Óvænt drama, góð matargjöf af Skaga og þvottavélarólukka

Skálmöld í HörpuTónleikarnir með Skálmöld ... voru þeir góðir? Já, með þeim allra bestu. Aldrei vekja mig-tilfinningar. Mikil stemning og ég þekkti bara þrjá, sem segir mér að ég sé svolítið ein í þessu, samt alls ekki.

Elsku þrítugsafmælisbarn 4. janúar sl. og sem kom með mér á tónleikana (afmælisgjöfin hennar) lenti í drama-Gurrí sem ég hélt að væri ekki lengur til. Við höfðum rætt saman daginn áður og hún ætlaði að koma kl. 19, eða klukkutíma fyrir tónleikana, að sækja mig og þar sem ég bý eiginlega við sömu götu og Harpa var það kannski í það fyrsta ... en samt gaman að geta sest niður í rólegheitum og kíkt á ókunnu sálufélagana. 

Kl. 18.55: SMS frá mér: „Á ég að hlaupa niður núna?“

Kl. 18.57: Hjartsláttur, ekkert svar, hvað hefur komið fyrir?

Kl. 18.59: Það er eitthvað að. Eitthvað mikið. Hún getur ekki verið hætt við að koma!

Kl. 19.02: SMS frá mér: „Láttu mig endilega vita ef þú kemst ekki.“

Kl. 19.04: Ég trúi þessu ekki, hún hefur hlakkað jafnmikið til og ég. Ætli hún sé að vinna fyrir sinn flokk, þarna beinu útsendinguna á RÚV og hefur gleymt sér? Fékk hún ekki pössun?

Kl. 19.08: SMS frá henni: „Hæ, elskan, var að mála mig og heyrði ekki í símanum, kem fljótlega.“ 

Kl. 19.09: SMS frá henni: „Ég myndi aldrei hætta við!!!“

Kl. 19.15: Ég skammaðist mín, fór niður, fannst meiri kurteisi og líka fljótlegra að bíða þar ef hún væri alveg að koma.

Kl. 19.30: Hún mætir á Kleppsveginn. „Sorrí, ég þurfti að skutla XXX fyrst, við erum nú samt á góðum tíma.“

Kl. 19.30: Ég: „Já, ekkert stress, elskan mín.“

 

Rammstolin af feisbúkkÞað rifjaðist upp fyrir mér að hafa fengið áhyggjur af fólki ef það kom ekki á umsömdum tíma (ég er sjálf mjög stundvís), stundum var ég í miðri átakanlegri útför í huganum þegar viðkomandi kom, hafði tafist í símtali (heimasíma), umferð eða einhverju álíka. Ég endurheimti stöðugt fólk á lífi sem ég var byrjuð að syrgja, hélt samt sjálf áfram að mæta t.d. í boð á réttum tíma, þótt gestgjafinn væri kannski enn í sturtu. Þegar Einar strætóvinur kom klukkutíma of snemma í afmælið mitt í fyrra náði hann mér bara berhandleggjaðri, það var ekki hneykslanlegra en það, ég bauð honum til stofu en hann kaus að nota tímann til að fara frekar í sjósund ... hans undarlega val, ég veit, ég hefði auðvitað farið í jakkann og gefið honum kaffi.

 

Tónleikarnir voru dásamlegir á allan hátt. Textar allra laganna birtust fyrir aftan hljómsveitina og ég get vottað að allur textinn var afar vel prófarkalesinn, ég sá bara skort á einni kommu í upptalningu í flottu lagi. Og það sleppur. Mig langaði mjög mikið þetta kvöld til að fá hraðinngöngu (lauma 50 kr. að kórstjóranum) í Hymnodiu, þennan himneska kór sem hefði nú samt alveg mátt heyrast hærra í. En ... ég lét mér nægja að læka síðuna þeirra á Facebook. Hefði sennilega ekki fengið að syngja með á laugardeginum og sunnudeginum hvort eð var.

 

Heimsókn í dag 4. nóvÍ dag fékk ég frábæra heimsókn. Önnur sýrlenska fjölskyldan mín heimsótti mig í dag, fjölskyldufaðirinn þó hjá tannlækni, og það var einstaklega gaman. Kom hún Fatima mín með mat, eins og venjulega? Ójá. Svo mikið að ég þurfti að frysta í skömmtum. Eldum rétt hvað? Sá yngri var nýhættur að vera hræddur við mig, hló bara og skemmti sér þegar tími var kominn til að fara. Þau fengu vöfflur hjá mér, alveg ljómandi góðar frá Kötlu, minnir mig, í flösku með dufti sem þurfti bara að bæta smávegis mjólk við og hrista. Svo gerði ég súkkulaðiglassúr og þeytti rjóma. Sló alveg í gegn. Ég er að venjast nýju eldhúsi, aðeins of lítilli birtu þar ... og í raun væri ég til að hafa meiri birtu í stofunni (þegar sólar nýtur ekki) og ganginum líka. Er greinilega ekki þessi kósí- og rómanstýpa sem vill lifa lífinu í hálfrökkri. En það hafa nú samt orðið talsverðar breytingar á mér upp á síðkastið. Ég horfði á sjónvarpið á laugardagskvöldið! Það er saga til næsta bæjar. Sá tvær ruglaðar bíómyndir ... aðra um sætan mann sem tekur á leigu mjög flotta íbúð en andi eiganda leigusamningsins og húsgagnanna, ekki látinn þó, læknir í dásvefni á sjúkrahúsi, mjög sæt kona, lætur hann ekki í friði. Ástarmynd með draugaívafi. Hin er um tvær miðaldra vinkonur sem skella sér til smábæjar í Flórída eftir að hafa misst vinnuna og í fríinu bjarga þær lífi bæjarbúa sem öskureiður fyrrum íbúi, kona sem hafði orðið fyrir einelti þar, ætlaði að drepa með baneitrunum býflugum ... Hljómar hræðilega en margt óvænt fyndið þarna samt. Svo tókst mér að klára alveg hreint frábæra bók eftir Jónínu Leósdóttur, nýju bókina um Eddu á Birkimel. Við Gísli Marteinn vorum gerð ódauðleg í bókinni, alla vega ef einhver man eftir Kaffi-Gurrí ... Bókin mjög skemmtileg að öðru leyti líka. Ég er hissa á því að einhverjum hafi ekki dottið í hug að gera sjónvarpsþætti um Eddu og ævintýri hennar. 

 

Þvott og þurrkVið Heiðdís frænka skelltum okkur í Elkó seinnipartinn í dag og ég festi kaup á þvottavél með þurrkara, eitthvað Electrolux-dæmi sem hefur fengið afar góða einkunn alls staðar. Var nú samt búin að heita mér því að kaupa ekki framar dýrar vélar ef ekki fylgdu með leiðbeiningar á íslensku, annað er óvirðing, finnst mér. Ég spurði en sætti mig svo bara við að því miður ... Ég gæti reddað mér á enskunni. Samt, það er algjört metnaðarleysi að bjóða ekki upp á leiðbeiningar á íslensku, bara láta þýða og ljósrita það svo ... láta kaupandann borga ögn meira og allir sáttir! 

 

Hirðsendibílstjórinn minn, frábæri maðurinn hennar frábæru Ólafar, sótti vélina og kom með hana á Kleppsveg og það hreinlega fylgdi bara að tengja hana fyrir mig. Það þurfti vissulega að taka baðhurðina af hjörum til að koma vélinni inn á litla baðið. Ég byrjaði auðvitað á því að taka FULLT af leiðbeiningabæklingum úr tomlunni og sá mér til undrunar og sorgar að þeir voru bara á dönsku, norsku, sænsku og finnsku!!! Þekkja innkaupastjórar Elkó ekki Íslendinga? Meira að segja forsetinn okkar talar ensku í konunglegum veislum í Danmörku! Ekki nóg með það heldur vantaði sjálfa slönguna sem flytur vatnið úr vegg í vél. Við leituðum um allt; í pappa- og plastdraslinu (umbúðamenguninni), inni í sjálfri þvottavélinni, bara alls staðar en án árangurs. Þá, eða sjö mínútum eftir að þjónustuver Elkó lokaði, hringdi ég og fékk beint samband við verslun. Þar var kurteisleg kvörtun mín skráð og ég bað um að einhver kæmi með slönguna á morgun og kláraði að tengja vélina (minn maður nánast búinn að því) - sem skaðabætur fyrir að hafa fengið mánudags-pökkunarmistakavél án leiðbeininga á ensku ... og ég sem ætlaði að þvo í kvöld. Gúgla og finna á ensku. Sjáum til hvað þau gera fyrir mig.

Þótt ég hafi fengið átta í dönsku á landsprófi áskil ég mér rétt til að búa í Danmörku innan um innfædda eingöngu í nokkra mánuði til að ná upp nánast steingleymdri kunnáttu minni, veit að það myndi gerast. Danskan var auðveld og skemmtileg, fannst mér, en tækifærin til að æfa sig að tala voru því miður engin og kona í oft og iðulega þremur störfum hefur engan tíma til að læra dönsku í "frístundum" sínum nema ástæða sé til, og ástæðan kom ekki fyrr en nú í kvöld. Vélin sem ég skildi eftir í himnaríki var nú bara á dönsku (stafirnir framan á) og ég notaði eingöngu bómullarprógram og stjórnaði svo hitastigi og vindingu í gegnum það. Jú, jú, það gekk ljómandi vel í fjögur ár, enda fín vél - en kom án ísl. leiðbeininga. Hildur sem átti heima niðri, kom nefnilega upp og kenndi mér á hana, og á hvaða takka ég ætti t.d. að ýta til að vélin tæki bara einn klukkutíma í að þvo í stað þriggja, eitthvað sem maður verður að vita. 

 

Nú hef ég opinberað mig sem algjöra dramadrottningu, ekki bara vegna óstundvísi á þungarokkstónleika, heldur líka leiðbeiningalausra þvottavéla! Og ég sem þoli ekki drama! 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og fimm?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 58
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 1503089

Annað

  • Innlit í dag: 55
  • Innlit sl. viku: 614
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Þvott og þurrk
  • Heimsókn í dag 4. nóv
  • Rammstolin af feisbúkk

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband