Drama hjá köttum, gefandi Skeifa og beljandi brimsöknuður

Brjálaðir í blómHefðarköttum skýjahallar, Krumma og Mosa, hefur enn ekki tekist að koma sér saman um hvor þeirra ætti að vera alfakötturinn sem öllu ræður. Nú hef ég sterkt á tilfinningunni að ég hafi verið kosin í það hlutverk. Þeir taka mjálmandi á móti mér þegar ég kem heim úr vinnu og látbragðið segir: "Okkur leiðist, hvað eigum við að gera núna?" Hnén á mér eru nánast ónýt eftir óhappið um árið á ógæfumölinni rétt við íþróttahúsið á Jaðarsbökkum á Akranesi (annað laskað, hitt saumað), svo ekki get ég skorað á þá í eltingarleik. Leiser dugir skammt ... en Mosi hleypur samt þessa dagana ... í spik.

Keli stjórnaði þeim harðri loppu og var langsamlega sprækastur þótt elstur væri, slóst við þá (gamnislagur) og þeir voru iðulega í eltingarleik sem er ekki raunin hjá Krumma og Mosa, og þegar Keli var orðinn veikur undir það síðasta, og dó svo í ágúst 2024, 14 ára, misstu Krummi (bráðum 14)) og Mosi (bráðum 11) nánast fótfestuna í lífinu. Í desember sl., eftir að Mosi þaut/slapp fram á stigaganginn og gerði tilraun til að finna himnaríki upp á áttundu hæð hér, án árangurs, hætti hann að reyna að komast fram á gang, sjúkk. Ef ég reyni að hlaupa um íbúðina til að æsa þá upp í leik, verða þeir skelfingu lostnir og stara á mig. Letin (aldurinn) sér til þess að leiserleikur við Mosa (Krummi nennir ekki) stendur yfir í eina mínútu, í mesta lagi tvær. Þigg öll góð ráð, nema að fá þriðja köttinn inn á heimilið, sprækan og hressan. Sandmálin færu þá í flækju og ekkert pláss er fyrir viðbótarsandkassa. Þeir sofa þó mikið sem er bót í máli. Vilja varla kattanammi og eru farnir að fúlsa við blautmat, fínasta lúxusmat sem þeir vildu áður. Keli var alltaf svo brjálaður í allt slíkt (enda á sjúkrafæði og fékk sjaldan nammi) og þeir eiginlega bara hermdu eftir honum. Þeir drekka vel og vilja bara þurrmat, þeir verða bara að ráða því. Villikettir í Rvík græddu fullt af blautmat núna í nóvember þegar ég gafst endanlega upp á því að reyna að gefa þeim slíkt.

 

Mynd hér ofar: Keli (fjær) og Mosi, ásamt stökkvandi Krumma, staðnir að verki við blómaát. Ástæðan fyrir því að ég er farin að afþakka blóm eftir bestu getu, sést nákvæmlega á þessari mynd. Ég veit að það er plebbalegt að vera bara með gerviblóm en það þarf að fórna kúlheitum fyrir kettina sína.

 

AlvöruviðreynslaAlveg hreint stórfín gleraugu mín duttu í tvennt nýlega, eða önnur spöngin fór af. Sennilega álag á þau vegna þess að ég set þau svo oft upp á haus, því ég á erfitt með að lesa með þau, skoða símann minn og annað slíkt. Sem er víst ástæðan fyrir algjörum skorti á ellifjarsýni (mikill lestur án gleraugna). Nota þau nú samt við lestur á efni í tölvunni en les allt annað gleraugnalaust. Nú voru góð ráð dýr ... hvergi ein einasta gleraugnabúð í nýja nærumhverfi mínu (bara Partíbúðin (Partíland?), Dorma, Bónus og Bakarameistarinn, já, og fín dýrabúð) og eiginlega fáránlegt að taka strætó upp á Skaga þar sem gleraugnabúð mín til síðustu ára er til húsa. Gúglið kom mér til aðstoðar og í aðeins tveggja mínútna göngufæri við vinnustað minn í Skeifunni (sem gefur og gefur), í einu af bláu húsunum, reyndist vera gleraugnaverslunin Gleraugað. Þar fékk ég glimrandi þjónustu í fyrradag, nýja vinstri spöng og kaffi. Einnig róandi spjall ... forsaga: þegar ég fór og leysti út jólagjöf um árið, augnmyndatöku á Skólavörðustíg, spurði ég hvort gulu blettirnir í mynduðu auga mínu táknuðu að ég væri af ætt Ísfólksins. „Nei, alls ekki,“ svaraði stúlkan, mér til vonbrigða, „þetta eru fæðingarblettir.“ Jæks! Ég spurði sem sagt sjóntækjafræðinginn hvort þetta þýddi eitthvað hræðilegt og hann hélt nú ekki. Hann mælti með að ég færi til augnlæknis, ekki út af þessu samt, það væri alltaf sniðugt að láta kíkja á augun, sérstaklega ef ég hefði ekki farið lengi. Sjónin hefur versnað með árunum, ég nota vinstra augað meira, loka því hægra þá á meðan sem hefur valdið hvimleiðum misskilningi þegar sumir karlar halda að ég sé að daðra með því að blikka þá. Ég sé eiginlega of illa til að geta fjardaðrað af nokkru viti svo ég sleppi því.

 

Hinn gallinn við mig er heyrnin, þessi "valkvæða" sem ég hef samt ekkert val um. Ég heyri mjög vel alla jafna. En ... ef það er t.d. hávær tónlist í bakgrunni er ekki nokkur leið fyrir mig að heyra það sem fólkið í kringum mig segir. Öll þessi "HA, HVAÐ VARSTU AÐ SEGJA?" á Borginni í gamla daga, urðu til þess að karlamálin voru oft upp á sitt versta og uppskeran dræm. Hvernig átti ég að vita hvort þeir væru að bjóða mér upp í dans, tjá mér ást sína eða hrósa fegurð minni og yndisþokka. Þeir hefðu alveg eins getað verið að tala um t.d. landhelgismálið sem var mál málanna á áttunda áratug síðustu aldar, eða tíu árum áður.

Já, þetta er opinskátt blogg, allt fær að fjúka, gallar, kostir og allt þar á milli.

 

Brim við himnaríkiStráksi sendi mér SMS áðan og sagði að hann hefði ekki farið í vinnuna í morgun vegna rauðrar viðvörunar. Ég var mjög fegin, en þótt húsið sem hann býr í sé í skjólsælu hverfi, er vinnustaðurinn það ekki, heldur alveg í útjaðri Akraness, skammt frá Bónushúsinu, og svakalegur vindur þar stundum.

 

Ég fylltist nánast öfund út í nýju íbúana í himnaríki í gær, sem hafa útsýni yfir brjálað brimið sem iðulega kemur í suðvestanátt, hvað þá þegar vindurinn er upp á 23 m/sek ... Ég upplifði aldrei svona sunnanveður árin mín þarna, það var frekar að það kæmi suðaustanstormur, án svona brims.

Fólkið í fyrrum húsinu mínu er ekki nógu duglegt að taka myndir og myndbönd og dreifa á samfélagsmiðlum, nema elsku húsfélagsformaðurinn sjálfur, sem setti lifandi brimmynd á snappið hjá sér í gær, við taumlausan fögnuð minn. Einnig hefur Hilmar vitavörður verið duglegur við að sýna brimið í kringum Akranesvita í gær og í dag og ég bind vonir við Kristjönu ...

 

Loksins ...Fyrra forsetatímabil Trumps einkenndist af frekar fyndnum hlutum, eins og t.d. þegar hann hélt því fram að klórblanda gæti virkað sem lækning við kórónuveirunni. Ég gleymi aldrei svipnum á landlækni USA sem var á staðnum þegar hann sagði þetta.

Ég er orðin virkilega efins um að hægt verði að brosa út í annað næstu fjögur árin. Þau verða lengi að líða og enginn veit hvað þau bera með sér. Fasískar skoðanir virðast eiga upp á pallborðið westra og víðar, og samsæriskenningum er gert hátt undir höfði. Hver hefði trúað þessu?

 

FACEBOOK:

Þegar appelsínugular viðvaranir voru ríkjandi vegna veðursins sem síðan breyttust í rauðar, skrifaði einn Facebook-vinur minn, undir einmitt mynd af appelsínugulu Íslandi:

„Undirlægjuhátturinn gagnvart Bandaríkjaforseta á sér greinilega engin takmörk.“ 

Þetta verða vonandi ekki áhrínsorð ...

 

Mosi frægiNú í mars kemur bandarísk vinkona okkar Ingu í fimm daga heimsókn til Íslands. Ég er mjög spennt að heyra hvað henni finnst um þetta allt saman sem er í gangi í heimalandi hennar. Þetta er vinkonan sem kommentaði við mynd af Mosa þar sem hann var að prófarkalesa við tölvuna mína og flott brim var í baksýn ... vantaði bara eldgos á Reykjanesskaganum til að fullkomna myndina sem fékk 118 þúsund læk á síðunni View from YOUR window og gerði Mosa heimsfrægan.

 

 

Sjá myndina frægu af Mosa!

 

Í kjölfarið kom konan, ásamt vinkonu sinni, í heimsókn í himnaríki og fékk flatkökur með hangikjöti, malt og appelsín-blöndu með (eða mjög svo ritskoðaðan þorramat) og svo fórum við á flotta byggðasafnið á Akranesi, stúdíóið hans Bjarna Þórs og í antíkskúrinn.

 

Nú fæ ég hana (og vonandi Ingu líka) í heimsókn hingað á Kleppsveginn og finnst ansi hreint líklegt að hún taki einn pakka af flensulyfjum með sér til að færa mér. Fæ sjaldan kvef (nema í aðdraganda flutninga milli landshluta) en það er svo mikið öryggisatriði að eiga svona pillur, þær lækna kannski ekkert en manni líður bara betur og er vinnufær í stað þess að snýta sér heima í eymd og volæði. Að vísu passa ég mig núorðið á því að eiga íslenska munnúðalyfið ColdZyme, og úða því ofan í hálsinn á mér ef ég finn fyrir kvefi á byrjunarstigi - það fæst í öllum apótekum, held ég, er frekar dýrt en það svínvirkar. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.2.): 108
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 594
  • Frá upphafi: 1517569

Annað

  • Innlit í dag: 89
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Mosi frægi
  • Loksins ...
  • Brim við himnaríki

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband