Alls konar hamingja og snilldarhugmynd

Fúsi og NannaSkilaboð um helgina. „Erum á markaði á Akranesi, eigum við að kaupa Valeríukaffi frá Grundarfirði handa þér?“ 

„Uuuu, já, takk, heldur betur aldeilis,“ emjaði ég, bað um baunir, espressóbrenndar. Vissulega fæ ég ekki jafngott bragð og úr alvörukaffivél á kaffihúsi en baunavélin mín er nú samt býsna góð. Þessar elskur sem fóru á markaðinn á Skaganum mættu svo í heimsókn til mín um hádegisbil í dag. Að sjálfsögðu bakaði ég eina plötu af smákökum (Takk, Eva Laufey) og bauð líka upp á ljómandi gott hafrakex úr Kristjánsbakaríi (fæst í Bónus) með smjöri og osti. 

Fúsi og Nanna eru ekki bara greiðvikin og góð, heldur líka mjög skemmtileg, annar sonur þeirra, Stefán, á ekki langt að sækja það en hann er einn fyndnasti maður landsins (langar mjög mikið að sjá uppistand með honum). Þegar þau fóru gripu þau allt ruslið með, Sorpuruslið, pappa og plast utan af þvottavélinni og smávegis meira. Ég sendi þeim svo varúðarskilaboð um að það væri bæði pappi og plast í svarta ruslapokanum, ég vildi ekki að þau yrðu handtekin við að gera mér þennan stórgreiða. 

Á meðan þau stoppuðu hjá mér (allt of stutt) fékk ég upphringingu frá vinnustað (aukavinna) þar sem ég hafði farið í spennandi hæfileikapróf. Ég stóðst víst prófið, var mér sagt, og gæti fengið verkefni ... eftir áramót. Man ekki hvort ég þurfti að dansa í hæfileikaprófinu en ég er enn liðug eftir að hafa verið í Dansskóla Sigvalda. Brillera ætíð í söng eftir veru mína í Kór Langholtskirkju og bý líka alla tíð að því að hafa verið í Skagaleikflokknum. Kona með reynslu.

 

Shining jólamyndÞetta EFTIR ÁRAMÓT er samt alveg að fara með mig. Hvað er að, Reykjavík? Þrjár vinnur, með þessari, sem ég get fengið ... eftir rúman mánuð. Hvað á ég að gera í desember? Lesa, dúlla mér, ryksuga, horfa á jólamyndir, drekka kaffi? Það býst svo sem enginn við rándýrum jólagjöfum frá mér í ár - það er svo dýrt að flytja, munið - en lifi ég aðgerðaleysið af? 

Hef um langan tíma verið svo handviss um að ég yrði hamingjusamasta kona í heimi þegar ég kæmist á eftirlaun ... en ég er ekki svo viss núna. Ein vinkona mín, hætt að vinna, vaknar frekar snemma, gerir jógaæfingar í korter og fer svo að læra tungumál (í gemsanum) í einhvern tíma líka ... en hvað svo? Hún hatar vissulega ekki gönguferðir svo hún fer eflaust í langar göngur um nágrennið. Svo passar hún barnabörnin sín stundum. Þarf ég ekki bara að koma mér upp ömmubörnum í Reykjavík, ég skildi nokkur dásamleg eftir á Akranesi. Elsku Ali, Alexander, Aya, Bana og Evia, mikið sakna ég þeirra.

 

Ef ég fer á fullt í vinnuleit núna gæti ég fengið eitthvað fast, eitthvað spenandi, alveg óvart, og orðið þá að svíkja vinnustaðina þrjá eftir áramót, allt draumastörf þar, þetta verður gefið upp þegar allt er orðið blýfast og meira en 99 prósent öruggt. Bakið á mér treystir sér ekki í afgreiðslustarf í verslun í einn mánuð sem væri alveg möguleiki að fá, svo ég verð bara að slaka á ... Ég gæti auðvitað farið að spá í spil og strekkja dúka á sama stað (bjó sú spákona ekki einmitt við Kleppsveg?)

 

Óhemjugangurinn er algjör hér á heimilinu. Er með nokkrar girnilegar jólabækur í bunka á náttborðinu, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Þórdísi Gísla, Nönnu Rögnvaldar og Skúla Sigurðar - og óvænt bættist bókin Krydd lífsins eftir Einar Örn Gunnarsson við, mikinn uppáhaldshöfund ... Ég tók þá ákvörðun að treina mér þessar bækur, þessa dýrð eitthvað fram á aðventuna ... en hvað gerðist ekki í gærkvöldi? Ég valdi bókina hennar Evu, ætlaði að lesa þar til ég yrði syfjuð, þorði alls ekki að velja spennubók (Nanna og Skúli) til að falla ekki í þá freistni að klára ... Hversu lítið þekki ég sjálfa mig. Auðvitað byrjaði ég á bókinni hennar Evu frænku, Í skugga trjánna, og klukkan hálfþrjú í nótt lokaði ég henni, búin og sátt eftir lesturinn, virkilega góð bók, svo góð að ég tímdi ekki að hætta fyrr en hún var búin, gat það ekki. Ef svona lestraræði grípur mig aftur, sem er mjög líklegt með þessar bækur, fer ég bara fyrr upp í. Hugsa að ég geymi mér ljóðin hennar Þórdísar til aðfangadagskvölds ... en þori engu að lofa.

 

Kría og MosiSteingerður kíkti í stutta heimsókn í dag ásamt Kríu, Kría er meðalstór hundur, svona eins og Krummi er köttur ...

„Jú, taktu hundinn endilega með, ég set kettina upp í skáp,“ hafði ég sagt við hana.

Hún skellti upp úr, ég var samt ekki að grínast. Skápurinn er í svo miklu uppáhaldi hjá kisunum og þar finna þeir til öryggis. Þeir lágu þar báðir þegar Steingerður hringdi og kom tíu mínútum seinna, og fylgdust svolítið stressaðir með þegar Kría leitaði út um allt að þessum kisum sem hún fann lyktina af. Hún gelti glöð og spennt þegar hún kom loks auga á Mosa uppi í skápnum. Krummi var þá kominn undir eitthvað, hann hefur þróað sér ótta við hunda og þorir ekki að láta þá heyra það nema þeir séu minni en hann, þá hefur hann birst ógnandi til að bjarga mannfólkinu frá þessum ófétum ... sem hann álítur frændhunda mína, Herkúles og Golíat vera ...

Mig fer samt að vanta skápinn, eða plássið, þetta er svo rosalega góð hirsla undir alls konar hluti, á nefnilega enn eftir að opna nokkra kassa sem standa rólegir í neðri hlutanum vinstra megin (ókei, verkefni í desember, nema það komi desembervinna upp í hendurnar á mér). Svo er annar eins skápur inni í svefnherberginu en ég er búin að loka á kettina þar, er með alls konar heklgarn þar og ekkert pláss fyrir ketti, svo kostaði það eilíf sjokk og óvænt upphrökkelsi um miðjar nætur þegar þeir stukku niður (eða hlunkuðust, þeir hafa fitnað talsvert eftir að Keli dó, hann sá um að þjálfa þá með eilífum eltingaleikjum).

 

ÖkuskírteiniÉg geri ráð fyrir að kjósa utankjörstaðar á morgun, hérna hinum megin við götuna, þá get ég farið í kosningakaffi víða um borg á laugardaginn, eða kannski bara eitt, leyfi vinkonu minni að ráða. Eitt sinn fyrir mjög mörgum árum fannst mér og vinkonu ákaflega fyndið að skreppa í kosningakaffi bara hjá einhverjum flokki sem við kannski kusum ekkert endilega. Við völdum að heimsækja Framsóknarflokkinn ... ég man ekki einu sinni hvar í borginni, mögulega í Kópavogi. Við fengum svo dásamlegar móttökur þar, áður en við vissum af vorum við farnar að skera niður lagtertur í stórum stíl og svei mér ef sjálfur Óli Jó kom ekki og heilsaði upp á okkur ungu konurnar sem hann gladdist svo yfir að sjá ... en þá var Framsókn algjör gömlukarlaflokkur, fannst okkur vinkonunum, við vorum rúmlega tvítugar.

 

 

Það væri svo innilega gott stundum að hafa persónukosningu ... geta kosið gott fólk úr flestum flokkum (er ekki hrifin af fjórum flokkum sem eru í framboði núna). Vona að ég teljist gildur kjósandi (ekki feit samt) þótt Hrefnu-millinafnið (sem bættist við á þessu ári) sé hvorki á ökuskírteininu mínu frá 1986 né á vegabréfinu sem rann út í september sl. Finnst peningasóun að fá mér nýjan passa fyrr en utanlandsferð er fyrirhuguð sem verður sko ekki í bráð. Einhver sagði mér að hægt væri að fá nafnskírteini í símann en ég hef getað notað vegabréfið án vandræða þegar ég hef þurft á skilríkjum að halda. Það verður alla vega einn flokkur rosalega sár ef ég fæ ekki að kjósa.

 

Mikið gladdist ég þegar Diego Skeifuköttur fannst, ómeiddur. Margir hugsuðu kattaþjófinum þegjandi þörfina, en það ætti að fara varlega í að dæma. Þegar svona hlutir gerast er oftast um andlega veika einstaklinga að ræða. Við refsum sjaldnast slíku fólki (nema auðvitað það sé erlent ...) ættum frekar að reyna að hjálpa því.

Skrifborðsstóllinn minn var keyptur í A4 í Skeifunni, ansi dýr en ég hafði verið alla tíð á undan í gömlum og notuðum stólum, þetta var sá allra fyrsti sem ég keypti nýjan ... var þá í leit að Diego, vildi sjá þennan fræga kött og nánast datt um minn frábæra skrifborðsstól í leiðinni ... Held að Hagkaup, A4 og fleiri tapi sannarlega ekki á því að hafa hann hjá sér í vinnu.

 

Hugmynd að desembervinnu fyrir mig: Ég væri alveg til í að sofa í góðu bæli (helst hægindastól samt) í einhverri búð núna í desember, helst bókabúð, og fá laun fyrir. Hæ, Penninn Eymundsson! Góður stóll, hlýtt teppi, almennilegt kaffi og jólabók. Gæti auðveldlega setið úti í glugga og blaðað í girnilegum bókum, látið sem ég væri heima að springa úr hamingju yfir jólabókum. Jólasveinar eru eitthvað svo 2023 sem gluggaskreytingar. Get byrjað strax eftir helgi.    


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og þremur?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.11.): 140
  • Sl. sólarhring: 170
  • Sl. viku: 882
  • Frá upphafi: 1506581

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 718
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 100

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ökuskírteini
  • Kría og Mosi
  • Shining jólamynd

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband