Augnaráð í Bónus, skeyti frá Baggalút og heilaleikfimi framtíðar

BaggalúturMinningar fylla nú heilan kassa þrjátt fyrir grimma grisjun, handrit, ritgerðir síðan í HÍ sem væri gaman að lesa en ekki núna. Ekki tími. Búin með hillusamstæðuna en bæði í skúffum þar og skápum leynist sitt af hverju skemmtilegt. Eins og heillaóska-símskeyti frá Baggalúti sem komst ekki í afmælið mitt, heilu bunkarnir af orðaleit (word search) sem ég klippti út úr ensku blaði sem ég hafði aðgang að lengi vel - og margt, margt fleira. Þetta síðarnefnda á að halda kollinum í lagi þegar ég fer að eldast (mamma notaði krossgátur sem þjálfun fyrir heilann).

 

Ég var búin að steingleyma þessu með Baggalút en ég tók viðtal við þessar elskur þegar enginn vissi hverjir stæðu á bak við Baggalútsnafnið og fréttasíðan þeirra, baggalutur.is, viðhélt heilmikilli gleði í samfélaginu á þessum tíma. Ein minnisstæðasta fréttin: Kona nær bílprófi en sá fáheyrði atburður átti sér stað ... osfrv. Enn gleðja þeir Íslendinga og nú með jólatónleikum og sem fjölmiðlamenn. Það þurfti nú ekki meira en þetta viðtal (í Vikuna) við þessa bráðskemmtilegu menn til að bjóða þeim í afmæli. Svo urðu þeir svo frægir að ég kunni ekki lengur við að bjóða þeim. Sniðugt hjá þeim að senda þetta skeyti - sem 19 árum seinna gleður sorterandi skvísu á Skaganum. Og ... skeytið fór að sjálfsögðu í minningakassann.    

 

Pítsa fyrir stráksaUm fimmleytið fékk ég far með Svitlönu í apótekið í útjaðri bæjarins (úti í rassgati). Ég hafði safnað úr ýmsum skápum og krukkum, aðallega efstu hillum, kössum sem höfðu verið í hvarfi, ýmsum lyfjum sem þurfti að eyða á réttan hátt. Lét verkjalyfin hans Kela fylgja líka. Það voru ekki beint svipugöng sem ég var látin ganga, en ég var með kassa utan um þrenns konar lyf, sem ég hefði nú alveg getað sett sjálf í "pappaplast" (við flokkum það enn saman). Ég leyfði þeim að fylgja, svona ef apótekið vildi vita hvaða lyf ég hefði verið að "hamstra". Þarna var t.d. plastpoki með hvítum pillum í, sennilega íbúfeni en ég tek aldrei sénsa með lyf. Þarna voru líka gömul vítamín ... sem sagt lyfjadótarí margra ára. Ég hef verið dugleg að kaupa vítamín í gegnum árin en er léleg í því að taka pillur svo inntakan á t.d. D-vítamíni varð ekki regluleg fyrr en spreyin góðu komu til sögunnar. Ekki fullur poki sem fór, en nógu mikið samt. Frábær þjónusta hjá apótekum að taka við þessu til eyðingar. Notaði tækifærið og keypti hóstamixtúru, nú skal kvefið hroðalega og langdregna sem hófst 29. ágúst, sigrað! Er eiginlega viss um að svona álag, eins og fylgir flutningum, hafi lengt kvefið og dýpkað ...

 

Óvænt yndismynd af EinariJú, stráksi kom með - valdi að borða hjá mér í staðinn fyrir heima hjá sér, svo ég keypti pítsu hjá Dominos sem er við hliðina á apótekinu. Ætlaði að kaupa mína vanalegu síðan í denn - eða með tómötum, lauk og gráðosti en þá eru víst komin einhver ár síðan fyrirtækið hætti alfarið með tómata. Mig rámar nú eitthvað í að hafa fengið sólþurrkaða tómata sem var verra en flest annað. Held að viss systir mín hljóti að hafa haft hönd í bagga með því, enda er hún með lífshættulegt ofnæmi fyrir tómötum. Svo ég keypti bara með sveppum, lauk, papriku og einhverju slíku sem var mjög gott. Kostaði í kringum 2.000 kall, eitthvað afmælistilboð í gangi. Við stráksi borðuðum okkur til óbóta en ég á samt tvær sneiðar eftir í hádegisverð á morgun. Svo stökk ég inn í Bónus og keypti litla Bónus-rétti, alls konar rétti sem ætti að duga mér út næstu viku til áts ... ekki séns, svona á barmi flutninga að ég nenni að elda ... og óhreinka bakaraofninn sem er nánast tandurhreinn. Alla vega lítið mál fyrir flutningsþrifin mín að gera hann skínandi. Ég fékk augnaráð í Bónus, fyrir að taka sjö til átta svona rétti og fátt annað, þeir eru ótrúlega góðir en ég hlakka samt til að elda mér mat á Kleppsveginum. Held að það hafi verið útlendingar (næpuhvítir eins og Íslendingar) sem horfðu hneykslaðir og með hálfgerðu ógeði ofan í innkaupakörfuna mína svo mér er skapi næst að ganga í Miðflokkinn. Ég sagði eins hátt og ég gat þegar ég var komin á kassann: ÉG ER AÐ FARA AÐ FLYTJA EFTIR VIKU, NENNI BARA ALLS EKKI AÐ ELDA! ÞESS VEGNA KAUPI ÉG ÞESSA SKYNDIRÉTTI. Stúlkan sem afgreiddi mig var mjög kurteis en ég fann samt að fólkið í kring var mjög hneykslað. Svo ég setti á mig hettuna þegar ég laumaðist til að sækja pítsuna í nokkurra skrefa fjarlægð frá búðinni ...

Inni í Dominos spurði ég undrandi og forvitin, sem mikill unnandi tónlistar: „Hvort er þetta tónlist eða læti í vélum?“ (Bara taktur, nákvæmlega ekkert annað). Ungi maðurinn svaraði eldgömlu kerlingunni: „Bæði.“ Hann virtist vera í ótrúlega miklu jafnvægi og þess vegna stakk ég ekki upp á t.d. Skálmöld sem hefði eflaust gert meira fyrir geðið og vinnugleðina en taktfast eitthvað stórfurðudæmi. Sem sagt svona tónlist, sumt kántrí og sálartónlist er á algjörum bannlista í himnaríki.

 

Neðsta myndin er líka dásemdarminning ... frænka sonar míns (þau eru bræðrabörn) fékk hana senda rafrænt í gær - hún var tekin í sveitinni sem hann fór svo oft í með afa og ömmu í föðurætt, á Nýjabæ, rétt við Kirkjubæjarklaustur. Einar var alla tíð mikill sveitastrákur og dýravinur, hefur eflaust notið þess að fá að gefa heimalningnum. Mikið gaman að sjá þessa mynd.       

 

Facebook ...

Sextán ár upp á dag síðan ég byrjaði á Facebook ... Minnir að það hafi verið Anna Kristjáns von Tenerife sjálf sem ýtti mér þangað, eða var það á Moggabloggið?

 

Það skrítnasta og ótrúlegasta sem fjölmargt fólk trúir samt? 

Það komu mörg svör og auðvitað eitthvað á borð við ... að Trump geri Bandaríkin betri ... og annað í þeim dúr en það er svo stutt í kosningar westra ...

 

- Mikil vinna færir þér velgengni. 

- Núna verður þetta öðruvísi.

- Fólk sem kláraði varla skylduna veit samt meira um vísindaleg málefni en fólkið sem hefur helgað líf sitt vísindum. 

- Föstudagurinn þrettándi er óheilladagur.

- Það lenti enginn á tunglinu.

- Pólíester getur andað.

- Annað barn lagar hjónabandið.

- Jörðin er flöt.

- Það er líf eftir dauðann

- Það þarf ekki að nota svitalyktareyði.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 832
  • Frá upphafi: 1515927

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 705
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband