Fyndnir vinir, fundvísir fuglar og óvænt hámhorf

Svona sá ég þetta fyrir mérUppistandið í Sykursalnum á morgun verður að veruleika í lífi mínu og mikil tilhlökkkun ríkir. Ég hef um nokkra hríð minnst á þetta við nokkra aðila, jafnóðum og ég hitti þá, svona nánast. Það er gríðarlega ögrandi og talsvert mikil áskorun að eiga svona upptekna vini og vandamenn (suma jafnvel með flensu) sem var ábyggilega raunin núna - en svo var þó alls ekki þegar ég keypti miða á tónleika Skálmaldar með næstum ársfyrirvara, engan langaði mér með nema unga konu með góðan tónlistarsmekk - þungarokk engin fyrirstaða.

Á uppstandið langaði þó ábyggilega allt mitt fólk en komst ekki þrátt fyrir að ég hefði í einu blogginu nýlega talað um hvað ég hefði mikinn áhuga á að fara og ýjaði að því að mig vantaði einhvern með mér. Foreldrar uppistandarans létu mig vita á Fb að þau yrðu þarna sem var mikill bónus. Ég sá lengi vel fyrir mér að við færum saman fimmtán eða tuttugu allra nánustu vinir og vandamenn en það er svo ótrúlega erfitt að sópa saman þessum villiköttum mínum - nema einum í einu. Það verður samt vonandi einhvern daginn.

 

12. apríl 2025Ég hefði að sjálfsögðu átt að skipuleggja þetta betur og með lengri fyrirvara.

Mér tókst með herkjum en tókst það samt að redda sólmyrkva í afmælinu mínu á næsta ári, geri aðrir betur ... gúglið bara 12. ágúst 2026.

... og Simpsons-þættirnir spá andláti Donalds Trump á laugardaginn, á afmælisdegi sonar míns sem verður / hefði þá orðið ... 45 ára! 

 

 

Jæja, en í gærkvöldi áttaði ég mig á því að það þýddi lítt að ýja bara að einhverju, heldur sendi einni vinkonunni sem kom með mér á Bókakonfekt Forlagsins fyrir síðustu jól, ákveðinn tölvupóst sem hljóðaði svona:

„Mætti halda að ég eigi mér það eina áhugamál að draga þig á djammið ... nennir þú á uppistand á fimmtudaginn?“

og bætti svo við: „Bókmenntir, uppistand, hvað næst?“

Hún svaraði:

„Þú ert bara lóðrétt á leið í sollinn! Er engin kirkja í hverfinu?“

 

Við Ólöf erum sem sagt á leiðinni á djamm / uppistand annað kvöld og hlökkum til að hlæja okkur til óbóta. Já, ég kaupi mig inn á fyndna viðburði þótt ég eigi svona skemmtilega vini.

 

Ég skrapp með einni vinkonunni á kaffihús í fyrradag. Þetta var hálfgerður fundur í leiðinni og hún var með lyklaborð á sér ef þyrfti að skrá eitthvað ... ekki stórt lyklaborð og hún er tölvunarfræðingur, samt svo brilljant að eiga vinkonu sem gengur með lyklaborð í  vasanum!  

 

Mosi á sjaliÖnnur skemmtileg vinkona átti þátt í því að ég rauf nokkurra ára sjónvarpsbindindi mitt (nema örstutt kíkk á fréttir, Gísla Martein eða fótboltaleik) þegar hún heimsótti mig nýlega og sagði frá þáttaröðinni Ludwig á RÚV. Mér tókst að finna þættina skömmu eftir að Guðrún fór og horfði á þá alla sex í einni beit og bíð spennt eftir framhaldinu. Aldeilis komin á bragðið.

 

Allt sem tengist eineggja tvíburum finnst mér spennandi. Söguþráður í byrjun: Áhyggjufull kona hefur samband við mág sinn (jebb, tvíburabróður manns síns), einrænan gátuhöfund, og biður hann um að sækja minnisbók eiginmannsins á lögreglustöðina, en þar kynni eitthvað að leynast sem skýrði hvarf eiginmannsins (hann skildi eftir dularfullt bréf).

Nema mágurinn fer, sveittur af kvíða, hatar fólk, þykist vera löggan, nema hann er gripinn glóðvolgur ... eða tekinn með á morðstað þar sem hann leysir málið á undraverðum hraða og líka það næsta ... Hún sagði mér ekki meira en þetta dugði til að ég stykki á vagninn og nú hreinlega auglýsi ég eftir meira fjöri, einhverju sem er pínku spennandi og kannski líka fyndið. Ekkert skrítið þótt það sé alltaf fínt í stofunni hjá mér ... ég hangi aldrei þar yfir sjónvarpinu og drasla í leiðinni. Svo er ég líka miklu minni draslari en áður ... eftir að húsgögnum og munum fækkaði ... til muna. Hohoho. Aukin vítamíninntaka skiptir eflaust máli líka, ég er ekki lengur örþreytt eftir ekkert.

 

Myndin fyrir ofan er af Mosa sem hefur komið sér vel fyrir á undurmjúku og fögru sjali vinkonunnar sem sagði mér frá Ludwig og prjónaði sjalið.

 

LudwigStráksi verður glaður yfir meiri sjónvarpsáhuga mínum, hann kemur og gistir yfir páskana og við getum þá horft á eitthvað saman. Við ætlum með elskunni henni Steingerði að skoða álfaslóðir á skírdag.

Hún er lærður leiðsögumaður með meiru og þar fyrir utan sannur sagnabrunnur, hann sérlegur áhugamaður um álfa og ég ... fylgi bara með. Tek með mér bók til öryggis ef þau verða óþolandi. (Djók! Ég hlakka virkilega mikið til.)

Það væri gaman að finna einhverja frábæra þætti til að horfa á með stráksa, til dæmis um álfa, ævintýri, galdra og slíkt sem við höfum bæði gaman af að sjá. Kannski eru einhverjar jólamyndir í boði þrátt fyrir árstímann, en með hverjum deginum styttist í jólin.

 

Þigg allar tillögur - ég á eftir að sjá allar seríur síðustu fjögurra, fimm ára nema Ludwig. Er samt með Netflix, Amason Prime og Disney plús (kann ekki (gleymi) að segja því upp ... á ég kannski erindi í þáttinn Viltu finna milljón? sem ég veit að kennir fólki að spara ... ég lifi samt frekar spart miðað við marga; á ekki bíl, fer ekki til útlanda osfrv.)

 

Gaslýsandi gemsiBýst við að þegar ég fæ endurgreitt frá skattinum (sem hirti nánast helminginn af séreignarsparnaði mínum í fyrra af því ég hafði ekki efni á því að láta það allt renna inn á lánið mitt, ég var að kaupa dýrari íbúð) til að kaupa sérstakt úr sem mælir hreyfingu, svefn og alls konar. Held að þau ráði drauma manns líka.

Gemsinn minn, gaslýsandi gemsinn minn, sem klífur með mér hæstu og lægstu tinda lífsins vill samt ekki viðurkenna nema í örfáum tilfellum að ég gangi frekar oft upp á sjöttu hæð. Hvíli mig vissulega í einhverjar sekúndur á þeirri fjórðu til að freistast ekki í lyftuna, en það getur varla skipt máli.

Hér á myndinni má sjá raunverulegt dæmi um sex hæða klifur mitt, sextán tröppur á milli hæða, eða átta tröppur í norður og átta í suður, en gemsinn (lygasjúki bjáninn) viðurkennir þessar sex hæðir bara sem þrjár. Ég get hoppað upp þrjár hæðir tíu sinnum á dag og fengið eina ferð skráða. Ég skal hlíta því en ekki þegar hann falsar sannar ferðir mínar.

 

Eini gallinn við svona úr er sá að ef ég færi í matvörubúð og hvíldi höndina á innkaupakörfunni allan tímann myndu skrefin ekki teljast með og þau eru svoooo mörg. Ég þarf nánast engin stigahlaup (gang) eftir búðapyntingar. Eins og átakanleg myndin sýnir viðurkennir gemsinn minn bara dag og tíma dags sem ég fór upp þessar sex hæðir ... ekki raunverulega hækkun á sextán þrepa fresti, og þarna einn laugardaginn nýlega þegar ég fór tvisvar upp og tvisvar niður, fékk ég viðurkenningu - en bara fyrir aðra ferðina upp.

 

Mávarnir mínir fundu mig hérna í höfuðborginni og fögnuðu ofsafengið í gær þegar ég mætti með poka fullan af ýmsum afgöngum, meðal annars frekar vondu brauði sem ég tók úr frysti og þíddi með aðstoð brauðristar, ég tróð útrunnum smjörva með og ýmsu öðru góðgæti sem gladdi vini mína mjög. Nú, ef þetta eru nýir vinir, held ég að Inga vinkona sjái Skagafuglum áfram fyrir fæði allan ársins hring. Hér hef ég fóðrað hvæsandi og vanþakklátar gæsir og stygga hrafna síðustu mánuði og finnst gaman að hópurinn hafi stækkað eftir að Jónatanarnir mínir komu frá Afríku til sumarvistar. Fer ekki í fuglgreinarálit ... svangir fuglar eru bara svangir fuglar og mávar eru flottir og gáfaðir, eiga jafnmikið skilið að vera gefið og öðrum. Minni á að hinir fögru svanir geta verið svakalega grimmir og éta líka andarunga á Tjörninni. Gleymi aldrei forsíðu Moggans um árið þar sem slík átveisla fór fram ... Hef ekki treyst mér til að lesa Dimmalimm síðan. 

 

Fannst á Facebook:

Elsku HerbertDenverslun (sem er svo sannarlega til á FB, birt orðrétt):

„afsakið séum að trufla en hvað þíðir ef manni dreimir að það sé heill heimur og önnur þjóð neðanjarðar undir síðumúla???? er samt ekki að missa tennur líka í draumnum. 

minnum líka á að fóttbrottnir viðskiftavinir fá enga sérmeðferð.“

 

- - - -  - - - - - - 

FB minnti mig nýlega á Herbert Hnausdal sem bauð sig fram til forseta eitt árið, reyndar bara á Facebook, ýmsum til mikillar gleði. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég:

„Get ekki annað en mælt með þessum forsetaframbjóðanda: Herbert ætlar m.a. að hafa Dorrit áfram á Bessastöðum, hækka kjörþyngd fólks, hafa kvenkynsbílstjóra, þýskar vinnukonur og fleira flott. Ekki láta flekkað mannorð hans og dóma vegna landabruggunar skemma fyrir ykkur. Herbert er spennandi valkostur.“

 

- - - - - - - - - - - - - - - 

Ég: „Ég er enn hálfdauð eftir allt þetta crossfit í morgun.“ 

Samstarfsmaður: „Það er borið fram croissant og þú borðaðir fjögur!

- - - - - - 

Áttundi kaflinn úr Stabat Mater eftir Pergolesi hefur verið uppáhaldið mitt síðan ég var átta ára, eða í rúm tuttugu ár. Ekkert að þakka.

(Ok, mamma æfði þetta verk með Kór Akraneskirkju um árið, Haukur Guðlaugsson stjórnaði, og ég fór með á flestar æfingarnar og tónleikana líka, minnir mig. Það þurfti ekki meira til að ég hrifist af þessari dásemd. Mæli með að hlusta á allt verkið, alla tólf kaflana (mamma hélt mest upp á þann tólfta, amenið) ... en þessi útgáfa er mjög góð - söngkonurnar algjört æði. Hef svo sem ekki leitað að plötu þar sem kór kemur við sögu, held að verkið sé samið fyrir sópran, alt og hljómsveit en það er voða flott með kór líka í sumum köflunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.4.): 131
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 543
  • Frá upphafi: 1524120

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 457
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 97

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Með Krumma
  • Fyrir og eftir
  • Uppistand

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband