12.12.2024 | 22:09
Tvö störf, ein kattkynsstjarna og mörg ráð
Upp úr hádegi í dag skellti ég mér í skjört og bomsur, pantaði bíl hjá Hreyfli og hélt síðan af stað í atvinnuviðtal í ljómandi fínni drossíu. Starfið er á sama sviði og það sem ég vann við hjá elsku Símenntun Vesturlands, eða að kenna útlendingum íslensku. Samt allt öðruvísi, aðrar kennsluaðferðir og sannarlega ekki síðri. Gaman að mæta í dag því þetta var lokadagur og mikil gleði ríkti með útskriftina. Hitti þar óvænt gamlan nemanda og það urðu fagnaðarfundir. Þetta var mjög langt atvinnuviðtal (mátti samt ekki vera styttra) og ég varð sífellt hrifnari, langaði mikið til að vinna þarna. Og ... viti menn, fyrsti vinnudagur minn þarna verður 6. janúar á nýju ári.
Nú bara verð ég að fara að læra á reykvíska strætókerfið, er svo illilega dottin út úr því eftir að hafa kunnað nánast allar leiðir utanbókar (sem unglingur), en giska á að til að sleppa við langar göngur í hálku eða án hálku (Klappið gefur 17 mín. í fyrsta strætóvali) væri hreinlega einfaldast að taka strætó nr. 12 hér á hlaðinu (2-3 mín. labb skv. Klappinu) og fara með honum upp í Breiðholt, í Mjóddina - og síðan þaðan með einhverjum vagni sem ég er ekki búin að finna út enn, í vinnuna sem er í 108 Reykjavík. Hitt nýja starfið mitt er í 200 Kópavogi og ég gæti gert nákvæmlega það sama með tólfuna, nema leið 4 fer þangað frá Mjódd. Sá í dag myndir frá biðstöðinni í Mjódd ... ekki fögur sjón, enda tekur því varla að ýta undir gleði og hamingju hjá strætólúserum, þeir enda hvort eð er flestir á því að kaupa sér bíl.
Sennilega hef ég ekki tíma til að finna mér þriðja starfið, það finnur mig vanalega, eða ég fær sendar bækur eða annað til yfirlestrar sem er alltaf mjög skemmtilegt. Fyrstir komu, fyrstir fengu ... mig. Svo þau sem ætla að hafa samband eftir áramót (tvö störf sem ég hef ekki fengið svar við) verða víst að sætta sig við eitthvað annað fyrst þau gripu ekki gæsina strax (tíhíhí).
Hvernig heldur maður svo upp á að hafa fengið góða vinnu, tvö áhugaverð og pottþétt skemmtileg störf frá og með janúar? Jú, með því að fá sér kaffibolla og rommkúlur.
Ég uppgötvaði allt í einu að jólin eru alveg að koma og ég eftir að vera með jólahlaðborð fyrir mig og leynivinaleik, nema ég sleppi jólaglögg út af rúsínum. Mamma varð eitt sinn mjög "lasin" þótt hún borðaði bara ávextina í bollunni ... svo það væri ábyrgðarhluti að láta aðra starfsmenn mína, sem eru alltaf ég, borða rúsínurnar. Ég setti undir mig hausinn og stefndi á Skeifuna, fengist ekki örugglega eitthvað flott og algjörlega óvænt sem ég gæti gefið sjálfri mér, t.d. í Hagkaup?
En ... fyrst var það Diego, sæti Skeifukötturinn í A4. Ég keypti einn jólagjafapoka undir fyrirferðarmestu jólagjöfina frá mér í ár og einhenti mér síðan í að klappa frægustu kattkynsstjörnu landsins. Diego nennti ekki einu sinni að vakna, svo upptekinn var hann við að vera sætur og steinsofandi köttur ofan í körfu á ljósritunarpappírsbunkanum vinstra megin þegar komið er inn.
Hagkaup tók mér með kostum og kynjum. Ég ætlaði ekki að kaupa neitt sérstakt en tókst þó eyða ansi hárri upphæð þar. Nokkrar jólagjafir fengust þar (svona sætt aukadót) og sjálft hangikjötið. Tók sénsinn og keypti Hagkaupshangikjöt með minna saltmagni. Það er hamingjusamlega komið inn í ísskáp ... jólaís í frysti og ég keypti líka litlar frosnar vöfflur, meira upp á von og óvon, lét stráksa vita að mig vantaði brauðrist á heimilið ... en hann er ólíkindatól og kaupir eflaust gjafakort í Bláa lónið handa mér ... djók. Allir sem þekkja mig vita að ég er ekki hrifin af neinu svona blautu nema þá helst kaffi. Alls ekki neinu spa-dóti, hrollur!
Einnig keypti ég rommkúlurnar, eina vínsælgætið sem mér finnst gott, á þessum fyrra degi leynivinaviku. Ég er mjög spennt að vita hvað ég gef sjálfri mér á morgun, seinni dag leynivinavikunnar. Í kvöldmat snæddi ég jólahlaðborð ... en viðurkenni að mig langaði bara í sushi og keypti það, og það var æðislegt. Veit samt ekkert hvort ég geri eitthvað varðandi jólaglöggdæmið en hlýt að leysa það einhvern veginn.
Vildi að ég hefði tekið með mér í 108-túrinn í dag, sjúklega fallega vatnslitamynd sem ég fékk í innflutningsgjöf - það er víst afar gott innrömmunarverkstæði þarna í Ármúla 20. Ég þurfti eiginlega að velja á milli Kringlu og Skeifu, og valdi það sem þýddi styttri gönguferð (auðvitað). Í Kringlunni, uppi á annarri hæð, er víst hægt að kaupa sér fyrirframgreidd strætókort. Held að mig langi mest í þannig en svo gæti ég auðvitað þurft að fá mér mánaðarkort. Íslenskukennsluvinnan er fjórum sinnum í viku, frí á föstudögum, og hin vinnan meira eftir samkomulagi. Kannski næ ég fjögurra daga vinnuviku? Er það samt ekki of lítið fyrir vinnualka? Ég gæti farið að þrífa eftir kúnstarinnar reglum eða skreyta kökur - og birta á Instagram. Þá fæ ég loksins ókeypis skyr og snyrtivörur, kannski. Föstudagsfegurð - ef ég verð með snyrtivörukynningar. Föstudagsfínirí fyrir þrifin, föstudagsflottheit ef ég fer í kökurnar. Er hægt að læra almennilega á Instagram t.d. á YouTube? Kann eiginlega ekkert.
Facebook rifjar upp:
Bubbi Morthens varð fimmtugur 6. júní 2006. Afmælistónleikarnir hans hétu 06.06.06. Svo kom 12. des. 2012, og þá skrifaði Matti Matt úr Dúndurfréttum m.meiru: 12.12.12. Er þá Bubbi Morthens ekki 100 ára í dag? (Elska svona (pabba-)brandara)
Ég var frekar dugleg að skrifa um sætukarlana mína og stoppistöðina kennda við þá, á feisbúkk í denn. Þeir komu inn í leið 57 (frá Akranesi) í Mosó og voru líka samferða smáspotta í leið 24 frá Mjódd (þegar ég vann í Garðabæ). Ég man að annar starfaði sem lögga á Dalvegi.
Fyrir 11 árum á Facebook:
Á Dalvegi: Horfðuð þið á Sirkus Billy Smart í sjónvarpinu á gamlárskvöld þegar þið voruð litlir? spurði ég tvo töffara af sætukarlastoppistöðinni í Mosó. Þeir svöruðu hissa: Þegar við vorum litlir var ekki komið sjónvarp á Íslandi. Þessi óformlega könnun breyttist óvart í hið mesta skjall.
Þarna ætlaði ég að fá þá í lið með mér ... ég þoldi ekki þessa þætti nefnilega og fékk nokkra smekklega fb-vini til að samsinna mér í því fyrir neðan þessa gömlu stöðufærslu. Ég þjáðist yfir þessum þáttum, fannst þeir tefja áramótin frá því að koma svo ég get ekki horft á neitt sirkustengt nema kannski mögulega í hryllingsmyndum.
Matthea: Alveg sammála, þoldi ekki Billy Smart.
Hildigunnur: Úff já, í minningunni voru þetta bara fáklæddar en glimmervæddar stúlkur sem róluðu sér. Leiðindin uppmáluð.
Þórdís: Þeir klikka ekki MOSÓkarlarnir.
Þorkell: Þér til gamans ... (og svo fylgdi slóðin á wikipedia-síðu sirkussins.)
--------
Konan mín bað mig um að fara með kóngulóna út í stað þess að drepa hana. Ég fór út, fékk mér nokkra drykki. Næs gaur. Hann er vefhönnuður.
Bókamálin:
Ég er á síðustu millimetrunum í bók á Storytel, þeirri annarri sem telur niður dagana til jóla. Rómantísk dramasaga, smáfyndin á köflum, rembist samt aðeins við léttleikann. Rithöfundar, nefni engin nöfn, þurfa að fara að gyrða sig í brók varðandi rómantíska sögustaði. Einu staðirnir sem þeim dettur í hug eru bakarí og bókabúðir, helst í Skotlandi en Svíþjóð kemur líka til greina. Hvað varð um skrifstofur eða skemmtiferðaskip, fiskbúðir eða fóðurblöndur?
Svo verð ég alltaf pínkupirruð á sögupersónum (kvenkyns) sem ofhugsa hlutina. (Við áttum dásamlega ástarnótt í gær en hann virkar svo kuldalegur í dag, sama þótt hann sé á kafi í vinnu, hvað ætli mágkona mín hafi sagt um mig við hann í gær þegar hann sótti hana á rútustöðina? Örugglega eitthvað slæmt ...)
Mynd: Bókahilla í vinnuherberginu, þar leynist engin spjaldtölva en ég ætla samt að leita aftur, hillu fyrir hillu, um helgina, tvær hillur við vegginn á móti. Sjá umfjöllun ögn neðar.
Þoli heldur ekki þegar konur í bókum tala illa um t.d. fótbolta, eins og það sé algild skoðun okkar stelpnanna. Aldeilis ekki! Ég þekki karla sem nánast hata fótbolta og myndu eflaust fá hroðalega útreið í rómantísku bakarís- og bókabúðabókunum fyrir vikið. Ég er ekki að biðja um bækur á borð við Ástir og örlög á holdsveikrahælinu ... ég þarf bara nýjar hugmyndir ... fyrir sjálfa mig. Ég hef prófað að hanga í bakaríum, alveg árum saman og það er sko það fitandi að aðeins undirborðslegir karlar litu við mér! Vann meira að segja eitt sinn í bakaríi (fyrir milljón árum) en uppskar ekki hið minnsta daður. Bókabúðir eru ögn skárri en hér í 104 finnst ekki bókabúð, eða jú, Nexus í Álfheimum sem er samt ekki hefðbundin bókaverslun - en hér eru tvö bakarí, í Holtagörðum og Álfheimum. Sjáum til þegar ég nenni að fara að ganga svolítið um hverfið, svona þegar vorið nálgast.
Í dag fór skrefafjöldinn vel yfir 2.000, samt var vont veður - og þungar byrðar (hangikjöt og fleira) sem urðu til þess að ég gekk ekki alla leið upp við heimkomu. Það er erfiðara að fylgjast með skrefum hér heima, ég hreyfi mig helling, mun meira en í himnaríki, veit ekki hvað veldur, en þyrfti að venja mig á að geyma símann í vasanum því hann mælir auðvitað engin skref á meðan hann liggur kyrr einhvers staðar. Ég tími varla að kaupa mér heilsuúr, sjáum til á nýju ári þegar ég verð farin að vinna á fullu.
Póstkassinn minn hérna niðri er nú meiri dýrðin og iðulega uppspretta margslunginna gleðitilfinninga. Þangað rata velkomnar bækur, jólakort (bráðum, þetta eina), tilkynning frá borginni um vegleg fasteignagjöld (svo dásamlegt að vera boðin velkomin til borgarinnar af borginni) og í dag beið mín geisladiskur og fallegt bréf! Ég VISSI að það hefði verið rétt ákvörðun að fara með vinkonum mínum í kosningakaffi hjá VG þar sem ég hitti elskuna hann Gumma eftir 50 ára aðskilnað, þennan sem vann með mér nánast ófæddri, ég var svo ung, í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. Ég vissi svo sem að hann væri í Spöðum, þeirri flottu töffarahljómsveit, en ... hann var að senda frá sér geisladiskinn Ferhendur Tjaldarans (Bergþór Pálsson syngur lög Guðmundar Guðmundssonar við ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar og fleiri kvæði). Hlakka til að hlusta, jafnvel þótt þetta líkist ekki Jethro Tull, eins og hann bendir á!
Inni í stofu, í hillu fyrir neðan sjónvarpið, bíður þessi fíni ghettoblaster sem hefur alveg bjargað mér þegar mig langar að hlusta á tónlist í stofunni. Youtube-tónlistarveitan hefur bjargað tónlistarhungri mínu í vinnuherberginu en veggir hér eru svo þykkir að ég yrði að stilla á hæsta ef mig langaði að hlusta á tónlist við t.d. eldamennskuna. Það er ekki fallegt að gera í fjölbýlishúsi. Á reyndar tól og tæki til þess að hlusta víðar með aðstoð símans en þau eru sennilega á sama stað og týnda spjaldtölvan. Ég fékk annars fínar ábendingar á feisbúkk í gær um mögulegan felustað tölvunnar:
Ertu búin að leita í fötunum þínum, t.d. nærfötum?
komment: Gurrí er einmitt sú manngerð sem er útsett fyrir að týna raftækjum innanklæða ...
komment: ... meinti sko í fataskápnum.
Er hún í blaðagrindinni eða í bókaskápnum?
Ein sagðist tala við meinstríðinn löngu látinn afa eiginmannsins (sem hún hitti aldrei) og biðja hann um að skila hlutnum ... getur svo gengið að honum skömmu seinna. (Þetta er svona Harry Potter-hjálp, eins og mig vantar)
Önnur sem kommentaði þekkir konu, Chippewa-indjána, sem heldur því fram að hús eigi það til að taka hluti ... og skila þeim svo þegar þeim sýnist. Og þegar þau skila taka þau jafnvel eitthvað annað í staðinn!
Mynd: Helgin fer líka í að grannskoða þessar hirslur, bæði hvítu og svörtu. Búin með skúffur og skáp: engin tölva, hillur skoðast um helgina, tvöfaldar raðir nefnilega ... og svo eru blaðabunkar (tímarit) neðst í svarta skápnum.
Það var styst frá borðtölvunni inn í svefnherbergi til að opna efstu skúffuna í kommóðunni og gramsa í nærfötum og náttfötum. Engin tölva. Blaðagrindin: tékk, ekki þar. Bókahillur eru þrjár í vinnuherberginu, tvær háar, ein lág. Sjá mynd hér ofar af annarri háu við hliðina á skrifborðinu. Svo enn meira af bókum í samstæðunni inni í stofu. Ég myndaði mögulega staði ... en fataskápurinn inni í herberginu mínu liggur líka undir grun ef ekkert finnst í bunkum og hillum. Þarf að sækja jólaskraut inn í skápinn og ætla að leita vandlega í leiðinni. Helgin fer í að skreyta og leita ... fínasta plan. Gestir samt velkomnir, nóg kaffi til, ef ég fæ nægan fyrirvara baka ég smákökur! Passið ykkur á hálkunni fram undan, elskurnar.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring: 50
- Sl. viku: 695
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 595
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.