Óvænt gjöf, strætósjokk og hættulegt hnetusmjör

Óvænt gjöfJólavinnulotan sú fyrri hefst ekki fyrr en á föstudaginn, smávegis tafir sem urðu þess valdandi, í raun, að fólkið mitt fær jólagjöf frá mér í ár. Ég pakkaði nefnilega mestu inn í dag á milli þess sem ég reyndi að skreyta örlítið. Flotta græna mósaíkjólatréð kemst hvergi í samband við rafmagn, ekki í fjöltengið, ekki beint í vegginn svo ég þarf að kaupa rétta kló og blikka svo einhvern með viti. Sennilega litlu systur Önnu vinkonu, hún er sú sem kemst næst því að vera kjarneðlisfræðingur af þeim sem ég þekki, fyrir auðvitað Gulla stjarneðlisfræðing, gamla bekkjarbróður minn. Hún gat alla vega sett ljós inn í forstofuskáp og alltaf þegar hún opnaði skápinn kviknaði ljósið. Það kalla ég snilli. Kannski kunna fleiri að skipta um klær. Kannski þarf ég ekkert að hafa kveikt á því.

 

Dyrabjallan hringdi snemma kvölds, ég átti ekki von á neinum, ekki sendingu, engu, en í mynd-dyrasímanum sást vingjarnleg kona sem sagðist vera með sendingu til mín frá ... haldið ykkur ... aðdáanda! Ég beið þó ekki spennt eftir rósavendi á meðan lyftan fór upp á sjöundu, því kettirnir tryllast alltaf þegar koma blóm í hús; fella niður vasann og eyðileggja blómin með því að narta í þau með tilheyrandi gubbelsi stundum. Nei, þetta var svo miklu betra en blóm ... þetta var B1-vítamín! Hundrað töflur af vítamínínu sem á eftir að kýla niður hásinarvesenið. Ljúfa konan sem kom með pillurnar lofaði að skila miklu þakklæti og knúsi frá mér til gefandans. 

 

Ég með HilduLitla systir, þessi sem er svo rosalega ung miðað við mig (16 mánuðum yngri) minnkar aldursmuninn á milli okkar niður í eitt ár frá og með morgundeginum og það stendur til 12. ágúst nk. þegar ég verð allt í einu sérlega aldurhnigin miðað við hana, eða tveimur árum eldri. Hún á sem sagt afmæli. Stráksi mætir að sjálfsögðu, kemur með strætó frá Akranesi, það tímir ekki nokkur hræða að missa af jólasveininum sem mætir alltaf í afmælið, okkur gestum til sérstakrar gleði og ánægju. Stráksi sagði á sambýlinu sínu að systir mín ætti stórafmæli og gerði hana nokkrum árum yngri sem gladdi hana svo mikið, þegar ég sagði henni það, að hún ætlar að kaupa enn eina jólagjöf handa honum. Fínt trix, kæru bloggvinir. Ég ætla svo sannarlega að segja eitthvað sérlega fallegt við hana á morgun svo hún kaupi fleiri jólagjafir handa mér. 

 

Myndin af okkur systrum sannar mál mitt. Þarna erum við á unglingsaldri, fyrir ekkert svo mörgum árum, myndin greinilega tekin milli 12. ágúst og 18. desember þegar aldursmunurinn er sem mestur. Hún svona líka ungleg en ég gæti verið 26 ára.

 

Mánudagur 16. desember 2024

Staður: Hestháls, 110 Reykjavík ... eða kannski 116 Rvík?

 

„Almáttugur, nú verðum við að drífa í að gera Gurrí kleift að nota debitkortið sitt í strætó, ég hélt að við hefðum alveg tíma til að redda því fram til 5. janúar, eða svo.“ Ásgerður stikaði um stjórnstöðina og neri hratt saman höndum. Svitaperlur féllu hratt af enni hennar niður á gólf. 

„Bíddu, bíddu, er hún flutt frá Akranesi?“ Barði virtist hlessa.

„Fylgist þú ekki með því helsta sem gerist í heiminum?“ spurði allt hitt starfsfólkið í einum kór.

„Hún keypti áfyllingarkort síðasta föstudag í Kringlunni og ég var bara að frétta það núna! Eins og við vorum búin að fela upplýsingaborðið vel ... hún er bara of klár fyrir okkur, fyrir þennan heim!“ Það mátti sjá tár á ýmsum hvörmum.

„Við sem héldum að það dygði að flytja aðalstöðvar og tapað/fundið í Hestháls, þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi og fólk á bíl!“ sagði Siggi mæðulega. „Hún á eftir að koma og hella sér yfir okkur og fá bloggvinina með sér!“

„Borgarstjórinn ætlar að koma okkur til bjargar og setja Hestháls tímabundið í póstnúmer 116 Reykjavík, hún veit að það er á Kjalarnesi sem dregur vonandi úr löngun hennar til að mæta á staðinn.“ Elísabet var þó svolítið efins á svip en reyndi að bera sig vel.

„Eigum við að endurgreiða henni þúsundkallinn sem kortið kostaði? Hún mun ekki nenna að skrá sig inn á Mínar síður-það dæmi allt saman, eða finna út úr því hvernig það er gert, til að leggja pening inn á það ef hún getur bara veifað debitkortinu, ætli hún gráti þann þúsundkall.“ Guðjón var samt orðinn áberandi fölur. 

„En hvað gerir hún næst? Bloggar hún brjáluð um þetta? Hvar eru rússneskir eða ísraelskir hakkarar þegar maður þarf að láta eyðileggja moggabloggið í heild?“ Jóhann var farinn að nötra af ótta.

„Hættið að tala, farið að vinna í því að gera allt klárt fyrir vísa og debit í vögnunum. Hún er reið, við vitum það! Við getum ekki annað en vonað að hún hafi ekki verið búin að fylla á kortið. Annars eigum við ofsareiði hennar yfir höfði okkar og þá getum við alveg eins lokað sjoppunni! Vinnum í alla nótt og höfum þetta tilbúið eldsnemma í fyrramálið, ég panta pítsu og bý til espressó á línuna,“ sagði Ásgerður ákveðin.

- - - - - - - - - - - -

Frétt 17. desemberÞriðjudagur, 17. desember 2024

Staður: Allir fjölmiðlar landsins:

 

Hægt að borga með korti í strætó

Frá og með deginum í dag er hægt ...

Sjá mynd.

 

Þvílík dásemd og dýrð. Loksins, ég er ekkert reið en ég hefði samt sleppt því að kaupa kort á þúsundkall á föstudaginn ef ég hefði vitað að þetta yrði málið fjórum dögum seinna.

 

Þetta verður án efa útfært og gert betra með tímanum svo að t.d. öryrkjar og eldri borgarar geti borgað rétta (lægri) upphæð með kortinu sínu, eða jafnvel einhver krúttmolinn borgað fyrir bæði mig og sjálfan sig í strætó, það þarf nú ekki meira núorðið til að heilla mig upp úr skónum. Ég þarf ekki þyrluferðir eða limmósínur þótt það gæti vissulega verið gaman. Er orðin svo lífsreynd að ég man hreinlega ekki hvort hef setið í limmósínu en það var ógleymanlegt að fara í þyrlu um árið. Ég hef að minnsta kosti aldrei komist nær Justin Bieber en þá ... (sami þyrluflugmaður).

 

HnetusmjörViðurkenni að ég les stundum bara fyrirsagnir og hef stundum of lítinn tíma eða nennu til að lesa betur. En þannig afla ég mér yfirborðsþekkingar á ýmsum málum og einnig get ég notað fyrirsagnirnar á ýmsan máta ... eins og nú á blogginu til að tala um mögulega skaðsemi hnetusmjörs.

 

(Ath. Ég er ekki að tala um Herra Hnetusmjör.)

 

 

Ég er með ofnæmi fyrir jarðhnetum, fæ aukinn hjartslátt bara við að finna lyktina af salthnetum (takk, Icelandair, fyrir að bjóða ekki upp á þær lengur) þótt sumt fólk, illa haldið af mannvonsku, myndi kalla þetta matvendni. Rúsínur og döðlur falla frekar undir það.

 

Ég hreinlega man ekki hvers vegna ég tók skjáskot af þessari frétt, það var á þessu ári og ekkert langt síðan, en fréttin er samt rúmlega ársgömul. Mér fannst þetta sennilega fyndið (af því að ég veit ekkert ógeðslegra en hnetusmjör og þetta var líka svona Vissiégekki-móment).

 

Núna er ég ferlega forvitin að vita hvernig í ósköpunum svona fyrirsagnir verða til. Hvaða spekúlasjónir urðu þess valdandi ... kannski að apapiss komist í snertingu við jarðhnetur með afleiðingum ... eða Bill Gates múti stærstu hnetusmjörsframleiðendum heims til að eitra fyrir okkur, fækka okkur? Maður hefur nú heyrt annað eins um hann ... blikk, blikk.

 

Ég legg til að Íslendingar hætti að flytja þetta inn, bara til öryggis (tíhí), og við borðum mysing í staðinn, mögulega blandaðan saman við kotasælu. Hugsa sér, það er heilt fylki/ríki í Bandaríkjunum sem helgar sig jarðhneturækt! Það er Georgíuríki með 42% af allri ræktun USA. Ef ég hefði nú fæðst í Georgíu og jafnvel orðið að vinna í hnetusmjörsverksmiðju alla tíð, og það væri alltaf hnetusmjör á borðum í staðinn fyrir venjulegt smjör, kokteilsósu eða sveppasósu, svo væri kannski hnetusmjörsgrautur í matinn í hádeginu á laugardögum, eins og grjónagrautur í denn, hnetusmjörsmaríneraðir hamborgarar í sjoppunum og svo framvegis ...

Mikið er ég heppin að hafa fæðst á Íslandi - þrátt fyrir kæsta skötu, þverskorna ýsu, siginn fisk, brauðsúpu, nætursaltaðan þorsk, súrt slátur og annað í þessum dúr sem yrði mögulega (sennilega) skilgreint sem efnavopn ef maður lenti í öryggisleit á erlendum flugvelli með slíkt í töskunni.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tveimur?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 288
  • Sl. viku: 1908
  • Frá upphafi: 1512200

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1643
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Hnetusmjör
  • Frétt 17. desember
  • Frétt 17. desember

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband