Ástarleiðrétting, uppgötvun korter í jól og útlitsfordómar

Auðvelt að ruglastBloggfærsla gærdagsins innihélt alvarlega villu ... Mér varð virkilega á í messunni þegar ég hélt því fram að ég hefði verið í sambandi við David Gilmour, gítarleikara Pink Floyd. Svo margir kærastar, svo stuttur tími, svo mikil gleymska. Það hef ég mér til afsökunar.

Frekar slæm mynd af Ginger hægra megin með David var það lík mér (vinstra megin), svona fljótt á litið, að ég gleymdi að kíkja í Handbók veiðikonunnar sem ég hef haldið nokkuð samviskusamlega síðan 1978. Ég var auðvitað au pair í London 1976, ekki byrjuð að halda skrá þá, og þekki þar að auki nokkra tónlistarmenn (Gummi bróðir kann t.d. á gítar) og ákaflega eðlilegt að ruglast. Ég bið Ginger og David innilega afsökunar og einnig Polly, núverandi eiginkonuna. Þetta kennir mér bara að fá mér aldrei framar ljósar strípur og permanent!

Ég er komin af afskaplega dökkri yfirlitum-móðurætt og hefði aldrei átt að lýsa á mér hárið. Mun snjallara að gera það núna þegar gráum hárum er farið að fjölga.

 

ÞvottavélinÞvottavélarsérfræðingur minn, snillingurinn hún Jenný, fékk líka á sig lygi nýlega hér á bloggi þegar ég sagði hana vera búsetta úti í Noregi. Auðvitað býr hún í Svíþjóð, ég vissi það en skrifaði samt Noregur. Afsakaðu þúsundfalt! Getur verið að gervigreindin sé farin að rugla svona í manni? Jafnvel rússneskir eða fyrrum ísraelskir leyniþjónustumenn sem eru víst til alls vísir þegar kemur að því að rugla í ríminu? 

Reyndar er víst bara greindarmerki að vera utan við sig og bulla, skilst mér og sennilega hefur greindin bara þvælst fyrir mér þegar ég "ranglendaði" hana.

 

Elsta vinkona mín, ekki að árum samt, kíkti loksins í kaffi til mín í dag í Ævintýrahöllina. Við kynntumst í Nýju blokkinni á Akranesi, kannski fjögurra eða fimm ára gamlar, lentum í sama bekk í barnaskóla og höfum haldið tryggð hvor við aðra alla tíð síðan. Hún er yfir sig hrifin af íbúðinni (eins gott), mætti með himneskar veitingar, eins og heimabakaðar smákökur, snúða og svo brauð sem hún greip með úr frystinum hjá Brauð&co. Við þiðn kom í ljós að brauðið var með ekki bara rúsínum heldur kúrennum líka. Ég hélt ró minni, merkilegt nokk, en hún var hugsandi yfir skorti á innihaldsmerkingum. Hún hefði aldrei keypt brauð með þessu innihaldi, en hún gat svo sem borðað það, viðurkenndi þessi mikla hetja og tók afganginn með heim, enda er ég ekki enn búin að koma mér upp fuglum hér í bænum sem þiggja afganga.

Það er náttúrlega ekki nokkur hemja að geta ekki borðað hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur. Þetta fyrsta og annað er svo sem ofnæmistengt en hitt matvendni. Ég beit reyndar óvart í gráfíkjustykki um daginn og varð samstundis flökurt svo fíkjur eru í hópnum og hafa svo sem alltaf verið.

 

JólaboðÉg er að uppgötva þessa dagana, mér til hryllings, að ég er ömurleg húsmóðir, kann vissulega að halda afmælisveislur og ryksuga en matarboð ... bara alls ekki. Man eftir tveimur í fljótu bragði, á Hringbrautinni (1988-2006). Skellti hrygg inn í ofn og allt var tilbúið klukkan 19 ... gestirnir þrír mættu klukkan 23 og áttu varla orð yfir hvað mjúki, ofeldaði hryggurinn var góður, það var ekki búið að finna upp gemsa þá svo ég beið hugstola eftir andlátsfréttum af þeim. Svo hef ég kannski tvisvar eða þrisvar, fyrir löngu, boðið upp á bestu súpu í heimi, grænmetis með chili ... mér finnst hún mjög góð þótt ég sé ekki mikil súpukona. Jú, eitt sinn stóð ég heilan dag og undirbjó indverskan mat fyrir 2-3 vini - allt í lagi maturinn en samt var ein sósan þunn en átti ekki að vera það. Hefði ég keypt Korma-sósu í krukku og sett yfir kjúkling hefði það bragðast betur og einnig litið betur út ...

 

Ég hef árum saman fengið nokkra ættingja í hangikjöt á jóladag. Það getur ekkert klikkað þar, ég sýð hangikjötið á Þorláks eftir leiðbeiningum á umbúðum, kæli það og geymi í ísskáp. Mamma bjó alltaf til uppstúfið en systir mín tók við af henni með það. Svo tókst mér af mikilli snilld að opna dósir með baunum og rauðkáli, og kaupa laufabrauð ásamt malti og appelsíni. Ógurlega gaman, alltaf. En ... hangikjöt fer ekkert sérlega vel í fólk (ég fæ t.d. bjúg en læt mig hafa það einu sinni á ári) og sífellt færri borða það, virðist mér. Ég yrði að finna eitthvað annað með því Pálínuboð kemur ekki greina. Lausnamiðaða systir mín stakk upp á að ég hefði t.d. lítið lambalæri líka og ... mér hefur nánast verið flökurt af stressi síðan.

 

 

Eldum réttÖll eldamennska mín miðast nefnilega við hversdagsmat og síðustu árin oft Eldum rétt-rétti. Ég kíkti á jólamatseðilinn 2024 hjá Eldum rétt og íhugaði að kaupa kannski af þeim auka-jólamat og elda eins og meistari ... Eina sem kemur til greina fyrir jóladag er Wellington-steik ... og hnetueftirréttur - AFTUR, sá sami og í fyrra og um páskana og bara alltaf á hátíðum. Hnetuofnæmi er eitt algengasta ofnæmi í heimi, elsku Eldum réttið mitt!!!

 

 

Ég kann auðvitað ekki við að bjóða upp á lasagna eða plokkfisk um jólin svo ég verð bara að játa vanmátt minn þegar kemur að matarboðum. Með aðstoð hjálpsamrar systur sem hristir veislur fram úr erminni án þess að blikna eða svitna, og þolinmóðra gesta býst ég við að þetta gangi samt upp. Ég viðraði áhyggjur mínar við litháíska nágranna minn í gær og hann vill meina, eins og systir mín, að læri sé auðvelt að elda og gott að borða, kannski ekki með uppstúfi samt - en það er hægt að kaupa góðar sósur og nýta meðlætið með hangikjötinu! 

Þetta er alla vega sagan á bak við uppgötvun mína um hversu hræðileg húsmóðir ég er. Ég hef ekki hugsað út í þetta áður - fer sorglega sjaldan í matarboð og held sjálf aldrei matarboð. Hvernig er hægt að lifa í rúm 50 ár (aldursleynd nema í afmælisveislunni) og komast upp með svona? Ætli sé hægt að fara á skyndi-örnámskeið í Hússtjórnarskólanum? Ef einhver fær hugmynd að einhverju fínu (ekki reyktu), enn einfaldara en læri, þigg ég öll ráð til að taka vel á móti elsku fólkinu mínu án þess að fara yfir um á taugum.

 

Passa illa samanNýlega sá ég ljósmynd af leikaranum Sean Penn (64) ásamt kærustu sinni, Valeriu Nicov (30) og yfirlýsingu um að þau litu svo bjánalega út saman, ættu illa saman útlitslega ...

 

 

Mér finnst svona lagað alltaf bæði hallærislegt og illgjarnt en gat þó ekki annað en hugsað um sjónvarpspar/-hjón sem mér fannst aldrei og finnst ekki enn passa saman útlitslega. Bæði alveg stórhugguleg og svakalega góð og allt það, en ... samt. Sem sagt pabbinn og mamman í Húsinu á sléttunni. Ég legg ekki meira á ykkur ... Ég hugsaði þetta alltaf þegar ég horfði (stundum) á Grenjað á gresjunni í gamla daga en hef ekki hugmynd um af hverju þau passa bara alls ekki saman í mínum huga. Mér finnst þetta ekki oft, hjón og pör iðulega mjög ólík í útliti en passa fínt saman, en í þessu tilfelli hefði ég valið annan leikara með henni eða aðra leikkonu með honum.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 695
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 595
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband