Píslarganga í Ikea, kaffipjatt og upphengisérsveit

Eldhúsborð og stólarSamstarfskona síðan 1995 plús hafði samband í gær og bauðst til að skutla mér í Ikea (og víðar), í leit að fyrirheitna eldhúsborðinu. Það fannst í Ikea, eða minnsta eldhúsborðið á höfuðborgarsvæðinu, aðeins 75x75 en mátti samt ekki stærra vera. Ég keypti það samt, enda á góðu verði. Frú Sigríður og frú Guðríður gerðu þó víðreist, heimsóttu Húsgagnahöllina og kíktu líka í Jysk þótt vitað væri að eina litla borðið þar passaði ekki. Dásamlegi afgreiðslumaðurinn í Húsgagnahöllinni sagðist geta sérpantað fyrir mig eldhúsborð (um 250 þúsund) ógurlega fínt merki, en ég bar mig mjög vel og sagðist hreinlega ekki geta beðið eftir sérpöntun ... Fór til baka og keypti IKEA-borðið á innan við tíuþúsundkall. Frú S fannst smart hjá mér að klæðast sænsku fánalitunum (gulur bolur, ljósblár trefill) til að tryggja mér betri afgreiðslu, en sú snilld var nú bara óvart.

 

MYND: Eldhúsborðið nýja og stólarnir ... eldhúsklukkurnar ekki komnar upp á vegg, og myndir.

 

Einhvers staðar inn á milli búðaferða fórum við í kaffi, Kastalakaffi, þar sagði frú S að fengist suddalega gott kaffi. Meðlætið væri líka gómsætt og allt á fínu verði. Það var allt rétt ... nema kaffið var ekki suddalega gott, greinilega búið að skipta um tegund, sagði frú Sigríður hugsandi. Ég hef alltaf sagt að maður eigi ekki að spara í kaffi en þarna hafði einhver ákveðið að kaupa inn Gevalia (njósnir mínar leiddu það í ljós á innan við 15 sekúndum) til að bjóða upp á þarna, fínasta heimiliskaffi en mér finnst það ekki gott val hjá kaffihúsi. Við erum að tala um örfáar krónur sem sparast á hvern bolla. Meðlætið var gott og afgreiðslan einstaklega hlýleg og góð, ég var líka í góðum félagsskap svo þetta var mjög gaman.

 

 

Frú S með KrummaEldhússtólarnir fengust í Ilvu og eru sennilega þægilegustu stólar sem ég hef setið á, þeir eru svo háir sem er geggjað fyrir konu með langa fætur. Sölukonan í Ilvu, nýbyrjuð að vinna þar, hætti ekki fyrr en hún fann réttu stólana fyrir mig, ég verð henni ævinlega þakklát. Frú S gerði sér svo lítið fyrir og setti saman fyrir mig bæði borðið og stólana sem var mikið góðverk, hún fór líka ótrúlega létt með það, verk sem hefði tekið mig marga daga (vikur, ár), ef ég þekki mig rétt. Á meðan spjölluðum við saman. 

„Aha, ertu intróvert? Mér datt það í hug,“ sagði hún, „þess vegna leið þér svona illa inni í Ikea.“

„Það var nú bara allt labbið,“ hugsaði ég klökk en kinkaði kolli, ég setti örugglega skrefamet, pottþétt 10 þúsund skref sem ég gekk bara við að leita að einu pínulitlu borði. Nú loksins skil ég orðið píslarganga. Ég vann í stuttan tíma (3 mán.) í Ikea á síðustu öld, þegar verslunin flutti frá Kringlunni í Holtagarða og kunni því á allar flóttaleiðir þar, hraðreinar fyrir innkaupafælna gesti - sem kom sér oft mjög vel. Ég vil geta farið inn í búð, gengið (ekki of mörg skref) að því sem ég ætla að kaupa, borga og fara út. Samt öfunda ég fólk sem er kannski með mér í búð og finnur eitthvað æðislegt sem ég missti af í öllum flýtinum við að komast hratt út.

 

Myndin er af frú Sigríði þar sem hún setti saman eldhúsborðið, búin með stólana. Krummi hélt hálsinum á henni heitum á meðan. Frú S er afar góð í pabbabröndurum sem falla alltaf í góðan jarðveg hjá mér. Hún flýtti til dæmis fyrir sér með því að setja seinni stólinn saman á undan hinum ... sem mér fannst mjög fyndið. 

 

Gardínur og myndirSeinnipartinn í dag komu nokkrir hjálparkokkar til að aðstoða mig við að hengja upp gardínur, myndir og slíkt ... elsku upphengisérsveitin mín. Hirðsmiðurinn kom síðan ótrúlega seint, það seint að dyrabjallan hringdi klukkan 20.30 og mér tjáð að það mætti ekki bora og negla eftir klukkan 20 á kvöldin virka daga, 18 um helgar. Mig hafði minnt að það mætti vera með læti til kl. 21 ... en gengið mitt mætir bara aftur í næstu viku. Hellingur búinn og hefði náðst fyrir níu en ég vil ekki brjóta húsreglur. Smiðurinn er mjög hrifinn af húsreglum hér, sagðist búa í húsi þar sem væri borað og neglt á öllum tímum - það væri mjög þreytandi. Hann var það hrifinn að það kæmi mér ekki á óvart þótt hann keypti sér íbúð í húsinu mínu.

 

Gerum eitthvað skemmtilegt fyrst Gurrí er flutt héðan-hópurinn á Akranesi hefur haft nóg fyrir stafni frá 5. október sl. við að bjóða upp á æsispennandi viðburði á Skaganum, eins og ég hef vælt undan. Núna síðast sá ég boðað til stórdansleiks á hlaðinu hjá himnaríki (Jaðarsbökkum), reyndar lokahóf ÍA en alveg sama. Svo var víst mjög stór æfing í dag hjá Lögreglunni á Vesturlandi, sérsveitin og allt, og ég föst á Kleppsveginum! Svo flytur Kór Akraneskirkju verkið Misa Criolla núna laugardaginn 26. okt. akkúrat þegar ég verð upptekin við að læra texta Skálmaldar utanbókar fyrir tónleikana 1. nóv. Bara fyrstu tvær plöturnar ...

Stundum væri svo hagkvæmt að geta teleportað sig á milli staða. Stráksi minntist á það í gær en hann kemur fljótlega í heimsókn, ekki þessa helgi samt, og gistir. Þá verður nú gaman hjá okkur. Ef hann getur ekki teleportað sig tekur hann strætó í Mjódd og þar mun ég bíða eftir honum.         


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.10.): 37
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 974
  • Frá upphafi: 1499693

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 638
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Gardínur og myndir
  • Frú S með Krumma
  • Eldhúsborð og stólar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband