Rúsínuhrekkurinn ... og bergmál í himnaríki

BloggaðstaðanSkrifborðið mitt fína og fallega var sótt í kvöld af nýjum eiganda svo ég sit við gluggann og horfi yfir til Reykjavíkur á meðan ég skrifa, lyklaborð og skjár í gluggakistunni, mjög skrítið. Sjá má ljósin í Reykjavík í fjarlægð, einnig snúruhrúguna viðurstyggilegu á gólfinu, sem ég þarf að reyna að fá vit í ... en býst við að einhver frændasnillingurinn aðstoði mig svo við komuna til Reykjavíkur. Fæ samt ekkert net fyrr en á mánudaginn.

 

Bæði Rahaf (Sýrland) og Inga (Ísland) gerðu algjört kraftaverk í pökkunarmálum í dag og gær og Svitlana (Úkraína) sér um stöðugar ferðir með dót frá mér í Búkollu og bauð mér að auki í kvöldmat í gær, Rahaf hafði mætt með svakagóðan hádegismat handa mér. Mikið elska ég þær allar og fleiri sem hafa komið mér til hjálpar. Í dag var nefnilega fyrsti sæmilega góði dagurinn minn eftir þessi langdregnu veikindi og slappheit ... hef svo sem verið að þyrla upp ryki og er með rykofnæmi sem bætir varla úr skák. Meiningin er að taka sem allra minnst Skagaryk með í bæinn, vil eitthvað annað til minningar um elsku Akranes. Fasteignasalinn sem fékk sömu pestina var ögn á undan í batanum, eða náði sæmilegri heilsu á mánudaginn í þessari viku ... en konan hans er orðin veik. Covid hvað! Ég hef horft áhyggjufull á sambýlismenn mína, Krumma og Mosa, en þeir eru fílhraustir, sofa þó mikið og eru frekar áhyggjufullir yfir þessum látum, þessu drasli og tilfæringum.

 

Í dag festi ég kaup á fínasta sófa frá Dorma, á góðu tilboði, og ísskáp frá Smith og Norland. Ekkert fleira verður keypt í bráð - ja, mögulega eldhúsborð og tveir stólar. Eitt af því sem fer í Búkollu næst er heimasíminn minn, nú getur enginn hringt í 552-1039 lengur (eftir 38 ára samfylgd) og reynt að selja mér bækur eða fá mig til að styrkja enn eitt góða málefnið ... ég notaði heimasímann nánast aldrei nema bara til að hringja í gemsann minn ef ég fann hann ekki heima ... Hússjóðurinn er svo gríðarhár í nýja húsinu, verið að safna fyrir vissu verki, að þar til hann lækkar mun ég sýna grimmd og enga miskunn við þá sem dirfast að hringja í gemsann til að biðja um pening.

 

Rúsínupakkinn endalausiEitt af því sem fannst í flutningaveseninu var rúsínupakkinn pínulitli sem systir mín skildi eftir hér af mikilli grimmd, hún veit að ég hata rúsínur. Fann hann í fyrra inni í eldhúsi og hélt að ég hefði hefnt mín með því að lauma honum í veskið hennar ... en hún fann hann áður en hún fór heim, og laumaði honum í körfuna sem geymir blöð og tímarit, í fatahenginu. Sá bunki hefur nú eiginlega bara hækkað og voðalega lítið um að vera þar, engin furða þótt ég hafi ekki fundið hann. Hef bara sofið illa og næstum nagað neglurnar af pirringi yfir því að finna hann ekki.

 

Stráksi kom í stutta heimsókn í dag, eiginlega bara til að fara út með rusl (svo mikill pappír, svo lítið plast). Hann kemur með í fyrramálið í eldhúsferðina í bæinn. Ég hef eignast dásamlegan hirðsendibílstjóra sem ætlar að sækja fyrir mig sófann og ísskápinn og koma með á Kleppsveginn á morgun. Það' er nánast allt komið í kassa og poka nema föt úr kommóðu og þremur hillum í skáp, dót í litlu kommóðu, og svo eldhúsið ... en margar hendur vinna létt verk og þetta klárast allt annað kvöld. Kl. níu á laugardagsmorgun þegar flutningabíll frá Flutningaþjónustunni mætir verða hér sterkir gaurar sem þjóta hér upp og niður stigana. Svo kemur elsku Bassel minn og sækir mig og kettina.

 

Um miðjan dag í dag byrjaði að bergmála í stofunni, þá vissi ég að þetta myndi allt saman nást á réttum tíma. Vonandi gengur allt hitt vel þarna sunnan við sjóinn minn. Nýju íbúarnir fá sennilega gos í nóvember og þá verð ég að sætta mig við að sjá það í sjónvarpinu. En ... yfir og út í bili, næsta blogg sennilega á mánudaginn kemur. Ég er líka svo spennt í sögunni ... Karlar sem hata konur, samt hef ég lesið bókina nokkrum sinnum og séð myndina alla vega tvisvar. Fín bók, vel lesin og dásamlega löng.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 38
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 2045
  • Frá upphafi: 1498332

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1774
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Rúsínupakkinn endalausi
  • Bloggaðstaðan
  • Eldhúsborð og stólar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband