimtaði að ég skráði mig inn í gegnum Facebook, einhverra hluta vegna. Mér fannst það asnalegt, fór í fýlu í hálft ár en skráði mig svo aftur inn, í einhverjum leiðindum ... og þá í gegnum Facebook. Ég átti jú tugi milljóna (dollara) þarna inni. Þetta gerðist svo aftur, sennilega ári seinna, að ég þurfti að skrá mig inn í gegnum fb og ég varð fúl. Svo ætlaði ég að játa mig sigraða en þá hafði hið hræðilega gerst. Ég átti vissulega mínar 50 milljónir (dollara) í spilapeningum (sjá mynd) EN LEIKURINN MINN (sjá  mynd) var horfinn! Hættur, farinn ... og aðrir leikir þarna hræðilega leiðinlegir. Þannig að ég mun henda út Double Down Casino-appinu, samt með ábyggilega 30 M eftir. Ég lærði samt aðgæslu í fjármálum þarna, ég fór aldrei niður fyrir 20 milljónir dollara í hreinni eign og hætti á meðan ég var í gróða. Það var svakalega auðvelt að samsama sig með Samherjagenginu, eigendum Bláa lónsins og fleiri auðjöfrum, enda jafningi þeirra um hríð - en nú er það bara hversdagurinn og allur alvörupeningur staddur í steinsteypu við Kleppsveg. Dæs.   

 

Á Facebook

Fjandi sloppinn út í heimFb minnti mig á að viss frændi sem gengur oft undir nafninu fjandi, yfirgaf landið fyrir nákvæmlega tíu árum. Ég fylgdist þá með Norrænu sigla með hann út í heim en á þeim tíma var Seyðisfjörður mun tæknivæddari en hann er í dag því það virðist ekki nokkur leið að fylgjast með ferðum Norrænu í beinni útsendingu lengur. Fyrir alvörunörda sem lifa lífinu stundum í gegnum vefmyndavélar (allir Íslendingar þegar koma eldgos) er þetta mikil afturför. Þetta er eiginlega grátlegt því nú get ég aðeins fylgst með ferðum Norrænu í gegnum MarineTraffic-síðuna og það krefst ofurmannlegs ímyndunarafls.

 

Myndin sýnir hið fagra færeyska skip Norrænu sigla hratt út úr Seyðisfirði með fjanda innanborðs en nú er ekki nokkur leið að fá að sjá svona fegurð (skipið, kaupstaðinn, fjanda) í beinni útsendingu. Hrmpf ... 

 

Fb um sjónvarpsþætti:

Þáttaröð sem endaði svo illa ... að þú dauðsérð eftir því að hafa eytt svona miklum tíma í að horfa á hana ...

Ansi mörg nefndu Game of Thrones sem gerir mig enn glaðari yfir því að hafa hætt að horfa eftir fyrsta þátt. Ég hætti hreinlega að horfa þegar farið er að teygja lopann í svona þáttum. Hafði gaman af því að horfa á Prison Break, fyrstu þáttaröðina, og Dexter sömuleiðis, eða kannski rúmlega það, líka Lost-bullið. Nú horfi ég bara á Gísla Martein (verð að drífa mig í að horfa á síðasta þátt áður en sá næsti brestur á). 

 

- Game of Thrones.

- The Walking Dead.

- The Crosby Show ...

- How I met your Mother.

- Dallas. 

- The Umbrella Academy.

- Designed Survivor.

- Lost.

- Dexter.

- House of Cards.

- Orange is the new Black.

- True Blood.

- Sopranos.

 

Hér er svo umrætt myndband, góða skemmtun:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tíu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 12
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 1929
  • Frá upphafi: 1495498

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1592
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Kattamál
  • Kisudraumar
  • Elsku Inga

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband