Loksins strætó, Skeifan og nýtt rúsínustríð ...

Nýklippt og ofsasætGærdagurinn fór meðal annars í að læra á strætó. Þá var þriðji dagur í nýju vinnunni en ég rúntaði um á leigubíl í öryggisleysi mínu fyrstu tvo dagana. Ekki bæði nýtt starf OG læra á strætó í einu! Það vildi svo ótrúlega til að skrefafjöldi minn jókst úr um það bil 600 skrefum (að meðaltali) í tæp 5.000! Litli spássitúrinn um Góða hirðinn með vinkonu gæti svo sem hafa orsakað hluta þeirra. Gemsinn minn var að missa sig af fögnuði! Ég geng nú samt pottþétt meira en 600 skref á dag, því ég er ekki með símann stöðugt á mér - hoppa og skoppa á milli herbergja hér án þess að það náist á skrá. Þvoði stofugluggann með látum um daginn, sólin opinberar allt, þvoði einhverjar þvottavélar og hengdi upp þvott með gemsann á einhverju borði ... svo ég taki nú smádæmi.

 

Ég auglýsti nýlega eftir öllum mínum strætóbílstjórum og farþegum á Facebook því mér fannst eiginlega fáránlegt að þurfa að fara upp í Breiðholt (Mjódd) með leið 12 og taka þaðan þristinn, held ég, niður á Miklubraut og fara út hjá Skeifunni. Það hlyti að vera til skárri og ögn styttri leið. Tvær mjög klárar konur, önnur bílstjóri, stungu upp á leið 12 í "hina" áttina, sem sagt fara í Höfðaborg (Borgartúni) og taka svo leið 17 á Grensásveg (6 mín. labb í vinnuna) eða leið 5 sem stoppar gegnt Glæsibæ (5 mín. þaðan). Prófaði leið 17 í gær frá Borgartúni og svo fimmuna í dag. Finnst fimman betri því það eru færri krókódílasíki, gaddagirðingar og ekki jafnhroðalegar hálku-hindranir gönguleiðina frá Glæsibæ, líka færri stórstræti að komast yfir. Grensásvegur er svakaleg umferðargata!

 

HálkaNýja vinnan ... hún er æðisleg. Samstarfsfólkið líka! Ég byrjaði á mánudaginn, þetta er hlutastarf og svo bíður annað hlutastarf innan tíðar annars staðar, ég hringi sennilega á morgun og skipulegg mætingar þangað. Ef þarf að mæta á morgnana, þarf ég að finna góða strætóa héðan í Kópavog og svo úr Kópavogi í Skeifuna. Þá spyr ég elskurnar mínar á Facebook ráða aftur. Grunar að tólfan í Mjóddina sé best og leið 4 þaðan í Kópavog. Leið 4 svo í Mjódd til baka og leið 3 á Miklubraut þaðan. (Nú finnst mér líklegt að Strætó bs vilji fá mig í vinnu, ég er orðin sérfræðingur eftir aðeins tvo daga, fjórða vinnan kannski?). 

 

Skeifan er ljómandi skemmtilegur og líflegur staður. Myndi þó njóta þess betur að ganga um og kynnast umhverfinu almennilega ef væru ekki himinháir skaflar, viðbjóðshryllingshálka ... eins og t.d. hálkugangstéttin fyrir utan visst fyrirtæki, rétt hjá vinnustaðnum mínum og sem er gönguleið mín í og úr strætó, hvort sem ég tek fimmuna eða leið 17. Allir í lengjunni mokuðu fyrir framan hjá sér nema þau ... sem er kannski mjög eðlilegt og bara flottur bisness, enda gæti fyrirtækið auðvitað grætt á því að við dettum. Plástrar, grisjur, teygjubindi, sokkar sem styðja við, sótthreinsikrem, spritt, jafnvel gifs (ef bráðavaktin er full) fyrir utan verkjalyf er hægt að kaupa þar. Auðvitað moka þau ekki, það væri fáránlegt svona þegar ég hugsa út í það. Það fer að hlýna svakalega næstu daga, svo kannski er leigubíll málið þegar lífshættuleg hálka geisar meðan á hlýnun stendur, þá þýðir ekki einu sinni að salta. Það getur verið svo gaman að taka leigubíl. Á mánudaginn fékk ég eiturhressan bílstjóra sem fékk sér víst í glas kvöldinu áður af því að vinur hans kom í heimsókn. Hann er B-manneskja, konan hans og börnin A-manneskjur sem voru búin að skafa bílinn fyrir hann um morguninn ... svo man ég ekki meira en hann er vel giftur maður. Þriðjudagsbílstjórinn átti ekki orð yfir að ég gengi ekki bara þessa leið heim ... upp alla Álfheimana, hálfan-ish Langholtsveginn, niður allan Holtaveg og heim ... en eftir að hann tók kílómetrastöðuna róaðist hann aðeins í þessu, stutt vegalengd á bíl en það er kannski meira en að segja það fyrir gönguferðahatara að ganga tvo kílómetra í vinnuna og svo tvo kílómetra heim (á sumrin allt of heitt og allt morandi í geitungum, á veturna hálka og rok og kuldi). Konan hans hafði unnið alla tíð á X-leikskóla, sagði hann mér, og þau bjuggu við X-götu sem kom þó ekki í veg fyrir að hún gengi til og frá vinnu Í ÖLLUM VEÐRUM! sagði hann hreykinn. Ég gubbaði innra með mér sem haturskona gönguferða en svo viðurkenndi bílstjórinn að þegar þau fóru til Tene um árið hafi hún dregið hann í hroðalega langar og erfiðar gönguferðir, hann hafi verið örmagna megnið af tímanum. 

„Ekki séns í þessari hálku,“ sagði ég ísköld. „Í ÖLLUM VEÐRUM,“ endurtók hann, svo innilega stoltur af göngu-frúnni sem fékk sér bara kvenbrodda í verstu færðinni.

Þegar fimman ók frá Glæsibæ (Suðurlandsbraut) að Höfðatorgi seinnipartinn í dag, fannst mér ég eiga skilið einn góðan ... enda 11 mínútur í tólfuna heim, skv. strætóskýlinu. Ég gekk að Kaffitári (rúmur hálftími í lokun!?!) og fékk mér latte sem bæði hressti og kætti. Náði þarnæstu tólfu heim rúmlega fjögur ... sem þýddi að vagninn var stútfullur af fólki á leið heim úr vinnu! Sennilega hefði ég náð betra sæti korterinu fyrr ... en hva. Ég er að læra á strætó upp á nýtt.

 

Margt ljómandi gott hjá strætó. Ég ætla þó ekki að borga endalaust með debitkortinu þótt það sé hægt, frekar fylla á Klappkortið sem ég keypti í desember en vinkonan sem var með mér þá og keypti líka Klappkort, fór þó illa út úr því, keypti sér hópferð í ógáti, borgaði fyrir fimm manns í einu í þessari einu strætóferð sinni, og hún er ekki einu sinni þybbin. Hún á bíl en vildi tékka á almenningssamgöngum. Við vissum auðvitað ekki þegar við fórum í Kringluna til að kaupa Klappkortin, að nákvæmlega fjórum dögum seinna yrði hægt að borga með venjulegu greiðslukorti ... held samt að slíkt sé dýrast, svona ef maður fer fjóra daga vikunnar á milli eins og ég.

Stoppistöðvarnar sjálfar eru svo algjör snilld, það kemur nefnilega fram þar hversu stutt eða langt er í næsta strætó. Leið 12: 2 mín. o.s.frv. 

 

Við Mosi í vinnunniHeimili mitt, Skýjahöllin, var í hálfgerðri rúst við heimkomu í dag, en lítið hefur verið vaskað upp og snurfusað síðustu daga. Fékk nefnilega í hendur verkefni rétt fyrir jól, tvö, til að vera nákvæm, og hef notað hverja frístund í að vinna við þau (með hjálp Mosa, eins og sést á myndinni) og nánast allt annað hefur mætt afgangi ... eins og bloggskrif, uppvask og jóla-niðurtakelsið. Skilaði verkefnunum af mér í gærmorgun og þótt þau væru skemmtileg var sem fargi væri af mér létt ... en þar sem þetta var fyrsti í strætó-dagurinn (í gær) var ég nánast örmagna við heimkomu og tók hvíld fram yfir húsverk, ótrúlegt alveg ... Skrapp vissulega í stutta ferð í Góða hirðinn með vinkonu eftir vinnu, hana vantaði sófa og fann einn fínan á 4.500 kr.

Ég lagðist upp í rúm á hitapoka eftir allt erfiðið, öll skrefin. Er líka að hlusta á svo spennandi og skemmtilega sögu á Storytel, Fórnarlambið eftir Henrik Fexeus. Var ekkert yfir mig spennt fyrst en er að springa úr spenningi núna, ætla samt að treina mér seinni rúmlega sjö klukkutímana til helgarinnar. Er löngu hætt að tíma að flýta lestrinum og stilla á meiri lestrarhraða eins og ég gerði fyrst, ég vil frekar njóta og ekki klára of hratt. Er komin í helgarfrí og ætla að fara í svolítið ráp með systur minni á morgun, þarf að kaupa mér góða brauðrist, skamma Elkó (hef tvisvar reynt að stilla á þvo/þurrka-prógrammið ... hún þvær en hættir svo, samt stendur þvo í 20 mín. og þurrka í 60 mín - 1 kg af þvotti). Systir mín á ögn stærri gerð af sömu vél og henni nægir að stilla á prógrammið en ég sé hvergi hvernig ég virkja þurrkaradæmið sem virðist þurfa að gera, vélin þvær bara í 20 mín. Það eru tveir eða þrír takkar sérmerktir þurrkun en ég er hrædd við að skemma með því að gera eitthvað vitlaust ... svo ég spyr kurteislega um þetta á morgun (ætla ekkert að skamma neinn). Það er samt mjög léleg þjónusta við neytendur að sleppa leiðbeiningum á íslensku, sérstaklega þegar um er að ræða rándýrar vélar, það segir sig ekki alltaf sjálft hvernig þeim á að stjórna. 

 

Skömmu fyrir jól fórum vér systur á ansi hreint skemmtilega jólatónleika, mína fyrstu (fyrir utan Jólasöngva Kórs Langholtskirkju á síðustu öld). Ég var ekkert voðalega spennt fyrir þeim þegar jólin nálguðust, hafði nóg að gera og óttaðist að þetta yrði eitthvað yfirþyrmandi væmið, svona rjómatertulegt hrímhlussudæmi. Ég þurfti ekkert að óttast. Þetta voru Vitringarnir þrír, og ég þóttist nokkuð viss um að þetta yrði alla vega fyndið en það varð eiginlega miklu meira en það, fyndið, hátíðlegt og flott. Ég skemmti mér konunglega!

 

Fjör á KleppsvegiHér í "Ævintýrahöllinni" hefur verið gaman að búa. Alltaf eitthvað að gerast ... ef það er ekki sérsveitin þá er það bara eitthvað annað. Djók. 

 

Á gamlársdag var ég frekar stressuð því ég sá að það var verið að loka Sæbrautinni ... eitthvað rosalegt hlaut að hafa komið fyrir en samt heyrðist ekkert í löggunni og hvergi sást í blá blikkljós. Fólk í gulum vestum stóð vörð svo enginn nema fuglinn fljúgandi kæmist. Ég fór á allar fréttasíður á netinu en enginn nógu vel vakandi blaðamaður hafði haft veður af þessu ... össs. Svo fór skyndilega að sjást í hlaupandi fólk, helling af því, og það rifjaðist upp fyrir mér að eitthvað væri til sem héti Gamlárshlaup ÍR ...

 

Eins og sést á myndinni hljóp talsvert margt fólk hér fram og til baka á Sæbrautinni á gamlársdag.

 

 

Nafli alheimsins er hér. Hérna er Friðarsúlan, gamlárshlaupið, rauður himinn í eldgosi (hinum megin við húsið), og margt fleira áhugavert. Verð samt að viðurkenna að ég er svolítið: Iss, miklu betri snjómokstur á Akranesi ... en ég verð þó líka að láta koma fram að það er talsvert snjóléttara á Skaganum en í höfuðborginni. Held að aðeins tvisvar á mínum 18 árum norðan rörs (árin 2006-2024) hafi snjóað meira á Akranesi en í Reykjavík.

 

KlippinginElskan hún Fatima, vinkona mín frá Sýrlandi, kom í stutta heimsókn um daginn.

Eins og sitthvað fleira hér í borginni, hefur það vaxið mér í augum að koma mér í klippingu ... ég get ekki pantað tíma hjá minni konu á Skaganum þegar allra veðra er von, bíða kannski í mánuð eftir tímanum og svo er ófært vegna vindhviða á Kjalarnesi! Þar sem Fatima starfaði sem klippari í Sýrlandi spurði ég hana hvort hún væri til í að klippa mig, bara smávegis svo ég gæti sýnt mig utandyra. Hún ráðlagði mér að biðja frekar manninn hennar (sem er ansi klár klippari og, að hennar sögn, í miklu meiri æfingu en hún), og það var minnsta mál í heimi að koma af Skaganum og klippa "ömmu" sona þeirra hjóna. Á laugardaginn mætti svo öll yndislega fjölskyldan, sætu synirnir sem kalla mig ömmu, alla vega sá eldri, klipparinn kom með skærin sín, slá, hárlakk og fleira sem til þurfti og hviss, bang, ég léttist um mörg kíló af hári og yngdist um sirka tuttugu ár, ef eitthvað er að marka speglana heimilisins. Snöggur og virkilega góður klippari. Ég átti smákökudeig í ísskápnum og hafði bakað eina plötu sem hélt drengjunum hamingjusömum fram yfir klippingu.

 

Myndin sýnir klippinguna ... á byrjunarstigi.

 

Nýtt rúsínustríðNýtt rúsínustríð er skollið á. Ég fann lítinn ógeðslegan rúsínupakka ofan í töskunni minni eftir jólahátíðina sem ég varði meira og minna heima hjá vissri systur minni. Nú verða engin vettlingatök, heldur eintóm harka og hefnigirni. Hef ekki gert plan vegna anna en það verður sko gert.

Rúsínur eru verkfæri Satans, eins og döðlur, hnetur og möndlur ... en ég læt þessa ekki óhefnt. Síðast (fyrir löngu, löngu) fannst mér ég svo ofboðslega klár og laumaði rúsínupakka sem systir mín hafði áður troðið inn í skáp heima hjá mér, í veskið hennar á meðan hún var í heimsókn hjá mér í himnaríki, og skemmti mér konunglega yfir þessari lymsku minni. Hlakkaði yfir þessu í næsta símtali og þá kom áfallið: „Jú, ég tók eftir pakkanum áður en ég fór og faldi hann heima hjá þér (í himnaríki) ...“ Ég fann hann loksins, eða þegar ég var að pakka niður, áður en ég flutti í bæinn.

Kalla mögulega saman nokkrar vinkonur til skrafs og ráðagerða um næstu aðgerðir, um þá hernaðaráætlun sem þarf að gera. Blóð, sviti, tár ... allt til að vinna sigur. Óttast nú samt að þetta geti orðið nýtt 100 ára stríð ...

 

Mynd: Mosi horfir með hryllingi (réttilega) á rúsínupakkann sem ónefnd systir setti lymskulega í töskuna mína þegar ég reyndi að halda heilög jól með henni fyrir skömmu. Systur eru systrum verstar, mætti halda ... Hörkuleg hernaðaráætlun með fullri gagnsókn er í burðarliðnum. Megi sumir passa sig allsvakalega mikið ... 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fimm?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 57
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 419
  • Frá upphafi: 1514062

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 337
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Klippingin
  • Nýtt rúsínustríð
  • Klippingin

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband