Heppni, hugmynd og óvænt sæt á síðustu stundu

AugabrúnirGemsinn minn les hugsanir, eins og margoft hefur komið fram. Ég er eins og óframkölluð filma, kveinaði ég í hljóði í gær og horfði með hryllingi á ljósar, nánast ósýnilegar augabrúnir mínar (kolsvartar í gamla daga) og alveg ósýnileg augnhár ... en viti menn, nokkrum sekúndum seinna birtist auglýsing frá snyrtistofu í símanum. Ég leitaði að einni slíkri í Skeifunni, nafla alheimsins, og fann Snyrtistofu Ágústu aðeins steinsnar frá vinnunni - gekk frá tímapöntun í gemsanum og var svo heppin að einn tími var laus daginn eftir, eða í dag. Mögulega spilaði pjatt og hégómagirnd inn í þetta því ég vissi að innan tíðar, vonandi einhverra daga, kæmi ljósmyndari frá Mogganum vegna viðtalsins þarna um daginn og hver vill ekki vera sætur á mynd í dagblaði? Ég hefði þá vonandi einhverja daga til að æfa fagurt bros, vera búinn að redda mér almennilegum farða sem ekki ýkir broshrukkur til muna. Heppin.

 

Myndin er auðvitað ekki alveg ekta en sýnir þó augabrúnirnar nokkuð eins og þær eru. Það er bara svo freistandi að láta Snapchat gera andlitið fullkomið ...

 

 

AugabrúnaskorturEins og svo oft áður var heppnin með mér í liði og lausi tíminn var um hálfþrjú, fundur í skólanum ekki fyrr en kl. 16. Enn meiri heppni þegar Bryndís, fyrrum húsvörður, hirti mig upp heima, sjálf á leið í Skeifuna, og fleygði mér út á ferð við snyrtistofuna (til að hjólkoppunum yrði ekki stolið). Ég var með spennandi kilju með í för og fannst forréttindi að setjast í þægilegan stól í ljúfu andrúmslofti og lesa um nýjasta morðmál Kim Stone rannsóknarlögreglufulltrúa. Krufningarskýrslan var rétt komin þegar ég var sótt í litunina, alls ekki plokk, og er nú komin með MÍNA KONU í snyrtistofuheiminum í Reykjavík. Hún var svo mikið æði og litaði mig svo flott að allir í vinnunni öskruðu af hrifningu - nemendur mínir sýndu svipuð viðbrögð þegar kennsla hófst. „Ég vil ekki svartar augabrúnir, bara brúnar, verð annars svo gribbuleg,“ sagði ég greindarlega við ungu konuna. 

„Það er líka sniðugt að setja gráan lit með,“ sagði hún - en meinti svo ekki strípur úr gráu og brúnu sem mér fannst afleit hugmynd í augabrúnir ... en þá var sá grái bara til að gera þann brúna enn flottari með blöndun. Greinilega mjög langt síðan ég hef farið á snyrtistofu. Svo kostaði þetta vel undir 10 þúsund sem mér finnst vel sloppið fyrir svona flotta þjónustu. Það aukast líkur á því að ég lendi á séns, held ég. Heppin.

 

MóðurættarbjútíÞað er alltaf fundur á þriðjudögum fyrir kvöldkennarana og skömmu áður en þeim fundi lauk fékk ég upphringingu frá ljósmyndaranum sem boðaði komu sína í kvöld klukkan 19. Ég var með visst tromp uppi í erminni og þess vegna fékk ég ekki taugaáfall. Elskulega stúlkan á snyrtistofunni hafði gefið mér tvær prufur af góðum farða sem átti ekki að ýkja eitt eða neitt, bara auka á fegurð. Sem hann svo gerði. Nemendur mínir voru allir til í að stilla sér upp á mynd með fegurðardísinni mér, elsku yndislegu krúttin mín frá Úkraínu, Palestínu, Venesúela, Sýrlandi, Grikklandi, Víetnam og Afganistan, flest, ef ekki öll, búin að vera að vinna allan daginn og svo láta þau troða í sig íslensku á kvöldin án þess að bresta í grát af þreytu. Bara þessi vika og sú næsta eftir, þá er námskeiðinu lokið, þetta líður allt of hratt. Þrjár vikur búnar og ég er næstum búin að læra nöfnin á þeim öllum. Jamm, flestir snillingarnir sem ég vinn með læra nöfn nemenda sinna á fyrsta eða öðrum degi en ég myndi muna afmælisdagana þeirra frekar, tölur henta mér mun betur en nöfn.

 

Myndin af skvísum úr móðurætt minni (tekin í afmæli í himnaríki fyrir nokkrum árum) tengist þessari færslu ekki neitt en hún sýnir brúnu augun og dökka hárið sem ég minntist á í síðasta bloggi (myndin úr brúðkaupi foreldra minna), nema hjá okkur Hildu systur, sem erfðum hina nokkuð ljósari fegurð úr Flatey á Skjálfanda.

 

Tómatar eða rúsínur ...Vinkona mín af Skaganum mætti í örheimsókn í gær, hafði verið hjá tannlækni og vildi endilega færa mér mat í leiðinni ... ég kenndi henni íslensku á sínum tíma á Akranesi og svo urðum við vinkonur seinna, sem nágrannar. Ali, eldri sonurinn, kom með henni og það var ekkert til hérna ... (ef ég kaupi sælgæti fyrir gesti ... þá borða ég það sjálf) svo ég rétti Fatimu tvo rúsínupakka, handa sonunum sem Ali varð mjög ánægður með. Þar með má kannski segja að ég hafi eyðilagt möguleika mína á því að ná að hefna mín hroðalega á systur minni. Rúsínupökkum hefur sem sagt fækkað hjá mér um tvo og ekki möguleiki að ég geti, orðstírs míns vegna, keypt slíka pakka sjálf. Fel bara tómata, hún er með ofnæmi fyrir þeim. Kannski í dósum til að eyðileggja ekki fatnað eða húsgögn. Held að þetta sé fínasta hugmynd!

 

Áður en ég fór í vinnuna kom ég við hjá Pure Deli, líka steinsnar frá vinnunni, fékk mér avókadóvefju og hollustusafa með. Vaninn er á gervihnattaöld að tappar séu fastir við flöskur ... en ekki þarna svo ég lenti í svakalegu óhappi og það skvettust einhver ósköp yfir bleika bolinn minn. Sennilega vegna hollustu drykkjarins þá þornaði bletturinn án þess að skilja eftir sig nokkur ummerki! Það kom sér einstaklega vel í dag (kvöld) að vera ekki í blettóttum bol. Heppin.

 

peningarÉg hóf viðskipti við Búnaðarbanka Íslands fyrir langalöngu, útibúið á Hlemmi sem er löngu hætt en ég hvergi nærri ... Bankinn hefur skipt um nafn nokkrum sinnum en alltaf þjónustað mig vel, ekki síst eftir að ég fór í greiðsluþjónustukerfið árið 1995. Þá voru skuldir mínar teknar, allt árið lagt saman og síðan deilt með tólf sem var akkúrat það sem ég þurfti til að sleppa við dráttarvexti - sem ég hef hamingjusamlega gert síðan. Eftir að ég flutti í bæinn í október á síðasta ári fannst mér ég eyða undarlega miklu og samt bólgnaði einn reikningur minn út (engar trilljónir samt), eða þessi sem tengdist greiðsluþjónustunni. Nýlega hringdi ég í bankann og spurðist fyrir um þetta og þá kom í ljós að óvart hafði verið dregið af mér allt of mikið, eins og hússjóðurinn fyrir himnaríki, fasteignagjöld til Akraneskaupstaðar og gott ef ekki Skaga-vatn og -rafmagn líka ... en ekki borgað samt þar sem engar innheimtukröfur voru á mig þaðan, svo þetta bara safnaðist upp. Ekki skrítið þótt ég upplifi reglulega að ég hafi unnið í happdrætti ... galdurinn er að láta bankann sinn gera sig skítblanka og fá svo leiðréttingu ... yndislegt. Og þá fer maður á snyrtistofu.

 

Af Facebook ... reyndar brandari sem ég þýddi fyrir Vikuna hér í denn ... en hann lifir enn. Fann hann á Fyndnir Skagamenn

 

Guðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu. 

„Ég er að fara til La Jolla í næstu viku,“ sagði Guðmundur. 

„Þú átt að segja La Hoj-a,“ greip Tom fram í. 

„Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvela á El Cajón-hótelinu.“

„Þú meinar El Ca Hóne-hótelinu,“ leiðrétti Tom aftur. 

„Úps, ég skil.“ 

„Hvenær ferðu svo aftur til Íslands?“ spurði Tom. 

Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega:

„Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí!“ 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og tuttugu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.3.): 130
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 1017
  • Frá upphafi: 1522237

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 884
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 113

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • peningar
  • Tómatar eða rúsínur ...
  • Móðurættarbjútí

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband