Hvetjandi strætó og mögulegir galdrar

Engin tilviljunÞriðji í vinkonuhittingi í gær, Hagkaupsferð fyrst til að kaupa inn fyrir helgina ... Eldum rétt-kassarnir voru við það að renna út svo ég keypti bara eitthvað tilbúið, vonandi bragðgott og ekki of mikið unnið. Svo ákvað ég við heimkomu, þar sem ég var komin í helgarfrí, að undirbúa helgarþrifin aðeins með því að vaska upp og vera búin með eldhúsið, en lenti óvænt í verulega blóðugu slysi þar sem einn fíni matardiskurinn úr antíkskúrnum á Akranesi brotnaði í loftinu, fannst mér því ég skarst við að reyna að bjarga honum. Vinstri höndin skarst á nokkrum stöðum, aðallega fingurnir. Vá, hvað blæðir mikið úr fingrum ... og svo held ég að fólkið á hæðinni fyrir neðan hafi orðið óttaslegið vegna ógnvekjandi brothljóðs og kvenmannsgargs. Þótt mér hafi fundist blóðið flæða fór ekki einn dropi niður á gólf, alveg ótrúlegt, svo ekkert lak á milli hæða ... Verkefni beið mín í tölvunni en ég var svo slegin að ég skreið undir sæng, þrælplástruð og illilega skekin, og ... sofnaði. Náði að skila af mér verkefninu í dag, enda ferskari og glaðari eftir laaaangan (en truflaðan) nætursvefn. Mér finnst dagsljósalampinn hafa áhrif til góðs, og hef verið dugleg síðustu daga að baða mig í ljósi hans. Hress og kát í dag þrátt fyrir að gemsinn hafi hringt og vakið mig tvisvar í nótt. Heyrði í ungum vini í síma í gær og ég hef hann grunaðan um að hafa óvart lagst á símann sinn í nótt og hringt óafvitandi í mig - tvisvar. Honum fannst það ógurlega fyndið þegar ég hringdi í hann í dag og sagði honum frá þessu. „Eins gott að þú hringdir ekki óvart í lögguna,“ sagði ég. „Löggan hefði orðið að koma og tékka á þér, hugsa ég, og þér hefði ekki þótt gaman að vakna við það.“ Viðmælanda mínum þótti það mjög ólíklegt þar sem hann hafði aldrei hringt í lögguna á ævinni svo það myndi varla gerast óvart um miðja nótt, sem er auðvitað rétt hjá honum. Þetta ónæði kveikti í köttunum sem framleiddu alls konar hljóð sem héldu enn lengur fyrir mér vöku en þá var gott að hafa hljóðbók til að setja á í korter. 

 

Myndin sýnir eitt sárið (á vísifingri vinstri handar) Það hefur gróið grunsamlega hratt síðan í gærkvöldi, en mér varð flökurt og svimaði af spenningi þegar ég áttaði mig á því að þetta var sennilega ekki slys eða óhapp og alls engin tilviljun. Nú er allt komið í samhengi ... hlaupahjólsslysið sem ég lenti í átta ára gömul beint fyrir framan Sjúkrahús Akraness og var flutt beinustu leið á saumastofu Braga læknis. Hef borið lítið og nánast ósýnilegt ör á enninu síðan. Það þurfti síðan þessa áminningu áratugum síðar, eða blóðugt fingurslys þar sem ég tók eftir lögun ört gróandi eldingar-sársins áður en það verður að ólögulegri línu. Mjög spennandi tímar fram undan.

 

Draumar úr snjóEr að hlusta á bókina Draumar úr snjó og er orðin spennt. Var það þó ekki í upphafi og þurfti að komast inn í nokkuð drungalega stemninguna (mannlegir brestir, óhamingja, óheppni) og haldast þar, ekki flýja á vit yfirborðsmennskunar (sem ég sæki svolítið í, hrifin af góðum endi og ekki of miklum átökum eða eymd) en ég er lítið fyrir t.d. sannsögulegar bíómyndir, þær eru oft svo sorglegar og enda illa (eins og Titanic) og það er eiginlega líka þannig með sumar bækur. Veit að margt fólk vill bara grjótharðan sannleikann án vonar um að eitthvað breytist til batnaðar hjá söguhetjunum ... þannig sé lífið.

Ég harkaði af mér eymdina í byrjun og get ekki hætt að lesa þessa bók, vil vita hver morðinginn er, svo venst stemningin alveg og hefur breyst eftir því sem fleiri eru kynntir til sögunnar. Aumingja prestsfrúin samt. Var líka búin að gleyma því hversu hroðalega tengdamömmu (að það er fyndið) Maria lögreglukona á, þetta er ekki fyrsta bókin um hana og ég hrifin af þeim fyrri. Hef sennilega verið að hlusta á of glaðlegar bækur upp á síðkastið og því átt erfitt með þessa í fyrstu. Hún er fín.

 

Andlitsblinda hrjáir mig ekki en stundum mætti halda það. Í fyrradag talaði samstarfskona mín um að ungur sonur hennar þráði að lesa vissa fullorðinsbók sem er ofbeldisfull og alla vega ein ansi grafísk kynlífslýsing sem hentar ekki innan við tíu ára gömlum dreng ... Í gær mætti ég til vinnu með þrjár unglingabækur sem er skárra en hardkor fullorðins. Hryllingsbók um Drakúla, þykka fantasíuævintýrabók og fínustu bók eftir Hildi Knútsdóttur snilling. Konan sat á kaffistofunni þegar ég kom og ég rétti henni bækurnar og hrósaði þeim hástöfum, sagði eins og var að ég hefði ekki náð að grisja nógu mikið bækur og fleira, áður en ég flutti í bæinn. Í kaffihléinu komst ég að því að ég hafði ruglað saman tveimur samstarfskonum ... því allt önnur kona sveif á mig glöð og spurði mig hvort ég hefði verið að koma með bækur handa stráknum hennar ... Þá áttaði ég mig á ruglingnum og bað þá fyrri afsökunar. Þetta var bara fyndið og hefur svo sem hent mig áður en sennilega á meira móðgandi hátt þarna undir aldamót ... þegar ég fékk ungan tónlistarmann í útvarpsviðtal til mín á Aðalstöðina, hann ætlaði að spila og syngja á Gauknum um kvöldið og þótti fínt að fá þessa fínu auglýsingu (þátturinn var eftir hádegi á laugardögum). Svo fór að ég mætti á Gaukinn um kvöldið þótt það hafi ekki endilega verið á planinu þarna fyrr um daginn. Hitti ungan mann í anddyrinu þegar ég mætti og hann heilsaði mér glaðlega. Ég brosti á móti en spurði: „Fyrirgefðu, hvernig þekkjumst við aftur?“ Eitthvað slíkt. Hann starði á mig í smástund og sagði svo: „Ég var í útvarpsviðtali hjá þér í dag.“

Svo innilega leiðinlegt að vera svona ómannglögg. Mér var fyrirgefið þetta í vinnunni, þótti ekki einu sinni tiltökumál. Það tekur mig alltaf smátíma að læra öll nöfn á vinnufélögum en endurtekningin skapar meistarann. Tek fram að konurnar sem ég ruglaði saman eru ekkert líkar í útliti, en þær eru báðar mjög ljúfar - slíkt getur ruglað mann.

 

Mikið labbÞað gengur ljómandi vel að komast á milli hverfa í Reykjavík, tólfan í Höfðatorg (ég þarf að vísu að fara yfir Sæbraut til að ná tólfunni, en það eru gangbrautarljós) og fimman frá Höfðatorgi á stoppistöðina Heimar - en ég er svo utan við mig að ég óttast stundum að taka óvart tólfuna aftur hinum megin við götuna í staðinn fyrir fimmuna á leið til vinnu. Að vera utan við sig er víst gríðarlega mikið gáfumerki ... ég hugga mig við það.

 

 

Það er enginn strætó sem gengur beint héðan af Kleppsvegi og í Skeifuna en þegar hálkutímabilinu lýkur er alveg séns að ganga upp Holtaveginn og ná leið 14 á Langholtsveginum. Ferðin tekur 26 mín. ... þar af þarf ég að ganga í 25 mín. Fyrst geng ég í 19 mín upp á Langholtsveg, síðan er strætóferð í 1 mín. og þá önnur gönguferð í 6 mín.

 

Eftir að B1-vítamínið hefur unnið hásinarverkjabata-verk sitt svona vel og hælupphækkunin líka, finnst mér ekkert að því að tölta þetta í sæmilegu veðri en þó síður þegar versta geitungaplágan stendur yfir (apríl/maí og út sept?) og er sennilega nánast hálfnuð í vinnuna þegar ég er komin upp á Langholtsveg en gæti þá allt eins farið alla leið gangandi, eða bara niður Álfheimana. Talandi um hvetjandi strætó ...

Athugið: Er ekki orðin andsetin eða umskiptingur, en þið megið endilega gera eitthvað í því ef ég fer að tala um að skreppa í sund. Á næsta ári verða 40 ár síðan ég fór í Laugardalslaugina en þrengsli, kvenmergð og smellir í rössum að slást saman í sturtuklefanum gerði mig endanlega fráhverfa þeirri líkamsrækt, eins og ég hef áður sagt frá. Skil alveg amerísku kerlingarnar sem fussa yfir þessari miklu nánd þegar þær neyðast til að deila baðförum sínum með ókunnugum konum á Íslandi. Takk kærlega, Sól og sæla, eða kannski ekki, fyrir að venja mig á einkasturtuklefa og -búningsaðstöðu eftir ljósatímana veturinn 1985-1986, það er engin leið til baka.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 20
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 980
  • Frá upphafi: 1515537

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 820
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband