Gestakoma að westan, nýtt stefnumót og vinnuleit

Mosi heimsfrægiEinhver muna eflaust eftir því þegar Mosi varð heimsfrægur, eða mynd af honum þar sem hann sat við tölvuna og prófarkalas á meðan hafið lét öllum illum látum hinum megin við gluggarúðuna.

Ég hafði verið að vinna en skroppið fram í eldhús til að sækja mér kaffi, var með símann á mér og náði að taka nokkrar myndir af honum ... Setti eina á síðuna View from YOUR window ... og frægð Mosa lét ekki á sér standa.

Það komu 118 þúsund læk og um 1.500 athugasemdir. Meðal annars frá bandarískri konu sem var á leið til landsins ekki svo löngu síðar. Hún heimsótti mig á Skagann, ásamt vinkonu sinni, og Inga var þarna líka, að sjálfsögðu. Næsta heimsókn var í gær þegar hún kom ásamt eiginmanni, syni og tengdadóttur.

 

 

Góðir gestir

Ég keypti vanilluskyr frá Ísey, eina dollu á mann, smurði flatkökur með hangikjöti, nýbakað fransbrauð (formbrauð) úr Bakarameistaranum hinum megin við götuna með silungi (landeldi), sósu og dilli. Svo átti ég fimm rjómapönnsur í frysti, síðan í afmæli stráksa, skar þær í tvennt og það passaði, þær voru þiðnaðar þegar kom að eftirrétti sem var líka í formi pínkuponsupáskaeggja, eitt á mann, með málshætti ... og mig grunar að farangur þeirra verði ansi þungur því þau eru vitlaus í íslenskt sælgæti, súkkulaði.

Og jú, Anne kom með flensupillur handa mér svo ég er verulega vel sett núna. Þegar Elfa kemur í haust verður hún eflaust með fullt fangið af þeim líka. Ég fæ svo sem ekki lengur þessar leikskólapestir eins og sl. haust, en deili pillunum hiklaust með þeim sem vilja láta sér líða ögn betur í leiðindakvefi.

 

Mynd: Hér eru elsku gestirnir, Inga lengst til hægri, sjúkraþjálfari og hroðalega hamingjusöm yfir þessari miklu og splunkunýju hreyfiþörf vinkonunnar ...

 

LaxabrauðSíðustu mánuði hefur Skeifan verið sannkölluð miðja alheimsins í lífi mínu og ég sæki nánast alla mína þjónustu þangað. Matvörukaup (allar búðir nema Nettó þar), apóteksviðskipti, nudd (mjög nýlega fann ég mína konu), gleraugnaþjónustu og sitt af hverju fleira. Tímaskortur olli því að ég varð að arka af stað undir hádegi í gær í Holtagarða, handan götunnar. Ég vissi að Bónus auglýsti að sjóeldislax væri ekki seldur hjá þeim ... og hafði næstum keypt ferskan lax þegar mig vantaði reyktan. Það var í raun bara silungur sem ég sá, fékk aðstoð frá konu af Seltjarnarnesi sem er svo hrifin af búðinni í Holtagörðum að hún kýs að versla þar. Úrvalið, starfsfólkið, aðgengið, bara allt, sagði hún um leið og hún bjargaði mér frá ferska laxinum sem var sannarlega úr landeldi, skv. merkingum. Á neðri hillunni var reyktan lax að finna en með því að lesa einnig smáa letrið kom í ljós að hann hafði verið pyntaður í sjóeldi einhverra Norðmanna sem höfðu verið gerðir brottrækir úr eigin fjörðum og fengu auðvitað aðgengi að íslenskum fjörðum. Ég er sammála þessari konu af Seltjarnarnesi, Bónusbúðin í Holtagörðum er alveg frábær og starfsfólkið verulega gott.

 

Mynd: Og jú, ég keypti líka ferskt dill (hvað á ég að gera við afganginn?). Gestirnir elskuðu laxabrauðið!

 

Svo átti ég stefnumót í Bakarameistaranum ... hitti þar mann sem vinnur í Holtagörðum og við höfum ætlað að hittast lengi. Það kom án efa glampi í augu Ingu þegar ég sagði henni frá fyrirhuguðu stefnumóti, símleiðis sem sagt. „Nei, ekki gera þér neinar hugmyndir,“ sagði ég, „hann er rúmlega 20 árum yngri en ég.“ Áður en Inga gæti réttlætt það með hegðun Madonnu í ástamálum (hún er 66 ára, kærastinn 28 ára) mundi ég sem betur fer eftir því að sá sem ég var að fara að hitta væri samkynhneigður, svo rómantískar væntingar Ingu fyrir mína hönd urðu að engu. Ég gleymdi samt ekki að segja henni frá nýjustu viðreynslunni ... samþykkti "vin" á fb því hann átti svo marga sameiginlega vini með mér, fólk sem ég treysti til að samþykkja ekki hvern sem er. Skömmu eftir samþykki mitt hóf hann spjall og ég varð ógurlega þreytt um leið, hef ekki gaman af slíku, hvað þá við ókunnuga. Eftir fyrstu kveðjur, sagði hann: Ég nenni ekki að pikka í símann minn, ertu ekki bara til í að hringja í mig? Dæs, nei ... Daginn eftir benti ég honum á að fúsa spjallfélaga væri auðveldara að finna á stefnumótaforritum en á feisbúkk. Strákar mínir, þetta er ekki leiðin að hjarta mínu. Heldur ekki að senda mér rósir og konfekt. Ég hef dregið mjög úr sykuráti og kettirnir njóta þess að éta blóm, velta um vösum ... svo ég hef orðið að afþakka allt blómakyns um langa hríð. Veit svei mér ekki hvaða aðferð er best, en bara alls ekki spjall á fb. 

 

Með 30 ára reynsluÉg hef lokið strangri og bráðskemmtilegri þjálfun minni í vinnunni (fékk laun á meðan) og hef það sjúklega gott núna - lifi letilífi nánast alla daga því ég kenni bara þrjá seinniparta frá kl. 17) í viku. Algjört frí mánudaga og fimmtudaga ...

 

 

Þolir vinnualkinn þetta? Nei, strax í byrjun fór að bera á svínslegu líferni, lengri svefni, almennri leti (það er helst til of fljótlegt að taka til hérna) ... nema ég hef nánast undantekningalaust gengið upp stigana þegar ég kem heim. Húrra!

Ég fór að HUGSA ... bara hugsaði það, kannski ætti ég að leita mér að vinnu á morgnana, eða kl. 10-14, jafnvel 9-16, eitthvað slíkt. Það eina sem ég gerði var svo sem að hlaða niður forritinu Alfreð í símann minn og hef rúllað aðeins í gegnum laus störf þar. Sennilega nægði það til að allt færi af stað ... nú sé ég nánast engar auglýsingar á samfélagsmiðlum nema þær sem tengjast lausum störfum. Margt spennandi í boði.

 

 

Langar mig að verða dagskrárstjóri (sjónvarps) hjá RÚV? Já, já, frábær vinnustaður (vann þar 1986), en ég hef ekki reynslu eða menntun í það, takk samt. Horfi líka of lítið á sjónvarp til að teljast hæf. Svo fór ég að sjá aftur og aftur auglýsingu frá Útfararstofu kirkjugarðanna, skrifstofustarf sem ég gæti svo sannarlega hugsað mér að gegna ... en ég held að umhverfið yrði mér um megn, allt sorgmædda fólkið sem ég myndi hreinlega skæla með í stað þess að vinna starf mitt ... Eimskip auglýsir eftir fólki um allt land í ýmis störf, ég horfi núna yfir athafnasvæði fyrirtækisins, gæti orðið njósnari þess, heiman frá mér, og fylgst með hvort kranastjórar sýni glannaskap ... hvort gámum sé ekki örugglega raðað í litaröð og í stafrófsröð innan hvers litar, á trukkana. Svo vantar hópstjóra í hraðþjónustu hjá Toyota en ég er á strætó, yrði samt mögulega gjaldgeng því rosalega margir í kringum mig eiga Toyotu. Svo vantar traustan sérfræðing í stjórnstöð hjá RARIK  ... en mig skortir því miður þekkingu á rekstri dreifikerfa ... Margt annað sem ég get nú samt. 

 

ChuckÞetta hefur breyst, störf hafa nánast komið upp í hendurnar á mér á síðustu árum en ekki núna. Ég er ekki bara skapgóð og þolinmóð, heldur kann ég langflest póstnúmer landsins utanbókar, er talnaglögg, komin úr barneign og tek svo mikið af vítamínum að mér verður varla misdægurt, veit ýmislegt sem aðrir pæla ekkert í, eins og að barbídúkkan varð til árið 1959, Þengill illi af Ísfólkinu á afmæli 1. desember, eins og pabbi (1930) og fullveldi Íslands (1918). Ég kann að segja takk á t.d. úkraínsku, spænsku og arabísku, er að leggja á minnið takk á víetnömsku og grísku ... við sem erum ættuð úr Þingeyjarsýslu myndum með sanni segja að ég talaði fjöldamörg tungumál ...

 

Af Facebook

 

Chuck Norris getur séð hvort mjólk er útrunnin með því einu að horfa á kúna.

 

Chuck Norris getur hlustað á hlaðvörp í örbylgjuofninum sínum.

 

Jólasveinninn var til í alvörunni þar til hann gleymdi að gefa Chuck Norris í skóinn.       


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og þremur?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 657
  • Frá upphafi: 1521410

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Chuck
  • Með 30 ára reynslu
  • Laxabrauð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband