Stór dagur afsals, Batman-bíll en skortur á sérsveit

TeslaAfar rólegur og lítt æsandi dagur miðað við undanfarið ... og þó. Ég vaknaði fyrir allar aldir, meira að segja fyrir tíu, og ákvað að drífa mig í afsalsgerðina fyrir hádegi. Gestakomur eftir hádegið ollu því að ég þurfti að klára að ryksuga og taka aðeins til. Ég var afar orkumikil í allan dag, ofsaglöð og ótrúlega fljót að gera allt fínt (kannski 20 mín. með ryksugun). Tókst að slá út ljósum í eldhúsi en fékk litháíska aðstoð (góður granni sem vinnur frá kl. 5 á morgnana fram yfir hádegi) við að ýta á réttan takka frammi - svo nú kann ég þetta.

 

Tók leigubíl til krúttmolanna hjá Gimli, frábært fólk að vinna þar. Ég skipulagði allt ógurlega vel. Fékk að leggja lokagreiðsluna inn á reikning þeirra áður en ég pantaði bíl frá Hreyfli og í annað sinn á ævinni fékk ég Teslu. Í þetta sinn með geggjuðum dyrum ... sem opnuðust eins og bíldyr í framtíðarmyndum. Það klingdi svo í einhverju fram í, ég gleymdi í hrifningu minni að spenna beltið, í fyrsta sinn í áratugi. Áfram glumdi í viðvörunarbjöllu en þá hafði ég hvílt höndina á sætinu við hliðina ... útskýrði bílstjórinn. Sjúklega næmt kerfi, sagði hann.

„Má ég eiga von á því að að bíllinn opinberi t.d. að ég borðaði súrmjólk og kornflex í morgunmat,“ spurði ég. Too much information-svipur kom á annars mjög hressan bílstjórann og í huganum barði ég sjálfa mig nokkrum sinnum með blautu handklæði í andlitið.

 

Ég eignaðist skýjahöllina (ævintýrahöllina) rétt fyrir hádegi í dag með því að undirrita nokkur skjöl og láta af hendi stórfé, leigubíllinn beið fyrir utan Gimli og ók mér síðan beinustu leið heim aftur. Þegar ég gekk að húsinu, kallaði flottasti húsvörður í heimi (Bryndís) á mig út um gluggann: "Kemurðu á Batman-bíl!" Ég svaraði játandi, auðvitað var þetta Batman-bíll (sjá mynd) og ég sagðist ýmist ferðast um á slíkum bílum eða þyrlum ... næstum satt (ógleymanlegt þegar ég tók strætó í bæinn um árið og kom heim á Skagann á þyrlu en eftir þá þyrluferð get ég með sanni sagt að ég hafi komið upp á Esjuna því þyrlan kom við þar áður en mér var skutlað heim. Lúxuspía.

 

SjúkFyrri heimsókn dagsins var um þrjúleytið, verulega indæl hjón, Þóra og Dagbjartur, og ég sló auðvitað í gegn hjá þeim með nýbökuðum smákökum (takk aftur, Eva Laufey). Ég aðstoðaði með yfirlestur á bók sem Þóra var að gefa út. Sjúk, heitir bókin og er krimmi um sálfræðing í klemmu.

 

Bókin er um sálfæðinginn Emmu sem lifir góðu lífi með eiginmanni og dóttur þegar fortíðin bankar harkalega upp á - atvik sem hún hefur reynt að gleyma í nokkur ár minnir á sig ... spennandi bók með óvæntum endi. Eitt ansi áhugavert í bókinni, var um arfgengu persónuleikakenninguna sem aðalpersóna bókarinnar er spennt fyrir, eins og höfundurinn, í eftirmála kemur góð útskýring á kenningunni. Þar skiptir t.d. máli hvar við erum í systkinaröðinni. Ég er, samkvæmt því, eins og mamma. Elsta systirin eins og pabbi, því hún er stelpa, hefði annars snúist við. Ég hef reynt að máta ýmsa vini og vandamenn við þetta. Ég erfði vissulega sitt af hverju frá mömmu en líka svartan húmor frá pabba, enda er þetta ekki alveg klippt og skorið frekar en annað og líka gert ráð fyrir umhverfi, uppeldi og fleira. Mér finnst þetta alla vega mjög skemmtilegt og gaman að fá þetta inn í spennubók. Dagbjartur er víst duglegur að sannreyna þessa kenningu, jafnvel á ókunnugum sem halda sumir að hann sé einhvers konar sjáandi, svo oft passar þetta hjá honum.

 

Spáin fyrir 2024Seinni heimsókn dagsins var frá húsfélagsskvísum af Skaganum, formanni og gjaldkera. Ég, eitt sinn riddari húsfélagsins, yfirgaf þær í október og síðan hefur víst verið afskaplega rólegt í húsinu, að þeirra sögn. Ekkert bold and the beautiful-ástand, allir stilltir. Sem segir kannski ýmislegt. Þeim finnst ég flutt í hálfgert háskahús, það eru 32 íbúðir í stigaganginum sem býður hættunni heim og að auki er vínbúð handan götunnar (hélt að þær vissu að ég hata gönguferðir). Samt held ég að þær öfundi mig rosalega af heimsókn sérsveitar í fyrrakvöld - og mér sýndist á augnaráðinu að þær héldu að þetta hefði verið eins konar vígsluathöfn, nú væri ég viðurkenndur íbúi fyrst ég fríkaði ekki út. Kannski misskildi ég alveg augnaráð þeirra og þær bara svona yfir sig hrifnar af nýbökuðum smákökum og Nóakonfekti sem ég bauð upp á. Norðmennirnir sem eiga Nóa Síríus núna ættu nú samt að passa sig, að okkar mati, að verðleggja sig ekki út af markaðnum. Ef einhver stefnir á að gefa mér kíló af Nóakonfekti í jólagjöf, bendi ég á minni og þar af leiðandi ódýrari konfektpakka með bara fylltum molum, en það eru nefnilega einu molarnir sem ég borða. Stórtap fyrir Ingu vinkonu því hún fékk alltaf "vondu" molana mína sem hún leit á sem bestu molana.

 

Myndin (neðsta) birtist fyrir nákvæmlega einu ári á feisbúkksíðu minni og var spá fyrir árið 2024. Ég ákvað að reyna að láta allt rætast, bara upp á grín, aðallega þó til að gleðja véfréttina, en verð mögulega að játa mig sigraða, eitt atriði af fimm er nú bara alveg frábært ... það eru 26 dagar eftir af árinu og lífið hér í borginni fullt af óvæntum atburðum til þessa.

 

Dagsbirtuljós frá EirbergiÉg veit hvað ég ætla að gefa sjálfri mér í jólagjöf ... Ekki bók, að þessu sinni (ja, kannski bara eina eða tvær) heldur svokallað dagsbirtuljós.

Kona hér í húsinu mínu fer í ljósbað í svona 20 mín. á dag og segir það gefa sér mikla orku í skammdeginu. Ég hef verið frekar syfjuð og dösuð (en glöð samt) undanfarið sem gæti verið myrkrinu að kenna, samt er ég alls ekki sóldýrkandi.

Þar sem ég þarf ekki að hlaupa út í vinnu á morgnana hef ég svo sem lítið gert til að laga þetta, vissulega tekið D-vítamín sem er gott en tvö sprey á dag nægja kannski ekki yfir myrkasta tímann.

 

 

Skilst að svona lampar séu ekki svo dýrir en geri ótrúlega mikið fyrir orkuna. Mér veitir ekki af meiri orku. Ég er bara komin með eitt jólaskraut, lítið tré sem þyrfti nú samt að skreyta ... ja, reyndar tvö skraut, elskurnar af Skaganum færðu mér bleikan, mjög fallegan hnotubrjót í innflutningsgjöf.

 

Mosi viðstaddur jólapökkunMér finnst nú allt í lagi að leyfa jólunum í ár að koma og fara áður en fólk fer að pæla í þeim næstu, en ég sá í dag á samfélagsmiðlum að jólin 2025 verða stórubrandajól. Þá verður 24. des. á miðvikudegi, jóladagur og annar í jólum á fimmtudegi og föstudegi. Svo kemur helgin ...

 

 

Ég kíkti fram í tímann á almanakinu í gemsanum til öryggis, rétt skal vera rétt á þessu bloggi, og sá einnig að ég á afmæli á þriðjudegi 2025. Finnst líklegt að ég haldi upp á það með því að bjóða 70 eða 80 allra nánustu í kaffi og tertur. Fyrst ég kom yfir 90 manns í 56 fermetra íbúðina mína á Hringbraut ætti að fara ágætlega um gestina í 70 fermetrum, eða svo. Stórar svalir og allt.

 

 

Hef bara Mosa í búri, því hann hoppar út um alla glugga (alla vega einn, einu sinni) og niður af öllum svölum (alla vega niður af einum, einu sinni). Hann fannst sem ungur kettlingur lafhræddur ofan í bílvél á Akranesi, enginn veit hvaðan hann kom. Allt þetta vesen á honum þýðir bara eitt: hann á aðeins 6 líf eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.12.): 186
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2057
  • Frá upphafi: 1512349

Annað

  • Innlit í dag: 142
  • Innlit sl. viku: 1752
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 138

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Hnetusmjör
  • Frétt 17. desember
  • Frétt 17. desember

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband