Kraftaverk á Kleppsvegi en samt ...

LekiSímtal til litlusystur dugði til að fá símanúmer hjá pípara sem héðan í frá verður aldrei kallaður annað en Guðmundur almáttugur. „Hvar ertu?“ spurði hann og svo ... „Ég er akkúrat laus í augnablikinu en bara í smástund, kem eftir 20 mínútur,“ bætti hann við og ók sem leið lá á Kleppsveginn. Á meðan á Facebook:

 

Linda María: „Þessir kranar hafa örugglega fagnað 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar akkúrat þarna.“ 

Nanna: „Tuttugu píparamínútur geta verið langar.“

Ég: „Nei, hann er kominn.“

Hanna: „Þetta flokkast víst sem kraftaverk!“

Og kraftaverk var það. Nú er enginn leki ... en ég hef ekki enn sett í vél og alveg spurning hvort ég eigi nóg af fötum til að dekka helgina ... því ekki kann ég að gúgla mér til nægilegs gagns. Auðvitað kíkti ég í bæði norsku og dönsku leiðbeiningarnar sem fylgdu vélinni en þar skildi ég fátt og fann heldur ekki þær upplýsingar sem ég þurfti að fá.

Þvottavél og þurrkari

 

Á hvaða takka ýtir maður fyrst? Byrjar maður á að velja prógrammið, hvað svo til að þvo 30 gráðu vél, start eða on? Á hvað ýtir maður til að stjórna hitastigi, ef þess þarf? Og svo framvegis. Þessi er gjörólík Siemens-vélinni minni á Skaganum sem var í raun mjög einföld eftir að Hildur niðri kenndi mér á hana (þótt ég hafi ekki getað notað hana til hins ýtrasta vegna skorts á leiðbeiningum nema á úrdú og svahílí). Ég ætla ekki einu sinni að hugsa um þurrkaradæmið í vélinni fyrr en ég hef lært þvottinn fyrst. YouTube var heldur ekki hjálpfús og ég treysti mér ekki í eitthvað fikt og setja kannski óvart á suðuprógram.

 

 

Góðir gúglhæfileikar fyrirfinnast bara alls ekki hjá mér, sem er synd því ég væri meira en til í að verða eins og Lisbeth Salander, nema þá í vinnu hjá lögreglunni, vera konan sem finnur allt sem hún vill í tölvunni sinni og leysir þannig flókin glæpamál ... Grannkona mín á svona þvottavél en kemur ekki heim úr sumarbústað fyrr en á sunnudagskvöld. Aðrir eru veikir eða uppteknir (búin að senda a.m.k. eitt neyðarkall). Ætli sé í lagi að mæta í mjög stuttum stuttbuxum í nafnaveislu  á morgun? Ég VEIT að þetta er mjög einfalt, eins og allt er þegar maður er búinn að læra það

 

JólatréGærkvöldið var dásamlegt. Bókakonfektið úti á Granda, sem sagt. Átta rithöfundar lásu upp úr verkum sínum og þetta voru virkilega girnilegar jólabækur, var búin að kaupa eina þeirra, eða nýju bókina um Eddu á Birkimel og lesa hana, mæli innilega með henni. Það er ekki annað hægt en að fara í jólaskap við að hlusta á svona upplestur. Gömul mynd af jólatrénu mínu minnti á sig á fb og þarna sést eina kúlan sem ég á í ljótukúlusafninu mínu, Trump prýðir hana. Hún er rauð. 

 

Þarna hitti ég Kollu sem vann með mér á Fróða og líka Nönnu R. sem reyndar vann líka með okkur þar og ótrúlega gaman að hitta þær og spjalla. Nanna er með bók í jólaflóðinu og ég get ekki beðið eftir að lesa hana, hún hefur fengið góða dóma. Þarna var einnig Þórólfur sjálfur, sá eini af þríeykinu góða sem ekki fór í framboð, en ég þekki hann því miður ekki svo ég kunni ekki við að heilsa. Ekki eftir að hafa heilsað Jónasi R. í ógáti 1972, þegar hann var einn heitasti poppari landsins. Þarna voru eflaust fleiri sem ég þekki en nærsýni mín kemur iðulega í veg fyrir að ég heilsi fólki þrátt fyrir gleraugun. Ég geri mig oft að fífli þegar einhver á bíl kemur til að sækja mig, ótti minn við að setjast inn í rangan bíl og hræða glóruna úr bílstjóranum, er það mikill að ég horfi frekar grimmdarlega á alla bíla sem koma og ef einhver bílstjórinn veifar mér sest ég inn í þann bíl. Það hefur einu sinni klikkað, en þannig varð eitt af hjónaböndum mínum til.

 

Var að klára að hlusta á ansi þunglyndislega glæpasögu um bankaræningja sem tekur gísl ... gíslinn hafði strokið af geðveikrahæli og smám saman fer allt fjandans til. Verð að viðurkenna að þessi misserin er ég mun meira fyrir venjulegar og þá kannski klisjukenndari glæpasögur þar sem enginn bítur nefið af neinum eða hungrið þjakar eða einhver fær ekki óvart ör úr boga í fótinn og blæðir út. Allt of lítið um löggur, allt of mikið um vonleysi og klúður. Alls ekki slæm bók, bara aðeins of þunglyndisleg. Ætla að finna einhverja léttari til að hlusta á í kvöld. Eftir að leigubílstjórinn sagði mér frá konunni sem hætti að lifa lífinu og notaði hverja vökustund nánast til að hlusta á sögur, dró ég úr hlustun, reyni að gera það bara fyrir svefninn og þegar ég er að gera einhver arfaleiðinleg húsverk. Sem minnir mig á að ofnplöturnar voru voru ansi hreint skítugar þegar ég flutti inn, ég setti hreinsiefni á þær í gær og þarf að þrífa þær í dag ... Þá er nú fínt að geta hlustað á fína bók á meðan.

 

P.s. Neyðarkallið virkaði, ég fékk send tvö myndbönd og nákvæmlega á hvað er ýtt til að geta þvegið ... og þar með verður sett í vél núna eftir augnablik.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og þrettán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 32
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 724
  • Frá upphafi: 1505731

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 585
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband