Góð heimsókn, vond súpa og ævintýraríkt nýja lífið

HryllingsmaturinnSkelfilegur, hroðalegur matur var á boðstólum hér í gærkvöldi, kenni helst um kunnáttuleysi mínu í matargerð og á eldavélina, og ofni sem neitaði að hitna. Ég hef of sjaldan fengið góða lauksúpu í lífinu, sem er algjör synd því ég er svo hrifin af lauk og ætlaði aldeilis að bæta úr því í gegnum Eldum rétt, en í gær hefði ég alveg eins getað skorið lauk og soðið hann í vatni í klukkutíma ...

Ekkert var minnst á að krydda í uppskriftinni (Ég þarf: kryddið með salti og pipar eftir smekk, annars sleppi ég því) fyrir utan kryddjurtirnar sem fylgdu, ég hélt að eitthvað nauta-dæmi sem fylgdi líka með væri fullt af kryddi og því þyrfti hvorki salt né pipar.

Gat ekki leikið listir mínar með ostabrauðið ofan á súpunni og hitað það saman inni í ofni, heldur hitaði brauðið sér í litlum ofni og skellti ofan á ... alveg sama, ekkert gott. Svo stóð EINFALT sem erfiðleikastig ... hrmpf! Ég leyfði megninu að flakka í vaskinn og ofan í lífræna pokann í gærkvöldi, eftir góða sigtun og ofan á eldhúsrúllublöð, en geymdi eina skál fyrir hádegisverðinn í dag og hyggst krydda vel og vandlega og rista brauðið betur og brúna ostinn vel ofan á. 

 

Góðir gestirÉg er langt komin með að hreiðra um mig hér á Kleppsvegi. Kisum líður rosalega vel, sofa út í eitt, helst uppi í skáp í herberginu mínu.

Stráksi kemur í heimsókn um helgina og gistir eina nótt sem er mikið tilhlökkunarefni. Það verður kósí hjá okkur, veit ég, svo er stefnan að skreppa með vinkonu okkar á kaffihús um miðjan sunnudag áður en hann hoppar upp í strætó og siglir heim á elsku Skagann.

 

Þessa dagana er ég aðallega í því að endurhlusta á kósíbækur, til að þurfa ekki að hugsa of mikið við lokaflokkun á dótinu mínu, sem var reyndar langt komin á Skaganum. Hvað fer upp í skápa, hvað fer niður í geymslu? Það eru lúxusvandamálin þessa dagana.

 

Það er svolítið sérstakt hjá bókaforlögum að velja lesara sem tala t.d. dönskuna reiprennandi til að lesa sögur sem gerast þá í Danmörku. Það var ruglandi að hlusta á slíkt í einni, ég skildi varla nafnið Rasmus, en mörg önnur nöfn, borin fram á bestu dönsku fóru forgörðum hjá mér. Ugggrrrasmusss skildist fyrir rest. Það eru nefnilega ekki Danir sem hlusta á upplesturinn, halla undir flatt og segja svo hrifnir: „Ansi ber þessi lesari nöfnin á fólki, götum, hverfum og borgum vel fram ...“ Svo finnst mér að það ætti að fallbeygja nöfn í íslenskum þýðingum, ekki segja: Við ætlum að fara til Mona. Heldur ... til Mónu. Annars elska ég Storytel og lét framburðinn svo sem ekkert pirra mig, sagan sem ég hlustaði á var fín en hefði orðið enn betri í mínum huga með smávegis íslenskun, svona eins og við landsmenn berum orðin alltaf fram. Í nýju bókinni eftir Jussi (hún fékk að fljóta með kósíbókunum) heitir aðalpersónan til dæmis Kal Mök (Carl Mörck) og það tók mig smátíma að skilja hver þetta var, því ég hef bara lesið (ekki hlustað á) þessar bækur - en þessi nýja er hrikalega spennandi og lesturinn fínn ... Mæli með. Síðasta bókin um Deild Q - sakn, sakn.

 

Myndin var tekin síðasta sunnudag, þá komu Hilda og Júlíana í heimsókn, einnig frændhundarnir Herkúles og Golíat. Útsýnið til suðurs er líka ansi fínt og mér skilst að ég þurfti bara að fara út á svalir og horfa til hægri til að sjá roðann af eldgosi, ef Reykjanesskaginn heldur þessu gosveseni áfram.

 

SkóbekkurinnMig vantaði örfáa hluti til að koma heimilinu í stand, meðal annars snaga bak við hurðina fram, skóbekk, rúllugardínu í svefnherbergið og þrjár myndahillur sem verða fyrir ofan skrifborðið. Þar geta fjölskyldumyndir og önnur fegurð notið sín vel. Elsku Erla granni bauðst til að skutla mér í Jysk - sem ég valdi fram yfir Ikea vegna minni fjarlægðar og ... allrar göngunnar í Ikea. Maður getur nú verið latur ...

 

Á fimmtudaginn verður svo allt (nánast) klárað, alla vega myndir og málverk og þá verður nú gaman. Ánægð með veggina hérna. Nóg pláss fyrir allar stærðir af myndum.

 

Smávegis áhyggjur voru af því að ná ekki að setja skóbekkinn saman á þessu ári, svo ég sendi "tengdasyni" mínum (ég er tengdó2 hjá honum) ljúf skilaboð, hvort hann gæti verið svo indæll og dásamlegur að hjálpa mér við að setja saman ... til öryggis bætti ég við: "Ég drep þig ef þú segir nei. Djók." Hann las á milli línanna og skildi ... mætti strax eftir vinnu í gær og var varla hálftíma að gera þetta, elsku dúllan. Hann fær svo miklu flottari jólagjöf fyrir bragðið. 

 

Hér á myndinni sést skóbekkurinn góði úr Jysk í Skeifunni. Ég hafði augastað á öðrum á netinu, með leðurveseni og allt, en get alveg notað þennan tíuþúsundkall sem munaði í verði. Ég klippti myndina ögn til, svo ekki sæist jvað lan-snúran ógurlega breiðir enn úr sér þarna á ganginum. Hef troðið mottum yfir hana til að sleppa við fótbrot. En það er bara svo gaman að hlusta á tónlist (í tölvunni), að ég tími ekki að taka úr sambandi og hafa þá bara ofurveikt wifi ...  

 

HLÉ ...

 

Borg óttansDyrabjallan hringdi óvænt klukkan rúmlega 12, í miðri bloggun og fyrrum ástkær ritstjóri minn mætti með fangið fullt af brauði, köku, rjóma og listaverki eftir elsku Lindu Guðlaugs. Ég hafði átt von á henni, en ekki fyrr en eftir klukkan fjögur svo þetta var óvænt ánægja, ég var ekki byrjuð að hita súpuna frá helvíti, svo ég geri það bara í kvöld. Eftir skemmtilegt spjall og þegar hún gerði sig líklega til að kveðja át ég allan handlegginn á henni (hún hafði rétt mér litla fingur) og plataði hana til að skutla mér í Dýraríkið hérna á móti, hefði auðvitað getað farið gangandi en tilvonandi afar þungar byrðar myndu eflaust gera að verkum að ég næði ekki yfir gangbrautina á meðan græni karlinn/kerlan? logaði og ég myndi líka missa allan séns með allt of langa handleggi.

Við hittum uppáhaldsnágrannana (Erla er líka uppáhalds) þegar við komum út úr lyftunni á fyrstu hæð (yfirleitt hoppa ég niður en býð ekki virðulegum gestum mínum upp á slíkt skopp) og þegar ég sá þau skældi ég yfir ónýtri eldavél (gömul AEG) en ég vissi að eiginmaðurinn væri snjall, ef einhver gæti lagað eldavélina væri það hann. Jú, jú, við heimkomu lét ég hann vita að ég væri komin til baka með sand og kisumat, hann stökk yfir, fiktaði í öllum tökkum og "vúlla" - ofninn virkar. Svo allt er fullkomið hér.

 

 

Eins og sést á spennumyndinni sem náðist af mér (með öryggismyndavél sérsveitarinnar) á Kleppsveginum er lífið hér mun ævintýraríkara en á Skaganum þar sem ég bjó þó við hliðina á þyrlupalli.

 

ÖryggiskeðjaBýst við að ég haldi mig bara við strætó héðan í frá. Nenni ekki að láta æpa endalaust á mig í gegnum gjallarhorn: Stoppaðu í hvelli, fagra kvendið þitt! Það verður svo leiðigjarnt. Hef þó kynnst suddalega sætri löggu og hrikalega flottum þyrluflugmanni. Þeim síðarnefnda þótti æðislegt að ég ætti sama afmælisdag og Ásdís Rán sem er ekki bara fyrrum forsetaframbjóðandi, heldur líka þyrluflugmaður, eins og hann, og fyrirsæta.

Eitt furðulegt. Ég hef ekki fengið boð um að fara í framboð, samt með hreina sakaskrá! Mikill missir fyrir flokkana.

 

 

Nú er atkvæði mitt ekki jafndýrmætt og þegar ég tilheyrði Norðvesturkjördæmi, með tvöfalt vægi á við vesæla Reykvíkinga ... en þessu hlýtur að verða breytt fyrst ég er flutt í bæinn. Held að ég sé í Reykjavík norður-kjördæmi og þarf sennilega að kjósa í Laugardalshöll ... eða Holtagörðum ef ég vil kjósa utankjörstaðar. Allt svo spennandi fram undan: Tónleikar með Skálmöld 1. nóv., kosningar 30. nóv., aðventan og svo bara jólin! Þá er nú orðið stutt í bolludaginn! Svo eru verkefni farin að berast sem er gott, ég er nýbúin að senda fullt af peningum til fyrri eiganda íbúðarinnar (er víst að kaupa íbúðina af viðkomandi) og finnst ömurlega tómlegt að fara inn á heimabankann minn núna, það bergmálar þar. Það er svo dýrt að flytja, borga sölulaunin, flutningana og ótal margt fleira. Er svo fegin að hafa ekki freistast til að fara í afar girnilega utanlandsferð sem var farin í morgun ...

Er líka mjög fegin að hafa ekki náð að kaupa í Kópavogi, þær íbúðir sem ég girntist þar voru nokkuð dýrari en þessi (2-3 milljónum) samt svipað stórar ... nema mín er samt svo miklu betur farin en þær, svo ég skil ekki alveg verðlagninguna hjá sumum.   

 

Síðasta myndin sýnir Mosa taka stöðuna á umferðinni um tvöleytið í dag. Ef vel er gáð má sjá, hægra megin við hausinn á honum, grilla í keðjuna sem passar að glugginn opnist ekki nógu mikið fyrir hann til að hann geti fengið sér flugferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 827
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 700
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband