Arfaslæmar jólagjafir ...

StráksiJólasveinninn sló í gegn í afmælinu í gær, eins og vanalega, og tókst meira að segja að galdra smávegis sem við áttum ekki von á. Hann breytti heilum spilastokki í 52 laufaníur!!! Ég legg ekki meira á ykkur. Við stráksi trúðum ekki eigin augum. Ég fékk ekki nammipoka en stráksi fékk auðvitað, enda finnst vart meiri aðdáandi en hann. Aðdáunaraugnaráð mitt féll í grýttan jarðveg.

 

Til að fá aukajólagjöf frá systur minni prófaði ég að segja að hún liti ekki út fyrir að vera degi eldri en fertug. Held að það hafi verið yfir strikið ... þótt ég meinti auðvitað hvert orð. Hefði sennilega átt að segja tvítug.

Margir góðir gestir mættu, ættingjar, vinir og alls konar vandamenn, suma sér maður bara 18. des. ár hvert og frábært að geta gengið að þeim vísum þá.

Veislan var mjög flott, fullt af girnilegum tertum og alls konar, ég fékk rækjubrauðtertusneið heim í nesti og hún var einmitt í hádegismat á þessu heimili í dag.

 

 

Vegna óvæntrar hálsbólgu (ekki minnar) breyttust plön dagsins úr því að verða jólaskemmtiflækingur um borgina yfir í að verða heimahangelsi. Ég á reyndar eftir að pakka inn örfáum jólagjöfum - svo berst hingað fyrra jólaverkefnið á morgun svo það er eins gott að halda vel á spöðunum. Mér finnst ég alltaf vera syfjuð (ekki döpur, svo það komi nú fram), tek samt vítamín, vonandi nóg. Þyrfti að komast fljótlega í búð til að kaupa dagsljósslampa, held að það virki vel á syfjuslen þrátt fyrir nægan svefn. Úps, nema auðvitað að ég hafi verið björn í fyrra lífi og þurfi að liggja í híði mínu meira en átta tíma á sólarhring þessa dagana. Finn sennilega fyrir þessu af því ég er ekki í vinnu sem krefst þess að ég vakni fyrr og þjóti út í strætó, sem gerist strax eftir áramótin. Svo er ég líka Ljón sem smitast af sambýlismönnum mínum, öðrum kattardýrunum sem sofa út í eitt ...    

 

Mín fyrsta strætóferð eftir flutningana til Reykjavíkur var farin í nótt. Ég sýndi debitkortið mitt spennt og glöð en það var gert upptækt af bílstjóranum sem sagði þetta vera jóla-debitkort og ekki gilt - sem var sannarlega ekki rétt. Ég er enn pirruð út í hann og mæli ekki með svona asnalegum draumum þar sem maður býr t.d. enn á Hringbrautinni þótt bráðum séu liðin 20 ár frá flutningunum þaðan. Draumar uppfæra sig ekki eins og tölvan mín ... sem slekkur á sér í tíma og ótíma og er með vesen og leiðindi ... af því að hún er að uppfæra sig! Það er sennilega stillingaratriði, spyr minn mann í þessum málum.

 

Facebook

 

StraujárnVersta jólagjöf sem hægt væri að fá?

Margir nefndu ryksugu og straujárn en það er greinilega margt verra en það.

 

- Keilukúla.

- Að fá ekkert. Narsinn - minn fyrrverandi - gaf mér aldrei neitt eftir að börnin okkar fæddust svo ég fór að kaupa mér mínar eigin jólagjafir. Sú síðasta var að skilja við hann. 

- Naglasnyrtivörur frá ömmu sem vissi að ég nagaði neglurnar.

- Bók um létt fæði þótt ég væri ekki í megrun. 

- Hnetusúkkulaði. Ég er með ofnæmi fyrir hnetum.

- Jólaskraut, framleitt á vinnustaðnum mínum.

- Biblíu frá afa og ömmu. Ekki einu sinni, heldur tvisvar, með nokkurra ára millibili.

- Eitt vetrardekk í brúðkaupsafmælisgjöf 22. des. Hitt dekkið um jólin. Við erum skilin. 

- Góðgerðar-eitthvað í mínu nafni.

- Faðir minn og illa stjúpmóðirin sendu mér eitt sinn úrklippu úr pöntunarlista, mynd af kápu sem þau ætluðu að gefa mér. Síðan eru liðin 47 ár og ekkert bólar á kápunni. 

- Ég fékk herðatré þegar ég var tólf ára, ekki ánægður með það.

- Pabbi gaf mömmu straujárn og skildi ekkert í því hvers vegna hún varð svona sár.

- Skilnaðarpappírar - jólin valin til að særa enn meira.

- Bækur nr. 2 og 7 í 12 bóka seríu.

- Nefháraplokkari frá pabba. Ég var 13 ára og ekki ánægður sem reitti pabba til reiði.

- Baðvigt, myndi ég halda. Mín uppáhalds vonda gjöf er þó klósettbursti frá tilvonandi tengdamömmu.

- Allt sem mágkona mín gefur. Ekki bara mér, heldur öllum. Það þarf sérstaka hæfileika til að finna svona skelfilega ósmekklega hluti. Hún er samt ekki að grínast.

- Ég fékk eyrnalokka frá kærastanum mínum. Komst að því að fyrrverandi kærasta hans hafði gleymt þeim hjá honum. Í rúminu hans. 

- Við systkinin fengum skrítnar gjafir frá afasystur okkar. Eitt árið fékk bróðir minn dós af grænum baunum frá henni. 

- Ávaxtakaka.

- Púsluspil ... ég púsla ekki. 

- Konan mín á eftir að elska nýju moppuna sína. Ég bara veit það!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og átján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.12.): 182
  • Sl. sólarhring: 189
  • Sl. viku: 2034
  • Frá upphafi: 1512675

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1756
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Straujárn
  • Stráksi
  • Hnetusmjör

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband