Varkárni, vondur smekkur og skýjahöll í sjötta himni ...

WTFSat rafrænan fund í gærkvöldi og skemmti mér vel, þegar ég var loks búin að setja hljóðið á í Settings - sem þurfti án þess að ég vissi að væri slökkt á því. Hélt að hljóðið væri á ... en ekki ÞETTA HLJÓÐ. Dæs. Hef ekki verið á svona fundi síðan á covid-tímum. Skrifaði líka fundargerðina, varð að handskrifa því lætin í mér á lyklaborðinu höfðu áhrif á gæði hljóðsins. Tækniheft hvað ... en mér fer fram, um leið og ég læri eitthvað, man ég það framvegis, verð bara grautfúl ef gert er lítið úr mér fyrir að kunna ekki eitthvað sem ég hef aldrei lært.

 

Nú á nýju ári og á tveimur til þremur nýjum vinnustöðum þarf ég án efa að tileinka mér ýmislegt nýtt sem er bara gaman ... en vissuð þið að ársbyrjun bendir til þess að árið verði ansi hreint ... eitthvað svakalegt kannski. Sjá efstu mynd! 

  ------    ----- ----- --- 

Höfuðverkur í gær gerði að verkum að ég kappklæddi mig fyrir nætursvefninn, peysa og allt, þunn sæng en líka teppi, fór að sofa snemma (miðnætti) og vaknaði upp úr hádegi í dag, um eittleytið, með þá fullvissu að ég hefði sofið af mér hroðalegt jólakvef. Lyf sem ég tek gera mig kulsækna (sem var ekki áður, langt í frá) og ég hef síðan dottið ofan í alls konar ofkælingarveikindakvef síðan í júlí. Ekki hefur hjálpað til að ónæmiskerfið hrynur oft hjá fólki sem stendur í stórræðum eins og flutningum milli landshluta. Ég geri nánast allt; sker hráan lauk í tvennt og hef uppi á kommóðu í svefnherberginu mínu, tek inn bæði C- og D-vítamín og passa upp á svefninn. Líka löngu hætt að kyssa nokkurn mann í litlu lyftunni (hún býður upp á rómantík) og þannig smitast, reyni svo sem yfirleitt, ef ég er ekki með þunga poka, að ganga upp stigana en tek stundum lyftuna frá fimmtu upp á sjöundu ... játa það hér með.

 

Göngutúr eða sundEitt það versta við að flytja var að missa Einarsbúð sem færði mér allt sem mig vantaði upp að dyrum. Í gær kom sendill frá Gæludýr.is (gaeludyr.is) með mat og sand fyrir kisurnar og einnig grasfræ í bakka ... en ég stunda nokkuð umfangsmikla grasrækt í eldhúsglugganum (ef þið sendið lögguna á mig, hafið það þá ógiftan og sætan, síðmiðaldra karl). Svo fæ ég matinn sendan með Eldum rétt upp að dyrum ... og prófaði núna síðast að kaupa annan réttinn tilbúinn, kjúkling með sætfrönskum og koníakssósu ... þurfti bara að setja kjúkling og kartöflur á ofnplötu í korter í heitan ofn og hita sósuna í potti, rífa niður salatið. Ögn fljótlegra og minna subbulegt. Nýjung hjá Eldum rétt. Hinn rétturinn sem var í boði og ég þáði EKKI, var saltfiskréttur, eitthvað sem er í sama flokki hjá mér og þverskorin ýsa, svið, súrt slátur og kæst skata ... Ég fæddist samt ekki í röngu landi. Svona er smekkur misjafn. Ég með góðan smekk, allir aðrir vondan, eða öfugt? Frábært dæmi um misjafnan smekk: Ég sá á Facebook nýlega auglýsingu frá Geðhjálp þar sem tveir hlutir voru taldir upp - sem báðir áttu að vera dæmi um að hlúa vel að sér ... göngutúr eða sundferð. Bloggvinir mínir vita að hvorugt á upp á pallborðið hjá mér, svo vægt sé til orða tekið. Get ekki valið um hvort er hræðilegra. Allir vinir mínir og ættingjar, held ég, elska gönguferðir og sund. Sumir splæsa meira að segja í Sky Lagoon-ferðir ... ætla samt að sjá til með gönguferðir þegar fer að hlýna og þá með góða sögu í eyrum. Þarf að skoða umhverfið og fara í rannsóknarferðir í allar áttir. Það geri ég alltaf þegar ég flyt í nýtt umhverfi, á um það bil 18 ára fresti.

 

Get víst seint sagt að ég sé mikið tæknitröll. Systur mína fór að lengja eftir að ég sendi henni miðana okkar á Vitfirringana þrjá í Hörpu, jólatónleika 21. des., svo hún gæti prentað út og haft tilbúna, og í ljós kom að ég hafði aldrei klárað kaupferlið. Þetta átti sem sagt að vera afmælisgjöf frá mér til hennar. Hef aldrei nennt á jólatónleika nema með Kór Langholtskirkju um árabil en nú átti aldeilis að breyta til. Hún tók í kjölfarið að sér að panta eigin afmælisgjöf og tónleikarnir verða 22. des., kl. 17, minnir mig. Ég geri ekki mikil kaup á netinu og kýs yfirleitt alltaf að millifæra inn á alvörureikning hjá alvörufyrirtækjum, í mín örfáu skipti, eins og Gæludýr.is. Veit að ýmsir hafa farið illa út úr kaupum með því að gefa upp kortanúmer, eins og Friðrik Ómar sem glataði töluverðum fjármunum nýlega, í stressi og fljótfærni, reyndar í "viðskiptum" við þaulvana tölvuþrjóta. Eflaust enn auðveldara að plata óvant fólk á borð við mig.

 

Komst aldeilis í feitt nýlega ... eða fann safaríka og langa glæpasögu til að hlusta á. Hún er nýútkomin, heitir Miðnæturstelpur og er eftir Jonas Mostöm. Hef lesið fleira eftir hann og get mælt með bókum hans. Þessi er rúmlega 26 klukkutíma löng (jessssssss) og nú hef ég enga afsökun fyrir að setja íbúðina ekki í jólabúning, þrífa fyrst samt. Það er svo gott ef maður er með góða bók að hlusta á. Ég geri ekki þá kröfu til bóka að þær gefi jólastemningu á meðan ég skreyti ... Þessi er líka afskaplega vel lesin af Margréti Örnólfsdóttur. 

 

Téð fatahengiÁ morgun verður afsalsdagurinn mikli. Þá afsala ég mér himnaríki (snökt) og Skýjahöllin verður mín (er aðeins að máta þetta nafn á nýju íbúðina). Það eru allir hjartanlega sammála um að þessi íbúð mín sé vel staðsett, bæði upp á útsýni (haf, Esju, Kjalarnesið í norður og Breiðholtið, 104 Rvík og stundum eldgos í norðurátt) því flestir vinir og vandamann eru bara í kringum tíu mínútur á leiðinni til mín, hvort sem þeir eru í Kópavogi eða Reykjavík. Skýjahöllin passar í raun vel því ég er í skýjunum yfir íbúðinni og hún er skemmtilega hátt uppi, höll er kannski full drambsamt orðaval en ég er í ljónsmerkinu og við Ljónin lítum víst á okkur sem algjörar hefðardúllur, ef marka má stjörnuspekina. Undirnafn gæti svo verið: Í sjötta himni! Eða bara Í skýjunum. Sko, íbúðin er á sjöttu hæð og lyftan stoppar bara á annarri hverri hæð, í alvöru, svo ég þarf að taka hana upp á sjöundu og ganga hálfa hæð niður - svona þegar ég treysti mér ekki til að ganga næstum alla leiðina upp) Hvað finnst ykkur? Þarf að skrolla niður fésbókina mína til að skoða góðar tillögur sem þar komu frá fb-vinum, t.d. Skýjahöllin.

 

Myndin er af stórfrægu fatahengi mínu sem hangir nú uppi bara til að hylja nýleg göt á hryllingsveggnum ... ég get sett þar lauflétta úlpu mína og trefilinn (sem ég heklaði fyrir mörgum árum) en ekkert annað. Í næstu heimsókn vissra engla úr Kópavogi verður betri borvél tekin með og almennileg töng til að ná föstum skrúfum.

 

Önnur fasteignasalan vill hafa undirskriftirnar rafrænar en hin ekki ... býst því við að taka leigubíl þangað í þessari ömurlegu hálku og veseni og líka á barmi þess að detta í enn eitt stórkvefið sem ég geri nú samt pottþétt ekki vegna stórvirkra varnaraðgerða - en nú bara verð ég að eignast lopapeysu. Sit hér við tölvuna í tveimur peysum, annarri þykkri og samt eru handleggirnir á mér kaldir viðkomu. Ofninn við hliðina á mér er heitur ... Ég er samt manneskjan sem pantaði fokdýra silkisæng frá útlöndum eitt árið til að geta sofið vegna hita (sumar). Heimilishitinn í himnaríki var alltaf í kringum 18 gráður sem er vissulega ágætur hiti fyrir rauðvín en ekki gesti mína sem skulfu oft úr kulda og þurftu stundum peysur og ullarsokka að láni. Vissulega ávani hjá mér að hafa kalt og það kostaði líka að á sumrin þurfti ég viftur til að lifa af. 

 

Dans - dans - dans

Enn eitt sem ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af, er dans en það er eitthvað í gangi núna með mig. Ég sá myndbandið hér fyrir neðan á netinu fyrir skömmu og hreifst ansi mikið af dansgleðinni sem þar ríkir. Góða skemmtun, elskurnar. Í næsta bloggi gæti ég farið að tala fallega um sund, gönguferðir og kæsta þverskorna ýsu ... ekki missa af þegar geimverur yfirtaka líkama minn og smekk ... 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 713
  • Frá upphafi: 1524911

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 610
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband